Enn er mér í fersku minni undrun mín þegar ég um árið heyrði á tal tveggja einstaklinga sem ræddu hjónabandserfiðleika þess þriðja. Kannski er ég að hætta mér út á mjög hálan ís með þessum hugleiðingum mínum, en ég ætla að láta kyn þessara einstaklinga liggja á milli hluta því þetta gætu hafa verið tvær konur, tveir karlar eða af hvoru kyni fyrir sig. Hvað um það, þessir einstaklingar ræddu meinta ástæðu fyrir skilnaði hjóna og upp úr stóð sú ástæða að annar aðilinn hafði verið svo heltekinn af veiðidellu og meðfylgjandi drykkjuskap að ekki varð við unað og framfærsla hjónanna leið fyrir eyðslu viðkomandi í veiðileyfi og áfengi. Nú er ég ekki betur tengdur veiðimönnum en svo að ég þekki frekar fáa veiðimenn sem eiga við áfengisvandamál að stríða, hvorki í veiði né einkalífi, þannig að ég hjó sérstaklega eftir þessu og spurði hvort þessir aðilar leggðu það að jöfnu að óregla og stangveiði væru órjúfanlegur hluti í þeirra augum. Svarið var samhljóða og þótti mér það miður; Já, það er alltaf tómt fyllerí á veiðimönnum.
Ef svo ólíklega vill til að einhver lesandi kannast við það vandamál að taka áfengi framyfir góðan veiðibúnað langar mig til að vekja athygli á eftirfarandi:
Oftar en ekki eru menn að bögglast með lélega tauma, matta og hoggna tauma sem eru til eilífra vandræða. Þokkalega góður taumur kostar á bilinu 700 til 1900 krónur, ígildi tveggja til fjögurra 500ml bjórdósa. Drekktu aðeins minna og keyptu þér nýjan taum ef hann er að hrekkja þig.
Oft hefur maður séð veiðimenn þenja flugustangirnar til að koma lélegri línunni út til fisksins. Að setja verðmiða á flugulínur getur verið snúið. Flugulínur eru afleidd trúarbrögð eingyðistrúar á veiðigyðjuna og því getur verðmiðinn á hefðbundinni flotlínu verið frá 4.000,- kr. og alveg upp í 16.000,- kr. Það getur því í besta falli verið spurning um eina kippu af bjór og upp í það að kosta sama og 18 ára Dalmore viskí. Sama hvort er, þá er maður örugglega betur settur með góða flugulínu.
Flugulínuna spólar maður inn á veiðihjól. Ef hjólið er orðið slitið og snjáð (já, maður má vera pjattaður líka) þá er kostnaðurinn á bilinu 6.000,- kr. og upp í hvað þau nú eiginlega kosta þessi dýrustu sem ég skoða aldrei. En fyrir tvær kippur af bjór er örugglega hægt að fá ágætt silungsveiðihjól, jafnvel með spólum til skiptanna.
Hjólið festir maður á stöng og sú þarf að passa viðkomandi veiðimanni og vera af þokkalegum gæðum. Takið eftir að gæði og tegund eiga ekkert endilega saman. Margar af því sem sumir kalla ómerkilegri tegundum, gefa þekktum vörumerkjum ekkert eftir og kosta oft mun minna. Sjálfur er ég óttalegur nískupúki og eyði aldrei meiri pening en sem nemur einni til tveimur 18 ára viskíflöskum í veiðistöng og er bara nokkuð sáttur.
Eins og ég sagði áður, þá má maður líka vera pjattaður. Veiðivesti utan yfir lopapeysuna mína þarf ég líka og þau sem ég á eru í ódýrari kantinum, þessi sem ég get stungið í þvottavélina ef mér sýnist og nenni. Held örugglega að ég hafi fengið tvenn vesti á útsölu um árið fyrir andvirði einnar rútu af bjór.
Ýmislegt smálegt þarf síðan að finnast í veiðivestinu eins og t.d. taumaklippur, taumaefni, veiðihnífur og töng. Allt þetta má örugglega fá fyrir andvirði eins og annarrar rútu af bjór, þannig að þegar allt er talið þá eru veiðigræjur sjálfsögð forvörn gegn ofdrykkju og sjálfsagt að hrekja þetta fyllerístal veiðimanna og eyða bara meiru í græjur. Læt ég hér staðar numið, enda baukurinn minn tómur og ég þarf að ná mér í annan.
Senda ábendingu