FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Þrjár tegundir eða fjórar?

    8. febrúar 2017
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Þurrflugur, púpur og straumflugur. Þarf þetta að vera eitthvað flóknara? Mér hefur verið tíðrætt um þá upplifun mína frá fyrstu dögum fluguveiðinnar þegar ég vafraði um netið og skoðaði allar straumflugurnar, t.d. frá Ray Bergman og stórbrotnar klassískar laxaflugur eins og þessar. Svo kíkti maður á allar flottu þurrflugurnar og púpurnar.

    Þrjár tegundir flugna, ekki satt? Nei, ég vil gjarnan halda mig við fjórflokkunina. Eins og ég upplifði í Skotlandi s.l. haust þegar ég heimsótti Edinburgh Angling Center, þá er fjórði flokkurinn enn við góða heilsu þótt hann hafi farið hallloka fyrir púpuástríðu vestrænna veiðimanna hin síðari ár, votflugurnar lifa, meira að segja þokkalega góði lífi ennþá.

    Hluti flugubarsins í Edinburgh Angling Centre
    Hluti flugubarsins í Edinburgh Angling Centre

    Ef eitthvað er að marka umfjöllun og úrval þurrflugna í þessari stærstu veiðiverslun Bretlandseyja, þá eru þær vinsælastar allra flugna sem eru á boðstólum. Næstar á eftir þeim koma klassískar votflugur og þeim er haldið vel aðskildum frá öllum púpunum sem eru þar á boðstólum. Held reyndar að ég hafi aldrei séð annað eins úrval og fjölda af púpum í einni verslun. Fæstar tegundir voru af straumflugum og hreint og beint engar gamlar klassískar laxaflugur eins og maður glápti úr sér glyrnurnar yfir hér um árið. Ég geri mér reyndar þokkalega grein fyrir að þær séu meira til hátíðarbrigða hjá hnýturum heldur en til daglegs brúks.

    Eigum við síðan eitthvað að ræða úrval hnýtingarefnis í þessari stórverslun? Nei, það tekur því ekki. Íslenskar veiðiverslanir hafa hreint ekkert að skammast sín fyrir þegar kemur að úrvali hnýtingarefnis.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Vetrarverk

    6. febrúar 2017
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Um þessar mundir eru þeir forföllnu að hnýta eins og enginn sé morgundagurinn. En hvað verður svo um allar þessar flugur, það er að segja áður en þær fara í vatn? Fyrir einhverjum árum síðan var ég spurður, í fullri alvöru held ég, hvað ég gerði eiginlega við allar þessar flugur sem ég hnýtti, kannski 10 stk. af þeirri sömu. Ég þarf nú ekki að týna nema 5 og þá er ég lens, ég hnýti nefnilega fyrir tvo veiðimenn.

    Eins þjál og meðfærileg og litlu fluguboxin geta verið, meira að segja suma þeirra á fleiri en tveimur hæðum, þá yrði fjöldi þeirra óviðráðanlegur ef ég ætlaði að koma öllum mínum flugum fyrir í þeim. Þess í stað flokka ég flugurnar gróflega niður í geymsluboxin mín og er með 2-3 minni box í vestinu sem ég fylli reglulega á eða skiptu um þemu í eftir því sem sumrinu vindur fram.

    fos_flugubox_all
    Fluguboxin

    Hvaða reglu sem veiðimenn hafa á boxunum sínum ætti að vera undir hverjum og einum komið. Hver um sig verður að finna hentugustu aðferðina þannig að nokkuð víst sé að hann finni ákveðna flugu þegar eftir henni er sóst. Umfram allt mæli ég með því að flokka flugurnar, ekki hafa allt í belg og biðu. Mín flokkun er ekki flókin; púpur, votflugur, þurrflugur og straumflugur. Það segir væntanlega sína sögu að ég er með tvö púpubox sem er skipt eftir þemalitum púpa. Vestisboxin eru aftur á móti þrjú; púpur, vot- og straumflugur og þurrflugur. Hvað þarf maður meira?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Lokaður og uppsveigður

    4. febrúar 2017
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Í fyrravetur hnýtti ég nokkrar tegundir votflugna, svona til þess að eiga í boxinu ef mér sýndist sem svo að nota þær s.l. sumar. Það fór nú reyndar þannig að flestar þeirra fóru undir í einhvern tíma og nokkrar þeirra færðu mér fisk. Þegar ég mætti á eitt hnýtingarkvöldið í mínu veiðifélagi, fékk ég ábendingu frá góðum vini mínum þess efnis að ef ég hnýtti vænginn uppsveigðan, þá kæmi hún mér síður að notum í vatnaveiðinni. Uppsveigður vængur væri heppilegri í straumvatni heldur en kyrru.

    Lokaður vængur, uppsveigður endi
    Lokaður vængur, uppsveigður endi

    Ég hafði reyndar heyrt þetta áður og tengdi þetta helst við það hvort vængurinn væri hástæður á flugunni, þ.e. hvort hann vísaði meira upp heldur en lægi með önglinum. Þegar ég fór á stúfana og las mér til um þetta, þá kom náttúrulega í ljós að fluguspekingar eru alls ekki á eitt sáttir þegar kemur að væng á hefðbundinni votflugu. Þegar ég skoðaði teikningar Edgar Burk frá því um miðja síðustu öld, þá voru allar flugurnar hans með uppsveigðan, lokaðan væng. Flestar flugur Ray Bergman frá þessum árum voru hnýttar á sama hátt. Kannski var þetta tískan á þessum tíma. Hvað um það, ég er alveg sáttur við að nota hástæðan væng í straumvatni og lágstæðan væng í vatnaveiðinni eins og félagi minn benti mér á.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ljótar flugur eru ekki verri

    1. febrúar 2017
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Eflaust hafa einhverjir lenti í því að þurfa að kaupa sér flugu og komist síðan að því að hún veiddi ekkert og entist svo í þokkabót ekki neitt heldur. Ég hóf reyndar tiltölulega snemma að hnýta mínar flugur sjálfur, þannig að ég get ekki kennt neinum um þegar þær veiða ekkert og endast skemur en það tekur að hnýta þær á tauminn. En hvað er það eiginlega sem skilur góðu flugurnar frá hinum?

    Ending flugu er auðvitað eitthvað sem menn vilja að sé þokkaleg, ekki síst þegar þeir hafa gefið 200 – 400 kr. fyrir stykkið. En ending og ending er ekki það sama. Af mínum athugunum að dæma, þá fer urriðinn verr með flugu heldur en bleikjan, en helst er það nú veiðimaðurinn sjálfur sem fer verst með fluguna. Ég hef verið með sömu fluguna á taumi og veitt 40 bleikjur í beit á hana, svo lengi sem ég athuga reglulega ástand taums og hnúta. Ef ég aftur á móti læt undir höfuð leggjast að athuga með hnútinn reglulega, þá er því nú þannig farið með mig og mín sígandi bakköst að ég næ ekki marktækri niðurstöðu í talninguna áður en ég verð að hnýta nýja flugu á í staðinn fyrir þá sem slapp af fyrir aftan mig eða skaust fram úr tauminum í framkastinu.

    Síðan hefur það komið fyrir að ég egni fyrir urriða með svipaðri flugu, þ.e. sömu tegund og fyrir bleikjuna, eins hnýtta og úr sama hráefni, en aðeins náð að taka fjóra urriða á hana áður en hún er komin í tætlur og ekki fiski bjóðandi. Hér set ég varnagla, það hefur einnig komið fyrir að hef verið að veiða flugu svo lengi að hún er öll komin í tætlur, eiginlega ekkert eftir af henni annað en krókurinn, einhverjar efnisdruslur og spottar hingað og þangað út í loftið. Á slíka flugu hef ég tekið fjölda fiska þrátt fyrir bágborið ástand hennar, kannski einmitt vegna þess. Veiðni flugu snýst ekki síst um það hverju hún líkist og þrátt fyrir að fluga sé slétt og felld í hnýtingarþvingunni okkar, þá getur hún afmyndast verulega þegar í vatn er komin.

    Þegar ég skoða flugur í veiðiverslunum, hvort heldur í rekka eða í vafra á netinu, þá horfi ég helst á hlutföll flugunnar. Ef flugu er ætlað að líkja eftir einhverju vængjuðu kvikindi, þá verða vængirnir að vera sem næst í réttri lengd m.v. búk og sverleika. Veiðiflugan er e.t.v. fallegri eins og hnýtarinn lagði hana frá sér, en það er alls ekki víst að fiskurinn sé á sama máli. Ergo; flugan er falleg en ekki góð. Ég hef enn þá trú á silunginum að hann leiti eftir sköpulagi skortdýra, ekki því úr hvaða hráefni eftirlíkingin er hnýtt eða hún líti vel út í augum okkar mannskepnunnar.

    fos_blackghostinarow_big

    Svo eru þessar flugur sem við hnýtum í fullkomlega óraunverulegum hlutföllum. Sem dæmi um slíkar flugur er t.d. Dog Nobbler eða Damsel. Þegar við erum sáttir og losum þær úr hnýtingarþvingunni, þá eru þetta bossamiklar flugur með ofgnótt marabou í skottinu, sundurnagaða vaskakeðju á hausnum og glitofinn, loðinn búk, jafnvel í einhverjum afkáralegum bleikum lit sem er eiginlega ekki til í skordýraflórunni. Ef þú, lesandi góður, hefur ekki prófað að dýfa slíkri flugu í vatn, draga hana fram og til baka í eldhúsvaskinum, þá er tími til kominn. Marabou bossinn verður eiginlega ekki að neinu, næstum beint strik aftan af flugunni, búkurinn verður alls ekki eins loðinn og efni standa til og allt glysið hverfur inn á milli fjaðranna. Og ef vel tekst til, þá er vaskakeðjan eins og augu hornsílis eða seiðis. Allt þetta óraunhæfa er horfið og í staðinn er kominn lítill fiskur sem getur hoppað og skoppað fyrir fram svangan silunginn, engt hann til töku.

    En hvað með frágang flugunnar? Ég hef alveg heyrt að menn segja flugu ljóta þegar þeim ofbýður magn og áferð lakks. Sjálfur hef ég í einhvern tíma sagt eitthvað á þessa leið, en getur ljót fluga samt ekki verið góð? Það eru væntanlega meiri líkur á að viðkomandi fluga endist þokkalega ef hún er augljóslega vel lökkuð. Falleg fluga og góð eru alls ekki það sama. Það eru líka til þær flugur sem mér finnast einfaldlega mjög ljótar að sköpulagi. Þetta eru meira að segja vinsælar flugur meðal silungsveiðimanna, ég nefni enginn nöfn, hvorki á flugum né veiðimönnum, sem ég set næstum aldrei undir. Það er eins og einhver pjattrófa togi í höndina á mér í hvert skipti sem hún nálgast ákveðnar flugur í boxinu mínu og færir hana í átt að einhverri sem mér finnst fallegri. Einmitt, ég stend sjálfan mig að því að velja fallega flugu umfram góða. Verst hvað hvað silungurinn er oft alls ekki á sama máli og ég.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Það lyktar öðruvísi

    30. janúar 2017
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Það hefur komið fyrir á þessu heimili að það hafi slegið fyrir laufléttri lykt þegar stöng hefur verið dregin upp úr hólki einhverjum dögum eftir veiðiferð. Það þarf alls ekki að þýða að eitthvað stórkostlegt sé að stönginni þótt hún ilmi ekki eins vel og venjulega. Örsmár blóðdropi eða slím af fiski nægir til þess að gefa frá sér nokkuð sterka lykt eftir einhvern tíma í lokuðum hólki. Hafi manni yfirsést eitthvað slíkt þegar stönginni var pakkað niður, þá er sjaldnast hundrað í hættunni.

    Verra er það þegar stangirnar fara rennandi blautar í hólkinn og ekki teknar fram til þurrks þegar heim er komið. Þá er von á öllu erfiðari lykt, myglu. Myglan getur myndast bæði í pokanum utan um stöngina og í korkinum. Ég mundi nú ekki gráta lengi ef ég þyrfti að henda pokanum, verra þætti mér ef myglan tæki sér bólfestu í korkinum. Það þarf reyndar nokkuð öfluga myglu til að eyðileggja korkinn, í flestum tilfellum er hægt að þrífa hann upp og gera sem nýjan án mikillar fyrirhafnar.

    fos_cork_handle
    Handfangið

    Byrjum á smá inngangi, korkur er ekki viður, heldur börkur og hann þolir alls ekki öll sterku hreinsiefnin sem manni dettur fyrst í hug. Best er að byrja á mildum efnum eins og t.d. venjulegri lyktarlausri handsápu og sjá hvort ekki náist allt líf úr korkinum með henni og svampi. Ef það dugar ekki, þá má færa sig í yfir í öflugari græjur; sandpappír númer 240 eða 360, volgt vatn og sömu handsápuna. Raunar renni ég reglulega yfir korkinn með fínum vatnspappír til að jafna hann ef upp úr honum hefur hoggist. Ef sandpappír og handsápa duga ekki, þá er þörf á einhverju enn öflugara, einhverju sem drepur sveppi. Sumir hafa notað 10% klórblöndu, sem reyndar lýsir korkinn aðeins, en ég hef notað 10% blöndu af Rodalon þar sem það drepur einnig óæskilega lykt. Lengra hef ég ekki þurft að fara í aðgerðum til að losna við óþef úr korki, en get ímyndað mér að ef þetta dugi ekki, þá sé eins gott að leita sér að nýju handfangi á stöngina.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Öðruvísi flugur

    25. janúar 2017
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Vatnabjöllur hér á landi eru ekki margar, mér skilst að hér finnist aðeins 6 tegundir. Þekktust er væntanlega brunnklukkan, þá fjallaklukkan og svo vatnaklukkan. Almennt er ekki talið að bjöllur skipi stórar sess í fæðu silungsins og því kom mér nokkuð á óvart að sjá í fluguboxi veiðimanns nokkrar haganlega hnýttar bjöllur. Allar voru þær hnýttar úr ljósu, brúnu og svörtu frauði, með og án fálmara/lappa.

    Mér láðist að spyrja þennan ágæta veiðimann hvort hann hefði í nokkurn tíma veitt á þessar flugur og þá sérstaklega vegna þess að þær voru greinilega hannaðar með það fyrir augum að fljóta á yfirborðinu frekar en sökkva.

    Myndir fengnar að láni frá Fullingmill – fullingmill.co.uk
    Myndir fengnar að láni frá Fullingmill – fullingmill.co.uk

    Eftir því sem ég ég kemst næst, þá halda klukkur sig helst á og við botn kyrrstæðra vatna, nema þá e.t.v. vatnaklukkan sem getur fundist í straumlitlum lækjum og smærri ám. Að vísu taka klukkur sig stundum til, synda upp að yfirborðinu, stinga afturendanum örlítið upp úr og draga loft inn undir skjöldinn. Þær snúa reyndar snarlega til botns aftur og halda sig þar eða svamla um neðarlega í vatnsbolnum. E.t.v. ætti maður að prófa nokkrar svona og eiga tiltækar ef maður verður var við mikla bjölluumferð næsta sumar. Sjáum til þegar ég verð búinn að hnýta allar hinar sem eru á listanum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 71 72 73 74 75 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar