Efnisyfirlit

Flugur: uppskriftir, hnýtingar og hráefnið.

Undir grúskinu getur þú fundið ýmsar hugleiðingar um fiskinn, ætið sem hann eltist við ásamt hugleiðingum um kast- og veiðitækni.

Grúskið: lífríkið, fiskurinn, ætið, græjurnar og kastið.

Undir veiðiferðum finnur þú frásagnir mínar af veiði í hinum ýmsu vötnum, hringinn í kringum Ísland.

Veiðiferðir: sögur og úrval afsakana fyrir lélegri veiði.

Hvar gaf hvaða fluga í ákveðnu vatni?

Hvar og hvenær: hvaða fluga gaf, hvar og hvenær.

Flugur ● Hvar og hvenær ● Flugufræði ● Fiskurinn ● Hnútar ● Hnýtingar ● Lífríkið ● Taumar ● Veiðitækni

Ætið ● Veiðiferðir ● Handhægar töflur ● Orðalisti ● Dagatal ● Gagnlegir tenglar

Eldvatn í Meðallandi, 12. apríl

Það hefur blundað svolítið í mér síðustu árin að komast í birting að vori, svona til að prófa. Nú um helgina var svo komið að stóru stundinni, Eldvatn í Meðallandi frá hádegi laugardags til hádegis á sunnudag. Að vísu gerðum við hjónin aðeins meira úr reisunni og lögðum af stað austur á föstudaginn með næturdvöl á sveitahóteli rétt vestan Skóga.

Ekki var veðurspá laugardagsins neitt til að hrópa húrra fyrir og það virtist sem mörgum veiðimanninum yxi sú spá í augum, því við hjónin vorum ein með veiðihúsið við Eldvatn svo það var vel rúmt um okkur í þessu glæsilega húsi. Hvað um það, við mættum skömmu fyrir hádegi á laugardag að Eldvatni, 7-8 °C hiti, norðlægur stinningskaldi, en þokkalega bjart yfir. Eftir smá snarl tókum við okkur til og byrjuðum að kanna svæðið, hvorugt okkar þekkti nokkuð til þannig að þetta var svolítið eins og að renna blint í sjóinn. Fljótlega varð þó ljóst að norðurbakkinn yrði fyrir valinu þar sem hann bauð skjól fyrir norlægum vindinum. Við renndum upp fyrir veiðistað 15 og fikruðum okkur hægt og rólega niður eftir ánni.

Blendingurinn

Blendingurinn

Það er skemmst frá að segja að rétt við veiðistað 15 setti ég í þokkalegan fisk sem frá fyrstu stundu var ekkert að gefa eftir. Sá tók Blendinginn frá Svarta Zulu sem mér áskotnaðist ekki alls fyrir löngu. Glæsileg fluga sem ég hafði strax mikla trú á og það sannaði sig heldur betur þarna.

Eftir nokkuð góða viðureign náði ég loks að þreyta fiskinn upp að bakkanum en þá tók hann svo snarpan kipp að toppurinn á stönginni fór í sundur. Þar kom að því að ég bryti stöng. Ég náði samt að koma fiskinum að landi, taka úr honum fluguna og smella eins og einni mynd af honum með GPS tækinu (veiðifélaginn víðs fjarri að færa bílinn).

~65 sm. úr Eldvatni

~65 sm. úr Eldvatni

Á meðan ég fálmaði eftir GPS tækinu og smellti af, varð mér hugsað til málbandsins sem var fest við veiðitöskuna í bílnum, víðs fjarri. Nú voru góð ráð dýr, þannig að lengdin var einfaldlega mæld á handlegg; frá fingurgómum og upp að handarkrika sem síðari mælingar staðfestu að séu réttir 65 sm.

Sæll og ánægður með þann fyrsta úr Eldvatni rölti ég í humátt á eftir konunni (og bílnum) eftir að hafa sleppt þessu glæsilega fiski. Eftir að hafa smellti auka toppnum á stöngina og hélt ég síðan áfram að kanna svæðið. Já, það getur borgað sig að vera með JOAKIM’S þar sem auka toppur fylgir.

Ekki varð meiri afli hjá okkur hjónum í þessari ferð þrátt fyrir að við færum víða á laugardeginum og héldum áfram að kanna ánna á sunnudag frá um kl.8 og fram undir hádegi. Áin bíður upp á marga fallega veiðistaði og glæsilegt umhverfi eða eins og konan hafði á orði; Það eru landslagsmálverk hérna hvert sem litið er.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 1 0 / 2 2

Ofmetið úthald

Svo virðist vera sem ég hafi teflt á tæpasta vaðið í síðustu greinum mínum þar sem ég hef sagt frá minni sýn á ‘veiða og sleppa’. Enn og aftur, þetta er mín sýn og ég nýt þess að geta tjáð skoðun mína hér án þess að eiga yfir höfði mér dónalegar tjásur (nýyrði yfir komment). Til að allri sanngirni sé nú gætt, þá hafa mér ekki borist neinar dónalegar athugasemdir við skrifum mínum í gegnum tíðina. Kannski finnst mönnum þau ekki svara verð, en vissulega eru ekki allir sammála mér og það er hið besta mál.

Og enn bæti ég um betur og tefli því fram að meira úthald er ekkert endilega betra. Á öðrum vetvangi er eindregið mælt með meira úthaldi í gælum og knúsi svona eftir erfiðið, en það á bara alls ekki við um VMS (veiða – mynda – sleppa). Ef veiðimaður vill endilega fá mynd af sér með aflanum, þá er eins gott að vera snöggur að því og helst ekki vera að grautast með bæði fisk og myndavél í einu. Fiski skal aldrei lyft upp úr vatni með annarri hendinni. Fáðu þér þrífót undir myndavélina eða góðan veiðifélaga til að taka myndina.

Það er svolítið misjafnt hvað líffræðingar telja hámark þess tíma sem fiskur þolir að vera lyft upp úr vatni. Sumir segja 5 sek. á meðan aðrir tala um 15. Fiskur er ekki með lungu (svona fyrir þá sem ekki vissu það fyrir) og hann hættir að anda um leið og hann er tekinn upp úr vatninu. Að vera lyft upp úr vatninu er því fyrir honum eins og ef okkur væri dýft niður í ískalt vatn í 15 sek. strax eftir að við höfum lokið 100 metra hlaupi á fullu gasi.

Nokkrar myndir sem mér þykja góðar að öllu leiti. Til að skoða þær í fullri upplausn og í samhengi við texta, smellið á þær.

cr_galatinriverguides cr_steve_piat cr_tom_chandler_1 Larry Javorsky

Eftir varp

Elk Hair Caddis

Elk Hair Caddis

Væntanlega er það í yfirgnæfandi tilfellum sem menn veiða vorfluguna sem púpu eða lirfu, þ.e. þegar hún er á botninum eða við það að brjótast upp úr vatninu. Þá erum við með Peacock eða einhverja þeirra ótal Caddis eftirlíkinga á taumi sem má finna í flugnaúrvalinu, má þar nefna húsnæðislausar vorflugur og Hérann.

Á eftir púpu og lirfuveiðum eru alltaf einhverjir sem spreyta sig á að líkja eftir vorflugunni þennan stutta tíma sem hún situr á vatninu eftir að hafa brotið sér leið upp á yfirborðið. Þetta er tiltölulega stuttur tími, því vorflugan er kröftugt kvikindi sem staldrar ekki lengi við á yfirborðinu eftir að hafa tekið á sig mynd flugunnar. Þó ekki sé alveg komið að því að vorflugurnar fari að verpa næstu kynslóð, þá er vert að geta þess að fullorðin flugan er hlutfallslega miklu meira áberandi og staldrar lengur við þegar hún verpir heldur en þegar hún brýst upp á yfirborðið. Eftir mökun, snýr flugan aftur út á vatnið til að verpa og er nokkuð áberandi á yfirborðinu á meðan að á því stendur og fiskurinn oft nokkuð agressífur í flugunni.

Fljótlega eftir varpið deyr flugan og það er eins og hún hverfi þá sjónum veiðimanna, en ekki fisksins. Það getur verið erfitt fyrir okkur að greina fluguna þegar hún flýtur á vatninu, en fiskurinn sér hana tiltölulega vel og oft eru það stærri fiskarnir sem týna þær í sig af yfirborðinu. Verðum við varir við uppitökur að loknu varpi flugunnar, þá væri e.t.v. ekki úr vegi að bregða Elk Hair Caddis undir og sjá hvort við náum ekki einhverjum stórum, svöngum fiski.

Kastað til bata 2014

fos_cfrfishNú er undirbúningur Kastað til bata 2014 kominn á fullt. Þetta árið verður farið í Reykjadalsá í Suður-Þingeyjarsýslu dagana 14. til 16.júní.

Áin og umhverfi hennar er einstaklega fallegt og vinsælt hjá silungs- og laxveiðimönnum. Nánar má lesa um hana og skoða myndir frá staðnum á vef veida.is hér.

Eins og verið hefur er ferðin þátttakendum að öllu kostnaðarlaus og nú er umsóknarferlið hafið og stendur til 10.maí 2014. Umsóknum skal skila með tölvupósti á póstfangið: kastadtilbata@krabb.is þar sem fram koma eftirfarandi upplýsingar:

  • Nafn
  • Heimilisfang
  • Kennitala
  • Heimasími
  • Farsími
  • Hvenær brjóstakrabbameinsmeðferð lauk (mánuður og ár)
  • Hvaða tegund brjóstakrabbameinsmeðferðar (aðgerð, lyf, geislar)

Jafnframt eru umsækjendur beðnir um stutta greinargerð þar sem þeir tiltaka hvers vegna þeir vilja taka þátt í verkefninu og meta líkamlegt ástand sitt til að taka þátt í því. Nánari upplýsingar veitir Auður Jóhannsdóttir hjúkrunarfræðingur hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins í síma 540 1900. Einnig má senda fyrirspurn á netfangið audure@krabb.is

Allar upplýsingar má að sjálfsögðu finna á vef Krabbameinsfélagsins og svo er um að gera að fylgjast með starfi hópsins á Facebook síðu hans.

Þar sem rennur

Vor?

Vor?

Öll vötn renna til sjávar, segir máltækið. Það gerist jú á endanum, en fyrst þarf nú eitthvað vatn að safnast saman og á vorin er einmitt fyrsti tími söfnunar. Vorleysingar og bráð safnast saman í vötnunum okkar, misjafnlega mikið og misjafnlega hratt. Fyrsta bráð vorsins í ám og lækjum ber oft með sér óttalega drullu. Vötnin verða grá- brúnleit langt út frá árósa og ekkert sérstaklega árennileg að sjá. En þarna leynist oft ágætt tækifæri til veiði. Hver, hér í grennd við Reykjavík, hefur ekki séð vaðfuglana í Elliðavatni á vorin sem spóka sig lengst úti á Engjum eða meðfram strönd vatnsins frá ós Bugðu í átt að stíflunni? Sumir fylgja gamla farvegi árinnar meðfram bakkanum en það er ekki endilega áin sjálf sem er áhugaverð, heldur staðirnir þar sem hún er alveg við það að blandast vatninu, skilin. Svo má ekki gleyma því að rennandi vatn, jafnvel þótt skítugt sé, ber með sér súrefni sem fiskurinn sækir í.

En það þarf ekki heila á til að fríska aðeins upp á vötnin. Í þennan árstíma verða oft til smá sprænur og gamlir lækir ganga í endurnýjun lífdaga þegar leysingavatn leitar í vötnin okkar. Meira að segja smávægilegt dripp, dropp fram af kletti eða vatnsbakka laðar að sér fisk. Það þarf því ekki alltaf að leita langt yfir skammt að fiski sem sækir í nýtt vatn og súrefni.

Meðalfellsvatn, 1. apríl

Vopnaður stöng #4 og púpuboxi, íklæddur ullarnærfötum innanundir, með taumaveski og veiðigleraugu í vasanum lét ég mig hafa það að renna upp í Kjós eftir vinnu í dag. Einhverra hluta vegna hefur það orðið að hefð hjá mér að byrja árið í Meðalfellsvatni, sama á hverju dynur. Það dundi nú svo sem ekki neitt í dag, veðrið var eins gott og það getur orðið á þessum árstíma, léttur austan andvari og hiti upp á 7 – 8 °C. Að vísu var ekki nema helmingur vatnsins komin undan ís, en það hefur nú oft verið minna þegar það opnar 1.apríl. Þar sem aðeins lítill hluti vatnsins var auður að vestan, renndi ég austur fyrir og kom mér fyrir í grennd við ósa Sandár. Loksins, ég var komin með stöngina aftur í hönd, frábær tilfinning.

Þegar ég mætti á staðinn laust eftir kl.17 voru tveir að veiðum fyrir botninum og mögulega einhverjir þrír við vestur bakkann. Fljótlega fór að bóla á fleiri veiðimönnum og mér var því ekki til setunnar boðið ef ég ætlaði að hafa eitthvert val um veiðistað svo ég smellti stönginni saman með hefðbundinni flotlínu og álíka hefðbundnum blóðormi #14 á u.þ.b. 12′ taum.

Fyrirfram ætla ég að biðja þá sem urðu vitni að næsta kafla sögunnar, afsökunar. Hann var ekki 50 sm. sjóbirtingurinn sem tók hjá mér í fjórða kasti, hann var víst 60 sm. (Ég hafði ekki tækifæri til að mæla háfinn minn sem ég notaði sem viðmið fyrr en ég kom heim) Já, ég opnaði reikning sumarsins með þessum líka glæsilega birtingi sem var að snuddast þarna örstutt frá landi og lét glepjast af blóðorminum mínum. Að fá að glíma við þennan bolta með stöng #4 var hrein og klár óska-byrjun sumarsins og gefur góð fyrirheit fyrir sumarið. Þess ber að geta að skv. venju var þessum fyrsta fiski sumarsins sleppt og var ekki annað að sjá en hann væri frelsinu feginn.

Af öðrum aflabrögðum fer ekki miklum sögum, heyrði þó af tveimur til viðbótar en síðan ekki söguna meir.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 1 0 / 1 1

Ummæli

01.04.2014 – Aron Jarl: Sæll Kristján, takk fyrir skemmtilegt spjall uppí Meðalfellsvatni í kvöld. Glæsileg byrjun hjá okkur að ná fiski fyrsta daginn þó svo ég hafi þurft að setja í minni pokann. Það er alltaf gaman að hitta menn sem eru kurteisir og til í að deila reynslu og sögum með manni á veiðistað. Ákaflega gaman og fróðlegt að skoða þetta blogg.
Bjóðormurinn stóð undir nafni sínu í kvöld. Maður sofnar með bros á vör á koddanum í nótt.
Kv. Aron Jarl

Svar: Sæll og takk sömuleiðis. Það er ekki minnst skemmtilegt að hitta aðra veiðimenn, þennan dag sem aðra, og skiptast á sögum og upplýsingum. Varðandi brosið; ég held að ég þurfi að leita mér aðstoðar, er orðinn aumur í kinnunum, næ bara ekki að þurrka þetta glott af andlitinu :-)

02.04.2014 – Kristján Einar KristjánssonHrikalega gaman að rekast á ykkur þarna uppfrá, frábært kvöld og takk fyrir aðstoðina!

Svar: Takk, sömuleiðis. Bara óskandi að sumarið verði nú eins og gærdagurinn gaf fyrirheit um.

Ekki á fullu gasi

Halló

Halló

Það eru alls ekki nýjar fréttir að fiskur sé í rólegri kantinum á vorin, en góð vísa…. of oft….. o.s.frv. Í púpuveiðinni hægjum við á okkur snemma vors og veiðum mjög rólega, næstum dautt. En hvað með viðbragðið okkar? Hvernig högum við okkur þegar svo fiskurinn tekur fluguna? Mér finnst raunar svo langt síðan að ég upplifði töku að ég er ekki viss um hvernig ég á að haga mér. Jú, ég get lesið aðeins um viðbragð og horft á fjölda veiðimynda þar sem menn virðast fá fisk á 2ja. mín. fresti, non-stop í 50 mín. en það er alls ekki víst að ég græði neitt á því.

Ég gæti líka lesið pistla og bækur manna eins og Kirk Deeter og Charlie Meyers þar sem hvatt er til þess að svara fiskinum formlega í viðbragðinu á vorin. Sem sagt; láttu eins og þú sért að taka upp símann þegar fiskurinn tekur. Notaðu sama viðbragð, afl og hraða þegar fiskur tekur að vori eins og þegar þú tekur upp símann. Eins og þeir félagar klykktu út með; Taktu upp símann og segðu halló við fleiri fiska.