FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Ágeng tegund á nýju ári

    5. janúar 2025
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Nú er nýtt ár gengið í garð, oddatölu árið 2025 sem segir okkur að hnúðlaxar gera sig væntanlega enn heimakomnari hér við land heldur en í fyrra. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að síðastliðið sumar, 2024 bar nokkuð á þessum ófögnuði hér við land og eftir því sem næst verður komist, veiddust hnúðlaxar í 6 ám þó árið væri ekki svokallað hnúðlaxaár.

    Lengi vel hefur því verið haldið fram að fyrsti hnúðlax sem veiðst hefur hér á landi, hafi verið síðla sumars 1960 í Hítará á Mýrum. Þetta er ekki með öllu rétt, því í veiðibók Langár á Mýrum frá 1929 má finna blaðaúrklippu með athugasemd Capt. Malcolm Alfred Kennard, leigutaka Grímsár í Borgarfirði, þar sem hann bendir á að hnúðlax hafi veiðst í Grímsá árið 1925, tveir í Langá árið 1926 og einn í Norðurá 1927. Í veiðibók Langár má einnig finna ágæta teikningu af hnúðlaxi og hreisturhringjum sem árituð er m.K. og dagsett 15. júlí 1929. Teikning þessi gæti verið af hendi Capt. Kennard eða eiginkonu hans Madam Kennard, Walterina Favoretta, en hún átti á þessum árum Langá og Ensku húsin svokölluðu.

    Teikning af hnúðlaxi í veiðibók Langár á Mýrum árið 1929

    Hvað sem fyrsta hnúðlaxi landsins líður, þá er staðfest að hnúðlax hefur gert vart við sig öll undanfarin ár, hrygnt í íslenskum ám og það sem meira er, hann hefur komið seiðum á legg og þannig skotið rótum undir stofn sem getur viðhaldið sér hér á landi, hann er kominn til að vera. Rannsóknir sem gerðar voru árið 2022 og 2024 í Botnsá í Hvalfirði hafa staðfest þetta, en um útbreiðslu hans hér á landi er í raun lítið vitað.

    En hvaða áhrif hefur það að þessi ágenga tegund er að skjóta rótum hér á landi? Stafar laxinum einum hætta af ágengni hans eða eru aðrir stofnar, urriða og bleikju, einnig í hættu? Til að svara þessu að einhverju leiti, er hér þýðing mín á hluta úr skýrslunni Prospects for the future of pink salmon in three oceans: From the native Pacific to the novel Arctic and Atlantic sem birtist árið 2023 í Fish and Fisheries, 24. árg. 5. tbl., bls. 759–776. Umræddur kafli er ágæt samantekt á stöðu og áhrifum landtöku hnúðlax á villta stofna laxfiska, þar með talið urriða og heimskautableikju. Þýðing þessi er verkefni mitt í þýðingarfræðum við Háskóla Íslands haustið 2024, með lagfæringum m.t.t. ábendinga Hrefnu Maríu Eiríksdóttur, stundakennara í nytjaþýðingum við HÍ.

    SAMÞÆTTING ÞEKKINGAR Á HNÚÐLAXI VIÐ KYRRAHAF OG ATLANTSHAF

    Klak og smoltun seiða

    Á Kyrrahafssvæðinu er hrognum hnúðlaxa gotið í hrygningarmöl áa (og ósasvæði þeirra!) að hausti og þau klekjast að vori. Klak hrognanna ræðst af tímasetningu hrygningarinnar og daggráðum þess tíma sem þau dvelja í mölinni, sem aftur ræðst af hnattrænni stöðu (Erkinaro o.fl., 2022). Við Kyrrahafið hefst hrygning í ágúst og stendur fram í október, er þá á undan hrygningu annarra laxfiska, og er breytileg milli einstaklinga. Þetta er mikilvægt að hafa í huga, þar sem rannsóknir á hrygningu snemm- og síðgenginna hnúðlaxa á svæðinu hafa sýnt að afkvæmi þeirra klekjast á mismunandi tímum (Murray og McPhail, 1988; Taylor, 1980) sem talið er ráða miklu um ágengni þeirra á Atlantshafssvæðinu.

    Hrygningar hnúðlaxa hefur orðið vart í ám við Atlantshaf í ágúst – september, sem er snemma samanborið við Atlantshafslax og sjógenginn urriða (Salmo trutta Salmonidae) sem hrygna aðallega í október – desember (Anon, 2022a, 2022b; Sandlund o.fl., 2019; Sørvik, 2022; Vistnes, 2017). Hins vegar gæti hrygningartími hnúðlax og sjógenginnar heimskautableikju (Salvelinus alpinus Salmonidae) skarast, en hún hrygnir aðallega í september (Anon, 2022a, 2022b). Í norðlægari ám, þar sem sjógenginn urriði hefur hrygningu snemma í september, gæti skörun átt sér stað við síðari hrygningu hnúðlaxa. Gert er ráð fyrir að hnúðlaxahrogn í suður Noregi og Skotlandi klekist að hausti eða vetri og séu því berskjaldaðri fyrir vetrarhörkum (Armstrong o.fl., 2018). Erkinaro o.fl., (2022) uppgötvuðu að hrogn hnúðlaxa í ánni Tana/Teno í kaldtempraða beltinu klöktust um miðjan október og seiðin þurftu því annað hvort að dvelja lengur í mölinni og lifa veturinn af í ánni eða halda strax til sjávar á óæskilegum tíma. Mikill breytileiki hitastigs tiltölulega hlýrra áa og kaldra að hausti, leiðir til mikils breytileika þess hvenær seiðin yfirgefa mölina. Fyrir ár í suður Noregi, byggt á líkönum yfir dagshita vatns, má áætla brotthvarf hnúðlaxaseiða úr mölinni (þ.e. þegar næring kviðpokans er uppurinn) vera að vori ef hrygning á sér stað síðla ágúst, en síðbúin hrygning seinkar brotthvarfi þeirra mjög. Þannig gætu væntingar þess að hnúðlax geti ekki fjölgað sér við snemmbært klak og brotthvarf seiða úr mölinni í suður Noregi og öðrum ám í Evrópu (Armstrong o.fl., 2018) verið á veikum grunni byggðar því lítið er vitað um aðlögunarhæfni og þróun Hvítahafs stofnsins á Atlantshafssvæðinu. Sem dæmi um aðlögunarhæfni hnúðlaxins var tilvist sjógönguseiða hans staðfest í skoskum ám í mars 2022. Höfundarnir töldu það til marks um vel heppnaða hrygningu og uppvöxt 2021 hrygningarárgangsins, þar sem ferskvatnsþroska seiðanna var lokið og gaf því til kynna mögulega hrygningu hnúðlax í Bretlandi til framtíðar (Skóra o.fl., 2023).

    Snemmbærri hrygningu fylgir að kviðpokaseiði hnúðlaxins verða annað hvort að halda til í mölinni   við erfið lífsskilyrði til að forðast afræningja og bíða þannig hentugs vatnshita og vatnsmagns, eða yfirgefa mölina og annað hvort leita ótímabært til sjávar eða halda til í ánni yfir harðan veturinn, eða, leita fæðu og forðast afræningja. Ótímabærar niðurgöngur hafa ekki verið staðfestar, svo líklega halda kviðpokaseiði hnúðlaxins til í mölinni og bíða betri skilyrða til niðurgöngu, mögulega með því treina næringu kviðpokans. Seinkaðri smoltun hefur orðið vart hjá öðrum stofnum hnúðlaxa sem búa við langvarandi hitastig nærri frostmarki (Gordeeva & Salmenkova, 2011). Raunar hafa stórir hópar hnúðlaxasmolta, með og án kviðpokanæringar, fundist í 19 norskum ám að vori og snemmsumars (síðla apríl – byrjun júlí) á árunum 2018–2022 (Hansen & Monsen, 2022; Muladal, 2018; Muladal & og Fagard, 2020, 2022). Öll hæfni til aðlögunar á tímasetningu hrygningar eða framgangs þroska með tilliti til hitastigs gæti hjálpað afkvæmum að seinka brotthvarfi úr mölinni og niðurgöngu. Umfang þessarar aðlögunarhæfni þarf að kortleggja og er mikilvægt framtíðarrannsóknarefni á þeim svæðum þar sem tegundin er ágeng. Hrognaþroski er hraðari þar sem vatnshiti er hærri snemmsumars, þannig að nokkurra daga hliðrun hrygningar getur leitt til mikillar hliðrunar á tímasetningu þess að seiðin yfirgefi mölina. Þar af leiðandi getur tiltölulega lítil hliðrun á hrygningu haft mikil áhrif á þroska kviðpokaseiða og tímasetningu þess að seiðin yfirgefa mölina.

    Áætlaður tími smoltunar hnúðlaxseiða sem klekst í Norskum ám. Tíminn er gefinn upp í þremur tímabilum í ágúst sem er algengur hrygningartími í norskum ám. Árnar eru flokkaðar frá suðri (neðst) til norðurs (efst) eftir breiddargráðu. Lóðrétta línan táknar 1. janúar, þ.e. upphaf nýs árs.

    Oft er greint frá því að hnúðlax leiti til sjávar strax að klaki loknu (Heard, 1991) en hegðun þeirra er líklega mun flóknari er svo. Gönguseiði hnúðlaxa hafa fundist frá því í mars fram í maí á búsvæðum tegundarinnar í Kyrrahafi (Duffy o.fl., 2005; Simenstad o.fl., 1982; Skud, 1955) og fram í júní hjá stofnum við Hvítahafið (Kirillov o.fl., 2018; Pavlov o.fl., 2015; Robins o.fl., 2005; Varnavsky o.fl., 1992; Veselov o.fl., 2016). Gönguseiði hnúðlaxa hafa fundist í neðri hluta Kongsfjordelva í Noregi frá miðjum maí fram í byrjun júlí (H. Vistnes, pers. samsk.) og þeir einstaklingar eru, að því er virðist, að vaxa og taka til sín fæðu, sem gefur tilefni til nánari rannsókna á því hvort seiðin hafi frestað niðurgöngu til þess að nærast í ósasvæði árinnar. Gjöful fæðusvæði eru hnúðlaxinum augljóslega mikilvæg, svo sem frjósöm vötn þar sem gönguseiði dvelja frekar en ganga beint til sjávar. Mörgum ám í Noregi tengjast opin vatnasvæði sem fóstra seiði staðbundinna laxfiska og þar gætu seiði hnúðlaxa nærst áður en þau halda til sjávar, og það verðskuldar einnig frekari rannsóknir (Lennox, Pulg, o.fl., 2021).


    Margt af því sem fram kemur í þessum stutta kafla skýrslunnar virðist eiga erindi til Íslands og það væri vel þess vert að kortleggja betur möguleg búsvæði hnúðlaxa hér á landi, útbreiðslu hrygningar hans og gæta sérstaklega að því hvort hnúðlaxaseiði seinki niðurgöngu sinni frá því sem Kyrra- og Hvítahafsstofnarnir eru vanir að gera. Fordæmi þess að hnúðlax breyti út frá þekktu hegðunarmynstri hrygningar og niðurgöngu eru greinilega til staðar og það getur haft verulega áhrif á skörun við hrygningu og niðurgöngu staðbundinna stofna.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Gleði í geði

    29. desember 2024
    Greinaskrif

    Upp

    Forsíða

    Nú líður að lokum ársins 2024 og veiðimenn, rétt eins og aðrir, gera upp liðið ár, ef ekki formlega þá örlítið í huganum. Þegar litið er til baka, þá er ágætt að hafa eitthvað til hliðsjónar af því sem maður hafði um væntingar til ársins. Eitt af því sem ég lít til er það sem ég hef sett á blað fyrir bækling Veiðikortsins, þess árlegs pistils, sem einhverjir hafa mögulega rekið augun í þegar þeir flettu brakandi nýjum bæklingi Veiðikortsins.

    Í 2024 bæklinginum varð mér einmitt hugleikið hvað minningar geta leikið okkur grátt, því þegar rifjað er upp og öll sönnunargögn liggja fyrir, þá var liðið ár e.t.v. allt öðruvísi heldur en mann rámaði í fyrstu til. Hvað FOS.IS hefur til málanna að leggja í nýjasta bæklingi Veiðikortsins má finna með því að renna í gegnum hann, á pappír eða rafrænt með því að smella hérna.

    Eins og gengur voru aflabrögð misjöfn í stangveiðinni síðasta sumar. Það bar ekki í bakkafullan lækinn hjá laxveiðimönnum sökum vatnsskorts og steininn tók úr þegar strokulaxar sjókvíaeldis tóku að gera sig heimakomna í nokkrum vinsælum ám landsins.

    Blessunarlega höfðu þurrkar ekki áhrif á vatnaveiðina svo nokkru næmi, þó vissulega hafi lækkað í mörgum vötnum. Í sumum þeirra þurfti að tölta nokkrum metrum lengra eftir fiski, en á móti kom að víða var hin ágætasta veiði, raunar mjög víða þegar litið er til vatnanna á Veiðikortinu.

    Veiðin í Elliðavatni gladdi marga síðasta sumar, þar gaf fiskurinn sig og þá var ekki að sökum að spyrja, veiðimenn fjölguðu ferðum sínum þangað þannig að úr varð eitthvert besta veiðisumar síðustu ára.

    Vorið lofaði góðu fyrir mína heilögu þrenningu; Langavatn á Mýrum, Hítarvatn og Hlíðarvatn í Hnappadal og þar eyddi ég nokkrum af mínum bestu dögum síðasta sumars. Að vísu var afraksturinn ekki í margar máltíðir, en á móti kom að Hellesens heilkennið fékk notið sín í botn og batteríin hlaðin í hverri ferð.

    Á sama tíma var eins og bleikjan í Þingvallavatni vildi ekkert til þess vinna að komast í fréttirnar og lét lítið fyrir sér fara. Hvort kenna megi um ofáti urriðans eða einhverju öðru skal ósagt látið, en það er staðreynd að bleikjan í Þingvallavatni á undir högg að sækja og það verður forvitnilegt að fylgjast með henni næsta sumar.

    Sjóbleikjan í Haukadalnum var aftur á móti mun sýnilegri heldur en oft áður og kom ítrekað við sögu í veiðisögum síðasta sumars. Haukadalsvatnið fór beinlínis á kostum og þeir sem lögðu land undir fót vestur í Dali komu flestir ósviknir til baka á meðan aðrir sem ekki áttu heimangengt, ég þar á meðal, nöguðu sig í handarbökin. Það skyldi þó aldrei vera að sjóbleikjan sé að sækja í sig veðrið innarlega í Breiðafirðinum.

    Talandi um að leggja land undir fót, þá hefur nýr áfangastaður í grennd við höfuðborgina bæst við á Veiðikortið, Leirvogsvatn á Mosfellsheiði. Þar er tilvalið að staldra við á leið til eða frá Þingvöllum og kanna stöðuna á urriðanum, lunknir veiðimenn hafa oft gert ágæta veiði í vatninu.

    En hvað ætli næsta sumar færi okkur Veiðikortahöfum? Ef að líkum má láta, þá fáum við notið íslenskrar náttúru og alls þess sem hún hefur upp á að bjóða. Enn er of snemmt að rýna í veðurspár, enda tek ég mér oft í munn orðatiltækið að veðrið sé aðeins hugarástand og klæði mig einfaldlega eftir því. Mig rámar til dæmis í að síðasta sumar hafi gengið í garð með einmuna blíðu, en þegar tölurnar eru skoðaðar þá kemur í ljós að það var víst frekar kuldalegt. Svona getur gleði í geði breytt minningum.

    Að sama skapi rámaði mig í að aflabrögð síðasta sumars hafi verið í slakari kantinum og ég varð því aldeilis forviða þegar ég kíkti í frystikistuna um daginn, hvaðan kom allur þessi fiskur? Og talandi um það, núna þegar við þessi óþreyjufullu erum komin með bækling Veiðikortsins í hendurnar og erum byrjuð að láta okkur dreyma um næsta sumar, þá er ekki seinna vænna heldur en nýta afla síðasta sumars. Fara með hann í reyk, grafa eða einfaldlega smella honum á pönnuna með íslensku smjöri.

    Með veiðikveðju, Kristján Friðriksson / FOS.IS

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Fetaðu alla slóða

    31. mars 2024
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Sumir veiða í bunkum, margar flugur eða fjöldann allan af krókum í röð. Þeir sem beita á marga króka í einu eru sagðir veiða á slóða, þ.e. ef þeir eru þá ekki beinlínis að leggja línu frá bát. Slóðar eru misvel þokkaðir meðal veiðimanna, sumir líta þá svo miklu hornauga að þeir þurfa að skyrpa og afneita djöflinum ef þeir svo mikið sem taka sér slóði í munn. Þetta gætu verið þeir sem fundu upp á orðinu afleggjari (e: dropper) yfir það að veiða á fleiri en eina flugu í einu, sem er náttúrulega allt annað mál en veiða á slóða. Skyndilegur hrollur fór um mig vegna kaldhæðninnar í þessum orðum, en hvað um það. Mig langar ekkert til að blanda mér í kýting um slóða og droppera, enda fjallar þessi stúfur heldur ekkert um það. Ekki nema þá slóða sem liggja að veiðislóðum.

    Við könnumst við þetta gamla, góða að sækja vatnið yfir lækinn og græna grasið sem er hinu megin. Vissulega getur grasið verið grænna hinu megin, bara svona af náttúrulegum ástæðum. En, það getur líka verið að það sé grænna í augum veiðimannsins vegna þess að hann sjálfur hefur farið þangað oft og mörgum sinnum og þannig ræktað það. Þetta er auðvitað sagt í óeiginlegri merkingu og verðskuldar skýringar. Það sem ég á við er einfaldlega það að því oftar sem veiðimaður leggur leið sína á ákveðna veiðislóð, hvort sem hún er í læknum sem hoppað er yfir eða í vatninu sem sest er niður við, þá lærir veiðimaðurinn á aðstæður. Hann fer að þekkja á hvaða tíma fiskurinn gefur sig á ákveðnum stað, skoðar málið kannski betur og kemst þá að raun um að ætið gerir helst vart við sig þar þegar ákveðnum hita er náð, í ákveðinni vindátt og allt þar fram eftir götunum. Kannski kemst veiðimaðurinn að raun um að í stefnu á ákveðinn girðingarstaur, ákveðið langt út með tiltekna flugu, þá tekur fiskur, yfirleitt. Staðurinn verður leynistaður sem enginn annar veit af, en veiðimaðurinn veit kannski ekkert af hverju staðurinn gefur. Ekki fyrr en hann kemur á allt öðrum árstíma eða skoðar hann frá öðru sjónarhorni, t.d. frá girðingarstaurnum. Þá rennur ljósið upp fyrir honum. Það er kannski steinn á botninum, gróðurfláki eða önnur frábær skilyrði fyrir skordýr sem gera þennan stað að tökustað.

    Fiskur milli steina

    Ef veiðimaðurinn hefur smá tilhneigingu til ræktunarstarfa, smá græna fingur, þá gæti hann tekið upp á því að rækta þessa veiðislóð með því að kanna hvort þar séu ekki fleiri staðirnir sem líkjast leynistaðnum. Þar sem er einn steinn, þar geta verið fleiri. Það er varla til sá staður á Íslandi sem skortir steina þó þeir sjáist ekki alls staðar. Steinninn veitir fiski skjól og því fleiri steinar, því meira skjól, sem aftur leiðir til fleiri veiðistaða. En það er ekkert víst að fiskurinn komi alltaf upp um þessa staði með því að sýna sig og því er alveg eins víst að við löbbum fram hjá þegar við færum okkur til á milli þekktra veiðistaða. Stundum er gott að hafa það í huga þegar maður var í feluleik sem barn. Ekki datt manni í hug að teygja fót eða hendi út úr felustaðnum á meðan einhver annar var hann, hann gæti þá komið auga á mann. Það sama á við um fiskinn, ef hann er í feluleik á bak við stein, þá er hann ekkert að sýna ugga eða sporð, ekki nema ætið komi syndandi fram hjá.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að sleppa sér

    17. mars 2024
    Þankar

    Upp

    Forsíða

    Sá merki áfangi náðist nýverið að öllum varphænum landsins var sleppt lausum og umsvifalaust urðu þær jafn hamingjusamar og aðrar varphænur í Evrópu. Núna spígspora þær um í mestu makindum og gogga í fóðurkorn þegar þeim hentar á milli þess að þær verpa fullu húsi matar. Á sama tíma situr meirihluti okkar áfram í búrum sínum, gleðst fyrir þeirra hönd, en má ekkert vera að því að líta í spegil og sjá næsta markhóp í baráttunni fyrir lausagöngu.

    Það er af sem áður var að meirihluti Íslendinga séu bændur til sjávar eða sveita og í nánu sambandi við náttúruna. Í dag búum við flest á mölinni, lifum í manngerðu umhverfi og sjáum náttúruna aðeins í fjarska út um gluggann heima hjá okkur eða í vinnunni. Það er reyndar alls óvíst að okkur gefist tími til að virða náttúruna fyrir okkur, slíkur er hraðinn orðinn í samfélaginu. Allt gengur á klukkunni og það sem áður tók eina klukkustund verður að klárast á 40 mínútum þannig að krafan um hagræðingu og framleiðniaukningu náist. Stressið er leynt og ljóst að sjúga úr okkur lífsorkuna og orðið kulnun hefur fest sig rækilega í sessi frá því að það var útnefnt orð ársins 2018 af hlustendum og áhorfendum RÚV.

    Hvernig væri nú að við slepptum okkur sjálfum lausum? Að vísu má gera ráð fyrir því að einhver okkar þurfi smá aðlögunartíma í lausagöngu þannig að við förum okkur ekki að voða. Mannfólkinu hættir nefnilega til að taka of stórt upp í sig, vera í sífelldu áramótaátaki, ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur og ætla sér að sigra heiminn í fyrstu atrennu. Ég mæli með litlum skrefum, jafnvel hænuskrefum til að byrja með, kanna hvernig landið liggur og hvar óhætt er að stíga niður fæti áður en lagt er af stað í langleið landshorna á milli. Ef við hlustum á sjálf okkur, tökum varfærin fyrstu skref, rétt á meðan við fótum okkur, gætum við áður en varir verið farin að hoppa og skoppa um í frelsinu eins og lömb að vori, einfaldlega farin að njóta þess að vera til.

    Sjálfur hef ég áratugum saman stundað lausagöngu í náttúrunni þar sem ég næ að hlaða batteríin með því að hugsa ekkert, aðeins njóta þess sem er og náttúran bíður upp á. Líkt og margir aðrir sækist ég í samneyti við eitt mikilvægasta efni jarðar, vatnið. Hvort sem það liggur kyrrt og afslappað fyrir fótum mér eða leikur lausum hala og hjalar við steina á leið sinni, nýt ég þess að vera í nánd við það og leyfi því að skola stressinu burt á meðan ég legg agnið mitt fyrir lónbúann. Það eru engin ný sannindi að stangveiði hafi góð áhrif á sálartetrið og líkamann. Einna fyrstur til að lýsa heilandi áhrifum hins bláa rýmis (e: Blue Mind)1 var bandaríski læknirinn J. A. Henshall árið 1881 með orðunum; Fluguveiðimenn eru yfirleitt þenkjandi samfélagsþegnar. Þeir hafa fundist á bökkum niðandi lækja, svolgrandi í sig endurnærandi náttúruna sem færir lerkuðum huga þeirra og útjöskuðum taugum fró og hvíld þegar þeir handleika þjála veiðistöngina, ósýnilegan tauminn og fagurskreytta fluguna.2Nær okkur í tíma hafa ítarlegar rannsóknir beggja vegna Atlantsála sýnt fram á kosti stangveiði og nándar við vatn sem meðferð við áfallastreituröskun3 og almennt betri andlega líðan,4 svo ekki sé minnst á endurhæfingu kvenna sem lokið hafa meðferð við brjóstakrabbameini.5 Að standa á vatnsbakkanum með stöng í hönd og gefa sjálfum sér og flugunni lausan tauminn er áhrifarík leið til að losa um streitu, stunda íhugun og rækta sjálfsvitund sína. Ef þú hefur hænuskrefin í huga og tekst á við stöku áskoranir, eina og eina í einu, er eins víst að stangveiðin verði þér samhverfa hugleiðslu og opni þannig eyru þín sem fara þá að nema það sem náttúran hefur að segja með þögninni einni saman.


    1 Blue Mind: Why being in, near or on water is good for your health. (2024). Plymouth Marjon University.

    2 Henshall, J. A. (1881). Book of the Black Bass. 388. R. Clarke & Company. (lausleg þýðing höfundar)

    3 Bennett, Jessie o.fl. (2014). Veterans’ perceptions of benefits and important program components of a therapeutic fly-fishing program. Therapeutic recreation journal. 28. 169-187.

    4 Wilson, Jason J. o.fl. (2023). Mental health and recreational angling in UK adult males: A cross-sectional study. Epidemiologia, 4(3), 298.

    5 Kastað til bata – Brjóstaheill (e: Casting for Recovery).

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Saga af Zulu

    11. febrúar 2024
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Þær eru nokkrar flugurnar sem hafa verið fastir gestir í Febrúarflugum í gegnum árin og meðal þeirra er Zulu, bæði Black og Blue. Þetta er fluga sem flestir þekkja enda er flugan sögð gömul, jafnvel há öldruð. Saga þessarar flugu er sveipuð ákveðinni dulúð því ekki hefur tekist að eigna hana einhverjum ákveðnum aðila, ekki vitað með vissu hvar hún kom fram eða þá hvenær.

    Flugan er til í nokkrum útfærslum eins og sjá má af þessum myndum sem fengnar eru úr safni Febrúarflugna síðustu árin, en í megin atriðum hafa hnýtarar haldið fast í hefðbundið útlit flugunnar, með örfáum undantekningum.

    En hvað ætli þessi fluga sé gömul? Ég sá nýlega grein á vefnum þar sem því var haldið fram að hún væri 300 ára gömul, aðra grein fann ég sem sagði að hún hefði komið fram á miðri 20. öldinni (1900-1999). Hvort tveggja stenst ekki við nánari skoðun. En hvernig ætli flugan hafi þróast í gegnum árin og hvað vitum við elst um hana? Til að leita svara fór FOS í gegnum nokkrar bækur úr safninu og skannaði inn uppskriftir og myndir af Zulu þar sem þær var að finna.

    Bob Church’s Guide to Trout Flies útgefin 1987, höfundur: Bob Church
    Fly-Dressing útgefin 1975, höfundur: David J. Collyer
    Reservoir and lake flies útgefin 1970, höfundur John Veniard
    Favorite Flies and Their History útgefin 1892, höfundur: Mary Orvis Marbury

    Favorite Flies and Their History er elst þeirra heimilda sem ég fann eitthvað um Zulu. Hvergi var minnst á fluguna í eldri bókum sem FOS hefur aðgang að sem ná þó allt aftur til 1486. Við getum þá sagt með vissu að flugan varð örugglega til fyrir 1892. Ef við gefum okkur að Zulu hafi ekki legið ónefnd í boxum veiðimanna í einhver ár eða áratugi, sem gæti þó raunar verið, þá gæti ákveðin vísbending um aldur hennar legið í nafni hennar.

    Það eru í það minnsta tvær sögur sem tengjast nafni flugunnar og þær eiga það sameiginlegt að vísa til Zulu ættbálksins í Zululandi, nú héraðs í Suður Afríku. Önnur sagan segir að flugan hafi verið hnýtt eftir höfuðskrauti leiðtoga (konungi) Zulu ættbálksins, Cetshwayo kaMpande sem ríkti frá 1873 til 1884. Sé þessi saga rétt þá getum við leitt líkum að því að flugan hafi orðið til á árunum á milli 1873 – 1892. Hin sagan sem sögð er tengist einnig Cetshwayo, en þó með öðrum hætti.

    Upp úr 1874 tók Breska heimsveldið að ásælast mannauð Zululands sem ódýrt vinnuafl fyrir breska plantekrubændur, m.ö.o. þræla. Cetshwayo konungur stóð upp í hárinu á heimsveldinu og vildi semja um aðild að Breska heimsveldinu með fullu sjálfstæði, ekki innlimun. Bretar höfnuðu öllum samningum og réðust inn í Zululand árið 1879 og upphófst þá blóðugt stríð með gríðarlegu mannfalli beggja herja. Sagan segir að svartar fjaðrir Zulu tákni ættbálkinn sem nánast var útrýmt í þessu stríði og rauði liturinn tákni blóð þeirra sem dóu í átökunum. Eigi þessi saga við rök að styðjast, þá getum við sagt með nokkurri vissu að Zulu hafi orðið til á árinum á milli 1879 og 1892, nær held ég ekki að unnt sé að komast í sögunni.

    Eftir situr að hvergi í því sem skráð hefur verið um Zulu, er að finna eitt einasta orð um það hver hafi fyrstur hnýtt fluguna eða hvar nákvæmlega í Englandi hún hafi orðið til. Svo verður að taka með í reikninginn að það er ekkert víst að Claude De Black frá Nova Scotia (heimildarmaður Mary Orvis) hafi gert greinarmun á Englandi og öðrum löndum Bretlandseyja. Þannig er nefnilega að veiðimenn í norðurhéruðum Bretlands hafa áratugum saman talið Zulu vera ættaða úr sínum héruðum. Kannski sannast hér bara hið fornkveðna; Allir vildu Lilju kveðið hafa. Það sem eftir situr er að litasamsetning Zulu hefur gengur svo sannanlega í augu silungsins.

    One starts by observing that in weedy rivers trout live in an environment of green; in gravelly or rocky rivers they live in an environment of brown. One knows from the attractiveness of the Red Tag and the Zulu that they are peculiarly sensitive to red.

    The Way of a Trout with a Fly, útgefin 1921, höfundur G. E. M. Skues, bls. 29

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Dagbókin mín 2023

    28. desember 2023
    Þankar

    Upp

    Forsíða

    Þegar nýtt ár er rétt handan við hornið þá gerist það vísvitandi og ómeðvitað að maður fer að leiða hugann að því markverðasta sem gerðist á árinu. Sumt á maður bara fyrir sig og sína, en öðru má alveg kasta fram eins og flugu á fallegum degi. Eins og gengur eru sumar flugur orðnar heldur sljóar og mikið notaðar á meðan aðrar eru hnýttar á nýja króka og eru því hárbeittar. Þannig er þetta bara og því gætu einhver minningabrot dagbókar ársins 2023 verið með broddi sem stingur á meðan aðrar rétt strjúkast hjá eins og hver önnur dægurfluga.

    Fallegu dagarnir á árinu voru ótrúlega margir og meira að segja sljóar, gamlar og þrautreyndar flugur færðu mér ánægju langt umfram væntingar. Hvergi vatnsskorti fyrir að fara, veðurskilyrði frábær þó vissulega hafi einum og einum degi brugðið fyrir þar sem ég saknaði þess að hafa lagt spúnastönginni minni fyrir mörgum árum síðan. Veiðiferðir sumarsins lutu sama lögmáli eins og fjöldi veiðistanga, æskilegur fjöldi er núverandi plús einn. Fjöldi fiska réðst meira af plássi í frystikistunni heldur en tökum og að þessu sinni var aflinn 90% urriði og ekki laust við að eitthvert samviskubit hafi gert vart við sig. Ekki þurfti ég að skammast mín fyrir að veiða fiska í útrýmingarhættu, eins og venjulega fékk Atlantshafslaxinn alveg frið fyrir mér. Það sem olli mér hugarangri var sjálfur urriðinn, ekki sá sem lá í kistunni minni, heldur sá sem enn syndir um.

    Nú ætla ég ekki að fullyrða eitt né neitt fyrir aðra veiðimenn, en ég hef áhyggjur af sókn ágengra tegunda í íslenska náttúru og hef margoft haft orð á því[1]. Fram til þessa hefur hnúðlaxinn fylgt svipuðu hegðunarmynstri eins og ég í veiðibúð, kíkir við og kannar aðstæður í nokkur skipti áður en hann ræðst til atlögu. Ég trúi því að nú sé hann endanlega búinn að gera upp við sig að hér sé gott að búa, kominn til að vera eftir að hafa nær óáreittur fengið að kanna aðstæður hér annað hvert ár í nokkurn tíma. Kannski er þetta óafturkræf þróun, en ég á ekki von á öðru en gripið verði til róttækra aðgerða þegar hann tekur sér bólfestu í næsta nágrenni við innfædda laxastofna, líkt og Norðmenn hafa gert síðustu árin þar sem hnúðlaxi er skóflað upp í tonnatali úr norskum ám. Væntanlega verður ráðist í átaksverkefni hér með tilheyrandi kostnaði þegar þar að kemur sem einhver borgar.

    Til að vera fullkomlega hreinskilinn, þá held ég reyndar að hnúðlaxinn sé ekki sú ágenga tegund sem herjar mest og verst á íslenska náttúru. Hin vanþróaða tegund Anthropos[2] sem nam hér land fyrir alllöngu síðan hefur sífellt gerst ágengari. Frá því tegundin komst fyrst í fréttirnar hefur hún þó lengstum verið til friðs og lifað í sátt við náttúruna eða í um tvær milljónir ára. Og hvað svo sem við teljum um framfarir hennar í dag, þá tók hún sín stærstu skref í þróun og þroska sjálfsvitundar þegar hún gerðist afræningi. Á síðustu árþúsundum hefur þó hallað undan fæti, þá sérstaklega eftir að tegundin tók til við að dýrka gjörðir sínar meira en eigið ágæti. Fyrir um 1.500 árum síðan, þegar eftirlifandi vottur samvisku tegundarinnar var farinn að bíta heldur hressilega, datt einhverjum snillingi í hug að sjóða saman texta í frípassa sem útdeilt var meðal valinnar ættkvíslar tegundarinnar og í veðri látið vaka að hann sé frá æðri máttarvöldum kominn. Textinn er svohljóðandi; „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. Hann skal drottna yfir fiskum sjávarins, fuglum loftsins, búfénu, villidýrunum og allri jörðinni og öllum skriðdýrum sem skríða á jörðinni.“[3] Þennan frípassa hefur ákveðinn minnihluti notað æ síðan og gengið hve ötullegast fram í misnotkun annarra dýrategunda á jörðinni. Mikið vildi ég óska þess að höfundur þessa texta hefði orðað þetta með öðrum hætti, t.d. „Hann skal bera ábyrgð á …“ þá væri vestrænt samfélag byggt á öðru en drottnun og óskoruðum yfirráðum sem síðan hafa smitast út í löggjöf og reglur samfélagsins.

    Það orð hefur raunar legið á tegundinni allri að henni fylgi bráðsmitandi faraldur sem kallast græðgi. Samheitavensl[4] þessa orðs eru m.a. gróði, siðblinda, sjálftaka, markaðsvæðing, drottnunargirni og sérhyggja, svo nokkur séu nefnd. Eitt afbrigði þessa faraldrar skall hér á upp úr síðustu aldamótum og á þeim tíma var sterklega varað við afbrigðinu af nokkrum aðilum og mælt með öflugri bólusetningu gegn henni. Helst var mælt með kröftugum meðulum eftirlits og strangra umgengnisreglna. Því miður var lítið sem ekkert mark tekið á þeim efasemdamönnum og afturhaldsseggjum sem vöruðu við þessum faraldri og ábendingum þeirra yfirleitt ekki svarað. Flestir sáu lítið annað en stórkostleg tækifæri og hagsæld með tilkomu sjókvíaeldis hér við land, enginn hætta væri á ferðum, umhverfisáhrif í lágmarki, endalaus tækifæri og næg atvinna fyrir byggðir sem höllum fæti stóðu. Þetta voru yfirlýsingar sem bláeygir Íslendingar gleyptu með húð og hári enda voru þessi orð matreidd í stóreldhúsum erlendra fiskeldisfyrirtækja með dyggum stuðningi þeirra sem voru keyptir eða gerðust sjálfskipaðir stuðningsmenn sjókvíaeldis á Íslandi. Ég er einn þeirra sem fékk svolítið á baukinn á þessum tíma, þótti ekki bera hag þjóðarbúsins fyrir brjósti þegar ég viðraði mínar efasemdir og varaði við því að stíga fæti niður í þennan drullupytt sjókvíaeldis. Nú má enginn taka því sem svo að ég telji mig einhvern sporgöngumann þessara efasemda, það voru margir mun háværari en ég sem hófu upp rödd sína en þær raddir drukknuðu í orðagjálfri og endalausum loforðum um betri tíð og blóm í haga og því fór sem fór. Gamalt og úr sér gengið erlent regluverk var þýtt yfir á íslensku, engin hætta á ferðum hér og stjórnkerfið tók bara Sumarliða á þetta og smellti í „Ég veit allt, ég get allt, geri allt miklu betur en fúll á móti … Haltu kjafti.“

    Á árinu sem er að líða kom í ljós að kynþroska eldisfiskur hafði sloppið úr sjókvíum, eitthvað sem átti bara alls ekki að geta gerst, en hafði þó gerst í nokkur skipti áður og látið nær óáreitt. Ábyrgðaraðilar drullupollanna fyrir vestan stukku upp til handa og fóta, ræstu þvottavélin, fylltu öll hólf af hvítu þvottaefni og tróðu öllu því af rekstrinum sem unnt var í belginn og settu í gang. Út úr þvottavélinni ullu síðan klisjukenndar afsökunarbeiðnir með skínandi hvítum orðum eins og ófyrirséð, slys og óvart. Hvíti þvotturinn[5] var síðan hengdur upp á snúru Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og hliðhollra fréttamiðla, fréttatilkynningar og auglýsingar sendar út um allar koppagrundir og lofað bót og betrun. Til að fanga hina lausgirtu kynóðu eldislaxa sem höfðu komið sér fyrir í íslenskum ám var brugðið á það ráð að flytja inn erlenda veiðimenn í latexgöllum sem höfðu mikla reynslu af því að synda eggjandi um í ýmsum ám Noregs og tæla eldislaxa til fylgilags við sig. Fyrst hélt ég að Gerður í Blush stæði á bak við þetta en þegar ég sá vopnin þeirra varð ég sannfærðum um að þeir væru á vegum Kristjáns í Hval. Með ótrúlegum dugnaði og væntanlega töluverðum kostnaði tókst þessum latexdólgum að fanga nokkur prómill af þessum kynóðu eldislöxum að vestan en við vitum enn ekkert hvar restin af þeim liggur í dag (hóst, hóst). Til vonar og vara var laxveiðitímabilið þó framlengt þannig að veiðiréttrétthöfum gæfist kostur á að taka til í ánum sínum, gegn hóflegu gjaldi (annað hóst, hóst). Send var út tilkynning til allra innfæddra laxa um að þeir ættu að halda í sér og taka vel í að vera teknir óvart í misgripum fyrir kynóða útlendinga. Fáum sögum fer af undirtektum þeirra, vonandi hefur þeim tekist að nýta sér áralanga reynslu sína af veiða og sleppa og ekki orðið meint af þessari vitleysu. Ég er samt ekki alveg viss um að þeir hafi tekið mark á þeim tilmælum um að halda í sér hrognum og svilum þar til betra næði gæfist til að hryggna, en það á eflaust eftir að koma í ljós. Það er þá alltaf hægt að ráðast í eitthvert átaksverkefni, grafa hrogn eða sleppa seiðum til að vega upp á móti þeim hrognum sem fóru forgörðum í atganginum.

    Allt þetta vesen að vestan varð til þess að rétthafar og söluaðilar veiðileyfa sendu út neyðarkall og þúsundir manna gripu til vinsælasta úrræðis Íslendinga á síðari árum; fjöldamótmæli á Austurvelli. Þessi fundur var allra góðra gjalda verður, hann sýndi að fjöldi fólks hafði áhyggjur af útbreiðslu faraldursins og landsþekktir popparar komu fram og sungu til styrktar málstaðnum. Staðsetningin var frábær, mótmælaskilti á lofti, pólitísk slagorð á vörum og kæstum eldislaxi raðað upp til sýnis. Ískaldur sannleikurinn er aftur á móti sá að mótmæli á Austurvelli eiga sér álíka langan líftíma eins og niðursneiddur eldislax. Kliðurinn af mótmælunum verður löngu þagnaður þegar þessar þúsundir kjósenda stendur til boða að stilla nágrönnum sínum eða sjálfum sér á lista fyrir næstu Alþingis- eða sveitarstjórnarkosningar. Til að koma skoðun á framfæri í lýðræðisríki er frábært að hrópa hátt, en til að breyta þarf að taka þátt. Taktu þátt í næsta forvali, uppstillingu eða hvað það nú heitir hjá flokkunum þegar þeir raða frambjóðendum á lista fyrir næstu kosningar. Veldu þann sem svarar þér að skapi, því fleiri fulltrúar þjóðarinnar sem kveða sömu vísuna, því meiri líkur eru á að breytingar verði á pólitíska bragnum því í dag syngur hann útfararsöng yfir villtum laxi fiskistofnum landsins á Alþingi og heima í héraði. Það má aldrei vanmeta samtakamátt fólks, það sönnuðu Seyðfirðingar á árinu þegar þeir höfnuðu stórfelldu sjókvíaeldi, húrra fyrir Seyðfirðingum.

    Já, ég strikaði yfir laxinn hér að framan og breytti í fiskistofna vegna þess að það er ekki aðeins Atlantshafslaxinum sem stendur ógn af gróðahyggju mannskepnunnar. Auðvitað var það gróðahyggja sem réð því í sumar sem leið að opinskátt var urriðinn í Ytri Rangá var færður á lista yfir afræningja og veiði- og leiðsögumönnum gert að drepa hann, hvar sem til hans næðist. Það sorglega við þetta er að í þessu tilfelli er laxinn hin ágenga tegund í ánni með dyggum stuðningi mannskepnunnar. Ég get bara ekki fengið það af mér að gera því skóna að það sé til laxastofn í Ytri, einfaldlega vegna þess að þar hefur laxastofn aldrei þrifist með náttúrulegum hætti. Búseturéttur frumbyggja í náttúrunni má sín lítils þegar peningaseðlum eða gullkortum er veifað og því réttlætanlegt að „grisja“ frumbyggjana eins og veiðimaður einn sagðist hafa skilning á. Þarna skilur á milli mín og þeirra sem tóku þátt í þessum ófögnuði, þessi rök finnast mér vera álíka gáfuleg eins og rök innflytjenda í Bandaríkjum Norður-Ameríku færðu fram þegar þeir murkuðu lífið úr innfæddum eftir að hafa stolið landinu þeirra og fjárfest í beljum sem sleppt var í haga vísundanna sem þurfti síðan að grisja. Því miður hefur það lengi tíðkast að lauma því að veiðimönnum að grisja frumbyggja ákveðinna svæða þannig að verðmætari fiskur fái nægt rými og frið fyrir afráni. En hvað er ég að rífa kjaft um þetta, lykillinn fólst í orðinu „verðmætari“ og þar með er málið dautt. Mér vitandi voru það einstaklingar einir sem hreyfðu málinu, ég heyrði í það minnsta ekki raddir stangaveiðifélaga eða náttúruverndarsamtaka og því þagnaðir kliðurinn jafnvel hraðar en kliðurinn af Austurvelli gerði.

