Þegar maður lítur um öxl og rifjar upp kynni sín af fiskunum sem sluppu, þá koma nokkrum sinnum upp í huga mér þeir sem nýttu sér tækifærið á meðan maður var að gaufa eitthvað með línuna. Ég hef svo sem veitt það marga fiska um ævina að ég get ekki haldið því fram að ég sjái á eftir þeim sem hafa sloppið, en ég sé aftur á móti stundum eftir því að hafa verið að brasa eitthvað með línuna þegar ég átti að hafa hugann við fiskinn eftir töku.

Mér skilst að það séu með algengari mistökum silungsveiðimanna að fara að spóla línunni inn á hjólið í miðri viðureign í stað þess að hafa hugann við fiskinn. Það er nú sjaldnast svo að maður setji í þannig fisk að mikið reyni að bremsuna á fluguhjólinu eða þörf á að nota hana yfir höfuð. Vel að merkja, ég eltist ekki við hitaveituurrða á Þingvöllum sem ná víst 10 kg. eða meira í þyngd og því dugir mér yfirleitt að bregða línunni á milli fingra og korks til að halda við þegar fiskurinn tekur á rás og því ætti maður sjaldnast að hafa miklar áhyggjur af því að spóla línunni inn í miðri viðureign. Í það minnsta ætti maður að vera alveg viss um að flugan sé trygg áður en maður fer að gaufast við þetta.