Ný fluga hefur verið sett inn á Flugur – uppskriftir : Alexandra, þessi margfræga fluga er loksins komin inn á FOS.IS


Ný fluga hefur verið sett inn á Flugur – uppskriftir : Alexandra, þessi margfræga fluga er loksins komin inn á FOS.IS

Höfundur:
Við erum flest komin með heiminn í hendurnar. Það er alveg sama hverju við leitum að eða hvað við viljum nálgast, næstum allt er tiltækt undir einum fingri. Þessi litlu kríli sem við köllum farsíma geyma orðið næstum allt sem hugurinn girnist, eða er það svo? Nei, ekki alveg. Það er langt því frá að símarnir okkar geymi allt það sem þeir geta sýnt okkur þegar við erum í sambandi við móðurskipið (veraldarvefinn).
Sumt getur þó verið tiltækt í símanum okkar, jafnvel þótt hann sé utan þjónustusvæðis og nú er okkar ástkæra Veiðikort komið í hóp þess sem við getum skotið skjólshúsi yfir og haft alltaf til reiðu og klárt þegar haldið er í veiði.

Núna er hægt að kaupa Veiðikortið á rafrænu formi og vista það í veskinu í símanum, SmartWallet fyrir Android eða Apple Wallet fyrir iPhone. Þannig er kortið komið í hóp annarra skilríkja sem bjóðast rafræn og þarf því ekki að prenta á plast.
Ég er einlægur stuðningsmaður þess að halda plastnotkun í skefjum. Fögur fyrirheit um endurvinnslu plasts ná aðeins til örlítils hluta þess sem við handfjötlum dags, daglega. Flest leikur það lausum hala í náttúrunni eða er urðað með ómældu magni annars úrgangs. Til að gera langa sögu mjög stutta, því það tekur mjög langan tíma fyrir plast að brotna niður, þá endar plastið í einni eða annarri mynd í vatninu okkar og þaðan kemst það aftur inn í hringrásina og endar nær örugglega í mat og drykk sem við leggjum okkur til munns.
Höfundur:
Á þessum árstíma dreymir flesta veiðimenn. Suma dreymir einfaldlega um að komast í veiði, punktur. Aðra dreymir um nýja veiðistaði, flugur eða geta prófað nýjar græjur sem komu upp úr jólapakka. Flestir þessara drauma eru um eitthvað eitt ákveðið og er auðvelt að uppfylla, strax næsta sumar. Svo eru til þeir draumar sem eiga sér lengri meðgöngu, hafa blundað með einstaklingi í einhver ár en skjóta reglulega upp kollinum og minna á sig. Sumir hafa jafnvel smakkað aðeins á þessum draumi, kunnað vel við en ekki látið hann rætast að fullu. Hér er ég að ýja að draumi margra að gerast veiðileiðsögumenn.

Eftirspurn eftir veiðileiðsögumönnum hér á landi hefur aukist mikið á síðustu árum og í því fellast tækifæri fyrir áhugasama að gera veiðina að einhverju meira en bara áhugamáli. Undandarin ár hefur Ferðamálaskóli Íslands boðið upp á nám í veiðileiðsögn sem hefur verið mjög vel sótt, jafnt af starfandi leiðsögumönnum og þeim sem hug hafa á að komast í fagið.
Um þessar mundir er verið að taka á móti skráningu í 130 stunda nám í veiðileiðsögn sem hefst 15. febrúar, nám sem gæti verið leiðin til að láta drauminn rætast. Allar nánari upplýsingar má finna á vef Ferðamálaskóla Íslands eða hér að neðan.

Höfundur:
FOS.IS óskar lesendum sínum, fylgjendum og félögum, gleðilegrar hátíðar. Nú er daginn farið að lengja og það styttist í næstu vertíð, megi hún færa ykkur margar ánægjustundir og ylja ykkur um ókomin ár.

Höfundur:
Um þessar mundir ætti háflóð jólabóka fyrir veiðimenn að vera að skella á okkur. Því miður er það ekki svo um fyrir þessi jól, því fátæklegri flóru veiðibóka hef ég sjaldan séð eins og þetta árið. Það má víst segja að nú sé fjara, sögulega lágsjávað og það er ekki eitthvað sem sjá mátti fyrir í flóðatöflu ársins hér á FOS.IS

FOS.IS lætur þó ekki deigan síga og spáir stórstreymi fyrir jólin 2023, nánar tiltekið þann 15.des. kl. 07:48 upp á 4.2 m hér í Reykjavík. Flóðatöflu fyrir allt næsta ár er nú hægt að nálgast hérna á vefnum, bæði til aflestrar á skjá og sem PDF til niðurhals.
Að gefnu tilefni langar mig til að biðja lesendur að virða þá beiðni mína að leita samþykkis fyrir notkun flóðatöflunnar til annarra nota en persónulegra, hvort sem það er birting eða dreifing í nafni fyrirtækis, samtaka eða félagsskapar. Samþykkis (fyrirfram) um dreifingu efni af FOS.IS má leita með því að senda mér skilaboð hérna.
Þess má geta að flóðataflan hefur nú í nokkur ár verið með vinsælasta efni á FOS.IS með yfir 50.000 flettingar og með hátt í 10.000 niðurhöl.
Höfundur:
Það er skemmtilegt hvað litlir hlutir geta haft mikil áhrif á daglegt líf okkar. Ungt fólk vekur upp gömul máltæki og staðfærir þau í nýjum tíma, samanber pældu í því sem er náttúrulega ólíkt skemmtilegra heldur en dig into it. Já, ég er smá íslensku perri og þykir skemmtilegt þegar orð og orðasambönd fá nýja eða breytta merkingu í íslensku máli.
Að tísta er dæmi um orð sem fékk alveg nýja, og að mínu mati stórskemmtilega merkingu með tilkomu Twitter hér um árið. En rétt eins og margur annar smáfugl hefur þessi litli blái orðið fálka að bráð og nú kveður við falskan tón í tísti hans. Reikningur Gróu kerlingar á Leiti hefur nú verið opnaður að nýju á Twitter og núna getur hún nú keypt sér syndaaflausn hjá Musk fyrir litla 8 dollara á mánuði og birt hvað eina sem henni dettur í hug, satt eða logið.

Með vísan í upphaflegt heiti FOS.IS (flugur og skröksögur) skal það tekið fram að í mínum huga er stigsmunur á að birta skröksögur og merkja þær sem slíkar eða birta þær sem sannleik og fá einhvers konar heilbrigðisvottorð á lygarnar. Persónulega hef ég engan áhuga á að blanda geði við fólk sem ber út lygar eða rætnar sögur um einstaklinga eða atburði, hvorki í raunheimum eða á netinu. Því hefur FOS.IS nú hætt birtingu efnis á Twitter og óskað eftir því að eldri færslum verði eytt og reikningi lokað.
Þetta er því síðasta færslan sem FOS.IS birtir á Twitter og bendir fylgjendum á að það er alltaf hægt að fá tilkynningar um nýjar færslur á síðunni, beint og milliliðalaust í tölvupósti með því að skrá sig hérna.
Höfundur: