FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Augað upp eða niður

    5. desember 2016
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Ekki alls fyrir löngu átti ég gæðastund með nokkrum hnýturum úti í bæ þar sem við spjölluðum um allt milli himins og jarðar, innan flugufræðinnar þó. Mér finnst alltaf jafn gaman að eiga svona stundir og eins og gerist, þá teygðist á umræðuefninu í allar áttir og ýmislegt ber á góma. Meðal þess sem kom upp í þessari heimsókn minni var spurningin um það hvers vegna sumir önglar væru með augað uppsveigt og aðrir með það niðursveigt, já eða beint af augum.

    Ég vona að ég hafi komið þessu þokkalega frá mér og þegar heim kom, þá tékkaði ég til vonar og vara í mínu efni hvort ég hefði ekki farið með rétt mál. Það er reyndar erfitt að segja að einhver rétt skýring sé á þessum mun króka. Sumir spekingar vilja meina að það sé í raun enginn munur á þessum önglum, þetta snúist miklu meira um smekk og venjur veiðimanna heldur en einhverjar rökréttar skýringar. Sjálfur hallast ég nú frekar að skýringum eðlisfræðinnar sem segja mér að þegar taumurinn togar í krók með uppsveigt auga, þá færist þyngdarpunktur flugunnar framar og aftari hluti flugunnar lyftist meira heldur en sá fremri, þ.e. flugan heldur sér því næst 180° í vatninu þótt hún rísi aðeins í vatnsbolnum. Sem sagt; slíkar flugur synda lárétt í vatninu. Nú veit ég ekkert hvort laxmenn séu viljandi að sækjast eftir þessu, en þær flugur sem kallaðar hafa verið laxaflugur eru yfirleitt hnýttar á króka með uppsveigt auga. En þarna getur svo sem einhver hefð verið að kallast á við eðlisfræðina.

    fos_ongulaugu

    Þegar flugur eru hnýttar á króka með niðursveigt auga, snýst dæmið aftur á móti við. Þyngdarpunktur flugunnar færist aftar, hausinn rís meira heldur en skottið og því stefna þessar flugur meira í áttina upp að yfirborðinu, á móti afli taumsins.

    En hvað þá með króka sem horfa beint af augum? Jú, átak taumsins kemur beint á krókinn og þyngdarpunkturinn færist næstum ekkert til, þær fljóta í láréttu plani og því hafa margir valið þessa króka í þurrfluguhnýtingar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Söfnunarárátta eða þörf?

    30. nóvember 2016
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Mér finnst það nú eiginlega hafa verið í gær þegar ég gat með sanni sagt að ég ætti aðeins eina flugustöng. Sú var af fyrstu kynslóð grafítstanga, #6 í tveimur pörtum. Ég kunni alveg ágætlega við þessa stöng og á hana ennþá. Að vísu hefur hún ekki fengið að fara með í veiðiferðir í nokkur ár, ekki einu sinni sem varastöng. Síðar eignaðist ég IM10 stöng #7 í hefðbundnum fjórum pörtum og notaði hana mikið, raunar nota ég hana annars slagið ennþá þegar ég tel mig þurfa á miðlungshraðri stöng að halda. Síðar kom til sögunnar heldur hraðari IM12 stöng sem ég hef töluvert dálæti á, en hún er nokkuð stífari þannig að stundum fer að gæta einhverrar þreytu hjá mér eftir 5 – 6 klst. í veiði.

    Einhvern tímann á leiðinni bættist mjúk IM9 JOAKIM‘S stöng í safnið, stimpluð #4/5 sem ég hef mikið dálæti á. Hún er ekkert sérstaklega létt, ekki nett, eiginlega svolítið lin, en ég kann óskaplega vel við hana.

    fos_flugustonghjol_big

    Í sumar sem leið tókst mér síðan að sannfæra sjálfan mig um að ég þyrfti á nýrri sjöu að halda. Ég prófaði nokkrar stangir og fann eiginlega alltaf eitthvað að þeim. Of stíf, of hröð, of lin, of þung, mér tókst þannig að finna eitthvað að þeim öllum. Trúlega hef ég verið farinn að fara örlítið í taugarnar á einhverjum, alveg þangað til mér var bent á að prófa eina af nákvæmlega sömu tegund og ég hafði áður hafnað með þeim rökum að hún væri of stíf fyrir minn smekk. Sú sem mér var rétt var 9‘6 fet í stað 9 feta. Hún er ekki framleidd úr einhverju sérstöku undraefni, held meira að segja að hún sé framleidd úr IM10 grafít og alls ekki hönnuð sem einhver tímamóta stöng. Hún er það sem ég leitaði að; virkar millistíf en svignar skemmtilega með fiski, leyfir mér að finna fyrir smæstu bleikjum og vinnu vel á móti stærri urriðum. Stöngin ber vel þær línur sem ég nota og sýnir góða vinnslu með hefðbundnum framþungum intermediate og flotlínum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég er sérlundaður í stangarvali og alls ekki víst að minn smekkur passi öðrum, en ég mundi trúlega kaupa mér aðra Airflo Rocket 9‘6 #6/7 stöng ef mér tækist að eyðileggja þessa. Það sem ég vildi koma á framfæri með þessum hugleiðingum mínum er einfaldlega að það þarf stundum ekki mikla breytingu á stöng til að hún virki sem allt önnur. Í þessu tilfelli varð það þetta hálfa fet sem gerði gæfumuninn.

    Auðvitað er þetta einhver söfnunarárátta og trúlega (vonandi) tekst mér að telja sjálfum mér trú um að ég þurfi nýja stöng eftir einhver ár. Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt, leggja svolítið á sig að venjast nýrri stöng og njóta þess að veiða.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Nafnavenjur

    28. nóvember 2016
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Rétt eins og fleiri veiðimenn er ég farinn að leiða hugann að hnýtingum í vetur. Þessa dagana kemur það reyndar sífellt oftar fyrir að ég setjist niður við hnýtingarþvinguna og setji í eins og eina eða tvær flugur, ekkert endilega til að eiga, oftar til þess að prófa einhverja aðferð eða þá heila flugu sem ég hnýt um við lestur veiðitímarita. Í framhjá hlaupi má geta þess að töluverður fjöldi veiðitímarita er aðgengilegur hér á síðunni undir Vefrit og oft er að finna nýjar flugur inni á milli þekktari flugna í þessum tímaritum.

    Ég hef verið að skoða svolítið s.k. soft hackle flugur upp á síðkastið. Þetta eru eiginlega flugurnar sem hófu þetta allt saman, ekki hjá mér heldur fluguveiði í árdaga þannig að þær eiga sér afskaplega langa sögu. Það eru nokkuð skiptar skoðanir á því hvort soft hackle flugur séu sérstakur flokkur eða bara tegund af votflugum. Sjálfur hallast ég að því síðar nefnda, einfaldlega vegna þess að það er oftar en ekki erfitt að gera greinarmun á hefðbundinni votflugu og soft hackle flugu.

    Skemmtilegt staðreynd um soft hackle flugur er venjan sem skapast hefur um nafnagiftir þeirra. Nöfn þeirra eru yfirleitt samsett úr tegundarheiti fjaðrarinnar sem notuð er og litarins á búknum. Partridge and Green til dæmis er einfaldlega akurhæna og grænn búkur. Mér til mikillar ánægju voru menn ekkert endilega að velta sér upp úr því hvaða hráefni var notað í þessar flugur, ef hringvafið var úr akurhænu og búkurinn var grænn, þá var þetta Partridge and Green, ef búkurinn var appelsínugulur þá var þetta Partridge and Orange. Þess má geta að margar af upprunalegu soft hackle flugunum hafa gengið í endurnýjun lífdaga sem hefðbundnar votflugur með væng, skotti og skeggi.

    Composit - Mynd fengin að láni af www.classicflytying.com/
    Composit Soft Hackle – Mynd fengin að láni af http://www.classicflytying.com

    Eins og sjá má af myndum þá eru þessar flugur einstaklega sparneytnar á hnýtingarefni og ákaflega einfaldar í útliti. Þetta telur Sylvester Nemes, höfundur The Soft Hackle Fly Addict einmitt vera mesta kost þessara flugna. Ekkert prjál, einfaldar í hnýtingu og ákaflega veiðnar, að hans sögn. Sjálfur hef ég ekki mikla reynslu af flugum sem þessum, það sem ég kemst næst reynslu af þeim eru þær votflugur sem ég hef hnýtt og notað sem hnýttar eru með hringvafi úr hænufjöður. Dettur mér þá fyrst í hug nokkrar Pheasant Tail sem ég hnýtti um árið og nota enn mikið. Að vísu skemmir það formúluna algjörlega að þær eru með kúluhaus og kannski full mikið af hráefnum í þeim. Búkurinn er of sver og allt of mikið í hann sett þannig að þær gætu talist til soft hackle flugna. Strangtrúarmenn í þessum fræðum vilja meina að búkurinn eigi að vera afskaplega grannur, vafningar ekki fleiri en þrír hringir og að hámarki þrjár tegundir hráefnis í honum.

    Pheasant Tail með mjúkum kraga
    Pheasant Tail með mjúkum kraga

    Upphaflega voru algengustu fjaðrirnar sem notaðar voru í soft hackle flugur einmitt algengar, þ.e. þær sem féllu til þegar menn voru á fuglaveiðum og þá helst af akurhænu, hrossagauk, skógarhænu, fasana eða skógarsnípu. Það er næsta víst að maður yrði litinn hornauga ef maður mætti með hnakka af hrossagauk á hnýtingarkvöld í vetur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Sérðu hana alltaf éta?

    23. nóvember 2016
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Menn eru misjafnlega mannglöggir. Ég er t.d. þannig gerður að mér er stundum lífsins ómögulegt að greina á milli manna, þekki ég þennan eða hinn? Á ég vita hver þessi eða hinn er þegar ég rekst á þá á förnum eða fáförnum vegi.  Ef einhver hefur rekist á mig í sumar, við tekið tal saman og ég virst vera fjarlægur og jafnvel ekki alveg í sambandi við umræðuefnið, þá er það alls ekki illa meint hjá mér. Ég hef trúlega bara verið að velta því fyrir mér hvar ég hafi séð eða rætt við viðkomandi áður eða verið alveg á villigötum.

    Síðast liðið sumar gekk ég fram á veiðimenn sem ég taldi mig þekkja og tók þá tali. Eftir á að hyggja, hef ég væntanlega aldrei séð þessa menn áður, en við áttum ágætt spjall þar sem þeir voru að veiða með púpum og beitu niður á botni á meðan bleikjan fyrir framan þá var, að því er mér sýndist, mest í því að pikka upp flugur rétt undir yfirborðinu. Ég reyndi eins og ég gat að rífa augun af bungunum sem mynduðust á vatninu annars slagið og einbeita mér að samtalinu. Svo gat ég ekki lengur orða bundist, tók fram fluguboxið mig og valdi nokkrar votflugur úr því og rétti fluguveiðimanninum með þeim orðum að nú væri lag að skipta sökklínunni út fyrir flotlínu, setja Watson‘s Fancy undir og draga hana rólega inn, rétt undir yfirborðinu.

    Ha, sérðu hana alltaf éta? spurði þá maðurinn mig. Þá vafðist mér tunga um tönn, nei, ég sé bleikjuna ekkert alltaf éta, en það eru stundum ákveðnar vísbendingar um það á vatninu hvar hún er að éta og hvað. Þegar það lítur t.d. út fyrir að það séu risa loftbólur alveg við það að stíga upp á yfirborðið, svona á stærð við handbolta, en svo gerist ekkert, þá er silungurinn væntanlega að éta flugu sem er alveg við það að brjótast upp á yfirborðið, svona á 10 – 20 sm. dýpi. Hvað geri ég þá? Jú, set votflugu eða litla mýflugu á intermediate línu og byrja að draga inn um leið og hún lendir. Þegar ég tala um intermediate línu hérna, þá verður hún að vera með sökkhraða undir tommu á sekúndu. Það er auðvitað líka hægt að stytta tauminn á flotlínunni og nota örlítið þyngri flugu, það kemur næstum út á sama stað í yfirborðinu. Hreyfing flugunnar verður að vísu svolítið önnur, en stundum verður hún einmitt rétt þannig. Það er ekkert endilega ein rétt leið að veiða silung í svona tökum.

    fos_urridi_yfirbord

    Svo eru það augnablikin þegar maður sér bleikjuna, já eða urriðann, velta sér í yfirborðinu. Hvað er eiginlega í gangi? Jú, væntanlega liggur ætið þá ofan á vatninu eða er við það að brjótast upp úr filmunni. Þá vandast málið hjá mér. Ég er ekkert sérstakur þurrflugukall, meira fyrir votflugur og púpur, þannig að ég fer stundum milliveginn, veiði þurrfluguna eins og votflugu. Það virkar líka, oftast. Mér er minnistætt augnablik frá því í sumar, þegar ég staldraði við þó nokkurn spotta frá vatninu og kom þá auga á svona veltur í yfirborðinu. Það var hreint ekki þannig veður að ég ætti von á að fluga væri að klekjast, goluskratti og hitastigið ekki upp á marga fiska, en bleikjan var sannanlega að veltast þarna í æti. Það kom síðar á daginn að hún var að rótast í fló sem hafði hrakist með gárunni inn á víkina sem ég kom að. Já, fiskurinn étur það sem er á boðstólum, ekki það sem við teljum okkur sjá eða sjáum bara alls ekki.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Við erum af nokkrum gerðum

    16. nóvember 2016
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Hugtakið raunheimar hafa fengið nýja merkingu á síðustu árum. Raunheimar er sá veruleiki þar sem við getum snert á hlutum, tekið í höndina á kunningjunum og klappað þeim á bakið, hughreystandi eða af samúð þegar sá stóri sleppur. Netheimar bjóða okkur ekki upp á þessa nánd, en við getum svo sem átt vini þar eins og í raunheimum. Ég á nokkra svona netvini sem ég heilsa upp á reglulega, kíki á hvað þeir hafa fyrir stafni, svara þeirra hugleiðingum eða spyr þá ráða. Einn þessara netvina minna var að hefja silungsvertíðina um daginn, já, hann er hinu megin á hnettinum, Nýja Sjálandi nánar tiltekið.

    Það var með nokkrum trega að ég las frásögn hans af þessum fyrsta degi. Hann lenti í ýmsu þennan dag og honum var nokkuð hugleikin ótrúleg framkoma veiðimanns sem varð á vegi hans. Ég sendi þessum netvini rafrænt klapp á bakið og tjáði honum að umrædd tegund veiðimanna væri einnig að finna hér norðanmegin á kúlunni. Þeir væru væntanlega til allan hringinn.

    Að gamni mínu setti ég síðan saman þennan stubb um nokkrar gerðir veiðimanna sem maður hefur rekist á við vötnin í gegnum tíðina. Skal þar fyrstan telja, bara þannig að hann verði ekki sár; Gore-TEX gæinn. Þessi veiðimaður stekkur fullskapaður fram úr opnu veiðitímaritsins, í nýjustu tegund vöðla og veiðijakka, með nýjustu, bestu og STÆRSTU veiðistöng allra tíma. Að vísu staldrar hann aðeins örstutta stund við, vatnið er of kalt, sólin of sterk, fiskurinn farinn eða áríðandi símtal barst í extra-delux-vatnshelda-farsímann sem hangir glannalega í veiðivestinu. Ég elska þessa veiðimenn, þeir halda bestu stöðunum svo sjaldan uppteknum lengi.

    fos_kf_ellidavatn
    Höfundur við Elliðavatn

    Jeppi á Fjalli er einnig í ákveðnu uppáhaldi hjá mér. Þetta er öflugur veiðimaður, vopnaður kaststöng og vílar ekkert fyrir sér. Mætir í klofstígvélum fram á vatnsbakkann, fer úr af ofan og veður út í vatnið þar til gjálfrar niður í stígvélin. Svo heyrir maður í línunni þar sem hún þýtur fram og flytur torkennilegt samblandi lífrænnar beitu og smurefnis á önglinum. Svo bíður hann sallarólegur, opnar einn bauk, svelgir hann í sig rétt í tæka tíð áður en hann landar stærsta fiski dagsins. Ótrúlegur veiðimaður af guðs náð.

    Samfélagsmiðillinn er líka nokkuð skemmtilegur gæi. Hann mætir á staðinn, byrjar á því að taka nokkrar sjálfur (selfies) af sér með vatnið í baksýn. Hann er mikið á félagsmiðlunum og veit nákvæmlega hvar og á hvaða flugu stærsti fiskurinn var tekinn, í gær. Yfirleitt er hann aldrei vopnaður sömu flugunni tvær veiðiferðir í röð, því alltaf rekst hann á einhverja nýja á milli ferða. Ég hef að vísu aldrei séð hann landa fiski, en hann er ótrúlega duglegur að taka glennumyndir af fiskum félaganna og pósta þeim á bráðsnjöllu veiðiappi sem hann er með á símanum. Hann miðlar af reynslu, annarra. Skemmtilegur gaur sem spyr mikils, en ég er ekki alltaf viss um að hann skilji svörin sem hann fær.

    Nýburinn er þessi sem er blautur á bak við eyrun, ekki vegna þess að það er rigning, heldur vegna þess að hann er nýbyrjaður í fluguveiðinni. Hann gefur sig sjaldnast á tal við nokkurn mann, getur verið mjög lengi að hnýta tauminn sinn og enn lengur að fá fluguhnútinn til að halda. Þetta er sá sem eldri veiðimenn elska að taka undir verndarvæng sinn, leiðbeina og styrkja í trúnni á sjálfan sig þannig að hann gefist ekki upp áður en fyrsta fiski er náð. Stundum finnst mér eins og ég sé ennþá þessi týpa.

    Gamlinginn er sjaldséður fugl, kannski vegna þess að hann fer orðið svo sjaldan í veiði og veiðir stutt í einu. En þegar hann mætir, þá veiðir hann af mikilli ánægju og jafnvel ánægjunni einni saman. Þessir karlar þekkja alla bestu staðina, eru óhræddir við að eftirláta þá öðrum því þeir einfaldlega vita af allt öðrum og enn betri stöðum. Þeir kasta margfalt lengra heldur en þú sjálfur en með helmingi minni fyrirhöfn. Flugan þeirra leggst fram af hógværð og stillingu, hnýtt á tauminn með hnút sem gæti verið eitt listaverka Michelangelo og sjálf flugan er úr sama ranni runnin. Takist mér að leika Nýbura í návist þessa manns, er ég í góðum málum. Hann er vís með að setjast niður með mér yfir kaffibolla og matarkexi og leiða mig í sannleikann um alla leyndardóma stangveiðinnar áður en kexpakkinn er búinn. Eftir spjall við svona veiðimann tekur veiðilífið yfirleitt töluverðum breytingum og róast verulega. Mig dreymir um að verða Gamlingi.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Stóriðja í Vatnadal

    13. nóvember 2016
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Nú fer harmasögn minni úr Vatnadal að ljúka. Þegar hér er komið sögu hefur mönnum tekist að útrýma bæði bleikju og urriða í Vatni. Laxastofninn í Miðá er hruninn og hálfum dalnum sökkt undir lón. Er þá ekki nóg komið af hörmungum? Nei, svo virðist ekki vera því rothöggið á villtu fiskistofnana er eftir. Það kemur í hlut sjókvíaeldis að veita náðarhöggið. Það stafar margþætt hætta af stórhuga áformum um sjókvíaeldi við Íslandsstrendur. Smithætta fisksjúkdóma, genamengun frá erlendum stofnum og mengun vegna lífræns úrgangs af stærðargráðu sem við höfum aldrei kynnst áður. Átak okkar í skólphreinsun má síns lítils í samanburði við þann óhemju úrgang sem fellur til við sjókvíaeldi. Enn og aftur er stefnt að því að færa hingað til lands iðnað sem er verið að úthýsa erlendis vegna sóðaskapar og hættu. Hér hefur stóriðjan tekið á sig nýja mynd, ekki síður hættuleg heldur en loft- og efnamengandi málmbræðslur.

    vatnadalur_4

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 74 75 76 77 78 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar