Nú er nýtt ár gengið í garð, oddatölu árið 2025 sem segir okkur að hnúðlaxar gera sig væntanlega enn heimakomnari hér við land heldur en í fyrra. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að síðastliðið sumar, 2024 bar nokkuð á þessum ófögnuði hér við land og eftir því sem næst verður komist, veiddust hnúðlaxar í 6 ám þó árið væri ekki svokallað hnúðlaxaár.
Lengi vel hefur því verið haldið fram að fyrsti hnúðlax sem veiðst hefur hér á landi, hafi verið síðla sumars 1960 í Hítará á Mýrum. Þetta er ekki með öllu rétt, því í veiðibók Langár á Mýrum frá 1929 má finna blaðaúrklippu með athugasemd Capt. Malcolm Alfred Kennard, leigutaka Grímsár í Borgarfirði, þar sem hann bendir á að hnúðlax hafi veiðst í Grímsá árið 1925, tveir í Langá árið 1926 og einn í Norðurá 1927. Í veiðibók Langár má einnig finna ágæta teikningu af hnúðlaxi og hreisturhringjum sem árituð er m.K. og dagsett 15. júlí 1929. Teikning þessi gæti verið af hendi Capt. Kennard eða eiginkonu hans Madam Kennard, Walterina Favoretta, en hún átti á þessum árum Langá og Ensku húsin svokölluðu.

Hvað sem fyrsta hnúðlaxi landsins líður, þá er staðfest að hnúðlax hefur gert vart við sig öll undanfarin ár, hrygnt í íslenskum ám og það sem meira er, hann hefur komið seiðum á legg og þannig skotið rótum undir stofn sem getur viðhaldið sér hér á landi, hann er kominn til að vera. Rannsóknir sem gerðar voru árið 2022 og 2024 í Botnsá í Hvalfirði hafa staðfest þetta, en um útbreiðslu hans hér á landi er í raun lítið vitað.
En hvaða áhrif hefur það að þessi ágenga tegund er að skjóta rótum hér á landi? Stafar laxinum einum hætta af ágengni hans eða eru aðrir stofnar, urriða og bleikju, einnig í hættu? Til að svara þessu að einhverju leiti, er hér þýðing mín á hluta úr skýrslunni Prospects for the future of pink salmon in three oceans: From the native Pacific to the novel Arctic and Atlantic sem birtist árið 2023 í Fish and Fisheries, 24. árg. 5. tbl., bls. 759–776. Umræddur kafli er ágæt samantekt á stöðu og áhrifum landtöku hnúðlax á villta stofna laxfiska, þar með talið urriða og heimskautableikju. Þýðing þessi er verkefni mitt í þýðingarfræðum við Háskóla Íslands haustið 2024, með lagfæringum m.t.t. ábendinga Hrefnu Maríu Eiríksdóttur, stundakennara í nytjaþýðingum við HÍ.
SAMÞÆTTING ÞEKKINGAR Á HNÚÐLAXI VIÐ KYRRAHAF OG ATLANTSHAF
Klak og smoltun seiða
Á Kyrrahafssvæðinu er hrognum hnúðlaxa gotið í hrygningarmöl áa (og ósasvæði þeirra!) að hausti og þau klekjast að vori. Klak hrognanna ræðst af tímasetningu hrygningarinnar og daggráðum þess tíma sem þau dvelja í mölinni, sem aftur ræðst af hnattrænni stöðu (Erkinaro o.fl., 2022). Við Kyrrahafið hefst hrygning í ágúst og stendur fram í október, er þá á undan hrygningu annarra laxfiska, og er breytileg milli einstaklinga. Þetta er mikilvægt að hafa í huga, þar sem rannsóknir á hrygningu snemm- og síðgenginna hnúðlaxa á svæðinu hafa sýnt að afkvæmi þeirra klekjast á mismunandi tímum (Murray og McPhail, 1988; Taylor, 1980) sem talið er ráða miklu um ágengni þeirra á Atlantshafssvæðinu.
Hrygningar hnúðlaxa hefur orðið vart í ám við Atlantshaf í ágúst – september, sem er snemma samanborið við Atlantshafslax og sjógenginn urriða (Salmo trutta Salmonidae) sem hrygna aðallega í október – desember (Anon, 2022a, 2022b; Sandlund o.fl., 2019; Sørvik, 2022; Vistnes, 2017). Hins vegar gæti hrygningartími hnúðlax og sjógenginnar heimskautableikju (Salvelinus alpinus Salmonidae) skarast, en hún hrygnir aðallega í september (Anon, 2022a, 2022b). Í norðlægari ám, þar sem sjógenginn urriði hefur hrygningu snemma í september, gæti skörun átt sér stað við síðari hrygningu hnúðlaxa. Gert er ráð fyrir að hnúðlaxahrogn í suður Noregi og Skotlandi klekist að hausti eða vetri og séu því berskjaldaðri fyrir vetrarhörkum (Armstrong o.fl., 2018). Erkinaro o.fl., (2022) uppgötvuðu að hrogn hnúðlaxa í ánni Tana/Teno í kaldtempraða beltinu klöktust um miðjan október og seiðin þurftu því annað hvort að dvelja lengur í mölinni og lifa veturinn af í ánni eða halda strax til sjávar á óæskilegum tíma. Mikill breytileiki hitastigs tiltölulega hlýrra áa og kaldra að hausti, leiðir til mikils breytileika þess hvenær seiðin yfirgefa mölina. Fyrir ár í suður Noregi, byggt á líkönum yfir dagshita vatns, má áætla brotthvarf hnúðlaxaseiða úr mölinni (þ.e. þegar næring kviðpokans er uppurinn) vera að vori ef hrygning á sér stað síðla ágúst, en síðbúin hrygning seinkar brotthvarfi þeirra mjög. Þannig gætu væntingar þess að hnúðlax geti ekki fjölgað sér við snemmbært klak og brotthvarf seiða úr mölinni í suður Noregi og öðrum ám í Evrópu (Armstrong o.fl., 2018) verið á veikum grunni byggðar því lítið er vitað um aðlögunarhæfni og þróun Hvítahafs stofnsins á Atlantshafssvæðinu. Sem dæmi um aðlögunarhæfni hnúðlaxins var tilvist sjógönguseiða hans staðfest í skoskum ám í mars 2022. Höfundarnir töldu það til marks um vel heppnaða hrygningu og uppvöxt 2021 hrygningarárgangsins, þar sem ferskvatnsþroska seiðanna var lokið og gaf því til kynna mögulega hrygningu hnúðlax í Bretlandi til framtíðar (Skóra o.fl., 2023).
Snemmbærri hrygningu fylgir að kviðpokaseiði hnúðlaxins verða annað hvort að halda til í mölinni við erfið lífsskilyrði til að forðast afræningja og bíða þannig hentugs vatnshita og vatnsmagns, eða yfirgefa mölina og annað hvort leita ótímabært til sjávar eða halda til í ánni yfir harðan veturinn, eða, leita fæðu og forðast afræningja. Ótímabærar niðurgöngur hafa ekki verið staðfestar, svo líklega halda kviðpokaseiði hnúðlaxins til í mölinni og bíða betri skilyrða til niðurgöngu, mögulega með því treina næringu kviðpokans. Seinkaðri smoltun hefur orðið vart hjá öðrum stofnum hnúðlaxa sem búa við langvarandi hitastig nærri frostmarki (Gordeeva & Salmenkova, 2011). Raunar hafa stórir hópar hnúðlaxasmolta, með og án kviðpokanæringar, fundist í 19 norskum ám að vori og snemmsumars (síðla apríl – byrjun júlí) á árunum 2018–2022 (Hansen & Monsen, 2022; Muladal, 2018; Muladal & og Fagard, 2020, 2022). Öll hæfni til aðlögunar á tímasetningu hrygningar eða framgangs þroska með tilliti til hitastigs gæti hjálpað afkvæmum að seinka brotthvarfi úr mölinni og niðurgöngu. Umfang þessarar aðlögunarhæfni þarf að kortleggja og er mikilvægt framtíðarrannsóknarefni á þeim svæðum þar sem tegundin er ágeng. Hrognaþroski er hraðari þar sem vatnshiti er hærri snemmsumars, þannig að nokkurra daga hliðrun hrygningar getur leitt til mikillar hliðrunar á tímasetningu þess að seiðin yfirgefi mölina. Þar af leiðandi getur tiltölulega lítil hliðrun á hrygningu haft mikil áhrif á þroska kviðpokaseiða og tímasetningu þess að seiðin yfirgefa mölina.

Áætlaður tími smoltunar hnúðlaxseiða sem klekst í Norskum ám. Tíminn er gefinn upp í þremur tímabilum í ágúst sem er algengur hrygningartími í norskum ám. Árnar eru flokkaðar frá suðri (neðst) til norðurs (efst) eftir breiddargráðu. Lóðrétta línan táknar 1. janúar, þ.e. upphaf nýs árs.
Oft er greint frá því að hnúðlax leiti til sjávar strax að klaki loknu (Heard, 1991) en hegðun þeirra er líklega mun flóknari er svo. Gönguseiði hnúðlaxa hafa fundist frá því í mars fram í maí á búsvæðum tegundarinnar í Kyrrahafi (Duffy o.fl., 2005; Simenstad o.fl., 1982; Skud, 1955) og fram í júní hjá stofnum við Hvítahafið (Kirillov o.fl., 2018; Pavlov o.fl., 2015; Robins o.fl., 2005; Varnavsky o.fl., 1992; Veselov o.fl., 2016). Gönguseiði hnúðlaxa hafa fundist í neðri hluta Kongsfjordelva í Noregi frá miðjum maí fram í byrjun júlí (H. Vistnes, pers. samsk.) og þeir einstaklingar eru, að því er virðist, að vaxa og taka til sín fæðu, sem gefur tilefni til nánari rannsókna á því hvort seiðin hafi frestað niðurgöngu til þess að nærast í ósasvæði árinnar. Gjöful fæðusvæði eru hnúðlaxinum augljóslega mikilvæg, svo sem frjósöm vötn þar sem gönguseiði dvelja frekar en ganga beint til sjávar. Mörgum ám í Noregi tengjast opin vatnasvæði sem fóstra seiði staðbundinna laxfiska og þar gætu seiði hnúðlaxa nærst áður en þau halda til sjávar, og það verðskuldar einnig frekari rannsóknir (Lennox, Pulg, o.fl., 2021).
Margt af því sem fram kemur í þessum stutta kafla skýrslunnar virðist eiga erindi til Íslands og það væri vel þess vert að kortleggja betur möguleg búsvæði hnúðlaxa hér á landi, útbreiðslu hrygningar hans og gæta sérstaklega að því hvort hnúðlaxaseiði seinki niðurgöngu sinni frá því sem Kyrra- og Hvítahafsstofnarnir eru vanir að gera. Fordæmi þess að hnúðlax breyti út frá þekktu hegðunarmynstri hrygningar og niðurgöngu eru greinilega til staðar og það getur haft verulega áhrif á skörun við hrygningu og niðurgöngu staðbundinna stofna.





























