FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Nýflugur

    16. janúar 2019
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Þeir sem hnýta sínar flugur sjálfir eiga vanda til þess að hnýta mun fleiri gerðir heldur en þeir í nokkurn tíma nota. Ég í það minnsta verð stundum bara að prófa að hýta einhverja áhugaverða flugu sem ég hrasa yfir á rápi mínu um veraldarvefinn og þá verða yfirleitt til þrjár til fimm slíkar sem fara í geymsluboxið mitt. Eins og ég hef áður sagt frá, þá er ég með nokkur stór box sem ég safna í og úr þeim fylli ég á vestisboxin mín. Eftir öll þessi ár er ég enn að velkjast með forskriftina að því hvernig ég vel í þessi vestisbox.

    Ég hef yfirleitt reynt að rifja upp og fletti þá gjarna í veiðisögum hér á síðunni hvaða flugur voru að gefa hverju sinni. Þetta verður því miður oft til þess að ég rek augun í flugur á hnýtingartímanum sem aldrei fengu far með mér í vestinu og eins líklegt að þær komi til með að eyða ævinni í geymsluboxinu.

    Sú veiði sem ég stunda er alls ekki alltaf í næsta nágrenni við fararskjóta minn og ekki alltaf ljóst í upphafi gönguferðar hvernig aðstæður eru á veiðistað, í hvaða æti fiskurinn er hverju sinni o.s.frv. Því var ég lengi vel með fern box í vestinu, en hin síðari ár hef ég sameinað vot- og þurrflugur í eitt box og er þá að auki með eitt undir púpur og annað undir straumflugur. Nú er ég alvarlega að spá í að fjölga boxunum aftur, vera með eitt á hnýtingarborðinu mínu í vetur og setja eina og eina af nýju flugunum í það ef mér sýnist kvikindið vera líklegt til afreka. Næsta vor get ég síðan sett þetta box í vestið mitt og stefni á að opna það box fyrst þegar á veiðistað er komið næsta sumar og auka þannig líkurnar á að prófa þær nýju.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ofmetið gáfnafar

    14. janúar 2019
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Í gegnum tíðina hefur virðing mín fyrir silunginum aukist jafnt og þétt. Ekki svo að skilja að hún hafi verið eitthvað sérstaklega lítil á einhverjum tímapunkti, þvert á móti. Ég er alinn upp við að virða allt sem lifandi er, hvort heldur það tilheyri fánu eða flóru. En með árunum hefur það bankað ítrekað í kollinn á mér að silungurinn geti bara ekki verið jafn heimskur og af er látið. Það er að vísu tilhneigð okkar mannanna að tengja gáfur við allt það sem tekst að leika á okkur, en það á trúlega meira skylt við það að við viljum halda reisn okkar og gerum því ráð fyrir að andstæðingurinn, bráðin í þessu tilfelli, sé skynigædd lífvera.

    Ein af eilífðarspurningum fluguveiðinnar er sú hvað geri flugu að góðri flugu. Þessi spurning á ekkert skylt við það hvort fluga sé falleg eða ekki, segi ég því stundum eru flugurnar mínar einfaldlega mjög ljótar, en þær veiða. Við sjáum hvað er falleg fluga, hún höfðar til fegurðarmats okkar, við greinum smáatriði hennar, handbragð hnýtarans og hvernig efninu hefur verið raðað niður á krókinn, frágang o.s.frv. Samkvæmt sprenglærðum líffræðingum, þá hefur silungurinn mjög takmarkaða hæfileika að greina smáatriði í umhverfinu og þar skilur á milli okkar. Það eru oft á tíðum smáatriðin sem fá okkur til að dást að flugu. Fiskurinn aftur á móti greinir stóru myndina og samþykkir eða ekki þá flugu sem við setjum fyrir hana.

    Flest okkar sjá t.d. orðið FLUGA á myndinni hér að ofan. Burtséð frá því að fiskar kunna ekki að lesa, þá mundi silungurinn ekki líta við þessu sem æti, þetta eru bara punktar á stangli þótt við náum að geta í eyðurnar og sjáum að þetta er FLUGA.

    Til þess að ná athygli fisksins þarf eitthvað meira til, t.d. skott, frambúk eða einfaldlega vöndul af einhverju sem glitrar og laðar hann að. Það þarf ekkert endilega að vera flókið, það þarf bara að líkjast einhverju æti eða æsa fiskinn nægjanlega upp til að taka.

    Við getum ennþá lesið FLUGA út úr þessu en í þetta skiptið er komið glimmer og eggjandi áferð á hana og líkurnar hafa aukist verulega á að silungurinn sýni henni áhuga. Fiskar hafa ekki þær gáfur sem þarf til að draga ályktanir. Það sem kemur þeim fyrir sjónir er það sem þeir sjá og þeir eru algjörlega sneyddir þeim hæfileika að geta í eyðurnar. Góð fluga þarf einfaldlega að koma þeim rétt fyrir sjónir; líkjast sköpulagi fæðunnar, hreyfast líkt og fæðan og vera af passlegri stærð. Ef það næst, þá erum við að tala um góða flugu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Þumall á lykkju

    9. janúar 2019
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Þegar ég lenti í því eitt sinn að stöng bilaði hjá mér og ég fór með hana í viðgerð þá lenti hún í höndum kunnáttumanns sem velti stangarpartinum vel og lengi fyrir sér og sagði svo; Hvers vegna ætli þeir hafi valið einfætta lykkju í stað tvífættrar? Nú verð ég að játa það að ég hafði bara ekkert spáð í það hvort lykkjurnar á stönginni væru festar á einum eða tveimur fótum. Það sem ég spáði helst í var hvort lykkjurnar væru fastar á stönginni eða ekki og einu sinni til tvisvar á sumri þá spáði ég í að þurrka innan úr þeim. Þetta var nú allt og sumt sem ég hugsaði um lykkjurnar á þessari stöng.

    Einfætt lykkja

    Reyndar fór þessi stöng einmitt í viðgerð vegna þess að lykkja rétt ofan við samskeyti losnaði, trúlega vegna þess að ég studdi oft þumlinum við lykkjuna þegar ég var að losa stöngina sundur. Ekki smart move, það lærði ég af þessu. Þetta er einhver ávani sem ég hef áunnið mér og hann er ekki góður þegar lykkjurnar standa aðeins á öðrum fæti. Sama hvað ég reyni að temja mér að taka um stöngina sjálfa, þá laumast þumallinn alltaf í átt að lykkjunni og ég styð við þegar ér sný stönginni. Annað tveggja, þá verð ég bara að hætta þessari vitleysu eða þá nota aðeins stangirnar sem eru útbúnar tvífættum lykkjum.

    Tvífætt lykkja

    Þegar ég fór að skoða stangirnar mínar þá var það nú svo að allar hinar voru búnar lykkju sem stóð á tveimur fótum og satt best að segja hafði ég aldrei lent í vandræðum með neina þeirra. Ég er greinilega tveggja fóta maður.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Við rekkana

    7. janúar 2019
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Í hreinskilni sagt þá fer ég stundum í veiðivöruverslanir til að kaupa ekki neitt. Stundum slæðist reyndar eitthvað með mér út úr búðinni, en oftar en ekki þá er ég bara að forvitnast og hitta mennina. Afsakið að ég segi mennina, en ég hitti því miður mjög fáar konur í þessum verslunum, hverju sem það nú sætir.

    Trúlega eru tveir staðir í hverri verslun einna skemmtilegastir; stangarekkinn og flugubarinn. Þarna safnast menn saman, skoða og spekúlera, láta sig dreyma og stundum halda menn höndunum fast niðri í vösunum, bara svona til vonar og vara þannig að þeir óvart fari ekki út með eitthvað sem þeir ætluðu ekki að kaupa.

    Græjugaurinn hittir maður í veiðivöruverslunum, rétt eins og á veiðistöðum. Hann spáir helst í allt sem er nýtt og oftar en ekki lætur hann blekkjast af því sem er stærst og mest. Þetta er gaurinn sem kaupir tvíhenduna sem fékk verðlaunin í vor sem leið sem besta, öflugasta og hraðasta stöngin, en hefur síðan ekki efni á að kaupa veiðileyfi í ám sem krefjast þannig græju, en hann á stöngina. Þennan er eiginlega hægt að plata til að kaupa hvað sem er, svo lengi sem það er hlaðið lofi.

    Læðupúkinn er sá sem læðist aftan að manni og hálf hvíslar að manni gáfulegu kommenti um stöngina sem maður er að skoða eða fluguna sem maður virðir fyrir sér. Hann virkar alveg eins og starfsmaður verslunarinnar, svo mjög að lítt kunnugir viðskiptavinir snúa sér gjarnan að honum og spyrja hvor þetta eða hitt sé ekki til. Það dásamlega er að læðupúkinn lætur það alveg vera að benda á starfsfólkið, leiðbeinir viðskiptavinum og gefur þeim góð ráð sem starfsmennirnir eiga síðan stundum erfitt með að uppfylla. Hann er svolítið eins og ólaunaðar starfsmaður á plani og er skilgetið afkvæmi heimilislegs andrúmslofts veiðiverslana.

    Svo er það sá sem er persónulega kunnugur öllum betri veiðimönnum landsins og þótt víðar væri leitað. Hann hefur eftir ummæli þeirra frægu eins og hann hafi verið viðstaddur tímamóta veiðiferð aldarinnar og fer með heilu fyrirlestrana eins og hann hafi sjálfur skrifað þá. En þegar kemur að því að hann er spurður hvernig græjan eða flugan hafi reynst þá kemur eitthvað eins og; Tja, ég hef nú aldrei prófað hana, en ég þekki Sr. Jón Jónsson sem hefur veitt mikið á hana.

    Gullmolar veiðiverslananna eru aftur á móti þeir sem segja afskaplega fátt að fyrra bragði, standa hjá og vega og meta það sem fyrir augu ber. Varfærnislega handleika þessi menn það sem er á boðstólum, spyrja afgreiðslumanninn stöku spurningar og gaumgæfa svarið. Mér hefur fundist þessi lýsing vera sammerk með þeim veiðimönnum sem af guðs náð hafa aflað sér reynslu, þekkingar og færni í stangveiði. Þeir berast lítt á en eru hafsjór upplýsingar og góðra ráða, ef manni tekst að ná þeim á spjall.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ferillinn í stuttu máli

    26. desember 2018
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Ef kastinu þínu lýkur eðlilega, þ.e. ekkert kippir í línuna rétt áður en hún hefur náð að teygja úr sér, þá ætti taumurinn að fylgja línubugnum og leggjast fram í beinu framhaldi af línunni. Ef hann gerir það ekki gæti vel verið að ferill stangarinnar í kastinu hafi verið of langur.

    Áður en þú ferð að auka við aflið í kastinu, prófaðu að stytta kastferilinn. Það er langalgengast að kastfeill veiðimanna sé of langur í bakkastinu, þ.e. stöngin fer of langt aftur miðað við fremra stopp. Með því að stytta ferilinn, eykur maður aflið í kastinu án þess þó að setja meira afl í það og því eru mestar líkur á að línan, og þar með taumurinn, leggist betur fram og hætti að kuðlast og beyglast þetta niður á vatnið.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Vindköst í stuttu máli

    19. desember 2018
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Þegar maður kastar upp í vindinn, þá skiptir miklu máli að byrja með stuttan kastferil áður en maður lengir í kastinu. Ef þú byrjar með of langan kastferil á móti vindi, þá réttir línan einfaldlega aldrei alveg úr sér og því hættir þú að kasta og ferð að hnýta vindhnúta, bæði í fram- og bakkastinu.

    Byrjaðu á stuttu ferli, stoppa fyrr í bæði fram- og bakkastinu þar til þú nærð fullum tökum á línunni og hún réttir eðlilega úr sér. Þá fyrst er kominn tími til að lengja í ferlinum og auka aflið í kastinu sem þá lengist. Ekki gleyma því samt að lengri ferill, lengra kast gerir kröfu um lengri pásu í fram- og bakkastinu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 51 52 53 54 55 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar