
Litla Skálavatn
Litla Skálavatn er rétt suðvestan Skálavatns og á sér ekki sjáanlegan samgang við önnur vötn. Litla Skálavatn er hefðbundið gígvatn og í því veiðist eingöngu urriði.
Veiði í vatninu er nokkuð sveiflukennd og ekki endilega í samræmi við sleppingar. Ekki er óalgengt að þar veiðist fiskar á bilinu 6 – 9 pund en lítið samhengi virðist vera á milli fjölda og stærðar, ólíkt öðrum vötnum á svæðinu.
Þeim sem leggja leið sína að Litla Skálavatni er bent á að eiga nóg af flugum í veskinu, festur eru töluverðar í vatninu og því hafa menn skilið ómælt magn af flugum eftir á steinnibbum á botninum. Og ekki má gleyma að nefna pollinn sunnan vatnsins, Litla Skálavatns pollur. Þrátt fyrir poll-heitið, þá hafa oft veiðst þar stórir og fallegir fiskar.