Haustlitaferð, skreppur, laugardagsbíltúr. Það er eiginlega alveg sama hvað menn vilja kalla þessa ferð okkar veiðifélaganna inn að Arnarfelli á Þingvöllum. Það var frábært veður til útivistar, hressandi úði og hitastigið rétt mátulegt þannig að maður var ekki að rugla eitthvað í hitastiginu í vöðlunum.
Við Arnarfell
Auðvitað er þetta bara eitthvert orðagjálfur til að dreifa athyglinni frá því að ekki einn einasti fiskur kom á land, þótt annað okkar hefði vissulega orðið vart við fisk í víkinni austanverðri.
Vottur að hausti
En, það er farið að hausta örlítið á Völlunum, samt ekki eins mikið og ég hafði gert ráð fyrir. Vatnið hefur kólnað eða það held ég í það minnsta, gróðurinn er farinn að skarta skærari litum og það eru bláber, krækiber og hrútaber við hvert fótmál. Sem sagt, dagsparti vel varið í dag á Þingvöllum.
Það var ekki slæm hugmynd að nýta rigningarskúr síðdegisins í ferðalag á Þingvelli í gær. Veðurguðirnir kláruðu að hella úr skálum sínum á meðan við renndum inn að Nautatanga og drógum á okkur veiðifatnað sem að þessu sinni var aðeins í örfáum lögum því hitastigið var rétt um 17°C þrátt fyrir dembuna.
Arnarfell séð frá Nautatanga
Það var greinilegt að murtan kunni vel við sig á þessum slóðum eftir rigninguna. Það var nægt æti og hún sýndi takta sína við að góma flugur á öllum stigum; undir, í og ofan yfirborðs. Eftir að við veiðifélagarnir höfðum sett í sitt hvora murtuna ákváðum við að færa okkur innfyrir Arnarfell. Það verður bara alveg að játast að þar réð miklu að umferðarniður frá Vallavegi var í meira lagi og ekki bætti úr skák að einhver skolli með fjarstýringu sá til tilneyddan að þeyta suðandi loftdóna fram og til baka yfir okkur.
Yfirleitt hefur það nú verið svo að Arnarfellið og ströndin hafa verið heldur fáliðuð þegar við kíkjum þangað, en það var svo sannanlega ekki þannig í gær. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar þegar ég taldi alla bílana á stæðinu austan við Arnarfell, nú væri lag að taka þátt í illindum og rétta jafnvel einhverjum sjómannakveðju eins og haldið hefur verið fram að sé orðið landlægt í Þjóðgarðinum.
Veiðimenn og himbrimi í sátt og samlyndi
Ef þetta hefði nú raunverulega verið ásetningur minn, þá hefði ég orðið fyrir miklum vonbrigðum. Á staðnum var töluverður fjöldi veiðimanna sem allir höguðu sér hið besta, buðu góðan daginn á nokkrum tungumálum og spjölluðu saman um veiði, flugur og ástundun. Síðan héldu menn sína leið, virtu mann og annan og komu sér fyrir í mjög passlegri fjarlægð frá næsta manni. Kannski spilaði veðrið svona mikið inn í þessa hegðun, það var rólegt yfir og Þingvallavatn og nágrenni skörtuðu sínu fegursta fram eftir kvöldinu. Meira að segja himbriminn rak aðeins upp eitt einasta gól þegar hann kallaði á ungan sinn, það var eins og hann væri jafn slakur og mannskeppnunar á staðnum.
Arnarfellsey
Af veiði okkar félaganna er það helst að frétta að við byrjuðum utarlega í Arnarnesvík, færðum okkur síðan í rólegheitum yfir á ströndina undir fellinu og alla þessa leið var krökkt af murtu sem lagðir þurrflugur og púpur okkar í einelti. Við fréttum af einni kuðungableikju um pundið sem kom á land undir Mjóaneshrauninu skammt utan við víkina, en annars voru menn í murtu, murtu og aðeins meiri murtu. Þar sem við misstum fljótlega töluna á öllum þeim fiski sem tók hjá okkur, þá verður ekkert skráð í veiði hér að neðan.
Ómetanlegt
Á tímabili gerðum við okkur vonir um að bleikjan sem óð í æti úti við Arnarfellsey mundi sækja inn að ströndinni þegar kvöldaði, en þegar hún hætti að láta sjá sig rétt um kl. 22, þá töltum við í rólegheitum til baka og héldum heim á leið. Eftir þetta frábæra síðdegi og kvöld við Þingvallavatn, leið mér eins og ég ímynda mér að rafmagnsbíl líði eftir heila nótt í hleðslu; fullur orku og sérstaklega slakur.
Að vera vakinn rétt um kl. 7 með skilaboðum um að allt sé klárt, kaffið komið á brúsa og græjurnar klárar, er ekki það versta sem getur komið fyrir á sunnudagsmorgni. Auðvitað dreif ég mig á fætur, svalg í mig fyrsta kaffibolla dagsins og lagði af stað út í blíðuna sem beið á Þingvöllum.
