Vatnabjöllur hér á landi eru ekki margar, mér skilst að hér finnist aðeins 6 tegundir. Þekktust er væntanlega brunnklukkan, þá fjallaklukkan og svo vatnaklukkan. Almennt er ekki talið að bjöllur skipi stórar sess í fæðu silungsins og því kom mér nokkuð á óvart að sjá í fluguboxi veiðimanns nokkrar haganlega hnýttar bjöllur. Allar voru þær hnýttar úr ljósu, brúnu og svörtu frauði, með og án fálmara/lappa.
Mér láðist að spyrja þennan ágæta veiðimann hvort hann hefði í nokkurn tíma veitt á þessar flugur og þá sérstaklega vegna þess að þær voru greinilega hannaðar með það fyrir augum að fljóta á yfirborðinu frekar en sökkva.

Eftir því sem ég ég kemst næst, þá halda klukkur sig helst á og við botn kyrrstæðra vatna, nema þá e.t.v. vatnaklukkan sem getur fundist í straumlitlum lækjum og smærri ám. Að vísu taka klukkur sig stundum til, synda upp að yfirborðinu, stinga afturendanum örlítið upp úr og draga loft inn undir skjöldinn. Þær snúa reyndar snarlega til botns aftur og halda sig þar eða svamla um neðarlega í vatnsbolnum. E.t.v. ætti maður að prófa nokkrar svona og eiga tiltækar ef maður verður var við mikla bjölluumferð næsta sumar. Sjáum til þegar ég verð búinn að hnýta allar hinar sem eru á listanum.