Flýtileiðir

Ljótar flugur eru ekki verri

Eflaust hafa einhverjir lenti í því að þurfa að kaupa sér flugu og komist síðan að því að hún veiddi ekkert og entist svo í þokkabót ekki neitt heldur. Ég hóf reyndar tiltölulega snemma að hnýta mínar flugur sjálfur, þannig að ég get ekki kennt neinum um þegar þær veiða ekkert og endast skemur en það tekur að hnýta þær á tauminn. En hvað er það eiginlega sem skilur góðu flugurnar frá hinum?

Ending flugu er auðvitað eitthvað sem menn vilja að sé þokkaleg, ekki síst þegar þeir hafa gefið 200 – 400 kr. fyrir stykkið. En ending og ending er ekki það sama. Af mínum athugunum að dæma, þá fer urriðinn verr með flugu heldur en bleikjan, en helst er það nú veiðimaðurinn sjálfur sem fer verst með fluguna. Ég hef verið með sömu fluguna á taumi og veitt 40 bleikjur í beit á hana, svo lengi sem ég athuga reglulega ástand taums og hnúta. Ef ég aftur á móti læt undir höfuð leggjast að athuga með hnútinn reglulega, þá er því nú þannig farið með mig og mín sígandi bakköst að ég næ ekki marktækri niðurstöðu í talninguna áður en ég verð að hnýta nýja flugu á í staðinn fyrir þá sem slapp af fyrir aftan mig eða skaust fram úr tauminum í framkastinu.

Síðan hefur það komið fyrir að ég egni fyrir urriða með svipaðri flugu, þ.e. sömu tegund og fyrir bleikjuna, eins hnýtta og úr sama hráefni, en aðeins náð að taka fjóra urriða á hana áður en hún er komin í tætlur og ekki fiski bjóðandi. Hér set ég varnagla, það hefur einnig komið fyrir að hef verið að veiða flugu svo lengi að hún er öll komin í tætlur, eiginlega ekkert eftir af henni annað en krókurinn, einhverjar efnisdruslur og spottar hingað og þangað út í loftið. Á slíka flugu hef ég tekið fjölda fiska þrátt fyrir bágborið ástand hennar, kannski einmitt vegna þess. Veiðni flugu snýst ekki síst um það hverju hún líkist og þrátt fyrir að fluga sé slétt og felld í hnýtingarþvingunni okkar, þá getur hún afmyndast verulega þegar í vatn er komin.

Þegar ég skoða flugur í veiðiverslunum, hvort heldur í rekka eða í vafra á netinu, þá horfi ég helst á hlutföll flugunnar. Ef flugu er ætlað að líkja eftir einhverju vængjuðu kvikindi, þá verða vængirnir að vera sem næst í réttri lengd m.v. búk og sverleika. Veiðiflugan er e.t.v. fallegri eins og hnýtarinn lagði hana frá sér, en það er alls ekki víst að fiskurinn sé á sama máli. Ergo; flugan er falleg en ekki góð. Ég hef enn þá trú á silunginum að hann leiti eftir sköpulagi skortdýra, ekki því úr hvaða hráefni eftirlíkingin er hnýtt eða hún líti vel út í augum okkar mannskepnunnar.

fos_blackghostinarow_big

Svo eru þessar flugur sem við hnýtum í fullkomlega óraunverulegum hlutföllum. Sem dæmi um slíkar flugur er t.d. Dog Nobbler eða Damsel. Þegar við erum sáttir og losum þær úr hnýtingarþvingunni, þá eru þetta bossamiklar flugur með ofgnótt marabou í skottinu, sundurnagaða vaskakeðju á hausnum og glitofinn, loðinn búk, jafnvel í einhverjum afkáralegum bleikum lit sem er eiginlega ekki til í skordýraflórunni. Ef þú, lesandi góður, hefur ekki prófað að dýfa slíkri flugu í vatn, draga hana fram og til baka í eldhúsvaskinum, þá er tími til kominn. Marabou bossinn verður eiginlega ekki að neinu, næstum beint strik aftan af flugunni, búkurinn verður alls ekki eins loðinn og efni standa til og allt glysið hverfur inn á milli fjaðranna. Og ef vel tekst til, þá er vaskakeðjan eins og augu hornsílis eða seiðis. Allt þetta óraunhæfa er horfið og í staðinn er kominn lítill fiskur sem getur hoppað og skoppað fyrir fram svangan silunginn, engt hann til töku.

En hvað með frágang flugunnar? Ég hef alveg heyrt að menn segja flugu ljóta þegar þeim ofbýður magn og áferð lakks. Sjálfur hef ég í einhvern tíma sagt eitthvað á þessa leið, en getur ljót fluga samt ekki verið góð? Það eru væntanlega meiri líkur á að viðkomandi fluga endist þokkalega ef hún er augljóslega vel lökkuð. Falleg fluga og góð eru alls ekki það sama. Það eru líka til þær flugur sem mér finnast einfaldlega mjög ljótar að sköpulagi. Þetta eru meira að segja vinsælar flugur meðal silungsveiðimanna, ég nefni enginn nöfn, hvorki á flugum né veiðimönnum, sem ég set næstum aldrei undir. Það er eins og einhver pjattrófa togi í höndina á mér í hvert skipti sem hún nálgast ákveðnar flugur í boxinu mínu og færir hana í átt að einhverri sem mér finnst fallegri. Einmitt, ég stend sjálfan mig að því að velja fallega flugu umfram góða. Verst hvað hvað silungurinn er oft alls ekki á sama máli og ég.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com