FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Grisjun grunnra bleikjuvatna

    8. desember 2015
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Víða hafa nytjar veiðivatna dregist mjög saman síðustu áratugi. Netaveiði hefur víða lagst af og því er hætt við að mörg vötn, sérstaklega grunn bleikjuvötn verða þá ofsetin á skömmum tíma. Ekki er einhlítt hvernig best sé staðið að grisjun bleikju, margt spilar þar inn í.

    Heilbrigður stofn bleikju er samsettur úr fjölda einstaklinga á mismunandi aldri, stærð, kyni og kynþroska. Bregði verulega út frá eðlilegri samsetningu er framtíð stofnsins stefnt í hættu. Í ofsetnum vötnum má oft greina nokkur atriði sem segja til um ástand stofnsins. Eitt af því sem fyrst er tekið eftir er samþjöppun einstaklinga af ákveðinni stærð. Svo virðist sem fiskur nái aðeins tiltekinni stærð, hættir að vaxa og verður þá kynþroska eins og bleikju er háttur. Vegna harðnandi samkeppni um fæðu og afráns eldri fiska, fækkar ókynþroska fiski hratt undir þessum kringumstæðum. Með öðrum orðum, við sjáum nokkra einsleitni í þeim fiski sem veiðist í vatninu.

    Nokkuð örugg vísbending um að vatn sé ofsetið er að þeir fiskar sem veiðast eru smáir en kynþroska, nokkuð höfuðstórir, ljósir á hold og tilfelli sýkinga af sníkjudýrum nokkuð hátt. Þetta verður vatn sem almennt eru nefnd ‚ónýtt‘ og hér þarf að bregðast við með þeim hætti að grisja verulega í hópi kynþroska fiska. Varast ber að grisja stærri fisk, þess sem mögulega hefur breytt um lifnaðarhætti og gerst ránfiskur í eigin stofni. Sá fiskur hjálpar til við grisjun og honum ætti að hlífa.

    Löðmundarvatn
    Löðmundarvatn

    Sé veitt vel umfram ársframleiðslu vatnsins af kynþroska fiski, aukast lífslíkur þeirra sem yngri eru, þeir verða stærri, heilbrigðari og verða kynþroska síðar á lífsleiðinni. Með þessu móti má fækka einstaklingum, ná upp vexti og byggja heilbrigðari stofn. Umfang slíkra aðgerða er auðvitað háð fjölda kynþroska einstaklinga í vatninu, en sé það viðmið notað að grisja um tveggja ára nýliðun kynþroska fisks, má gera ráð fyrir að verkið taki 3-4 ár. Þetta kann að hljóma óyfirstíganlegt og víða hafa menn gefist upp á grisjun áður en árangur hennar hefur komið í ljós. Þrjóti menn ekki örendið má vænta þess að uppskera næstu ára verði að vísu færri fiskar en áður, en stærri, holdmeiri og nýtanlegri.

    Helstu heimildir: Áhrif veiða á silungastofna og nýting veiðivatna, Tumi Tómasson, Veiðimálastofnun, 1985.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Rétt stefna

    3. desember 2015
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Ef ég spyrði nú hver rétt stefna á flugu ætti að vera, þá fengi ég líklega einhver svör á þá leið að hún ætti að vera sem næst því að vera beint af augum, í sömu átt og kastað var. Auðvitað er þetta rétt svar, spurningin var aftur á móti ekki rétt orðuð. Það sem ég hafði í huga var, í hvaða átt ætti straumflugan að synda m.v. fiskinn sem egnt er fyrir?
    Tökum u.þ.b. 4 punda urriða sem dæmi. Fiskur sem liggur í mestu makindum á óðali sínu og glápir á kanntinn þar sem hann rís upp að grynningunum. Það væri í hæsta máta óeðlilegt í hans augum ef hornsíli kæmi á öðru hundraðinu niður af grynningunum og æði áfram í áttina að honum. Það hornsíli væri náttúrulega ekki fæða í hans augum og minnstar líkur á að hann réðist á það. Ef viðkomandi hornsíli kæmi aftur á móti upp að hlið hans og stefndi snaggaralega upp á grynningarnar, væri eins víst að hann yfirgæfi óðalið og elti sílið. Ég leyfi mér samt að efast um að eitthvað hornsíli væri nógu vitlaust til að synda í grennd við 4 punda urriða, líklegra þætti mér að það héldi sig innan um gróður eða steina á botninum þar til urriðinn hefði brugðið sér af bæ. Þá gæti það hugsanlega reynt að forða sér upp á grynningarnar í eins beinni stefnu og unnt væri frá urriðanum.

    Fluga á réttum stað
    Fluga á réttum stað

    Þeir sem hafa virt hornsíli fyrir sér í vatni hafa væntanlega tekið eftir því að þau eru ekkert mikið á ferðinni frá landi og út í dýpið. Þetta hefur eitthvað með kjörsvæði hornsíla að gera sem er víst ekkert mikið meira en á þetta 20 til 40 sm. dýpi. Það væri því væntanlega líklegast að ná athygli urriðans með straumflugu í líki hornsílis ef maður næði að veiða meðfram kanntinum, láta fluguna bera við yfirborðið og skjótast inn á grynningarnar rétt í þá mund sem urriðinn nær að festa auga á henni.
    Rétt stefna á flugu er þá væntanlega þverrt fyrir urriðan, helst á flótta frá honum en örugglega ekki beint upp í gapandi ginið á honum. Hversu oft ætli maður hafi látið fluguna ráðast beint að urriðanum og uppskorið tóma forundran hans; Hvað gengur eiginlega að þessu hornsíli?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Meira um Hvammsvirkjun

    2. desember 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Skv. frétt á vef Skipulagsstofnunar þann 18.nóv. hefur stofnunin ákveðið að víkja frá upphaflegum fresti til að vinna ákvörðun um endurskoðun umhverfismats Hvammsvirkjunar, sjá hér. Eins og fram kemur hefur stofnunin tekið sér frest til 11.des. til að ljúka verkinu.

    Það má ráða af fréttinni að starfsmönnum Skipulagsstofnunar þykir málið viðamikið, sem von er, og því þörf á lengri tíma til að komast að niðurstöðu um það hvort framkvæma þurfi nýtt umhverfismat.

    Eftir virkjun - Kort: verndumthjorsa.is
    Eftir virkjun – Kort: verndumthjorsa.is

    Þess má geta að FOS er kunnugt um að enn bætist við gögn sem Skipulagsstofnun er hvött til að kynna sér áður en kemur að endanlegri ákvörðun. Meðal þess sem lagt hefur verið til málanna er einstaklega góð og áhugaverð grein Árna Árnasonar, Hvammsvirkjun – Nauðsyn mats á umhverfisáhrifum. Greinina má nálgast á vef Árvíkur hérna, en nokkra úrdrætti má sjá hér að neðan. Eins og aðrar greinar Árna um þetta mál, er hún vel rökum studd og vert að gefa henni góðan gaum. Í henni rekur Árni þær breytingar sem orðið hafa á lífríki árinnar frá því nýgildandi umhverfismat var framkvæmt ásamt því að vekja verðskuldaða athygli á skorti rannsókna á s.k. mótvægisaðgerðum sem LV boðar samfara þessari virkjun.

    Hugsanlegar virkjanir í neðri hluta Þjórsár, eins og Hvammsvirkjun, hafa þá sérstöðu í samanburði við eldri virkjanir ofar í ánni að göngufiskur á sér nú heimkynni í verulegum mæli ofan þeirra. Hvammvirkjun mun þannig hafa tvenns konar óheillavænleg áhrif á göngufisk. Virkjunin mun bæði spilla mikilvægum uppeldisstöðvum ofan og neðan virkjunar en auk þess þarf fiskur að komast fram hjá virkjuninni bæði á leið sinni upp og niður ána.

    Virkni seiðafleyta er óviss og hefur ekki fengið neina gagnrýna umfjöllun í tengslum við Hvammsvirkjun. Það sem hentar Sockeye-laxi þarf ekki að henta Atlantshafslaxinum.

    Niðurstöður rannsókna sýna að 89% seiða fara um seiðafleytuna við Wells-stífluna og 96% lifa það af. Árangurinn við Cowlitz-fossana er ekki jafngóður þótt hönnunin sé sú sama. Þar fara einungis 48% stálhausa (steelhead) um fleytuna en stálhaus er regnbogasilungur sem gengur í ár og vötn vestanhafs.

    Ég hvet lesendur til að lesa þessa grein í fullri lengd, hún er full af fróðleik og varpar áhugaverðu og gagnrýnu ljósi á gildandi umhverfismat og er starfsmönnum Skipulagsstofnunar eflaust kærkomið innlegg í þá vinnu sem framundan er til 11.des.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Könguló, könguló

    1. desember 2015
    Ætið

    Upp

    Forsíða

    Könguló, könguló, vísaðu mér á berjamó. Eða það sem betra er, leyfðu mér að kíkja í vefinn þinn. Þeir sem hafa arkað eða staulast í gegnum hraunið við austanvert Hítarvatn kannast eflaust við köngulóavefina sem liggja þar oft þvert á gönguleiðina. Án þess að fara ítarlega í skordýrafælni, þá þekki ég nokkra aðila sem mundu væntanlega taka á sig stóran krók framhjá þessum vefum frekar en stíga í gegnum þá, sem er útaf fyrir sig bara gott.

    Upplýsingabanki
    Upplýsingabanki

    Þegar grannt er skoðað má finna ýmsar vísbendingar um skordýralíf hvers staðar með því að kíkja á köngulóarvefi. Köngulær eru mjög iðnar og taka reglulega til í vefjum sínum, endurnýja þá og ganga úr skugga um að netið sé nægjanlega tryggt. Þess vegna má ganga að því með nokkurri vissu að í vefjunum leynast sýnishorn allra þeirra fljúgandi skordýra sem er að finna á viðkomandi stað. Þetta getur gefið okkur, veiðimönnunum dýrmætar upplýsingar um það æti sem fiskurinn er mögulega í. Því nær vatninu sem vefurinn er, því betra.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Færri falsköst

    26. nóvember 2015
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Eitt er víst, ég hef lesið þessa fyrirsögn mun oftar heldur en ég man eftir þessu þegar ég er að veiða. Það þýðir bara eitt; ég nota of mörg falsköst. Í þau fáu skipti sem ég man eftir þessu, þá slaka ég á og kasta markvissar, kannski örlítið styttra en áður en samt ekki, því með markvissari og yfirvegaðri köstum er miklu minna mál að einbeita sér að tví-togi, bæði í fram- og bakkasti.

    Þótt þeir séu til sem kannast ekki við þreytu í veiðinni, þá er það nú svo að eftir langan dag og mörg falsköst fer þreytan aðeins að setja mark sitt á framsetningu flugunnar. Þetta skiptir ekki litlu máli þegar klukkan er ekki á veiðimönnum og þeir geta notið útiverunnar og veiðinnar eins lengi og hugur og hönd girnast. Ég er einn þeirra sem hef ótakmarkaða ánægju af því að veiða og veiði gjarnan langa daga. Ef ég hef ekki einhvern hemil á falsköstunum geta síðkvöldin orðið heldur fálmkennd í framsetningu og oftar en ekki óvíst hvar flugan lendir þegar mér tekst loksins að slæma henni út.

    Fallegt kast á fallegum degi
    Fallegt kast á fallegum degi

    Á sama tíma og mér tekst miður til við framsetningu flugunnar vill það einnig gerast að títtnefndir vindhnútar geri vart við sig, meira að segja í blanka logni í ljósaskiptunum eða öllu heldur einmitt þá. Þegar dagur er að kveldi komin og kasthöndin búin að vera á fullu í falsköstum allan daginn, þá tapast ákveðin einbeiting sem verður jú alltaf að vera til staðar. Mistökum fjölgar, línan slæst niður í bakkastinu, fremra stoppið kemur allt of seint og vindhnútar hlaðast á tauminn.

    Einhvern tímann las ég pistil þekkts kastkennara sem sagði einfaldlega að það væri ljótur siður að temja sér mörg falsköst. Lærðu bara að kasta eins og maður, færri falsköst, betra tví-tog og þá nærðu kasti á fiskinn þar sem hann er, ekki þar sem hann var fyrir tveimur köstum síðan. Það er einmitt þegar ég er í návígi við fiskinn að ég man eftir þessu, vanda mig betur við togið og þá er eins gott að ég sé ekki orðinn svo þreyttur eftir öll falsköstin að allt fari í tóma vitleysu hjá mér. Óþreyttur maður nær betri einbeitingu heldur en þreyttur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að vera í flugukasti

    24. nóvember 2015
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Síðastliðið sumar sá ég þann veiðimann sem ég tel vera þann ötulasta sem ég hef enn hitt. Hann var snaggaralegur að stöðva bílinn við vatnið, var klár með stöngina á innan við 10 sek. og eiginlega horfinn fyrir næsta nes á innan við 30 sek. Augnabliki síðar sá ég hann kominn upp undir geirvörtur úti í vatninu þar sem hann kastaði, kastaði, kastaði, kastaði, kastaði, kastaði og svo…. féll flugan loksins niður u.þ.b. 10 metra fyrir framan hann. Ég heyrði, frekar en sá hann síðan taka fluguna upp í einum rykk og endurtaka kastæfinguna af miklum móð.

    Fyrst ég, í 20 – 30 metra fjarlægð heyrði til línunnar þegar hún var rifinn upp úr vatninu, þá hefur fiskurinn í vatninu væntanlega orðið örlítið var við þessar aðfarir líka og hefur forðað sér. Það kom mér því ekki á óvart að skömmu síðar var þessi ötuli veiðimaður kominn til baka, sestur upp í bíl og spólaði burt.

    Ég reyndar þakkaði þessum veiðimanni kærlega fyrir í huganum, náði ekki að kasta á hann þökkum í orðum svo snöggur var hann á brott. Hvað þakkaði ég honum fyrir? Jú, fyrir að leiða mér fyrir sjónir að ég var farinn að þenja mig óþarflega mikið í köstunum og þó sér í lagi fyrir fiskana sem komu í áttina til mín frá þeim stað þar sem hann hafði vaðið út í nokkrum mínútum áður. Ég landaði þremur á stuttum tíma eftir létt og nett köst þar sem ég leyfði flugunni að vera í vatninu alveg þangað til taumurinn var kominn að topplykkju. Þegar ég síðan tyllti mér á bakkann með kaffibollann minn og kleinu og dáðist að fiskunum þremur, rifjaði ég upp nokkrar greinar sem ég hef lesið um galla þess að flýta sér of mikið í veiðinni.

    Tiltölulega slakur við Elliðaárnar
    Tiltölulega slakur við Elliðaárnar

    Ég er að hugsa um að endursegja nokkrar þessara greina hér á næstunni, kannski þessi ötuli veiðimaður reki augun í þær og nái að róa sig aðeins niður fyrir næstu vertíð.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 83 84 85 86 87 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar