Um síðuna

Upphaflega ætlaði ég þessari síðu aðeins það hlutverk að halda utan um veiðiferðirnar mínar. Fyrsta veiðiferðin birtist 25.05.2010 sem gæti því talist fæðingardagur síðunnar. Fljótlega fóru þó að bætast við athugasemdir og reynslusögur frá eigin brjósti um ýmislegt sem tengist áhugamálinu, stangveiði.

Nú er svo komið að meirihluti efnisins er eitthvað sem getur talist safn fróðleiks og leiðbeininga um stangveiði og enn bætist í sarpinn.

Höfundarréttur og ábyrgð

Allt efni síðunnar er mitt eigið að undanskildu því efni sem ég tilgreini sérstaklega. Dreifing texta, mynda, teikninga og myndbrota er hverjum þeim heimil sem getur uppruna þess, þó með þeim fyrirvara að viðkomandi dreifi efninu gjaldfrjálst. Dreifing eða not efnis af þessari síðu í hagnaðarskyni er með öllu óheimil án míns samþykkis, á það við um myndir, texta og teikningar.

Vefurinn er rekinn á ábyrgð undirritaðs, er óháður félögum, samtökum, fyrirtækjum eða hverjum þeim öðrum sem hagsmuna getur átt að gæta í því sem fjallað er um.

Efnistök

Eigin mistök og tilraunir hafa orðið kveikjan að flestum pistlunum og þá ekki síst þau ráð sem ég hef viðað að mér frá öðrum, hvort heldur úr riti, ræðu eða kennsluefni.

Það er alltaf ábyrgðarhluti að setja leiðbeiningar og ábendingar á netið um jafn víðfemt málefni og stangveiðin er. Efnið verður að vera sem næst villulaust og ekki staðlausir stafir. Lesendur eru því hvattir til að senda mér skilaboð hér um það sem betur má fara og óskir um efni sem þeir vilja gjarnan sjá á síðunni.

Persónuvernd

Vefurinn notar ekki vafrakökur og engum persónuupplýsingum er safnað um þá sem heimsækja hann.

Í þeim tilfellum sem gestir skrá sig fyrir tilkynningum frá FOS.IS eru tölvupóstföng vistuð í gagnagrunni vefumsjónarkerfisins án nokkurra annarra rekjanlegra upplýsinga s.s. nafn viðkomandi eða tölvuvistfang tölvu sem notuð er við skráninguna.

Upplýsingar sem krafist er að gestir skrái vegna skilaboða á síðunni eru einungis notaðar til að svara fyrirspurnum eða athugasemdum. Athugasemdum og ábendingum sem lesendur skrá við ákveðnar færslur er svarað á síðunni sjálfri ef tilefni er til og ekki haft samband við viðkomandi nema þess sé sérstaklega óskað.

Engar ofangreindra upplýsinga eru afhentar þriðja aðila.

Annað efni

Annað afsprengi höfundar kom út hjá Forlaginu árið 2015 og nefnist Vatnaveiði -árið um kring. Bókina má kaupa í öllum betri bóka- og veiðivöruverslunum.

Takk fyrir innlitið,
Kristján Friðriksson

Create a website or blog at WordPress.com