FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Fram og til baka

    3. maí 2017
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Þar kom að því, loksins grein á þessari síðu sem er ekki aðeins ætluð þeim sem hafa brennandi áhuga á fluguveiði. Það hljóta að vera ákveðin tímamót fyrir hvern einasta fluguveiðimann þegar hann fær spurninguna; Hvers vegna eruð þið að þessu, fram og til baka áður en þið kastið út?  Ég varð virkilega upp með mér þegar ég fékk þessa spurningu, loksins einhver sem kom auga á grundvallaratriðið innan um allt þetta nördalega sem maður hefur látið frá sér.

    fos_vm_hlidarvatn
    Við Hlíðarvatn í Selvogi

    Fram og til baka er náttúrulega bara einu sinni, en svo er þetta endurtekið, aftur og aftur og aftur. Eiginlega oftar en nokkur maður nennir að telja. Hvert er eiginlega markmiðið með þessu? Jú, í stuttu máli þá snýst þetta um:

    • Stundum gera menn þetta til að lengja í köstunum. Sjáðu til, flugan hefur enga þyngt og því þurfum við að sveifla línunni fram og til baka, lengja svolítið í henni í hverju kasti, alveg þangað til við teljum okkur ekki ráða lengur við línuna og leggjum hana niður. Neðanmál fyrir flugunörda: Lærðu tvítogið almennilega þannig að þú þurfir ekki að falskasta svona oft.
    • Stundum langar okkur að setja fluguna niður á ákveðinn stað og þá þurfum við að sveifla línunni fram og til baka. Við erum eiginlega að máta hvar flugan lendir, færum hana aðeins til eða lengjum örlítið í til að ná á ákveðinn stað. Neðanmál fyrir flugunörda: Æfðu nákvæmnina umfram lengdarköst þannig að þú þurfir ekki að falskasta svona oft.
    • Stundum erum við að þurrka fluguna áður en við leggjum hana út á vatnið, það er nú svo einfalt. Neðanmál fyrir flugunördana: Ekkert við þessu að gera, nema þá bera eitthvert undraefni á þurrfluguna sem hryndir frá sér vatninu þannig að við þurfum ekki að falskasta svona oft.

    Þegar ég var búinn að skýra þetta út, kom spurning nr.2, En af hverju? Góð spurning sem aðeins er eitt gott svar við; Þetta er svo rosalega skemmtilegt.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Listaverk

    1. maí 2017
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Listar eru í uppáhaldi hjá mér. Helst vildi ég hafa lista yfir allt sem ég hef gert og á eftir að gera. Þegar daglegum yfirlestri greina af veiðilistanum mínum er lokið, innlenda fréttalistanum stungið undir stól og pólitíska listanum hent í ruslafötuna, þá kemur alveg fyrir að ég gúgla einhverja samsetningu úr top tips, fishing, todo list og þá er nú nokkrum klukkustundum reddað.

    fos_bleikjutaka
    Þegar vel gengur

    Margir af þessum dásamlegum listum sem maður hrasar um á internetinu eru óttalega mikil vitleysa, en það kemur iðulega fyrir að maður rekst á eitthvað sem síast inn og eitt og eitt atriði hangir eftir í langtímaminninu. Ég tók það til dæmis sem mjög ákveðna vísbendingu um daginn þegar ég hrasaði í hundraðasta skiptið um lista yfir algengustu villur í flugukasti. Aha, eru æðri máttarvöld eitthvað að senda mér skilaboð? Meðal þess sem var á nokkrum þessara lista voru atriði eins og:

    • Skortur á samfellu í bakkastinu. Algeng villa hjá veiðimönnum að byrja bakkastið eðlilega, hinkra samt aðeins við á einhverjum tímapunkti og halda svo áfram í eðlilegu bakkasti. Það tók mig smá tíma að melta þetta og skilja. Jú, þetta kemur stundum fyrir þegar stöngin hjá mér er alveg að nálgast 12 á kastklukkunni, þá hægist á kastinu en svo gef ég aftur í 12:15 og alveg til kl.13.
    • Tilfinnanlegur skortur á aftara stoppi. Óþarfi að ræða þetta eitthvað frekar.
    • Úlnliðurinn opnast út í bakkastinu. Já, einmitt, úlnliðurinn. Hann er veikur hjá mér en ég hafði kannski ekki gefið því gaum að hann brotnar ekki aðeins aftur á bak, heldur sveigist hann líka út á við í bakkastinu, toppur stangarinnar fylgir þá ekki lengur beinum ferli, hann verður ávalur.
    • Framhandleggurinn ofvirkur í kasti. Já, þótt þessi partur á milli handar og upphandleggs heiti fram-eitthvað, þá á hann ekkert að vera með í framkastinu. Það er upphandleggurinn sem á að sjá um kastið. Sérlega slæmt þegar framhandleggurinn vísar orðið beint fram í enda kastsins og úlnliðurinn kominn í keng til að halda stangartoppinum upp úr vatninu.
    • Engin pása á milli fram- og bakkasts. Ætli ég verði ekki að taka þetta örlítið til mín, hef stundum heyrt í kúski á bak við mig með svipu.

    Ef þú hefur fundið eitt eða fleiri atriði á þessum lista sem átt gætu við þig þá er það gott, annars verður þetta þá bara minn listi sem ég ræðst á núna í vor og lagfæri.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Naflaskoðun

    26. apríl 2017
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Hver og einn fluguveiðimaður ætti að setja sér eigin viðmið um hve langt hann vill ganga í að fínpússa kaststílinn sinn, þetta er í það minnsta mín skoðun. Ég hef margoft bent á að það sé hverjum manni holt að leita sér aðstoðar og álits kastkennara ef köstin eru í tómu tjóni eða ef óeðlilegrar þreytu verður vart við veiðar. Ef einhver verður þreyttur á því að veiða, þá er eitthvað að sem þarf að laga.

    Mannfólkið er misjafnlega gert og sumir veigra sér við að fá beint álit annarra á kastinu. Ég bý reyndar svo vel að veiðifélagi minn setur reglulega ofaní við mig ef köstin hjá mér fara út yfir öll velsæmismörk ásamt því að ég er í félagsskap þar sem allt, og þá meina ég allt, er látið fjúka sem menn koma auga á hjá félögunum. Þar sem ég er viðkvæm sál og vildi undirbúa mig fyrir kastæfingar í vor með félögunum, tók ég mig til, stillti myndavélinni minni á þrífót og tók nokkur skot af sjálfum mér að framan og á hlið að kasta. Nú veit ég hvar skóinn kreppir, hvað þarf að laga og get svarað félögunum fullum hálsi þegar þeir skjóta á mig.

    Brotinn úlnliður
    Brotinn úlnliður

    Kveikjan að þessari hugmynd minni voru nokkrar klippur sem ég tók s.l. sumar með myndvélina klemmda á bringuna. Mér til hryllings brá kasthendinni reglulega fyrir þar sem úlnliðurinn brotnaði í bakkastinu og handleggurinn dinglaði út og suður í framkastinu. Ekki furða að maður varð þreyttur eftir nokkra klukkutíma í veiði og línuferillinn var ekki beinn.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að hvíla

    24. apríl 2017
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Þegar fiskurinn hefur verið að sýna sig og þú hefur fengið þín tækifæri án þess að ná honum, þá er væntanlega rétt að hinkra við og þá meina ég að hinkra alveg við. Ekki kasta bara einhverjum flugum í sífellu á meðan þú veltir vöngum hvað gera skuli næst.

    Ég prófaði þetta svolítið á sjálfum mér í sumar. Í stað þess að þrælast í gegnum allt boxið, kasta í sífellu og draga inn með mismunandi hætti, þá hætti ég alveg og fór að snuddast í tauminum, athuga með hnútana og velti á meðan fyrir mér, og þá mér einum, öllum þeim flugum sem ég hafði prófað með mismunandi hætti.

    Örlítil uppitaka
    Örlítil uppitaka

    Að hvíla vatnið smá stund er yfirleitt ágæt hugmynd og gerir bæði veiðimanni og fiski gott. Fiskurinn getur alveg orðið hvektur á endalausu áreiti ef hann er í mjög ákveðnu æti. Það er ekki þar með sagt að hann víki sér undan hlaðborðinu sem er til staðar, en ef hann verður sífellt truflaður á matmálstímum af einhverju sem hann hefur engan áhuga á, þá er eins og það byggist upp ónæmi hjá honum fyrir þeim flugum sem maður kastar fyrir hann. Svo er líka bara ágætt að líta upp, virða fyrir sér sjóndeildarhringinn og dást að umhverfinu. Bregða á leik og geta sér til um hvort það sé fiskur að vaka þarna í fjarska, hvað ætli hann sé að éta? Það er aldrei að vita nema það skjóti einhverri flugu fyrir hugskotssjónir. Já, þessi gengur örugglega. Setja hana undir og reyna aftur við þann sem ekkert vildi.

    Ef fiskurinn er aftur á móti ekkert í ákveðnu æti, liggur bara fyrir eða sólar bara á sér uggana, þá getur verið lag að standa við og reyna allar flugur í boxinu þangað til hann bregst við.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Flugu á hvers manns disk

    19. apríl 2017
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Þeim fer fækkandi hárunum á höfði mér, en þau eru enn það mörg að ekki er hægt að telja öll þau ör sem ég varð mér úti um sem snáði. Flest þeirra fékk ég áður en ég náði fullu valdi á hamri sem mér áskotnaðist. Með æfingunni urðu síðan hamarshöggin nákvæmari, naglarnir urðu fyrir flestum höggunum og hausinn fékk frið.

    Svipað var þessu farið með fluguköstin mín, það var ekki fyrr en með nokkurri æfingu að hausinn á mér fékk frið fyrir flugunum, en enn má bæta nákvæmnina. Mín upplifun af kastæfingum er raunar því marki brennd að yfirleitt taka menn til við að þenja flugustöngina til að ná ekki síðri lengdarköstum heldur en næsti maður. Þar er ég sjálfur enginn undantekning sem er miður því ég ætti frekar að einbeita mér að nákvæmi í fluguköstum heldur en lengd þeirra. Í vor ætla ég að hafa eftirfarandi atriði í huga þegar ég fer og hitti veiðifélagana og tek nokkur köst.

    fos_pract_one
    Uppstilling fyrir æfingu

    Ég ætla að taka með mér 3-4 frisbee diska á kastæfingu og stilla þeim upp á víxl í ákveðnum fjarlægðum. Ágætt að byrja á 7, 10, 12 og 15 metrum. Æfa mig síðan í að hitta diskana með flugunni, einn af öðrum með hefðbundu yfirhandarkasti. Byrja á þeim sem er næstur mér og fikra mig smátt og smátt áfram þar til ég næ þeim sem er fjærst.

    Þessa æfingu má þyngja og útfæra eins og hvern listir. T.d. setja sér þá reglu að eftir að hafa hitt ákveðinn disk, breyta þá til og takmarka kastið við upptöku + eitt falskast + hitta eða skipta um kast eftir að hafa náð öllum diskunum, nota undirhandarkast eða snúa baki í diskana og hitta þá í bakkastinu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Kjánaprik

    17. apríl 2017
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Kjánaprik finnast víða. Stöngin sem ég festi myndavélina mína á gengur undir heitinu kjánaprik. Fyrsta flugustöngin mín gengur líka undir heitinu kjánaprik og með því priki kynntist ég mörgum öðrum kjánaprikum sem létu glepjast af fyrstu flugunum mínum.

    Stundum hef ég verið að velta því fyrir mér hvað gangi eiginlega á þegar bleikjan er að skoppa þetta í vatnsborðinu, rekur upp haus og eyrugga og við hátíðleg tækifæri kemur hún öll upp úr vatninu. Til að byrja með hélt ég að þetta væru bara litlu kjánaprikin að leika sér, en þegar betur var að gáð, þá kom í ljós að þetta voru líka stæðilegir fiskar, reynsluboltar sem fá skyndilega þessa þörf til að stökkva upp úr vatninu. Mér sjáanlega var ekkert sérstakt æti á ferð og ekki var um sjógöngufisk að ræða sem var að reyna að losa sig við laxalús. Ég hef líka séð þetta háttalag í vatni þar sem aðeins er kuðungableikja, hvorki ránbleikja né urriði sem gæti hafa verið að hrekkja hástökkvarana.

    Þessi stökk af góðri og gildri ástæðu
    Þessi stökk af góðri og gildri ástæðu

    Oftast hef ég séð þetta háttarlag nokkuð vel utan kastfæris og þá verður manni oft hugsað til skýringarinnar sem segir að fiskar stökkvi vegna þess að þeir eru ekki með neina fingur. Þetta er þeirra leið til að rétta veiðimanninum fingurinn af því hann nær ekki til þeirra.

    Mér skilst reyndar að þetta háttarlag sé fiski, rétt eins og öðrum dýrum, sé einfaldlega eðlislægt. Það er skemmtilegt að hoppa og þeir einfaldlega ráða ekkert við þessa þörf sem hleðst upp innra með þeim og því einfaldlega láta þeir undan og stökkva upp úr vatninu. Hvers vegna stekkur þá ekki mannskepnan í tíma og ótíma? Ætli það tengist ekki því að við höfum fjarlægst uppruna okkar og þykjumst yfir það hafin að gera hluti af því bara og njóta þess. Ég stekk þegar mér sýnist, helst á öll tækifæri til að komast í veiði og komast þannig nær náttúrunni, þaðan sem ég á uppruna minn að rekja. Ég er örugglega kominn af rándýrum, ekki grasbítum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 67 68 69 70 71 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar