FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Kort

    22. október 2010
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Áður en lagt er af stað er gott að nálgast allar tiltækar upplýsingar um vatnið. Ýmsar bloggsíður ásamt vefsíðum veiðifélaga luma á góðum ráðum um flugnaval og veiðistaði. Þessu til viðbótar höfum við núorðið nokkuð gott aðgengi að loftmyndum á netinu sem gefa okkur góða yfirsýn yfir dýpi og gróðurfar í vötnum. Má þar nefna Google Maps, ja.is og Kortasjá Landmælinga

    Hér er ég búinn að útbúa kort af vatni og merkja inn á það staði sem ég vísa til í næstu greinum um vatnaveiði.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Þekktu fiskinn

    22. október 2010
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Vatnaveiði á Íslandi bíður okkur yfirleitt upp á tvær tegundir vatnafisks; urriða og bleikju. Formsins vegna verð ég að nefna laxinn líka, en fæstir raunsæir veiðimenn leggjast í vatnaveiði til að fanga lax.

    Laxinn er kræsnastur allra laxfiska hvað varðar hitastig vatns og súrefnisinnihald, vill hlýtt og auðugt vatn en urriðinn sættir sig við aðeins kaldara vatn með minna súrefni.  Nægjusömust er bleikjan, sættir sig við kaldara vatn og mun lélegra fæði. Talið er að urriðinn gefi eftir þegar fæða er af skornum skammti og leitar hann þá oft nýrra heimkynna. Þetta virðist stangast á við þá staðreynd að urriðinn er svo kallaður óðalsfiskur, þ.e. hann helgar sér oft óðal í vatninu þaðan sem hann hreyfir sig eins lítið og unnt er. Bestu óðulin er eru oft setin af stærri fiskum sem verja þau með kjafti og klóm fyrir ungliðunum sem vilja tryggja sér sem mesta fæðu með sem minnstri fyrirhöfn. Þannig vill það til að ef við finnum gott óðal og krækjum í þann stóra, þarf ekki að líða langur tími þar til við náum öðrum urriða á sama stað. Oft er þá um aðeins minni fisk að ræða, m.ö.o. ungliði sem sætti færis að komast að góðu óðali þegar við höfðum krækt í fyrrum húsbóndann. Það er mín reynsla að innan við 1 klst. frá því að maður tók þann stóra er nýr aðili sestur að óðalinu. Innan þessa klukkutíma er oft hægt að egna fyrir ungliðana sem berjast um óðalið.

    Komi urriðinn ekki upp um sig með uppitökum getur verið ótrúlega erfitt að finna hann, jafnvel í litlum vötnum. Engar uppitökur geta gefið okkur vísbendingu um að hann sé í öðru æti en við yfirborðið og koma þá smáfiskar og síli til greina. Eitt verðum við þó að hafa í huga, óðal hvers urriða er oftast ekki stórt í sniðum, mögulega 15-20 m í þvermál, hugsanlega 50 m spilda meðfram vatnsbakkanum sem hann nýtir sér til fæðuöflunar (Kort – A).  Ekki er nú verra ef einhver gróður er á landareigninni þar sem hann getur falið sig að deginum til og skotist í veiðiferðir þegar skyggja tekur.

    Bleikjurnar á Íslandi skiptast í fjögur afbrigði; dvergbleikju, murtu, kuðungableikju og sílableikju. Það er óvíða sem öll afbrigðin fjögur koma saman í einu vatni, en eitt þeirra er þó Þingvallavatn. Síðast nefnda bleikja, sílableikjan er næstum eins mikill ránfiskur og urriðinn enda stærst allrar bleikju. Hún leggur sér til munns síli og seyði annarra tegunda, liggur almennt mjög djúpt í vötnum innan um gróður og sætir lagi að hrifsa smáfisk sem syndir hjá. Kuðungableikjan sækir meira í smádýr; bobba, krabbadýr, kornátu og vatnsfló auk flugna á öllum þroskastigum. Sumir ganga svo langt að segja að bleikjan éti nánast allt sem að kjafti kemur, sem er auðvitað bara skemmtilegt fyrir okkur fluguveiðimennina því þá höfum við úr nánast óendanlegum fyrirmyndum af flugum að velja.

    Þegar kemur að dvergbleikjunni er einfaldast að segja að hún heldur sig á minna dýpi en murtan, étur aðallega bobba og smágerð krabbadýr á meðan murtan heldur sig í öllum vatnsbolnum og telst til sviflægra fiska.

    ‚Sjaldan er ein bleikja stök‘ snéri einhver útúr málshættinum og þetta má alveg til sannsvegar færa.  Á meðan urriðinn heldur sig heima við, er bleikjan á sífelldu iði og flakkar um vatnið í torfum, einstaklega félagslynd og hefur orðið uppvís að töluverðum ferðalögum sé hún á eftir æti.  Þegar maður lendir í svona bleikjuskoti getur verið á í hverju kasti og svo, ekkert.  Ekki örvænta, það getur verið stutt í næstu torfu. Bleikjan á það einnig til að liggja á grynningunum og úða í sig smádýrum, svo fremi hún telji sig örugga. Oft þyngist í bleikjunni þegar kemur að hrygningu og hún leitar á meira dýpi.

    Fiskur verður seint talinn til skörpustu lífvera þessa heims.  Að nokkru leiti má líkja fiski við hvítvoðung.  Eðlishvötin ræður mestu um atferlið, hvíld tekur við af athöfn, svengd kallar á fæðu, áreiti er svarað með gagnárás og forvitninni er oft svalað með því að smakka á hlutunum.  Þetta getum við nýtt okkur í veiði.  Fiskur tekur flugu af þremur ástæðum; svengd, forvitni eða árás gegn einhverju sem hann telur ógna sér.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hitastig og veðurfar

    22. október 2010
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Virkasti tími silungs fer mikið eftir hita- og birtustigi. Utan þess að urriðinn er birtufælnari heldur en bleikjan, þá fara silungar helst á stjá þegar breyting verður á veðri eða í ljósaskiptunum.  Það er vel þekkt að silungurinn leitar upp á grynningarnar (Kort – B) í ljósaskiptunum og er þá oft í góðu færi og æstur í æti.  Veiði í ljósaskiptum fer oft rólega af stað, smæstu fiskarnir koma fyrst en svo kemur hvellur.  Eflaust hafa einhverjir upplifað þennan hvell og svo ördeyðuna sem tekur við af honum. Þá er ekki úr vegi að setjast niður og fá sér einn kaffibolla, hnýsast fyrir um veiðnustu flugurnar hjá veiðifélögunum og ýkja aðeins stærðina á þeim sem slapp með sporðaköstum og látum.  Fyrir alla muni, ekki hætta nema þú sért saddur þann daginn, því eftir smá tíma kemur annar hvellur.  Það er nefnilega þannig að silungurinn reiknar nákvæmlega út hversu mikla orku hann notar við fæðuöflun og þess sem hann nær að éta í hverri ferð.  Á meðan ætið safnast aftur saman á góðum veiðistað, hvílir silungurinn sig rétt utan svæðisins og leggur síðan til næstu atlögu.  Ef varlega er farið að svona stöðum getur góð veiði staðið alla nóttina, allt fram til morguns.

    Allt tengist þetta þó hitastigi vatnsins, það lækkar í ljósaskiptunum og það getur líka gert það yfir há-daginn ef ský dregur skyndilega fyrir sólu eða létt kul tekur við af logni. Nýttu þér veðrabrigðin og sé sólríkt og hlýtt, leitaðu fisksins í skuggunum á vatninu eða undir bökkunum. Háir klettar varpa oft góðum skugga á vatnið sem laða að sér fisk (Kort – C).

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að spá fyrir fiski

    22. október 2010
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Framrúðan og húddið á bílnum okkar gefa okkur oft góðar vísbendingar um lífið við vatnið.  Ekki láta undir höfuð leggjast að gefa lífinu gaum á meðan þú gerir þig og stöngina klára í veiði.  Veltu við steinum og sjáðu hvað pollarnir hafa að geyma. Þá fyrst geta spádómarnir hafist og við getum farið að virða vatnsflötinn fyrir okkur.  Fiskur gerir mun oftar vart við sig heldur en ætla mætti. Örlítil, eða stór, sportöskjulaga gára á vatninu segir okkur að fiskur sé á ferð. Gára er sjaldnast fullkomlega hringlaga heldur sporöskjulöguð. Þrengri hluti gárunnar vísar okkur í þá átt sem fiskurinn stefni í.  Skimaðu lítið eitt lengra í þá átt og reyndu að meta tímann sem líður þar til næsta gára birtist. Þegar hún svo kemur ertu kominn með stefnuna og þann tíma sem líður á milli þess að fiskurinn tekur uppi, þú ert mögulega með einn í sigtinu. Hinkraðu aðeins, láttu síðan vaða á þann stað sem þér þykir líklegastur til að vera númer þrjú í röðinni. Silungur er ótrúlega reglufastur og mestar líkur eru á að hann haldi ákveðnum ritma í uppitökum, meira að segja þótt hann nái ekki æti í hverri töku.

    Eitt að lokum um gárur; stærð þeirra segir okkur ekkert til um stærð fisksins sem kom henni af stað. Hraðsyndur, lítill  fiskur gárar meira en hægur boltafiskur.  Kannast einhver við að eltast við orsakavaldinn að ‚stóru‘ gárunni og sitja svo uppi með galsafullan titt?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Dýpið

    22. október 2010
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Samkvæmt einhverri elstu reglu veiðimanna, þá veiðist annað hvort niðri við botn eða uppi við yfirborðið, en þar á milli nánast ekki neitt. Þetta stenst að mestu leiti, mismunandi þó eftir árstíma. Á kaldari árstímum veiðist oft betur niðri við botn heldur en við yfirborðið. Það verður þó að viðurkennast að mikill meirihluti fiska veiðist nær yfirborðinu heldur en botninum. Fiskur sem er að rótast í æti á botninum er mun líklegri til að rísa upp eftir flugu heldur en sökkva sér niður eftir púpu á botninum. Sjálfur hef ég staðið mig að því að veiða í ‚dauða hafinu‘ á milli botns og yfirborðs og það getur alveg verið raunhæf leið. Setjum dæmi sem svo upp að ég kasti straumflugu vel út fyrir kantinn fyrir framan mig og láti hana síðan synda inn að kantinum beint í trýnið á fiskinum sem liggur þar í skjóli. Þetta á sérstaklega við þegar veitt er á móti vindi (Kort – K). Aldan ber nefnilega með sér ýmislegt æti og rótar upp ýmsu góðgæti á mörkum kants og grynninga. Ég þori að veðja hatt mínum og staf um það að silungurinn snýr trýninu á móti vindátt ef svo ber undir, þaðan berst jú ætið og við reynum alltaf að staðsetja fluguna fyrir fram silunginn.

    ‘Dauða hafið’ á milli botnsins og yfirborðsins

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Bakkarnir

    22. október 2010
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Allt of oft vöðum við yfir fiskinn. Það er í eðli silungsins að tryggja sér öryggi, en þó aldrei langt frá fæðunni. Til þess eru vatnsbakkarnir tilvalinn staður ásamt hallanum niður að dýpinu, kantinum. Temdu þér að byrja veiðina frá bakkanum til beggja hliða (Kort – D). Á þessum tímapunkti er ekki úr vegi, án þess að glata athyglinni af veiðunum sjálfum, að skyggnast aðeins um og kortleggja landslagið á botninum. Leitaðu að kantinum, nesjum sem standa út í vatnið undir yfirborðinu og flötum aflíðandi botni sem endar í dýpinu. Þetta gætu allt orðið staðirnir sem þú prófar eftir að hafa veitt undir og meðfram bökkunum.

    Til að veiða meðfram kantinum þarf oft að vaða út í vatnið, ekki langt en samt liggur leiðin oft yfir eitt gjöfulasta veiðisvæðið, grynningarnar.  Ekki vaða strax af stað, kannaðu grynningarnar fyrst og vertu viss um að þú hafi í það minnsta reynt við bleikjuna sem liggur þar. Framundan grynningunum er kanturinn þar sem fiskurinn liggur oft í skjóli, kroppandi bobba eða bíðandi færis að renna sér upp á grynningarnar til að úða í sig sílum og smádýrum. Til að spilla ekki þessari hegðun fisksins er auðvitað gott leyfa þessum stöðum að vera ósnertum, í það minnsta til að byrja með. En þegar kemur að því að færa sig út að hallanum hef ég leyft mér, þar sem botninn bíður upp á það, að róta örlítið til með fætinum þannig að ég gruggi botnsetið aðeins. Í botnsetinu leynast ýmsar pöddur sem silunginum þykja góðar og berist þær með léttum straumi eða vindi fram af grynningunum eða til hliðar, þá er takmarkinu náð því oft gefur fiskurinn sig þegar ætið fer af stað og kemur fram úr örygginu sínu.  En, gerðu þetta varlega. Rask í steinum eða marr undan vöðuskóm í möl berst fjórfalt betur í vatni en lofti og fiskurinn styggist auðveldlega. Vaddu varlega.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 36 37 38 39
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar