Virkasti tími silungs fer mikið eftir hita- og birtustigi. Utan þess að urriðinn er birtufælnari heldur en bleikjan, þá fara silungar helst á stjá þegar breyting verður á veðri eða í ljósaskiptunum. Það er vel þekkt að silungurinn leitar upp á grynningarnar (Kort – B) í ljósaskiptunum og er þá oft í góðu færi og æstur í æti. Veiði í ljósaskiptum fer oft rólega af stað, smæstu fiskarnir koma fyrst en svo kemur hvellur. Eflaust hafa einhverjir upplifað þennan hvell og svo ördeyðuna sem tekur við af honum. Þá er ekki úr vegi að setjast niður og fá sér einn kaffibolla, hnýsast fyrir um veiðnustu flugurnar hjá veiðifélögunum og ýkja aðeins stærðina á þeim sem slapp með sporðaköstum og látum. Fyrir alla muni, ekki hætta nema þú sért saddur þann daginn, því eftir smá tíma kemur annar hvellur. Það er nefnilega þannig að silungurinn reiknar nákvæmlega út hversu mikla orku hann notar við fæðuöflun og þess sem hann nær að éta í hverri ferð. Á meðan ætið safnast aftur saman á góðum veiðistað, hvílir silungurinn sig rétt utan svæðisins og leggur síðan til næstu atlögu. Ef varlega er farið að svona stöðum getur góð veiði staðið alla nóttina, allt fram til morguns.
Allt tengist þetta þó hitastigi vatnsins, það lækkar í ljósaskiptunum og það getur líka gert það yfir há-daginn ef ský dregur skyndilega fyrir sólu eða létt kul tekur við af logni. Nýttu þér veðrabrigðin og sé sólríkt og hlýtt, leitaðu fisksins í skuggunum á vatninu eða undir bökkunum. Háir klettar varpa oft góðum skugga á vatnið sem laða að sér fisk (Kort – C).
Eitt svar við “Hitastig og veðurfar”
[…] Hitastig og veðurfar – Hvaða áhrif þessir þættir hafa á veiðar í vötnum […]
Líkar viðLíkar við