Kjánaprik finnast víða. Stöngin sem ég festi myndavélina mína á gengur undir heitinu kjánaprik. Fyrsta flugustöngin mín gengur líka undir heitinu kjánaprik og með því priki kynntist ég mörgum öðrum kjánaprikum sem létu glepjast af fyrstu flugunum mínum.
Stundum hef ég verið að velta því fyrir mér hvað gangi eiginlega á þegar bleikjan er að skoppa þetta í vatnsborðinu, rekur upp haus og eyrugga og við hátíðleg tækifæri kemur hún öll upp úr vatninu. Til að byrja með hélt ég að þetta væru bara litlu kjánaprikin að leika sér, en þegar betur var að gáð, þá kom í ljós að þetta voru líka stæðilegir fiskar, reynsluboltar sem fá skyndilega þessa þörf til að stökkva upp úr vatninu. Mér sjáanlega var ekkert sérstakt æti á ferð og ekki var um sjógöngufisk að ræða sem var að reyna að losa sig við laxalús. Ég hef líka séð þetta háttalag í vatni þar sem aðeins er kuðungableikja, hvorki ránbleikja né urriði sem gæti hafa verið að hrekkja hástökkvarana.

Oftast hef ég séð þetta háttarlag nokkuð vel utan kastfæris og þá verður manni oft hugsað til skýringarinnar sem segir að fiskar stökkvi vegna þess að þeir eru ekki með neina fingur. Þetta er þeirra leið til að rétta veiðimanninum fingurinn af því hann nær ekki til þeirra.
Mér skilst reyndar að þetta háttarlag sé fiski, rétt eins og öðrum dýrum, sé einfaldlega eðlislægt. Það er skemmtilegt að hoppa og þeir einfaldlega ráða ekkert við þessa þörf sem hleðst upp innra með þeim og því einfaldlega láta þeir undan og stökkva upp úr vatninu. Hvers vegna stekkur þá ekki mannskepnan í tíma og ótíma? Ætli það tengist ekki því að við höfum fjarlægst uppruna okkar og þykjumst yfir það hafin að gera hluti af því bara og njóta þess. Ég stekk þegar mér sýnist, helst á öll tækifæri til að komast í veiði og komast þannig nær náttúrunni, þaðan sem ég á uppruna minn að rekja. Ég er örugglega kominn af rándýrum, ekki grasbítum.
Senda ábendingu