    Í byrjun desember var birtur uppfærður listi Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna yfir tegundir í útrýmingarhættu[6] og þar bar svo við að Atlantshafslaxinn færðist upp um sæti og er nú nærri því að vera ógnað (e: near threatened). Þetta hefur væntanlega ekki komið íslenskum laxveiðimönnum á óvart, ég vona bara að urriðanum og bleikjunni verði ekki kennt um, nóg er samt. Það vakti samt athygli mína að hvorki urriða né heimskautableikju er getið á lista IUCN, báðar tegundirnar fá stöðuna minnstu áhyggjur (e: least concern) sem ég vara þó sterklega við að trúa í blindni af þeirri ástæðu einni að staða þeirra var síðast metin á árunum 2008 og 2010. Þessi útúrdúr minn dregur þó alls ekki úr alvarleika þess að salmo salar færist upp um áhættuflokk, því fáir fiskistofnar hafa notið jafn mikillar athygli og verndarsjónarmiða eins og Atlantshafslaxinn á síðustu árum og samt hefur honum fækkað að því er talið er. Hér á landi er nú mikill meirihluti áa undir sleppiskyldu laxa settar og svo hefur víða verið í allmörg ár. Já, ég hef fylgst með umræðunni en lítið skipt mér af henni, það eina sem ég veit er að ef ég á eitt brauð sem dugar mér í viku, þá þýðir ekki fyrir mig að bjóða 10 manns í samlokumáltíð í heila viku. Ég get vissulega boðið þeim í eina samlokumáltíð, en þá er brauðið líka búið þangað til ég fer næst út í búð (sem ég geri venjulega vikulega). Ég gæti því boðið þessum hópi aftur í samloku að viku liðinni, en fráleitt ef hver og einn þeirra tekur með sér 10 gesti, þá dugir brauðið ekki einu sinni í eina samlokumáltíð. Það sama á nákvæmlega við um árnar og … takið eftir, sjóinn. Einu munurinn er að maturinn í ánni eða sjónum endurnýjast ekki í hverri viku eins og brauðið mitt, það gerist aðeins einu sinni á ári. Það þýðir ekkert að bjóða fleirum í mat ef það er ekki til nóg handa öllum. Hrognagröftur og veiða og sleppa virkar frábærlega, svo lengi sem það er eitthvað til að éta fyrir seiðin. Það skildi þó aldrei vera að Jón Kristjánsson hafi eitthvað til síns máls?[7] Ég hef þá trú að það þurfi að horfa til einhvers annars en fjölga löxum endalaust í ám án þess að skoða lífríkið. Gamalt búsvæðamat áa, segjum 6 – 10 ára gamalt á ekkert endilega við í dag, það hafa nefnilega orðið breytingar á lífríkinu og þær hafa gerst miklu örar heldur en flest okkar gera sér grein fyrir. Það er löngu kominn tími til að stokka spilin upp á nýtt, jafnvel gefa í allt annað spil heldur það sem spilað hefur verið hingað til. Þangað til við vitum hvaða spil við eigum að spila, þá trúi ég því að veiða og sleppa þjóni oft þeim tilgangi einum að selja sama fiskinn + fæði og uppihald oftar en einu sinni á hverju sumri.

    Nú er árið alveg að klárast og síðunum í dagbók ársins fer fækkandi. Það eru þó nokkrir punktar sem standa eftir í bókinni minni sem ég hef ekkert nefnt. Þessir punktar tengjast þvottavélum fyrirtækja sem taka upp á því að gerast styrktaraðilar íþróttasambanda eða beita sér af miklu afli að náttúruvernd með grænt þvottaduft í farteskinu. HSÍ nýtur vonandi nægjanlega góðs af íþróttaþvotti Arnarlax til að vega upp á móti tekjutapi árlegs happdrættis síns sem fer væntanlega af stað á nýju ári. Ég læt það vera að þessu sinni að kaupa miða. Arnarlax er þó bara peð í samanburði við Ineos Foundations[8] þar sem óhætt er að segja að sé á ferðinni iðnaðarþvottavél sem beitt er við grænþvott þess efna- og orkurisa sem Ineos Group er. Það skiptir mig svo sem engu máli hvort eigandi Ineos kaupi eitthvert fótboltalið á Englandi, svo lengi sem vatnið og landið sem keypt hefur verið í nafni Six Rivers Project á Íslandi verði ekki nýtt til bergbrots eins og Ineos hefur boðist til að gera á Bretlandseyjum og Skotlandi. Og talandi um orkufyrirtæki, þá fékk Landvirkjunin okkar nýlega jólagjöf frá Umhverfisstofnun þegar hún boðaði breytingar á reglum um vatnshlot Þjórsár þannig að halda mætti áfram með áform um 95 MW Hvammsvirkjun[9] í Þjórsá. Ef ég skil niðurstöðuna rétt, þá þarf LV ekki að gera breytingar á fyrri áformum sínum, það eina sem verður gert er að færa kröfurnar niður og þá verður hægt að girða fyrir gönguleið stærsta náttúrulega laxastofns sem finnst á Íslandi. Ég hefði nú frekar kosið að skrúfað yrði raforkusóun í námugröft rafeyris með hreinni íslenskri orku. Það færi langt með að standa undir orkuþörf hins venjulega Íslendings næstu árin og gæfi Landsvirkjun tóm til að vinna í alvöru að eigin Loftslags- og umhverfisstefnu[10] og beita sér fyrir því að draga úr sölu raforku til þeirra aðila sem sóa auðlindum jarðar til þess eins að fullnægja gengdarlausri neysluhyggju skepnunnar sem segist öllu ráða hér á jörð. Landsvirkjun er í lófa lagið að beina hreinu orku okkar til umhverfisvænni notkunar, en gerir það ekki og því mun í það minnsta 85% orkunnar úr Hvammsvirkjun renna með einum eða öðrum hætti til Rio Tinto, Alcoa, Elkem, PCC eða Century Aluminum sem þegar eiga megnið af þeim tveimur milljónum tonna af gróðurhúsalofttegundum iðnaðar sem losaðar eru árlega út í andrúmsloftið hér á landi.[11] Það er þrisvar sinnum meira en öll losun íslensks landbúnaðar gerir. Og hvað kemur þetta fiskistofnunum okkar við? Ef þú hefur enn ekki tengt hlýnun jarðar við hop norrænna fiskistofna í sjó og á landi, þá átt þú töluvert ólært.

    Takk fyrir árið, kæra dagbók.


    [1] Stóriðja í Vatnadal – Þögla fórnarlambið – Ég neita – Bölmóður o.fl.

    [2] Wikipedia

    [3] Bíblían. Fyrsta Mósebók 1:26

    [4] Orðanet Árnastofnunar

    [5] Þvottur og þvætti

    [6] Rauði listi IUCN

    [7] Veiða – sleppa, er gagn af því? Bændablaðið, bls.66

    [8] Grænþvottur INEOS

    [9] Guð, hvað þetta er fallegt

    [10] Loftslags- og umhverfisstefna Landsvirkjunar

    [11] Bráðabirgðatölur UTS fyrir 2022

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar