Flýtileiðir

Við erum af nokkrum gerðum

Hugtakið raunheimar hafa fengið nýja merkingu á síðustu árum. Raunheimar er sá veruleiki þar sem við getum snert á hlutum, tekið í höndina á kunningjunum og klappað þeim á bakið, hughreystandi eða af samúð þegar sá stóri sleppur. Netheimar bjóða okkur ekki upp á þessa nánd, en við getum svo sem átt vini þar eins og í raunheimum. Ég á nokkra svona netvini sem ég heilsa upp á reglulega, kíki á hvað þeir hafa fyrir stafni, svara þeirra hugleiðingum eða spyr þá ráða. Einn þessara netvina minna var að hefja silungsvertíðina um daginn, já, hann er hinu megin á hnettinum, Nýja Sjálandi nánar tiltekið.

Það var með nokkrum trega að ég las frásögn hans af þessum fyrsta degi. Hann lenti í ýmsu þennan dag og honum var nokkuð hugleikin ótrúleg framkoma veiðimanns sem varð á vegi hans. Ég sendi þessum netvini rafrænt klapp á bakið og tjáði honum að umrædd tegund veiðimanna væri einnig að finna hér norðanmegin á kúlunni. Þeir væru væntanlega til allan hringinn.

Að gamni mínu setti ég síðan saman þennan stubb um nokkrar gerðir veiðimanna sem maður hefur rekist á við vötnin í gegnum tíðina. Skal þar fyrstan telja, bara þannig að hann verði ekki sár; Gore-TEX gæinn. Þessi veiðimaður stekkur fullskapaður fram úr opnu veiðitímaritsins, í nýjustu tegund vöðla og veiðijakka, með nýjustu, bestu og STÆRSTU veiðistöng allra tíma. Að vísu staldrar hann aðeins örstutta stund við, vatnið er of kalt, sólin of sterk, fiskurinn farinn eða áríðandi símtal barst í extra-delux-vatnshelda-farsímann sem hangir glannalega í veiðivestinu. Ég elska þessa veiðimenn, þeir halda bestu stöðunum svo sjaldan uppteknum lengi.

fos_kf_ellidavatn
Höfundur við Elliðavatn

Jeppi á Fjalli er einnig í ákveðnu uppáhaldi hjá mér. Þetta er öflugur veiðimaður, vopnaður kaststöng og vílar ekkert fyrir sér. Mætir í klofstígvélum fram á vatnsbakkann, fer úr af ofan og veður út í vatnið þar til gjálfrar niður í stígvélin. Svo heyrir maður í línunni þar sem hún þýtur fram og flytur torkennilegt samblandi lífrænnar beitu og smurefnis á önglinum. Svo bíður hann sallarólegur, opnar einn bauk, svelgir hann í sig rétt í tæka tíð áður en hann landar stærsta fiski dagsins. Ótrúlegur veiðimaður af guðs náð.

Samfélagsmiðillinn er líka nokkuð skemmtilegur gæi. Hann mætir á staðinn, byrjar á því að taka nokkrar sjálfur (selfies) af sér með vatnið í baksýn. Hann er mikið á félagsmiðlunum og veit nákvæmlega hvar og á hvaða flugu stærsti fiskurinn var tekinn, í gær. Yfirleitt er hann aldrei vopnaður sömu flugunni tvær veiðiferðir í röð, því alltaf rekst hann á einhverja nýja á milli ferða. Ég hef að vísu aldrei séð hann landa fiski, en hann er ótrúlega duglegur að taka glennumyndir af fiskum félaganna og pósta þeim á bráðsnjöllu veiðiappi sem hann er með á símanum. Hann miðlar af reynslu, annarra. Skemmtilegur gaur sem spyr mikils, en ég er ekki alltaf viss um að hann skilji svörin sem hann fær.

Nýburinn er þessi sem er blautur á bak við eyrun, ekki vegna þess að það er rigning, heldur vegna þess að hann er nýbyrjaður í fluguveiðinni. Hann gefur sig sjaldnast á tal við nokkurn mann, getur verið mjög lengi að hnýta tauminn sinn og enn lengur að fá fluguhnútinn til að halda. Þetta er sá sem eldri veiðimenn elska að taka undir verndarvæng sinn, leiðbeina og styrkja í trúnni á sjálfan sig þannig að hann gefist ekki upp áður en fyrsta fiski er náð. Stundum finnst mér eins og ég sé ennþá þessi týpa.

Gamlinginn er sjaldséður fugl, kannski vegna þess að hann fer orðið svo sjaldan í veiði og veiðir stutt í einu. En þegar hann mætir, þá veiðir hann af mikilli ánægju og jafnvel ánægjunni einni saman. Þessir karlar þekkja alla bestu staðina, eru óhræddir við að eftirláta þá öðrum því þeir einfaldlega vita af allt öðrum og enn betri stöðum. Þeir kasta margfalt lengra heldur en þú sjálfur en með helmingi minni fyrirhöfn. Flugan þeirra leggst fram af hógværð og stillingu, hnýtt á tauminn með hnút sem gæti verið eitt listaverka Michelangelo og sjálf flugan er úr sama ranni runnin. Takist mér að leika Nýbura í návist þessa manns, er ég í góðum málum. Hann er vís með að setjast niður með mér yfir kaffibolla og matarkexi og leiða mig í sannleikann um alla leyndardóma stangveiðinnar áður en kexpakkinn er búinn. Eftir spjall við svona veiðimann tekur veiðilífið yfirleitt töluverðum breytingum og róast verulega. Mig dreymir um að verða Gamlingi.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com