Rétt eins og fleiri veiðimenn er ég farinn að leiða hugann að hnýtingum í vetur. Þessa dagana kemur það reyndar sífellt oftar fyrir að ég setjist niður við hnýtingarþvinguna og setji í eins og eina eða tvær flugur, ekkert endilega til að eiga, oftar til þess að prófa einhverja aðferð eða þá heila flugu sem ég hnýt um við lestur veiðitímarita. Í framhjá hlaupi má geta þess að töluverður fjöldi veiðitímarita er aðgengilegur hér á síðunni undir Vefrit og oft er að finna nýjar flugur inni á milli þekktari flugna í þessum tímaritum.
Ég hef verið að skoða svolítið s.k. soft hackle flugur upp á síðkastið. Þetta eru eiginlega flugurnar sem hófu þetta allt saman, ekki hjá mér heldur fluguveiði í árdaga þannig að þær eiga sér afskaplega langa sögu. Það eru nokkuð skiptar skoðanir á því hvort soft hackle flugur séu sérstakur flokkur eða bara tegund af votflugum. Sjálfur hallast ég að því síðar nefnda, einfaldlega vegna þess að það er oftar en ekki erfitt að gera greinarmun á hefðbundinni votflugu og soft hackle flugu.
Skemmtilegt staðreynd um soft hackle flugur er venjan sem skapast hefur um nafnagiftir þeirra. Nöfn þeirra eru yfirleitt samsett úr tegundarheiti fjaðrarinnar sem notuð er og litarins á búknum. Partridge and Green til dæmis er einfaldlega akurhæna og grænn búkur. Mér til mikillar ánægju voru menn ekkert endilega að velta sér upp úr því hvaða hráefni var notað í þessar flugur, ef hringvafið var úr akurhænu og búkurinn var grænn, þá var þetta Partridge and Green, ef búkurinn var appelsínugulur þá var þetta Partridge and Orange. Þess má geta að margar af upprunalegu soft hackle flugunum hafa gengið í endurnýjun lífdaga sem hefðbundnar votflugur með væng, skotti og skeggi.

Eins og sjá má af myndum þá eru þessar flugur einstaklega sparneytnar á hnýtingarefni og ákaflega einfaldar í útliti. Þetta telur Sylvester Nemes, höfundur The Soft Hackle Fly Addict einmitt vera mesta kost þessara flugna. Ekkert prjál, einfaldar í hnýtingu og ákaflega veiðnar, að hans sögn. Sjálfur hef ég ekki mikla reynslu af flugum sem þessum, það sem ég kemst næst reynslu af þeim eru þær votflugur sem ég hef hnýtt og notað sem hnýttar eru með hringvafi úr hænufjöður. Dettur mér þá fyrst í hug nokkrar Pheasant Tail sem ég hnýtti um árið og nota enn mikið. Að vísu skemmir það formúluna algjörlega að þær eru með kúluhaus og kannski full mikið af hráefnum í þeim. Búkurinn er of sver og allt of mikið í hann sett þannig að þær gætu talist til soft hackle flugna. Strangtrúarmenn í þessum fræðum vilja meina að búkurinn eigi að vera afskaplega grannur, vafningar ekki fleiri en þrír hringir og að hámarki þrjár tegundir hráefnis í honum.

Upphaflega voru algengustu fjaðrirnar sem notaðar voru í soft hackle flugur einmitt algengar, þ.e. þær sem féllu til þegar menn voru á fuglaveiðum og þá helst af akurhænu, hrossagauk, skógarhænu, fasana eða skógarsnípu. Það er næsta víst að maður yrði litinn hornauga ef maður mætti með hnakka af hrossagauk á hnýtingarkvöld í vetur.
Senda ábendingu