Við byrjuðum að kíkja við í Vatnskotinu, en eitthvað sagði okkur að færa okkur örlítið austar þannig að við slepptum Tóftum og fórum í Vörðuvík. Það var ekki um að villast að það var fiskur á ferðinni í morgunstillunni, en þegar við vorum loks komin fram á bakkann, þá var eins og allt væri búið.
Þegar síðan túristarnir voru vaknaðir og mættu syngjandi glaðir fram á bakkann, í orðsins fyllstu merkingu, þá töltum við yfir á Öfugsnáðann og böðuðum ýmsar tegundir flugna þar án árangurs. Og við vorum ekki ein um þetta áhugaleysi fiskanna. Félagi í veiðifélaginu okkar sem kom á staðinn rétt um það bil sem við settumst niður í árbít, varð ekki heldur var við fisk.
Eitthvað lagðist hitastigið í vatninu illa í okkur og eftir smá tíma ákváðum við hjónin að breyta alveg til, færa okkur austur fyrir Steingrímsstöð og prófa Úlfljótsvatnið. Það er annars merkilegt hve veður getur skipst á milli vatnanna. Þessi rjóma blíða, sem þó skorti aðeins hitastigið, var hvergi nærri við Úlfljótsvatnið að norðan og við entumst því ekki lengi þar og héldum aftur á vit Þjóðgarðsins.
Nú var ákveðið að fara í Vatnskotið, þar sem heldur hafði þynnst í hópinum. Fáar sögur af fiski, en veiðiverðir Þjóðgarðsins nokkuð brattir og tékkuðu einarðlega á veiðileyfum viðstaddra. Við hjónin prófuðum ýmsar tegundir flugna, kannski meira til að njóta umhverfisins og blíðunnar heldur en með von um fisk í brjósti.
Þegar svo tveir aðrir félagar okkar mættu fisklausir á staðinn, var einfaldlega sest niður, skeggrætt um allt milli himins og jarðar, þó mest um veiði og ótrúlega umferð stórra fólksflutningabíla á Vallavegi, þessum mjóa og heldur slappa spotta sem tæplega rúmar fólksbílamætingar, hvað þá tuga tonna ferðamannadrossíur sem þurftu að mætast þarna.
Þetta var hin ágætasti dagur, þótt enginn hafi verið fiskurinn og viðmælendur okkar sammála um að bæði skordýr og bleikjur fara heldur betur á stjá þegar það hefur hitnað örlítið betur.
Þar sem ég fór einn í Framvötnin á laugardaginn og kom til baka með 25 bleikjur var ekki nema sanngjarnt að gefa veiðifélaga mínum færi á að jafna metin í dag, sunnudag. Þingvallavatn hafði enn ekki verið sigrað þetta sumarið, veðrið milt og gott og því var stefnan tekin á Tóftir í dag.
Til að koma stuttri sögu til skila, þá var ekki alveg eins mikið líf við Tóftirnar eins og við höfðum gert okkur vonir um, en vissulega vakti það vonir okkar um fisk þegar við mættum veiðimanni þar með nokkrar vænar bleikjur í farteskinu. Því miður náðum við hvorki að kasta kveðju á viðkomandi né rekja úr honum garnirnar um flugur eða aðferðir, þannig að við renndum bara blint fyrir þær bleikjur sem mögulega voru eftir við eyjuna, þaðan sem hann kom.
Eftir smá stund tókum við eftir hreyfingu við yfirborðið, jú þær voru þarna í æti og því settum við þurrflugur undir og niðurstaðan varð ein hjá mér og þrjár hjá veiðifélaganum. Að vísu voru þær allar undir máli og því sleppt, ekki einu sinni teknar myndir af þeim og því verður mynd af veiðifélaga okkar, óðinshananum að duga frá Þingvöllum í dag.
Þegar okkur þótti fullreynt að ná stærri fisk í Tóftum renndum við að Þjónustumiðstöðinni í smá kaffisopa og síðan í Vatnsvikið. Enn styttri útgáfa, ekki einn einasti fiskur gein við flugum okkar þannig að við fórum fisklaus heim. Eins gott að við eigum bleikjur úr Framvötnum í ísskápinum.
Ef að líkum lætur verður næsta veiðiferð okkar félaganna að viku liðinni í Veiðivötn. Fram að þeim tíma verða græjurnar bónaðar, flugur taldar og fyllt á það sem vantar. Sjálfur ætla ég að passa einstaklega vel upp á að taka með mér vöðluskó, helst öll þrjú pörin mín í þetta skiptið. Þeir glotta sem muna eftir síðustu ferð minni í Veiðivötn.
Það var svei mér alveg eins og sumarið hefði skotið upp kollinum í dag hér sunnan heiða og því þótti okkur veiðifélögunum við hæfi að skunda á Þingvöll og halda upp á daginn. Við vorum langt því frá þau einu sem fengu þessa hugdettu, bæði ferðalangar og veiðimenn fjölmenntu á Þingvöll seinnipart dags.
