Ekki alls fyrir löngu átti ég gæðastund með nokkrum hnýturum úti í bæ þar sem við spjölluðum um allt milli himins og jarðar, innan flugufræðinnar þó. Mér finnst alltaf jafn gaman að eiga svona stundir og eins og gerist, þá teygðist á umræðuefninu í allar áttir og ýmislegt ber á góma. Meðal þess sem kom upp í þessari heimsókn minni var spurningin um það hvers vegna sumir önglar væru með augað uppsveigt og aðrir með það niðursveigt, já eða beint af augum.
Ég vona að ég hafi komið þessu þokkalega frá mér og þegar heim kom, þá tékkaði ég til vonar og vara í mínu efni hvort ég hefði ekki farið með rétt mál. Það er reyndar erfitt að segja að einhver rétt skýring sé á þessum mun króka. Sumir spekingar vilja meina að það sé í raun enginn munur á þessum önglum, þetta snúist miklu meira um smekk og venjur veiðimanna heldur en einhverjar rökréttar skýringar. Sjálfur hallast ég nú frekar að skýringum eðlisfræðinnar sem segja mér að þegar taumurinn togar í krók með uppsveigt auga, þá færist þyngdarpunktur flugunnar framar og aftari hluti flugunnar lyftist meira heldur en sá fremri, þ.e. flugan heldur sér því næst 180° í vatninu þótt hún rísi aðeins í vatnsbolnum. Sem sagt; slíkar flugur synda lárétt í vatninu. Nú veit ég ekkert hvort laxmenn séu viljandi að sækjast eftir þessu, en þær flugur sem kallaðar hafa verið laxaflugur eru yfirleitt hnýttar á króka með uppsveigt auga. En þarna getur svo sem einhver hefð verið að kallast á við eðlisfræðina.
Þegar flugur eru hnýttar á króka með niðursveigt auga, snýst dæmið aftur á móti við. Þyngdarpunktur flugunnar færist aftar, hausinn rís meira heldur en skottið og því stefna þessar flugur meira í áttina upp að yfirborðinu, á móti afli taumsins.
En hvað þá með króka sem horfa beint af augum? Jú, átak taumsins kemur beint á krókinn og þyngdarpunkturinn færist næstum ekkert til, þær fljóta í láréttu plani og því hafa margir valið þessa króka í þurrfluguhnýtingar.
Senda ábendingu