Hverjum dettur í hug að fara í Veiðivötn án þessarar flugu? Eflaust einhverjum sem ekki þekkja til hennar, en þeir veiðimenn eru væntanlega fáir. Í hart nær 30 ár hefur Gullið hans Kára Ölverssonar verið að finna í boxum þeirra sem heimsækja Veiðivötn og raunar miklu fleiri vötn á Íslandi, og jafnvel víðar.
Til gamans má geta þess að í sumar sem leið fékk danskur veiðimaður að kíkja í box undirritaðs og þótti mikið til Gullsins koma, skiljanlega. Ég setti nokkur eintök í poka og gaf þessum veiðimanni áður en hann hélt af landi brott og það liðu ekki nema nokkrar vikur þar til ég fékk svohljóðandi skilaboð frá honum „This amazing fly gave me 6 seatrout in just 2 hours today, thanks for the flies.“ Já, takk Kári Ölversson fyrir að setja þessa saman fyrir okkur.
Gullið er fluga númer 146 sem birtist hér á síðunni og þú getur smellt á myndina hér að neðan til að skoða uppskriftina að þessari einföldu og gjöfulu flugu.
Það virðist endalaust vera hægt að útfæra nýjar flugur eins og hnýtarar hafa sýnt og sannað í Febrúarflugum í gegnum árin. Fyrir utan þessar nýju, þá er það engin ný bóla að taka þekktar flugur og útfæra þær samkvæmt sínu eigin nefni, eins og þessi fluga Mr. Griffiths frá árinu 1993 sýnir. Þarna tekur Griffiths alþekkta flugu og útfærir hana að eigin geðþótta og sendir Bob nokkrum Church með nokkrum vel völdum orðum og kveðju. Viltu vita eitthvað meira? Smelltu þá á myndina hér að neðan og lestu það sem FOS gróf upp um þessa flugu nr. 145 sem birtist hér á síðunni.
FOS fær oft orðsendingar frá lesendum; ábendingar um efni, veiðisögur eða eitthvað annað skemmtilegt sem vert er að skoða. Í sumar sem leið fékk FOS orðsendingu sem fól þetta allt í sér og tengdist flugu sem sendandinn, Tómas Auðunn Þórðarson, hafði sett saman og prófað í Hraunsfirðinum. Einföld og skemmtileg fluga sem gaf honum og konu hans 16 bleikjur á einum þessara dauðu daga sem stundum gera vart við sig í Hraunsfirðinum. Daganna þegar ekkert gengur og bleikjan fúlsar við öllu sem henni er boðið. Tvær þær stærstu sem féllu fyrir flugunni voru 50 og 54 cm að lengd. Síðar um sumarið gerði þessi fluga einnig gott mót í Hlíðarvatni í Selvogi og undirritaður getur vottað að bleikjurnar í Hlíðarvatni vestra (í Hnappadal) eru alveg jafn hrifnar af þessi flugu. Þar að auki voru urriðar Hnappadalsins álíka spenntir fyrir henni.
FOS lagðist vitaskuld í grúsk og leitaði og leitaði á netinu, fletti og fletti í bókum, en það virðist enginn hafa haft fyrir því að birta uppskrift eða gefa þessari flugu heiti, annar en faðir hönnuðarins sem þótti tilvalið að skíra hana Grábrók. Grábrók er fluga nr. 144 sem birtist hér á síðunni með uppskrift og smá lýsingu.
Loksins settist ég niður og festi nokkuð orð á veraldarvefinn í aðdraganda jóla. Lofa náttúrulega bót og betrun á nýju ári, eins og svo oft áður, en tíminn ræður för og ekki alltaf mikill afgangur í lok langra vinnudaga.
Loksins tóku rithöfundar jóðsótt og fyrir þessi jól komu út nokkrar eigulegar veiðibækur. Árni Bald lagðist á sæng og sagði sögur sem festar voru í band í bókinni Í veiði með Árna Bald, glettin og skemmtileg bók þar sem Árni lætur gamminn geysa eins og honum einum er lagið.
Steinar J. Lúðvíksson lét loks undir áskorun Orra heitins Vigfússonar og skráði sögu Laxár í Aðaldal í bókina Drottning norðursins, 80 ára saga Laxárfélagsins. Bókin er ríkuleg að öllu leiti, fallega skrifuð saga félagsins og hafsjór fróðleiks um Laxá í Aðaldal með nokkrum vel völdum veiðisögum sem fylla heilar 349 blaðsíður í stóru broti.
Jörundur Guðmundsson ritstýrði fjölda höfunda bókarinnar Laxá, Lífríki og saga mannlífs og veiða sem kom út kom fyrir þessi jól. Eftir því sem mér skilst, þá eiga þeir Sigurður Magnússon og Ásgeir Hermann Steingrímsson mestan part textans, en að auki leggja margir staðkunnugir hönd á verkið. Eins og fram kemur í kynningu bókarinnar, inniheldur hún veiðistaðalýsing fyrir Laxá í Mývatnssveit og Laxárdal, lýsingum lífríkis, ásamt sögu og mannlífs við þessa merku silungsveiðiá. Bókin er mikið verk, heilar 304 blaðsíður og ríkulega myndskreytt.
Sunnan heiða og vestan, settust þeir Stefán Þórarinsson ásamt Arnóri og Einari Sigurjónssonum niður og skrifuðu Kjarrá og síðustu hestasveinarnir á Víghól. Bókin er glettinn, rómantískur óður fyrrum hestasveina til fjallveiða við Kjarrá þar sem þeir segja frá hestum, mönnum og veiði, ásamt spaugilegum uppákomum veiðimanna í glímunni við laxinn í Kjarrá. Bókin er 250 blaðsíður, full einlægra frásagna fyrri tíma.
Allt eru þetta eigulegar bækur, en trúlega er Fylgirit Veiðikortsinssú útgáfa sem nær mestri útbreiðslu ár hvert á Íslandi. 116 blaðsíður af gagnlegu efni um þau 37 vötn sem Veiðikortið veitir aðgang að á sumri komanda, ásamt öðrum fróðleik og skemmtun fyrir handhafa kortsins. Að venju á undirritaður smá innlegg í bæklinginn, þannig að eitthvað hef ég fest niður blað á árinu.
Og fyrst ég er byrjaður að plögga sjálfum mér, þá má finna aðra prentun Vatnaveiði -árið um kring í öllum betri bókabúðum landsins. Þetta síunga afsprengi mitt, sem fagnar 10 ára afmæli á næsta ári, virðist enn höfða til veiðimanna og áhugafólks um vatnaveiði og er tilvalin fyrsta veiðibók hvers veiðimanns.
Að þessu sögðu, óska ég lesendum FOS gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári, en fyrst og fremst gleði og ánægju í veiði.
Það leynist ýmislegt í fórum FOS og þar á meðal eru nokkrar veiðistaðakynningar þar sem tölt er um veiðislóðir, staðhættir skoðaðir og kíkt á álitlega veiðistaði. Eftir því sem verkast vill hef ég lesið inn á þessar kynningar og tekið þær upp en ekki endilega birt þær opinberlega. Þar sem styttist í opnun fyrstu vatnanna þetta árið, þá hef ég bætt þremur kynningum inn á þrjú vatnanna sem finna má hér síðunni. Þau vötn sem hér um ræðir eru Dalavötnin þrjú sem finna má vestur á Mýrum og í Hnappadal: Langavatn, Hítarvatn og Hlíðarvatn.
Öll eiga þessi vötn það sameiginlegt að vera inni á Veiðikortinu, gott aðgengi að þeim, heimilt að tjalda við þau og eru hin ágætustu veiðivötn. Hvað er hægt að fá það betra? Jú, fara og njóta þeirra í sumar og þess sem þau hafa að bjóða í umhverfi og vonandi smá veiði.
Langavatn í LangavatnsdalHítarvatn í HítardalHlíðarvatn í Hnappadal
Það er ekki loku fyrir það skotið að ég taki aðrar kynningar fyrir á næstunni og bæti þeim hér inn á síðuna eða YouTube rás FOS, en það ræðst fyrst og fremst af viðbrögðum lesenda og þeim tíma sem mér gefst til dundurs.
FOS hefur fengið töluvert af skilaboðum þar sem spurt hefur verið um flugu að nafni Nýrað. FOS leitaði til höfundarins, Jóns Inga Kristjánssonar, bauð upp á kaffibolla og fékk að launum eintak af flugunni og efnislista. Flugan hefur víða getið sér gott orð og því er sjálfsagt mál að verða við óskum um uppskrift að henni. Fluguna má finna, ásamt tæplega 200 öðrum flugum í safni FOS eða beint með því að smella á myndina hér að neðan.
Nýrað – hnýtt af höfundinum Jóni Inga Kristjánssyni