Við fórum í Vatnskotið, gengum fyrir Vatnsvíkina, kíktum út í eyju og þræddum ströndina vestur að Breiðatanga og annað okkur uppskar eina góða töku, en enginn fiskur kom á land. Að lokum kíktum við í Vatnsvikið, en þar var fiskurinn ekkert í meira stuði þannig að við fórum fisklaus heim, en með lungun full af fersku lofti og sól í hjarta.
Í þessari ferð sannaðist það að það eru líka til þeir veiðimenn sem núlla á Þingvöllum þrátt fyrir að margir hafi gert mjög góða veiði þar upp á síðkastið. Eitt er þó víst, rykfallnar Þingvallaflugur fengu bað og eru nú hreinar og sætar, til í tuskið ef það kemur annar sumardagur þetta árið.
Það er alltaf gaman að skipuleggja veiðiferðir með töluverðum fyrirvara, bíða eftir stóra deginum, hlakka til í það sem virðist vera óendanlegan tíma þar til loks kemur að ferðinni. En það er líka skemmtilegt að láta sleggju ráða kasti, pakka veiðigræjunum í bílinn og bruna bara eitthvað út í buskann. Við veiðifélagarnir áttum erindi austur að Laugarvatni í gær, þannig að það lá beinast við að keyra í gegnum Þjóðgarðinn á Þingvöllum og yfir Lyngdalsheiðina og athuga með veiðimöguleika í Tungunum.
Eftir erindi okkar á Laugarvatni datt okkur í hug að renna niður að Syðri Reykjum og spyrjast fyrir um veiði í Fullsæl. Einhver hafði sagt mér að þetta væri lítill og nettur lækur sem rynni í Brúará milli Efri- og Syðri Reykja. Smá misskilningur eða misminni hjá mér; Fullsæll er ekkert lítill lækur, í það minnsta fyrir óvanan straumveiðimann eins og mig. Kannski hafa rigningar síðustu daga eitthvað með það að gera, en mér fannst yfirdrifið vatn í þessari nettu á.
Fullsæll
Við hófum leika neðan brúar og fikruðum okkur niður með ánni. Ég eyddi töluverðum tíma í að losa fluguna mína úr nálægum birkihríslum á meðan veiðifélagi minn setti í væna bleikju á þurrflugu rétt ofan við Byrgishyl. Því neðar sem kemur í ánni, fellur hún hraðar og ég átti fullt í fangi með að strippa fluguna mína á milli þess sem ég losaði hana úr nálægum gróðri fyrir aftan mig og bægði mýflugum frá andlitinu á mér.
Flúðir í Fullsæl
Það verður ekki af umhverfi Fullsæls skafið að það er fallegt og ekki síðra þar sem árin rennur í Brúará. Það var einmitt við ármótin sem veiðifélagi minn tók þokkalegan urriða á Dentist og ég hélt áfram að losa fluguna mína úr nálægum gróðri. Áfram héldum við niður eftir Brúará með viðkomu á þeim stöðum sem við héldum að gætu gefið okkur fisk. Það stóðst auðvitað hjá veiðifélaga mínum sem veifaði skyndilega öllum öngum og bað um aðstoð við að landa enn einum fiskinum sem sótti stíft í að renna sér undir bakka Brúarár og vildi hreint ekki í háfinn. Auðvitað varð ég við þessari beiðni, um leið og ég hafði losað fluguna mína úr nálægum trjágróðri og aðstoðaði við að landa glæsilegum, rúmlega tveggja punda urriða sem kom á Prince #12.
Ármót Brúaráar og Fullsæls
Þegar hér var komið sögu var kast og stripp þreyta farin að segja eitthvað til sín og við röltum aftur upp með Brúará og Fullsæl þar til við vorum komin aftur í beygjuna neðan brúar. Það þarf töluverða jákvæðni til að segja að urriðinn sem ég fékk þarna á breiðunni hafi verið tittur, en hann var það mikill kjáni að eltast þrisvar við þurrfluguna mína þar til hann náði loksins að opna munninn það mikið að hann náði að bíta í krók #16. Auðvitað fékk stýrið líf og vonandi nær hann að éta eitthvað af þessum mýflugum við Fullsæl sem annars munu herja á andlitið á mér í næstu veiðiferð, því það er næsta víst að við eigum eftir að leggja leið okkar að Fullsæl aftur. Skemmtileg veiði í fallegu umhverfi fyrir lítinn pening; hálfur dagur á 1.500,- kr.
Á heimleiðinni stoppuðum við í blíðunni á Nautatanga við Þingvallavatn þar sem ég náði að klóra örlítið í aflatölur veiðifélaga míns með því að taka eina fallega bleikju. Ég naut aðstoðar innfædds íbúa Þjóðgarðsins við veiðarnar því lítil hagamús trítlaði þarna rétt við fætur mér á tanganum og lét eins og ekkert væri sjálfsagðara. Af lífi í vatninu er það að segja að það var merkilega lítið þrátt fyrir stillu kvöldsins og þegar fór að halla í miðnættið létum við gott heita og héldum heim á leið eftir skemmtilega óvissuferð, eitthvað út og suður.