FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Ekki svo vitlaus

    22. maí 2017
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Það hefur stundum verið sagt um silunginn að hann sé nú ekki eins vitlaus og veiðimennirnir vilja vera láta. Hvort sem það eru nú vitsmunir eða eðlislæg viðbrögð silungsins, þá tekur hann stundum upp á því að skipta um stefnu í miðri viðureign. Fer frá hægri til vinstri, vinstri til hægri eða það sem kemur veiðimanninum oftast í opna skjöldu, beint í fangið á honum.

    fos_urridi2016b
    Skarpari heldur en margur heldur

    Ég er í svolitlum vafa um hvort ég eigi að segja að fiskurinn víki sér yfirleitt undan sársaukanum því ekki eru allir veiðimenn sammála því að fiskur hafi sársaukaskyn. Sumir segja að hann víki sér undan þrýstingnum, átakinu þegar flugan festist í honum og togar hann í ákveðna átt. Við getum í það minnsta verið sammála um fiskurinn víkur sér undan flugunni, hver sem ástæðan er. Ef hann tekur nú á rás í áttina frá okkur, þá herðum við á en þá getur fiskurinn tekið upp á því að snúa sér í 180° og stefna beint á okkur. Þá er eins gott að vera viðbúin og ná að taka allan óþarfa slaka af línunni því annars getur flugan losnað úr fiskinum. Ábending til veiðimanna; verið ekkert að reyna að spóla línunni inn á hjólið undir þessum kringumstæðum, dragið hana inn með höndunum, það tekur yfirleitt allt of langan tíma að gera það með hjólinu. Ég hef sagt þetta áður og segi það enn, kannski vegna þeirra sem hafa sloppið hjá mér undir þessum kringumstæðum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Tröllasaga

    17. maí 2017
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Annað slagið heyrir maður alveg bráðskemmtilegar sögur af veiðimönnum sem leggja af stað í veiði með það fyrir augum að setja í nokkra matfiska en enda á því að taka þann stóra, stærsta eða óhugnanlegasta, alveg óvart. Ég kannast svo sem við það að fá ákveðin fisk á ólíklega flugu, þokkalegan urriða á Þingvöllum þegar ég var að egna með púpu #14 fyrir bleikju eða átta punda urriða á #14 votflugu í svo litlum læk að aðeins pundarar hefðu átt að komast fyrir í honum.

    Mér kemur því ekki til hugar að draga sögur sem þessar í efa og þegar maður heyrir af einhverjum sem setti hefur í 14 punda fisk á þristinn sinn, þá fyllist maður aðdáun yfir færni hans að landa fiskinum og halda stönginni í heilu lagi. En, beri svo undir að maður sjái ljósmynd af skrýmslinu á bakkanum með tungsten þyngda straumflugu #2 í öðru munnvikinu og stöng #3 við hliðina, þá víkur mín aðdáun fyrir einhverju allt öðru.

    fos_urridaspordur
    Hvað ætli þessi sé stór?

    Á bak við flestar flugustangir liggur töluverð hönnunarvinna. Stundum er sú vinna unnin með ótrúlega flóknum verkfræðilegum útreikningum sem ég kann ekki að nefna og stundum er hún einfaldlega gerð af hyggjuviti og reynslu þess sem hannar. Hvor aðferðin sem notuð er, þá miða þær að því að framleiða stöng sem er ákveðnum eiginleikum búin til að koma línu af ákveðinni þyngd út á vatnið. Línan ber síðan fluguna og flugan verður að passa línu og þar með stöng.

    Léttar stangir, þ.e. þær sem hannaðar hafa verið fyrir línuþyngd 2 – 4 búa sjaldnast að því afli sem þarf til að bera stórar straumflugur út á vatnið. Vissulega er hægt að nota létta stöng til að slæma flugu af hvað stærð og sköpulagi sem er út á vatnið. En oft verður maður beinlínis hræddur í nágrenni við tilfæringar þar sem veiðimaður er að reyna að hafa stjórn á stórri flugu með stöng sem í besta falli ræður við litlar púpur eða þurrflugur. Hver þekkir ekki máltækið; Að skjóta mýflugu með fallbyssu ? Ég þekki aftur á móti engan málshátt sem segir eitthvað um að skjóta fíl með baunabyssu. Að nota búnað sem ekki passar agni, hvað þá fiski, er ákveðið virðingarleysi við bráðina. Afl léttrar stangar er aldrei þannig að hægt sé að taka á stórum fiski eins og þarf til að draga ekki viðureignina óþarflega á langinn. Þetta á sérstaklega við ef um er að ræða fisk sem á að sleppa að viðureign lokinni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hvað er þetta?

    16. maí 2017
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Á tyllidögum eru Íslendingar fremstir meðal jafningja og langsamlega fremstir þegar miðað er við höfðatölu, um það er sjaldnast deilt. Við erum framsækin og áræðin þegar því er að skipta, útsjónarsöm og raungóð að upplagi. En svo eigum við það einnig til að kokgleypa beituna þegar engt er fyrir okkur með aurum og krónum, sama hver súr og úldin beitan er.

    Vinnufélagi minn er nýkominn heim úr hjólaferð um Cotswold á Englandi og þar rakst hann á þessa perlu og í gær greip hann mig á ganginum, sýndi mér þessa mynd og spurði ,Veistu hvað þetta er?‘ Mig rak í rogastans og rétt svar kom mér svo á óvart að ég ætla að velta þessari spurningu áfram til ykkar, lesendur góðir. Vitið þið hvað þetta er?

    Mynd: Árni Ragnar Stefánsson

    Myndin gefur til kynna að þetta er veðursæll staður, grænn og gróskumikill og eitthvað er af vatni þarna enda staðurinn rétt við bakka árinnar Coln í samnefndum dal. Þorpið heitir  Bibury og er miðja vegu á milli Bristol og Coventry. En hvað er þetta eiginlega?

    Jú, þetta er fiskeldisstöð og hreint ekki ný af nálinni. Þarna hefur urriði verið ræktaður frá árinu 1902 þegar Arthur Severn kom stöðinni á fót. Í dag nær þessi fiskeldisstöð yfir 15 ekrur lands og hún framleiðir allt að 6 milljónir seiða á ári sem sleppt er í ár og læki víðsvegar um England.

    Ef einhver á leið um þessar slóðir, þá er það vel þess virði að koma við í Bibury Trout Farm og skoða hvernig hægt er að koma á fót fiskeldi í landluktum tjörnum, fella þau svo að umhverfinu að hvergi ber skugga á, hvorki frá fagurfræðilegu sjónarmiði né náttúruvernd. Það sem meira er um vert, þarna gefst gestum kostur á að renna fyrir silung gegn vægu gjaldi, ekki amalegt það. Þetta er frábært dæmi um fiskeldi á landi sem gengur upp og er eitthvað allt annað og meira en bara matvæla- og stóriðja. Kannski væri okkur nær að líta til smærri og vistvænni eininga í fiskeldi hér á landi heldur en þeirra gallsúru norsku risalausna sem matreiddar hafa verið sem veisluréttir fyrir okkur. Þetta er að vísu engin töfralausn á fæðuvandamáli heimsins, en það eru nú fyrirhugaðar eldisstóriðjur á Íslandi ekki heldur. Þetta er einfaldlega lítil og nett lausn sem hljómar betur og er fegurri ásýndum heldur en fyrirhugaðar stóriðjur fyrir vestan og norðan. Mikið vildi ég óska að við Íslendingar hefðum kjark og þor til að leita úrbóta í atvinnumálum hinna dreifðu byggða á þessum nótum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Er best að byrja á straumflugu?

    15. maí 2017
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Ég byrjaði stangveiði eins og svo margir aðrir á því að veiða með færi niðri á bryggju. Þar sem ég ólst upp var ekki mikið um að ufsi, ýsa eða þorskur væru að flækjast í höfninni þannig að fyrstu fiskarnir mínir voru koli og marhnútur. Síðar færði maður sig eitthvað upp á skaftið, leitaði vestur fyrir þorpið í átt að Ölfusá og alveg vestur í ós þar sem birtingar og smálaxar gerðu vart við sig. Veiðiskapurinn einkenndist af maðki undir flot eða á pungsökku sem grýtt var eins langt út og stöngin og girnið leyfði.

    Þegar svo veiðiáhuginn endurnýjaðist, mörgum árum síðar, var nærtækast að taka upp þráðinn þar sem ég hafði sleppt honum sem unglingur. Aftur varð beita fyrir valinu og fjárfest í góðri kaststöng og til að krydda aðeins veiðiferðirnar og hafa eitthvað að gera, þá var fjárfest í ýmsum tegundum af spúnum. Málið er nefnilega að mér leiddist svolítið beituveiðin. Ég er ekki greindur maður, þ.e. mér hefur aldrei verið fundinn staður í stafrófinu og flokkaður virkur, með einhvern brest eða röskun, mér einfaldlega leiðist aðgerðarleysi og það sem verra er, þegar mér leiðist, þá leiðist ég öðrum.

    fos_spunar2_big
    Þessir hafa hvílt sig í nokkur ár

    Fluguveiði var svarið fyrir mig. Þetta er óþrjótandi brunnur afþreyingar fyrir þann sem leiðist auðveldlega. Miðað við ágæta grein sem ég las um daginn eftir Andy McKinley hjá Duranglers vestur í Colorado, þá byrjaði ég reyndar á kolvitlausum flugum. Ég hefði átt að byrja á straumflugu, ekki púpu eða votflugu. Straumflugan er miklu nær spúnaveiðinni, þaðan sem mín leið lá og því hefði ég skv. áliti Andy átt að byrja fluguveiðina með straumflugu. Og svo kom gullkornið sem ég hnaut um; there is no wrong way to fish a streamer. Einmitt, það er enginn leið að veiða straumflugu á rangan hátt. Jæja, blessaður karlinn hefur ekki glímt við kræsna bleikju í Veiðivötnum, sem leggur bara hreint ekki til atlögu við bleikan nobbler nema hann sér dreginn inn á nákvæmlega réttum hraða, á nákvæmlega réttu dýpi og með nákvæmlega réttu handtökunum. Annars get ég alveg samþykkt það, að straumfluguveiði er e.t.v. rökrétt fyrsta val þeirra sem leiðist orðið beituveiðinn eins og mér, hafa fært sig yfir í spúna og spunakróka til að hafa eitthvað fyrir stafni. Kannski ég kíki aðeins á straumfluguboxið mitt í sumar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ekkert gauf

    10. maí 2017
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Þegar maður lítur um öxl og rifjar upp kynni sín af fiskunum sem sluppu, þá koma nokkrum sinnum upp í huga mér þeir sem nýttu sér tækifærið á meðan maður var að gaufa eitthvað með línuna. Ég hef svo sem veitt það marga fiska um ævina að ég get ekki haldið því fram að ég sjái á eftir þeim sem hafa sloppið, en ég sé aftur á móti stundum eftir því að hafa verið að brasa eitthvað með línuna þegar ég átti að hafa hugann við fiskinn eftir töku.

    fos_fluguhjol3_big
    Umfram allt, línugeymsla

    Mér skilst að það séu með algengari mistökum silungsveiðimanna að fara að spóla línunni inn á hjólið í miðri viðureign í stað þess að hafa hugann við fiskinn. Það er nú sjaldnast svo að maður setji í þannig fisk að mikið reyni að bremsuna á fluguhjólinu eða þörf á að nota hana yfir höfuð. Vel að merkja, ég eltist ekki við hitaveituurrða á Þingvöllum sem ná víst 10 kg. eða meira í þyngd og því dugir mér yfirleitt að bregða línunni á milli fingra og korks til að halda við þegar fiskurinn tekur á rás og því ætti maður sjaldnast að hafa miklar áhyggjur af því að spóla línunni inn í miðri viðureign. Í það minnsta ætti maður að vera alveg viss um að flugan sé trygg áður en maður fer að gaufast við þetta.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hjarðhegðun

    8. maí 2017
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Nú ætti eiginleg allt að vera að gerast, sumarið sprettur fram undan síðustu vorhretunum og vötnin taka við sér hver af öðru. Þó enn sé nokkur tími í að rollum verði hleypt á fjall, er þegar farið að gæta ákveðinnar hjarðhegðunar þar sem örlítil græn slikja er farin að sýna sig. Veiðimenn streyma hver af öðrum í svipaðar áttir, nálgast hvorn annan af varúð á veiðistað, það er aldrei að vita hvernig næsti maður er að koma undan vetri.

    Það hefur lengi viljað loða við þennan þriðjung þjóðarinnar, þ.e. stangveiðimenn að þeir sækja á sína staði og þá sérstaklega ef sá staður hefur gefið sérstaklega vel, áður fyrr. Vitaskuld eru ákveðin vötn sem koma fyrst undan vetri og ekkert óeðlilegt að þangað flykkist veiðimenn fyrst á sumrin. En þar með er veiði ekki gefin, hún er nánast ekki einu sinni sýnd þessar fyrstu vikur sumars. Samt er það svo að þegar maður lítur yfir sjóndeildarhringinn við ákveðin vötn, þá er engu líkara en aðeins einn staður gefi þessa dagana við hvert þeirra.

    fos_saudur
    Einmana sauður

    Eins og sauðirnir hafa lært í gegnum aldirnar, þá þarf stundum að hafa svolítið fyrir því að finna fyrstu grænu tuggur sumarsins og alls ekki víst að forystusauðurinn hafi alltaf rétt fyrir sér hvar hana er að finna. Þeir eru til sem stendur slétt á sama hvort þeir eru kallaðir villuráfandi, þeir kljúfa sig frá hjörðinni og leita fanga þar sem eðlisávísunin segir þeim að grasið geti verið grænna. Stundum gengur þetta upp hjá þeim, stundum ekki, en oftar en ekki eru þetta feitustu sauðirnir í hjörðinni þegar kemur að því að hleypt er á fjall þegar sumarið hefur endanlega gengið í garð. Ég leita yfirleitt veiði snemmsumars á þeim stöðum þar sem hjarðirnar hafa ekki troðið svörðinn. Stundum gengur það upp, stundum ekki, en ég græði alltaf eitthvað á því að breyta út af vananum. Ykkur er alveg frjálst að kalla mig villuráfandi, ég fitna af fleiru en fiskum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 66 67 68 69 70 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar