Framvötn undir ís

24. apríl 2017 – 1. Herbjarnarfellsvatn – 2. Löðmundarvatn – 3. Lifrarfjallavatn – 4. Dómadalsvatn – 5. Eskihlíðarvatn

Landið skartaði sínu fegurst í gær þegar ég var á leið heim frá útlöndum. Rétt eins og flestir aðrir um borð í flugvélinni, smellti ég af nokkrum vel völdum myndum og þá sérstaklega af nágrenni Veiðivatna og Landmannahellis. Eins og sjá má eru öll vötn í nágrenni Landmannahellis enn undir ís en nú er rétt tæpur einn og hálfur mánuður þar til fært verður að Framvötnum.

Myndir á samfélagsmiðlum

Það hefur aldrei verið eins einfalt að taka myndir og í dag. Viðráðanlegar stafrænar myndavélar er að finna af ýmsum gerðum og þær eru orðnar eins sjálfsagðar og blýantur með strokuleðri var fyrir 20 árum. Eftir á að hyggja, þá ganga trúlega fleiri með myndavél á sér í dag heldur en blýant.

Þegar ég eignaðist mína fyrstu stafrænu myndavél féll ég algerlega fyrir þessari tækni. Að geta tekið næstum eins margar myndir og mér datt í hug, farið með þær heim í tölvuna og fært þær inn í skoðara, skorið og klippt þær góðu til og hent þeim lélegu strax, þetta þótti mér bylting. Eina vandamálið var að ég hafði kannski ekkert úr mjög mörgum stöðum að velja til að setja myndirnar mínar á. Jú, ég átti vísi að heimasíðu hjá Yahoo, en þar með var sagan eiginlega sögð.

Í dag eru miðlar fyrir ljósmyndir nánast óendanlega margir. Facebook, Instagram, Twitter og alls konar heimasíður einstaklinga og félaga. Framboð mynda á þessum síðum er ógnvænlegt og maður eyðir sífellt meiri tíma í að vafra um vinaslóðir á netinu og skoða myndir. Þær myndir sem maður tekur helst eftir, setur like á, þurfa fyrst og fremst að falla að smekk og áhugamálum. Svo þurfa þær að vera þokkalega vel teknar; skýrar, í fókus og ekki of brenglaðar hvað liti varðar. Persónulega leiðast mér myndir sem hafa verið smitaðar svo óskaplega af ýmsum síum að náttúrulegir litir og áferð er nánast horfinn. Svo leiðast mér líka myndir og myndbrot sem tekin eru upp á hákant því flestir samfélagsmiðlar stíla inn á það að myndflöturinn sé lægri heldur en hærri og helst í mjög ákveðnum hlutföllum.

Til að ná fram bestu nýtingu myndefnis með færslu á Facebook er t.d. gott að hafa myndina sem næst í stærð 1200×630. Þegar myndinni er hlaðið upp, þá skalar Facebook hana að vísu niður um rúmlega helming, en upplausn hennar verður betri með þessu móti og myndin öll skarpari þegar hún kemur lesendum fyrir sjónir. Það er því um að gera að nýta allan myndflötinn og skera jafnvel myndina örlítið til áður en henni er hlaðið upp.

Instagram aftur á móti mælir með ferkantaðri mynd í stærð 1080×1080 sem er sköluð niður um tæplega helming þegar hún kemur lesendum fyrir sjónir. Twitter skalar ekki myndir með færslum, þær eru alltaf geymdar sem 440×220 og síðan stækkaðar eða minnkaðar eftir þörfum á síðunni.

Væri ekki tilvalið að prófa þetta þegar flottu flugumyndirnar verða settar inn á Febrúarflugur í næsta mánuði?

fos_feb2017

Bakgrunnur

Góð ljósmynd getur laðað fram tilfinningar, aðdáun og áhuga. Að sama skapi getur léleg mynd, virkað fráhrindandi og orðið til þess að gott myndefni veki enga athygli. Það leynir sér ekkert þegar myndabankarnir mínir eru skoðaðir, t.d. á Instagram, að ég hef helst áhuga á myndefni þar sem veiðiflugur eða landslag er viðfangsefnið. Þegar kemur að því að taka myndir af veiðiflugum, þá finnst mér skipta miklu máli að velja viðeigandi bakgrunn til að laða fram hughrif.

Ef ég sækist eftir ljósmynd sem á að sýna fluguna nákvæmlega eins og hún er, þá reyni ég að hafa bakgrunn myndarinnar sem hlutlausastan. Hvítur bakgrunnur er alltaf í ákveðnu uppáhaldi hjá mér, en stundum er erfitt að ná hvítu hvítt og því getur verið ráð að hafa hann ljósbláan eða grænan. Umfram allt reyni ég að hafa bakgrunninn ekki of ögrandi, hann má ekki draga athyglina frá flugunni.

fos_peacock_big

Ef ég er aftur á móti að setja upp stemmningsmynd af flugu, eitthvað sem á að laða áhorfandann að, þá nota ég stundum kork, blaðsíðu úr bók eða einfaldlega svamp sem ég get stungið flugunni í. Umfram allt reyni ég að hafa bakgrunninn einsleitan og ekki troðfullan af litum.

fos_higas_svort_raud

Illa misheppnuð mynd af annars ágætri flugu hefur neikvæð áhrif á áhorfandann og er ekki til þess fallinn að fá mörg like á myndasíðum. Dæmi um slíka mynd er hér að neðan, þar sem ég fór greinilega hamförum í bakgrunninum og flugan geldur verulega fyrir það auk þess sem skott flugunnar fellur óþarflega mikið inn í bakgrunninn. Þarna hefði mér verið nær að velja hlutlausari bakgrunn, kápan á þessari uppáhalds veiðibók minni er allt of ögrandi, ber fluguna eiginlega ofurliði.

fos_blackzulu_feb_big

Þetta eru mögulega einhverjir punktar sem vert er að hafa í huga þegar ég tek myndir af flugunum sem ég ætla að setja inn á Febrúarflugur í næsta mánuði.

Urriðadansinn 2014

Á haustin er það fastur liður margra að heimsækja Þingvelli eða einhvern annan stað þar sem berja má urriðann augum á leið sinni til hrygningar. Hér gefur að líta nokkrar myndir frá Urriðadansinum 2014 og þeim höfðingjum Öxarár og gestum sem gáfu færi á sér til myndatöku.

This slideshow requires JavaScript.

Myndir frá Urriðadansinum 2013

This slideshow requires JavaScript.

Ummæli

14.10.2013 – Ási: Glæsilegar myndir. Takk fyrir mig.

15.10.2013 – Arnþór ÞórssonTakk fyrir þessa snilldar síðu, ég er sjómaður og er einn mánuð á sjó í einu og er búin að lesa bloggið þitt upp til agna. Þessi síða varð til þess að ég setti upp mína eigin síðu þar sem ég set inn myndir og video úr leik og starfi. Takk fyrir mig.

Svar: Takk fyrir mig og hér er tengill á bloggið hans Arnþórs.

Að lúta í gras

Fífa
Fífa

Auðvitað hefur það komið fyrir að maður hefur lotið í gras fyrir veiðigyðjunni þegar ekkert hefur gengið. Og svo hefur maður líka lotið í gras til að sjá hlutina frá öðru sjónarhorni eins og þegar ég rakst á fífubreyðu á bökkum Ölvesvatns á Skaga um árið. Ég efast um að nokkrum manni hefði dottið í hug að leggjast flatur á þessum slóðum, hvað þá með myndavél, en þarna finnst mér sjálfum hafa tekist nokkuð vel til.

Hlíðarvatn í Hnappadal

Hlíðarvatn í Hnappadal
Hlíðarvatn í Hnappadal

Um þetta leiti dags, þ.e. þegar sólin stingur sér á bak við fjöllin, breytast mörg vötnin í orustuvöll. Það er kannski þess vegna sem mér finnst þessi mynd þess virði að setja hana hér inn á síðuna. Þetta augnablik þegar lofthitinn fellur og skugginn leggst yfir, jafnvel bara smá hluta vatnsins og stærri fiskurinn leitar upp á grynnra vatn í leit að æti. Þá er ekki verra að vera veiðimaður á bakka.

Rautt miðnætti

Rautt miðnætti
Rautt miðnætti

Það er svo sem ekki margt að segja um þessa mynd. Hún er, eins og svo margar aðrar, tekin á farsíma í ákaflega lélegri birtu, en við svo frábær litbrigði á himni að ég stóðst ekki mátið.

Myndefnið er Langavatn í Borgarbyggð, frekar seint að sumri að mig minnir og greinilegur kuldi í kortunum.

Lífið

Lirfur og Peacock
Lirfur og Peacock

Ég fer ekkert dult með það að þetta er ein af uppáhalds myndunum mínum hin síðari ár, Að ramba á stein með þremur vorflugulirfum í næstum 100% samhliða línum er nokkuð sem gerist ekki á hverjum degi.

Það er ekki laust við að eftirmyndin, Peacock Kolbeins Grímssonar, blikkni nú samt í samanburði við þessa meistarasmíð náttúrunnar. En þannig er því nú farið um flest sem við mennirnir búum til og sækir sér fyrirmyndir í náttúruna.

Blátt og grátt

Blátt
Blátt

Klassísk blá með mosa, skýjum og sól í bakið. Hér er ekkert falið, allt nokkuð augljóst í Hítardalnum.

Grátt
Grátt

Hér er aftur allt grátt og maður veit í raun ekkert á hverju maður getur átt von þarna handan Foxufells í Hítardal. Sami dalur, sama vatn, allt annar staður og ég er viss um að fiskurinn hagaði sér allt öðruvísi þessa tvo daga.

Stillur

Stilla í morgunsárið
Stilla í morgunsárið

Eins gott að maður á svona mynd af einu uppáhalds vatnanna, Hlíðarvatni í Hnappadal því allt of sjaldan nýtir maður þessar frábæru morgunstillur á milli kl. 04 og 06. Þá sjaldan það gerist er eiginlega ekki annað hægt en smella eins og einni mynd af blíðunni.

Veiðifélagi

Veiðifélagi
Veiðifélagi

Jafnvel þegar maður leggur einn í langferð til að veiða þá er alltaf von á veiðifélaga. Þessi smyrill veiddi töluvert betur og fallegar heldur en ég uppi við Langavatn í Borgarbyggð. Myndina varð ég að taka af töluverðu færi því honum var ekkert of vel við mig þarna á hans heimavelli.

Til að ná flottustu augnablikunum hefði ég væntanlega þurft að vera með einhverja ofurlinsu og margfallt dýrari búnað en ég á, en einföld myndin hér að ofan nægir mér til að kveikja á minningunni um þá loftfimleika sem hann sýndi á sínum veiðum þennan eftirmiðdag.

Feluleikur

Felumynd
Felumynd

Þegar fiskurinn er styggur þá er veiðimönnum ráðlagt að hreyfa sig hægt og láta lítið fyrir sér fara. Hvort þessi veiðimaður hefur tekið ábendingu aðeins of alvarlega, skal ósagt látið, en eitt er víst hann sést ekki mikið á þessari mynd.

Nú kann einhver að spyrja; Veiðimaður á þessari mynd? Jú, þarna er veiðimaður á ferð. Vísbending: leitaðu að stangartoppi. Annars minnir mig að veiðin hafi nú ekkert verið of mikil þetta kvöld á Skaga og líklegri skýring á síðbúnum veiðimanni í náttstað sé frekar sú að hann hafi viljað njóta kyrrðarinnar og fegurðarinnar eins lengi og unnt var.

Síðsumar

Síðsumar
Síðsumar

Það er með ólíkindum hve oft það geta verið stillur við Langavatn í Borgarbyggð. Eitt skipti náði ég mörgum góðum myndum við vestanvert vatnið þar sem umhverfið tvöfaldaðist í vatninu, sama hver litið var.

Einhverjar þessara mynda hafa ratað til vina og kunningja sem hafa fengið að nota þær í kynningarefni, m.a. sú sem er hér fyrir neðan.

