Í gegnum tíðina hefur virðing mín fyrir silunginum aukist jafnt og þétt. Ekki svo að skilja að hún hafi verið eitthvað sérstaklega lítil á einhverjum tímapunkti, þvert á móti. Ég er alinn upp við að virða allt sem lifandi er, hvort heldur það tilheyri fánu eða flóru. En með árunum hefur það bankað ítrekað í kollinn á mér að silungurinn geti bara ekki verið jafn heimskur og af er látið. Það er að vísu tilhneigð okkar mannanna að tengja gáfur við allt það sem tekst að leika á okkur, en það á trúlega meira skylt við það að við viljum halda reisn okkar og gerum því ráð fyrir að andstæðingurinn, bráðin í þessu tilfelli, sé skynigædd lífvera.
Ein af eilífðarspurningum fluguveiðinnar er sú hvað geri flugu að góðri flugu. Þessi spurning á ekkert skylt við það hvort fluga sé falleg eða ekki, segi ég því stundum eru flugurnar mínar einfaldlega mjög ljótar, en þær veiða. Við sjáum hvað er falleg fluga, hún höfðar til fegurðarmats okkar, við greinum smáatriði hennar, handbragð hnýtarans og hvernig efninu hefur verið raðað niður á krókinn, frágang o.s.frv. Samkvæmt sprenglærðum líffræðingum, þá hefur silungurinn mjög takmarkaða hæfileika að greina smáatriði í umhverfinu og þar skilur á milli okkar. Það eru oft á tíðum smáatriðin sem fá okkur til að dást að flugu. Fiskurinn aftur á móti greinir stóru myndina og samþykkir eða ekki þá flugu sem við setjum fyrir hana.
Flest okkar sjá t.d. orðið FLUGA á myndinni hér að ofan. Burtséð frá því að fiskar kunna ekki að lesa, þá mundi silungurinn ekki líta við þessu sem æti, þetta eru bara punktar á stangli þótt við náum að geta í eyðurnar og sjáum að þetta er FLUGA.
Til þess að ná athygli fisksins þarf eitthvað meira til, t.d. skott, frambúk eða einfaldlega vöndul af einhverju sem glitrar og laðar hann að. Það þarf ekkert endilega að vera flókið, það þarf bara að líkjast einhverju æti eða æsa fiskinn nægjanlega upp til að taka.
Við getum ennþá lesið FLUGA út úr þessu en í þetta skiptið er komið glimmer og eggjandi áferð á hana og líkurnar hafa aukist verulega á að silungurinn sýni henni áhuga. Fiskar hafa ekki þær gáfur sem þarf til að draga ályktanir. Það sem kemur þeim fyrir sjónir er það sem þeir sjá og þeir eru algjörlega sneyddir þeim hæfileika að geta í eyðurnar. Góð fluga þarf einfaldlega að koma þeim rétt fyrir sjónir; líkjast sköpulagi fæðunnar, hreyfast líkt og fæðan og vera af passlegri stærð. Ef það næst, þá erum við að tala um góða flugu.
Senda ábendingu