Framrúðan og húddið á bílnum okkar gefa okkur oft góðar vísbendingar um lífið við vatnið.  Ekki láta undir höfuð leggjast að gefa lífinu gaum á meðan þú gerir þig og stöngina klára í veiði.  Veltu við steinum og sjáðu hvað pollarnir hafa að geyma. Þá fyrst geta spádómarnir hafist og við getum farið að virða vatnsflötinn fyrir okkur.  Fiskur gerir mun oftar vart við sig heldur en ætla mætti. Örlítil, eða stór, sportöskjulaga gára á vatninu segir okkur að fiskur sé á ferð. Gára er sjaldnast fullkomlega hringlaga heldur sporöskjulöguð. Þrengri hluti gárunnar vísar okkur í þá átt sem fiskurinn stefni í.  Skimaðu lítið eitt lengra í þá átt og reyndu að meta tímann sem líður þar til næsta gára birtist. Þegar hún svo kemur ertu kominn með stefnuna og þann tíma sem líður á milli þess að fiskurinn tekur uppi, þú ert mögulega með einn í sigtinu. Hinkraðu aðeins, láttu síðan vaða á þann stað sem þér þykir líklegastur til að vera númer þrjú í röðinni. Silungur er ótrúlega reglufastur og mestar líkur eru á að hann haldi ákveðnum ritma í uppitökum, meira að segja þótt hann nái ekki æti í hverri töku.

Eitt að lokum um gárur; stærð þeirra segir okkur ekkert til um stærð fisksins sem kom henni af stað. Hraðsyndur, lítill  fiskur gárar meira en hægur boltafiskur.  Kannast einhver við að eltast við orsakavaldinn að ‚stóru‘ gárunni og sitja svo uppi með galsafullan titt?

1 Athugasemd

Lokað er á athugasemdir.