Hver og einn fluguveiðimaður ætti að setja sér eigin viðmið um hve langt hann vill ganga í að fínpússa kaststílinn sinn, þetta er í það minnsta mín skoðun. Ég hef margoft bent á að það sé hverjum manni holt að leita sér aðstoðar og álits kastkennara ef köstin eru í tómu tjóni eða ef óeðlilegrar þreytu verður vart við veiðar. Ef einhver verður þreyttur á því að veiða, þá er eitthvað að sem þarf að laga.
Mannfólkið er misjafnlega gert og sumir veigra sér við að fá beint álit annarra á kastinu. Ég bý reyndar svo vel að veiðifélagi minn setur reglulega ofaní við mig ef köstin hjá mér fara út yfir öll velsæmismörk ásamt því að ég er í félagsskap þar sem allt, og þá meina ég allt, er látið fjúka sem menn koma auga á hjá félögunum. Þar sem ég er viðkvæm sál og vildi undirbúa mig fyrir kastæfingar í vor með félögunum, tók ég mig til, stillti myndavélinni minni á þrífót og tók nokkur skot af sjálfum mér að framan og á hlið að kasta. Nú veit ég hvar skóinn kreppir, hvað þarf að laga og get svarað félögunum fullum hálsi þegar þeir skjóta á mig.

Kveikjan að þessari hugmynd minni voru nokkrar klippur sem ég tók s.l. sumar með myndvélina klemmda á bringuna. Mér til hryllings brá kasthendinni reglulega fyrir þar sem úlnliðurinn brotnaði í bakkastinu og handleggurinn dinglaði út og suður í framkastinu. Ekki furða að maður varð þreyttur eftir nokkra klukkutíma í veiði og línuferillinn var ekki beinn.
Senda ábendingu