FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Út frá miðjunni

    29. janúar 2018
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Mér varð það áberandi ljóst í sumar að kastið mitt fylgir ekki beinni línu. Raunar þurfti ég ekki að kafa neitt sérstaklega mörg ár aftur í tímann til að finna sannanir fyrir þessu vandamáli mínu, það hefur viðgengist svo árum skiptir. Ég tók mig því til um daginn og fletti þessu upp hjá Fly Fishers International og víðar í því skyni að leita mér hjálpar og úrræða til bóta. Upp á ensku kallast þetta vandamál poor tracking og er þá vísað til þess að línan fylgir ekki beinni línu í kastátt. Í stuttu máli, þá snýst vandamálið um að línan skælist út frá beinni línu eða tekur sveig á leiðinni annað hvort til hægri eða vinstri. Þetta vandamál virðist ekki bundið við ákveðinn stað í ferli línunnar, það getur komið snemma fram á leiðinni, rétt áður en línan lendir og allt þar á milli. Mitt vandamál kemur berlega í ljós rétt áður en línan lendir og hefur aðeins áhrif á stefnu síðustu 6 – 12 feta hennar.

    Ástæða þessa er sögð vera sú að framhandleggur veiðimannsins leitar út til annarrar hvorrar hliðar í framkastinu. Þessi hægri eða vinstri hreyfing skilar sér vitaskuld alveg fram í stöngina, færir toppinn til sömu hliðar og þannig erfist þessi færsla út í línuna og hún tekur sveig.

    Ef þú hefur minnsta grun um að þú eigir við eitthvað afbrigði þessa vandamáls að glíma, þá er einfalt að finna út úr þessu og þá á hvaða tímapunkti handleggurinn leitar út til hliðar. Náðu þér í áberandi bandspotta og strengdu hann á jörðina, c.a. 20 metra og stattu þannig við hann að kasthöndin sé yfir spottanum. Þegar þú hefur náð 10 – 20 metra falskasti yfir spottanum, legðu línuna niður eins og í veiði. Stikaðu síðan að þeim punkti sem línan byrjar að  sveigjast. Gefum okkur að kastið hafi náð 15 metrum og línan byrjar að sveigja af leið í 12 metrum. Með grófri nálgun má segja að höndin á þér hafi þá vikið frá beinni línu þegar hún átti fimmtung eftir úr efstu stöðu að stoppi (12/15 = 0,8). Með sömu nálgun má segja að höndin víki frá beinni línu þegar þú hefur fært hana þriðjung frá efstu stöðu ef sveigur línunnar byrjar við 5. metra (5/15 =  0,33).

    En hvað er þá til ráða? Jú, haltu spottanum á jörðinni en færðu þig á miðju hans og taktu helmingi styttri falsköst undir vökulu auga með bak- og framkastinu. Vandaðu kastið og einbeittu þér að því að hafa höndina alltaf yfir spottanum. Ef línan heldur áfram að sveigja þótt höndin fylgi spottanum, þá er úlnliðurinn að brotna út til hliðar í kastinu. Einbeittu þér að úlnliðnum, halda honum stífum og þá ætti línan að ferðast í línu við spottann. Haltu áfram að æfa þetta þangað til vöðvaminnið hefur tekið við og vistað lagfæringuna varanlega.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Tómt fyllerí

    24. janúar 2018
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Enn er mér í fersku minni undrun mín þegar ég um árið heyrði á tal tveggja einstaklinga sem ræddu hjónabandserfiðleika þess þriðja. Kannski er ég að hætta mér út á mjög hálan ís með þessum hugleiðingum mínum, en ég ætla að láta kyn þessara einstaklinga liggja á milli hluta því þetta gætu hafa verið tvær konur, tveir karlar eða af hvoru kyni fyrir sig. Hvað um það, þessir einstaklingar ræddu meinta ástæðu fyrir skilnaði hjóna og upp úr stóð sú ástæða að annar aðilinn hafði verið svo heltekinn af veiðidellu og meðfylgjandi drykkjuskap að ekki varð við unað og framfærsla hjónanna leið fyrir eyðslu viðkomandi í veiðileyfi og áfengi. Nú er ég ekki betur tengdur veiðimönnum en svo að ég þekki frekar fáa veiðimenn sem eiga við áfengisvandamál að stríða, hvorki í veiði né einkalífi, þannig að ég hjó sérstaklega eftir þessu og spurði hvort þessir aðilar leggðu það að jöfnu að óregla og stangveiði væru órjúfanlegur hluti í þeirra augum. Svarið var samhljóða og þótti mér það miður; Já, það er alltaf tómt fyllerí á veiðimönnum.

    Ef svo ólíklega vill til að einhver lesandi kannast við það vandamál að taka áfengi framyfir góðan veiðibúnað langar mig til að vekja athygli á eftirfarandi:

    Oftar en ekki eru menn að bögglast með lélega tauma, matta og hoggna tauma sem eru til eilífra vandræða. Þokkalega góður taumur kostar á bilinu 700 til 1900 krónur, ígildi tveggja til fjögurra 500ml bjórdósa. Drekktu aðeins minna og keyptu þér nýjan taum ef hann er að hrekkja þig.

    Oft hefur maður séð veiðimenn þenja flugustangirnar til að koma lélegri línunni út til fisksins. Að setja verðmiða á flugulínur getur verið snúið. Flugulínur eru afleidd trúarbrögð eingyðistrúar á veiðigyðjuna og því getur verðmiðinn á hefðbundinni flotlínu verið frá 4.000,- kr. og alveg upp í 16.000,- kr. Það getur því í besta falli verið spurning um eina kippu af bjór og upp í það að kosta sama og 18 ára Dalmore viskí. Sama hvort er, þá er maður örugglega betur settur með góða flugulínu.

    Flugulínuna spólar maður inn á veiðihjól. Ef hjólið er orðið slitið og snjáð (já, maður má vera pjattaður líka) þá er kostnaðurinn á bilinu 6.000,- kr. og upp í hvað þau nú eiginlega kosta þessi dýrustu sem ég skoða aldrei. En fyrir tvær kippur af bjór er örugglega hægt að fá ágætt silungsveiðihjól, jafnvel með spólum til skiptanna.

    Hjólið festir maður á stöng og sú þarf að passa viðkomandi veiðimanni og vera af þokkalegum gæðum. Takið eftir að gæði og tegund eiga ekkert endilega saman. Margar af því sem sumir kalla ómerkilegri tegundum, gefa þekktum vörumerkjum ekkert eftir og kosta oft mun minna. Sjálfur er ég óttalegur nískupúki og eyði aldrei meiri pening en sem nemur einni til tveimur 18 ára viskíflöskum í veiðistöng og er bara nokkuð sáttur.

    Eins og ég sagði áður, þá má maður líka vera pjattaður. Veiðivesti utan yfir lopapeysuna mína þarf ég líka og þau sem ég á eru í ódýrari kantinum, þessi sem ég get stungið í þvottavélina ef mér sýnist og nenni. Held örugglega að ég hafi fengið tvenn vesti á útsölu um árið fyrir andvirði einnar rútu af bjór.

    Ýmislegt smálegt þarf síðan að finnast í veiðivestinu eins og t.d. taumaklippur, taumaefni, veiðihnífur og töng. Allt þetta má örugglega fá fyrir andvirði eins og annarrar rútu af bjór, þannig að þegar allt er talið þá eru veiðigræjur sjálfsögð forvörn gegn ofdrykkju og sjálfsagt að hrekja þetta fyllerístal veiðimanna og eyða bara meiru í græjur. Læt ég hér staðar numið, enda baukurinn minn tómur og ég þarf að ná mér í annan.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Skammtímaminni

    22. janúar 2018
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Um daginn var ég að lesa eina af þessum milljón ‚bestu leiðina‘ grein á netinu. Greinin fjallaði um grundvallaratriði þess að veiða í vötnum. Ágæt grein að mörgu leiti og ég renndi snarlega yfir innganginn, las þokkalega kaflann um að velja sér línu miðað við á hvaða dýpi fiskurinn væri í æti og svo kom að kaflanum um mismunandi inndrátt. Alveg ágætur kafli þar sem greinarhöfundur mælti með því að byrja á ákveðnum inndrætti en skipta ótt og títt um aðferð þangað til fiskurinn tæki fluguna. Ætli maður hafi ekki komið einhverju álíka að hér á síðunni, nema þá helst að ég hef ekki lagt eins mikla áherslu á að skipta mjög ört um inndrátt.

    Ég varð nefnilega að staldra aðeins við þegar ég kom að þessum kafla. Mjög ört? Hvað ætli það sé oft eða öllu heldur hve oft ætlaðist höfundurinn til að maður breytti inndrættinum? Jú, svarið koma þarna inn á milli þar sem hann sagðist breyta inndrættinum fyrir hvert kast sem hann tæki á fiskinn. Jahá, þessi góði maður hefur þróað sitt skammtímaminni á einhvern annan veg heldur en mér hefur tekist. Orðskýringin á skammtímaminni á Wikipedia er; Skammtímaminni er geta til að muna fáa hluti í mjög stuttan tíma. Einmitt, mitt skammtímaminni dugar aðeins í mjög stuttan tíma og það sem verra er, ef ég þarf að hafa hugann við eitthvað ákveðið sem tekur örum breytingum (mismunandi inndráttur) þá tekst mér sjaldnast að muna stundinni lengur hver síðasta breytingin var. Ef ég væri bókstafstrúarmaður (skýring: þeir sem trúa á bókastafi sem notaðir eru við greiningar á ýmsum persónuleikaröskunum) þá gæti ég örugglega skreytt mig með BSM sem stendur fyrir brigðult skammtímaminni.

    Til að vinna bug á þessum ágalla, þá hef ég búið mér til ákveðna rullu af mismunandi inndrætti og það sem meira er, ég hugsa fyrst um hraðann og svo afbrigði inndráttar. Þessi rulla er mikið til föst í kollinum á mér og við hverja tegund hef ég smellt nokkrum laglínum í mismunandi takti, allt frá argasta pönki og  niður í vögguvísur. Lagavalið skiptir í raun ekki máli, það er takturinn sem þarf að vera HRM (hratt, rólega, miðlungs). Þessa rullu nota ég síðan endurtekið á mismunandi inndrætti sem ég einkenni með BSK (beinn, stopp, kippir).

    Nú veit ég ekki hvort þessi aðferð gagnast einhverjum öðrum en mér, en ég læt hana í það minnsta flakka hér áður en ég leita mér aðstoðar vegna þessarar persónuleikaröskunar sem ég er greinilega haldinn. Mér skilst að ég sé með AFFN (alveg forfallinn fluguveiði nörd).

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • UV eða ekki UV?

    17. janúar 2018
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Eftir að ég laumaði hér inn um daginn smá grein um UV prófanir mínar, þá var ég inntur ítrekað eftir því hvers vegna ég væri að þessu. Einhverjir félaga minna sögðu mér hreint út að þetta væri tóm steypa, bara til þess gerð að selja okkur flugunördunum eitthvað sem gerði ekkert gagn. Var þá helst verið að vísa í ljómandi virkni UV fluorcent líms, þ.e. það ætti að ljóma í vatninu fyrir tilstuðlan minni birtu.

    Það var nú ekki svo ég hafi ekki verið búinn að kynna mér ýmsar greinar um þetta galdraefni áður en ég fór að prófa mig áfram og vitaskuld var ég búinn að lesa ýmsa dóma um UV ljómandi efni. Margir þeirra endurspegluðu einmitt ofangreint viðmót, en aðrir mæltu eindregið með því að prófa. Sjálfur hef ég prófað annað ljómandi efni heldur en UV lím í gegnum tíðina og það verður nú bara að segjast, mér finnst það virka betur en hefðbundið þegar degi fer að halla og í gruggugu vatni.

    Það skemmir væntanlega ekki að hafa kynnt sér aðeins hvernig sjón laxfiskar hafa áður en menn drepa svona nýjungar í fæðingu. Í fæðingu er e.t.v. heldur ofaukið hjá mér, þetta efni hefur verið á markaðnum í fjölda ára og margir notað það þótt það hafi aðeins nýlega ratað inn á mitt borð.

    Urriði og bleikja hafa ekkert óáþekka sjón og við mennirnir og þeir greina liti, sem mér skilst að sé ekkert endilega sjálfgefið í dýraríkinu. Að vísu greina þessar tegundir ekki alveg nákvæmalega sömu liti og við, en mjög nálægt því samt. Þetta ættum við flugunördarnir að vita vegna þess að broddur, kragi eða skott í áberandi lit á flugu hefur oft gefið mun betur en einlit og flöt fluga. Að þessu sögðu verð ég samt að geta þess að sköpulag (útlínur) flugunnar hefur töluvert að segja, rétt eins og skörp litaskil í flugu.

    Litrófið

    Manskepnan er með s.k. RGB sjón, þ.e. við skynjum ljós af rauðri (R) bylgjulengd, grænni (G) og blárri (B). Þannig eru nú augun í okkur gerð og ef við viljum sjá eitthvað annað, þá verðum við að styðjast við einhverjar græjur sem umbreyta þeirri bylgjulengd yfir á R, G eða B, rétt eins og á myndinni hér að ofan þar sem við blöndum R og B saman til að fá fjólublánn lit. Með þeim fyrirvara að ég er ekki líffræði- eða læknismenntaður, þá ræður samspil fruma í sjónhimnu okkar og keila í auga því hvað við sjáum. Þegar ljós fer þverrandi, þá eykst virkni þessara frumna þannig að við greinum útlínur en litaskynjun hrakar snarlega. Þetta er einfaldlega vegna þess að keilurnar sem skynja RGB þurfa ákveðna birtu til til að virka og þegar öll birta þverr verðum við litblind og á endanum hætta frumurnar að virka og við verðum alblind.

    Upp úr 1882 komu fyrstu vísbendingar fram um að dýr skynji aðrar bylgjulengdir ljóss heldur en menn. Það ljós sem kemur næst RGB er það útbjólubláa (UV) og rannsóknir á því hvernig dýr bregðast við þessu ljósi sýndu að t.d. margar tegundir fiska skynja þetta ljós. Þeir eru nefnilega ekki aðeins með þrjár tegundir keila í auganu, heldur fjórar. Þannig er því einmitt farið með silunginn. Þeir sjá sömu liti og við, þ.e. rautt, grænt og blátt og verða í raun jafn litblindir og við í myrkri, en þeir skynja útbjólublátt ljós og geta því komið auga á æti í myrki, svo lengi sem af því stafar útfjólublátt ljós. Þetta hafa veiðimenn nýtt sér um langan aldur með því að skreyta flugur sínar með ljómandi efnum eins og t.d. fluorcent þráðum. En eru fiskar þá einhverju bættari að nóttu til heldur en við? Jú, útfjólubláa ljósið er lengur að berast til jarðar og það heldur áfram að berast til jarðar löngu eftir að við hættum að sjá til. Auk þess þá á útfjólubláa ljósið auðveldara með að berast niður í gruggugt eða djúpt vatn heldur en það sem er okkur sýnilegt. Þannig sér urriðinn frekar útfjólublátt ljómandi efni þegar dýpra í vatnið er komið og það sem meira er, hann sér útfjólubláa ljósið úr meiri fjarlægð heldur en RGB liti.

    Eigum við að eiga útfjólubláar flugur í boxinu? Mitt svar er einfaldlega já, en að sama skapi ættum við ekki að láta okkur bregða þótt aðeins smærri fiskur bíti á UV flugurnar okkar. Rannsóknir hafa leitt í ljós að virkni UV keilnanna í augum urriðans fer hratt minnkandi með árunum, UV sjón hans helmingast t.d. á þremur til fjórum árum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Enn meira fyrir okkur

    15. janúar 2018
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Ekki alls fyrir löngu birti ég hér nokkur atriði sem ég í fljótheitum las út úr safni mínu af mislukkuðum flugum. Ég fékk skemmtileg viðbrögð lesanda við þessari grein þess efnis að ég hefði nú bara verð í nokkuð góðum málum fyrst þetta voru einu atriðin sem fóru úrskeiðis hjá mér. Ég glotti nú við tönn og hugsaði með mér; Ef þú bara vissir, tók safnið mitt aftur af veggnum og rýndi betur í það.

    Úrkastið

    Beittasti hnífurinn – það hefur verið sagt um suma að þeir séu nú ekki beittasti hnífurinn í skúffunni. Þegar ég brá einu skærunum mínum á koparþráðinn í fyrsta skiptið, þá var alveg hægt að segja það sama um mig. Eftir þetta frumhlaup mitt þá voru eiginlega allar fjaðrir sem ég klippti rifnar og tættar, svo ekki sé minnst á hnýtingarþráður sem var trosnaður og ljótur í sárið. Fljótlega festi ég því kaup á öðrum skærum og þau nota ég aðeins í fjaðrir, þráð og mýkra efni. Fyrstu skærin mín eru eingöngu notuð í ál- og koparþráð eftir þetta og duga mér enn.

    Ósamkvæmar flugur – þótt ég hafi nú ekki sett þær á spjaldið mitt, þá hefur það fylgt mér í gegnum tíðina að átakshnýtingar mínar, þ.e. þegar ég hnýti slatta af sömu flugunni, hafi orðið nokkuð ólíkar. Það er nú kannski ekkert óeðlilegt að fyrstu tvær flugurnar í bunkanum verði eitthvað ósamstíga, en það ætti að jafna sig þegar á þriðju eða fjórðu flugu er komið. Ef þær verða aftur á móti allar eins og úr sitt hverri áttinni, þá er eitthvað að. Oftast má kenna efninu um, sbr. árinni kennir illur ræðari. Til að útiloka þennan galla er ekki úr vegi að sníða allt efnið í flugurnar niður áður en hafist er handa við hnýtingarnar, þá eru meiri líkur á að flugurnar verði meira samstíga.

    Óhófleg höfuð – hér ætla ég að skipta ábendingunni í nokkra þætti. Fyrir það fyrsta, treystu hnýtingarþræðinum. Trú mín á þessum örmjóa og ræfilslega þræði var nú ekki mikið til að byrja með og svona til vonar og vara þá átti ég það til að bæta nokkrum vafningum við til að gera hausinn traustari, sjaldnast til fegurðarauka. Smátt og smátt öðlaðist ég meiri trú á þræðinum og þá fóru hausarnir á flugunum mínum að skána og merkilegt nokk, þeir héldu alveg eins vel.

    Í öðru lagi þá notaði ég óhóflegt magn af lakki á hausana á fyrstu flugunum mínum. Með tíð og tíma lærðist mér að bera lím (Zap-A-Gap) á hnýtingarþráðinn fyrir endahnútinn og þannig tryggði ég hnútinum og bar síðan þynnra lag af lakki, gjarnan tvisvar, á hausinn til að loka honum.

    Talandi um endahnútinn. Til að byrja með voru þeir í fleirtölu vegna þess að ég notaði einfalt bragð og þurfti því að setja þau nokkur til að tryggja þráðinn áður en ég klippti. Síðar tamdi ég mér Whip Finish sem endahnút og þá urðu hausarnir mun snyrtilegri og héldu því lagi sem ég hafði þegar byggt.

    Síðast en ekki síst, ekki nota of grófan þráð. Þegar færnin með hnýtingarþráðinn eykst, þá fer maður að ráða við grennri þráð og samhliða verða hausarnir á flugunum nettari þrátt fyrir fleiri vafninga.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Epoxíð, nei takk

    10. janúar 2018
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Fyrir ekki mörgum árum síðan byrjaði ég aðeins að fikta með epoxíð í flugur. Þetta er sniðugt efni og hægt að hleypa nýju lífi í hefðbundnar púpur með því. Ein helsta ástæða þess að ég hætti að nota epoxíð var einfaldlega orðlögð óþolinmæði mín, ég hreint og beint nennti ekki að bíða eftir að límið þornaði. Meira að segja hraðþornandi lím var of lengi að þorna fyrir minn smekk.

    Síðustu vikur hef ég verið að fikta með LCR (e: light curing resin) eða það sem í daglegu talið er kallað UV lím. Já, ég er nokkuð seinn til, því margir hnýtarar hafa verið að nota þessi efni í áraraðir og líkað vel. Flestir nota þetta efni til að magna útfjólubláageislun flugna, en það má ekki gleyma því að þetta efni er líka tilvalið til að byggja til dæmis búk og haus á púpur.

    UV ljós

    Rétt eins og um annað sem tengist fluguhnýtingum, þá eru til ótal tegundir þessara efna og með mismunandi eiginleika. Sumt er þunnt, annað miðlungs og enn annað svo þykkt að við liggur að maður þurfi kíttisspaða til að smyrja því á fluguna. Það sem ég hef prófað er þunnt og miðlungs, ef það segir einhverjum eitthvað. Mér skilst á þeim sem betur þekkja þessi efni en ég, að það sé ekki ósvipað gamla góða lakkinu, það eigi það til að þykkna með tímanum þannig að mér var ráðlagt að velja þunnt og miðlungs.

    Einn helsti kostur þessara efna er, að því gefnu að menn noti nokkuð gott UV ljós, að það storknar fljótt og endist mjög vel. Efnið dregur sig lítið sem ekkert saman, jafnvel þótt maður hafi það nokkuð þykkt og síðast en ekki síst, það er margfalt umhverfisvænna heldur en epoxíð og mörg önnur efni sem menn hafa verið að fikta með síðustu áratugina. Ókosturinn við efnið hefur hingað til verið sá að það er töluvert dýrara heldur en annað lím og þar að auki þarf að lýsa það með þar til gerðu UV ljósi. Hrakfallasögur þeirra sem hafa reynt að nota blátt laserljós á þessi efni eru nokkrar til, þannig að það er um að gera að kaup rétt ljós. Annars hefur verðið á bæði efnum og ljósum farið hraðlækkandi síðustu misseri, væntanlega í kjölfar aukinnar notkunar.

    Nú hef ég ekkert fyrir mér annað en orð mér reyndari manna, en mér skilst að gott UV ljós sendi frá sér u.þ.b. 200 lumen / 3,4 vött og eigi helst að vera með mörgum LED perum. Einnar peru ljós er víst eitthvað síðri en fjölperu ljós.

    Eftir að ég rak augun í ágætan samanburð helstu efna til fluguhnýtinga, þá lét ég slag standa og prófaði UV lím og er bara nokkuð sáttur við mínar fyrstu flugur í vetur mun ég eflaust bæta þó nokkrum UV púpum í safnið.

    Tegund Tími Áhrif á umhverfi Verð Ending
    LCR / UV lím Augnablik Engin Hátt* Mjög góð
    Epoxy Mínútur og upp í klukkustundir Þó nokkur Miðlungs Góð
    Lakk Mínútur Mjög mikil Lágt Miðlungs
    Bráðið plastlím Sekúndur Lítil Lágt Miðlungs

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 59 60 61 62 63 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar