Þeim fer fækkandi hárunum á höfði mér, en þau eru enn það mörg að ekki er hægt að telja öll þau ör sem ég varð mér úti um sem snáði. Flest þeirra fékk ég áður en ég náði fullu valdi á hamri sem mér áskotnaðist. Með æfingunni urðu síðan hamarshöggin nákvæmari, naglarnir urðu fyrir flestum höggunum og hausinn fékk frið.
Svipað var þessu farið með fluguköstin mín, það var ekki fyrr en með nokkurri æfingu að hausinn á mér fékk frið fyrir flugunum, en enn má bæta nákvæmnina. Mín upplifun af kastæfingum er raunar því marki brennd að yfirleitt taka menn til við að þenja flugustöngina til að ná ekki síðri lengdarköstum heldur en næsti maður. Þar er ég sjálfur enginn undantekning sem er miður því ég ætti frekar að einbeita mér að nákvæmi í fluguköstum heldur en lengd þeirra. Í vor ætla ég að hafa eftirfarandi atriði í huga þegar ég fer og hitti veiðifélagana og tek nokkur köst.

Ég ætla að taka með mér 3-4 frisbee diska á kastæfingu og stilla þeim upp á víxl í ákveðnum fjarlægðum. Ágætt að byrja á 7, 10, 12 og 15 metrum. Æfa mig síðan í að hitta diskana með flugunni, einn af öðrum með hefðbundu yfirhandarkasti. Byrja á þeim sem er næstur mér og fikra mig smátt og smátt áfram þar til ég næ þeim sem er fjærst.
Þessa æfingu má þyngja og útfæra eins og hvern listir. T.d. setja sér þá reglu að eftir að hafa hitt ákveðinn disk, breyta þá til og takmarka kastið við upptöku + eitt falskast + hitta eða skipta um kast eftir að hafa náð öllum diskunum, nota undirhandarkast eða snúa baki í diskana og hitta þá í bakkastinu.
Senda ábendingu