Spegill, spegill, herm þú mér.....
Spegill, spegill, herm þú mér…..

Veiði bönnuð

Öll veiði bönnuð
Öll veiði bönnuð

Gæði myndar þarf ekki alltaf að mæla í pixlum. Þessi mynd er í hæsta gæðaflokki í mínum huga, væntanlega aðeins vegna þess að þegar ég var á leið heim úr veiði þurfti ég að stoppa við gatnamót og þá var þetta útsýnið út um framrúðuna. Stangirnar á húddinu og þetta skilti í bakgrunni.

Vindur

Vindur í lofti
Vindur í lofti

Og enn ein myndin þar sem tveir uppáhalds bláu litirnir mínir koma fyrir. Einhver spurði mig hvort ég hefði tekið þessa mynd á tíma, skýin væru eitthvað svo hreyfð. Það hefði mátt ætla að sá hin sami hefði aldrei litið til lofts á Íslandi, skýin eru oftar en ekki á hreyfingu hérna.

Myndin er tekin við Frostastaðavatn, töluverður vindur í lofti frá norðri en niðri við vatnið var hann úr vestri og til að kóróna andstæðurnar sem er að finna á hálendinu var lofthitin vel á annan tug gráða þótt vatnið virki svolítið kalt að sjá. Dásamlegur staður.

Himininn

Fossvatn á Skagaheiði
Fossvatn á Skagaheiði

Það er tvennt blátt sem ég heillast af; vatnið og himininn. Einhver ljósmyndari lét hafa eftir sér að þetta væri útslitnasta myndefni veiðimanna fyrir utan það að reka snjáldur fisksins upp í linsuna. Mér gæti ekki staðið meira á sama um hvoru tveggja. Ég fæ aldrei nóg af því að festa bláma vatns og himins á mynd og ég er afskaplega lítið fyrir það að reka snjáldur fisksins upp í linsuna til að lengja hann um nokkra sentimetra eða bæta á hann pundum, þá læt ég það frekar eiga sig að taka mynd af aflanum. Svona geta nú mennirnir verið misjafnir.

Framvötn

Frostastaðavatn
Frostastaðavatn

Það er svolítið sérkennileg tilfinning sem grípur mann þegar vatn eða vatnaklasi heillar mann svoleiðis upp úr skónum að litlu fiskarnir eða jafnvel algjört fiskleysi verður að stórkostlegri veiðiferð í minningunni. Framvötnin eru svona svæði í mínum huga, mig dreymir stöðugt um að komast þangað aftur.

Nágrannar

Straumendur
Straumendur

Það er svo langt því frá að maður sé einn á veiðum. Maður eignast nágranna í hverju vatni, stundum himbrima sem vísar manni á fisk, stundum kríur sem vísa manni á síli og stundum straumendur sem vísa manni á ætið sem fiskurinn og sílið eltist við.

Að lesa náttúruna er leikur veiðimannsins sem vill setja sig inn í atferli fisksins. Myndina tók ég á stað við eitt af uppáhalds vötnunum mínum, Hlíðarvatn í Hnappadal , snemma sumars þegar yfirborð vatnsins stóð enn hátt eftir leysingar vorsins. Staðurinn þar sem straumendurnar sóttu í er að öllu jöfnu vaðfær á venjulegum gönguskóm, en þarna dugðu ekki einu sinni stígvél til að halda sér þurrum.

Kyrrð

Bloggarinn
Bloggarinn

Þessa mynd á ég ekki, þ.e. hún er tekin af mér en ekki af mér. Myndina tók sem sagt konan mín af mér þar sem ég þráaðist við úti í vatni langt fram í nóttina eftir tíðindalausan dag í veiðinni. Fyrir mér er þessi mynd ekki einhver sönnun þrákelkni minnar, heldur nær hún í öllum einfaldleika sínum þeirri kyrrð og ró sem vatnaveiðinn felur í sér.

Þegar maður er ekki á klukkunni, þ.e. getur hagað veiðinni eins og manni og náttúrunni sýnist, ekki bundin af tímamörkum einhverra sem hvergi koma nærri, þá er getur maður notið sín 100%, sama hvernig gengur.