FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Fiskur á þurru landi

    27. október 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Nú er vika liðin frá fyrstu grein minni um virkjanir í Neðri-Þjórsá og mér hefur því gefist tími til að lesa mér til um virkjun númer tvö; Holtavirkjun. Ef ég á að vera fullkomlega hreinskilin, þá hefur tilfinning mín fyrir þessum virkjunum ekki batnað við þann lestur, hvað þá tilkynningu Landsvirkjunar um ráðstöfun orkunnar úr Hvammsvirkjun sem kom fram aðeins tveimur tveimur dögum eftir að fyrsta grein mín birtist. Hvammsvirkun er sem sagt ætluð til kísilmálmvinnslu Thorsil í Helguvík. Ég læt liggja á milli hluta álit mitt á ráðstöfun orkunnar úr Þjórsá, þar greinir mig verulega á við forsvarsmenn Landsvirkjunar.

    Ég hef alltaf verið svolítið veikur fyrir fossum á Íslandi og það eitt að tilkoma Holtavirkjunar yrði til þess að þurrka tvo þeirra upp, Hestafoss og Búða, er eiginlega nóg til að ég er ósáttur við þessi áform. En fleira kemur vitaskuld til.

    Búðafoss - Mynd: Landsvirkjun
    Búði – Mynd: Landsvirkjun

    Hér að ofan má sjá samsetta mynd úr gögnum Landsvirkjunar sem nær til stíflunnar við Búða. Þarna var byggður fiskvegur árið 1991 sem hefur svo sannanlega skotið styrkari fótum undir laxagengd í Þjórsá. Ég get ekki skilið gögn Landsvirkjunar á annan veg en þessi fiskvegur verði óþarfur, því lítið sem ekkert vatn mun renna niður Búða eins og þó er sýnt á myndinni. Gangi áætlanir eftir um Holtavirkjun mun árfarvegurinn standa þurr nema í stærstu flóðum þegar hleypa þarf framhjá stíflunni.

    Áform þessarar virkjunar eru að nokkru frábrugðin Hvammsvirkjunar hvað varðar uppistöðulónið. Ekki er gert ráð fyrir jafn mikilli söfnun framburðar í Árneslón eins og í Hagalón og því gætu lífslíkur fiska verið eitthvað skárri, en þar kemur á móti að lónið yrði töluvert stærra og fjórðungur þess mundi sökkva víðfeðmu votlendi þar sem yfir 1000 varpfuglar hafa tekið sér bólfestu. Eins og þetta sé ekki nóg, þá hefði þessi virkjun í för með sér lengstan þurra kafla Þjórsár af öllum virkjunarkostunum þremur, 10 km. frá Búða og niður fyrir Árnessporð. Á þessum 10 km. kafla eru einhver stærstu búsvæði laxins í Þjórsá. Þessi kafli verður heldur rýr ef aðeins Kálfá rennur um hann frá gömlu ármótunum við Miðhúsahólma og það er lítil von til að fiskur fjölgi sér á þurru landi. Landsvirkjun hefur haldið því fram (MBL 23.03.2012) að mótvægisaðgerðir sem ráðist yrði í mundu tryggja fiskistofnum ásættanleg búsvæði í stað þeirra sem mundu eyðileggjast.

    Árnessporður - Mynd: Landsvirkjun
    Árnessporður – Mynd: Landsvirkjun

    Þessi fyrirhugaða virkjun hefur, rétt eins og Hvammsvirkjun, verið spyrt saman við Urriðafossvirkjun með þeim rökum að fyrrnefndu virkjanirnar séu forsenda Urriðafossvirkjunar með tilliti til ísstjórnunar í neðri hluta Þjórsár. Holtavirkjun hefur jafnvel verið tengd umræðu um jákvæð áhrif Urriðafossvirkjunar á framtíð laxastofns Þjórsár. Eitthvað er ég nú hræddur um að sú tenging sé á veikum grunni byggð og kýs því að leiða hana alfarið hjá mér þar til vísindalegar niðurstöður liggi fyrir, þ.e. heildstæðari en þær sem unnt er að nálgast í dag. Fiskirannsóknir á þessu svæði hafa að mestu leyti einskorðast við laxagengd í Kálfá, staðbundnir stofnar hafa orðið útundan í rannsóknum eins og áður er getið, það er engu líkara en skollaeyrum sem skellt við tilvist þeirra stofna.

    Holtavirkjun - Kort: verndumthjorsa.is
    Holtavirkjun – Kort: verndumthjorsa.is

    Svo fráleit sem áform um Holtavirkjun eru í mínum huga ætla ég að láta hér staðar numið. Það er vart eyðandi fleiri orðum í hugmynd að virkjun sem hefur jafn mikil spjöll í för með sér eins og þessi áform bera með sér. Ég vonast til að þessi virkjun verði fljótlega færð úr biðflokki í ruslið.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Guð, hvað þetta er fallegt

    21. október 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Það er einkennilegt hve lítil augnablik geta greypt sig svo fast í minni að þau mást aldrei út. Ég á mér eitt svona augnablik, lítið andvarp sem ég deili með besta vini mínum. Þetta var fyrir nokkuð mörgum árum, fleiri en ég vil endilega tilgreina, að við hjónin vorum á ferð í Þjórsárdal á leið inn að Stöng með tjald, prímus og nesti. Þetta var á þeim árum sem þjóðvegurinn lá innan og yfir Gaukshöfða, leiðinlegur malarvegur, holóttur og beinaber. Rétt í þann mund sem við komum yfir höfðann heyrði ég hvar frúin greip andann á lofti, leit angurvært yfir dalinn þar sem hann lá baðaður í geislum kvöldsólarinnar fyrir framan okkur og hvíslaði; Guð, hvað þetta er fallegt. Þetta er augnablik sem gleymist aldrei. Ég efast ekki um að fleiri hafi fengið þessa tilfinningu og ég óska þess að enn fleirum gefist kostur á að upplifa hana um ókomin ár. Mögulega er því samt á annan veg farið því ásýnd þessa svæðis gæti tekið miklum stakkaskiptum til hins verra á næstu árum.

    Fyrirhugað virkjanastæði Hvammsvirkjunar – Mynd: Landsvirkjun
    Fyrirhugað virkjanastæði Hvammsvirkjunar – Mynd: Landsvirkjun

    Í lok september rann út frestur til að skila inn athugasemdum við umhverfismat á fyrirhugaðri Hvammsvirkjun í Þjórsá og nýttu 39 aðilar sér tækifærið. Persónulega hefði ég kosið að fleiri aðilar hefðu nýtt sér þennan frest, en það er e.t.v. ekki fjöldi athugasemda sem skiptir máli heldur það sem þær innihalda. Þó aðeins ein vel ígrunduð athugasemd hefði komið fram, ætti hún að vera nóg til þess að vekja ráðmenn til umhugsunar um gildi þessa svæðis fyrir annað en orkuframleiðslu.

    Eftir virkjun – Mynd: Landsvirkjun
    Eftir virkjun – Mynd: Landsvirkjun

    Áhugafólk um verndun Þjórsár hefur bent á ýmsa vankanta á fyrirhuguðum virkjunum í neðri hluta árinnar, allt frá sjónmengun til óafturkræfra áhrifa á lífríkið, dýr og plöntur.

    Frá því fiskvegurinn við Búða var opnaður árið 1991 hefur lax tekið sér bólfestu á svæðum í ánni sem lokuðust við jarðskjálftann árið 1896 og göngufiskur fært sig sífellt ofar í Þjórsá og þverár hennar. Þessarar fiskgengdar hefur orðið vart í Þverá, Sandá, Fossá og Minnivallalæk, veiðimönnum og náttúruunnendum til óblandinnar ánægju. Bæði lax og sjóbirtingur ganga nú í flestar, ef ekki allar þessara áa ofan Búða. Því hljómar það einkennilega að sjóbirtingurinn kemur lítið sem ekkert fram í niðurstöðum þeirra fáu rannsókna sem farið hafa fram á svæðinu, engar upplýsingar um stofnstærð né gönguhegðun og þar af leiðandi ekki gert ráð fyrir neinum mótvægisaðgerðum vegna hans. Það dugir ekki að skella skollaeyrum við tilvist birtingsins og láta eins og hann sé ekki til staðar. Endurskoðaðar áætlanir Landsvirkjunar gera ráð fyrir ‘stórum’ hverflum, gerð fiskfarvega og rennslisstýringu, allt eitthvað sem á að auðvelda fiskinum að ferðast… á pappírnum.

    En það má ekki gleyma því að í Þjórsá og þverám hennar eru líka stofnar staðbundins urriða og bleikju. Þær litlu rannsóknir sem gerðar hafa verið á göngufiski á þessum slóðum ná ekki til staðbundins fiskjar að því er ég best veit og því eru engar mótvægisaðgerðir á döfinni fyrir þann fisk sem á sér fasta búsetu á virkjanasvæðinu.

    Fyrir virkjun - Kort: verndumthjorsa.is
    Fyrir virkjun – Kort: verndumthjorsa.is

    Mönnum hefur orðið tíðrætt um þá hrygningarstaði sem opnuðust ofan Búða og inn að Viðey árið 1991 og það með réttu. Svæðið er talið henta einstaklega vel til hrygningar og hefur örugglega átt stóran þátt í að auka viðkomu laxa í Þjórsá. En þarna er ekki aðeins að finna lax; urriði og bleikja hafa haldið til á þessum slóðum svo áratugum ef ekki hundruðum skiptir. Stór hluti þessa svæðis mun þorna upp ef af Hvammsvirkjun verður, þ.e. alveg frá virkjun og niður að Ölmóðsey eins og sjá má á kortinu hér að neðan.

    Eftir virkjun - Kort: verndumthjorsa.is
    Eftir virkjun – Kort: verndumthjorsa.is

    Geta má nærri að svæðið ofan virkjunar, svo kallað Hagalón nýtist fiski ekkert til hrygningar vegna framburðar sem þar safnast saman og myndar botnset sem drepur allt líf. Með tilkomu Hagalóns raskast um 68% af búsetusvæði fiska á virkjanasvæðinu og þar við bætist að rennsli á milli annarra fyrirhugaðra lóna verður aðeins brot af núverandi rennsli Þjórsár í farvegum hennar. Nefndar hafa verið tölur um 10 – 15 rúmmetra á sek. í stað 360 – 400 í eðlilegu árferði. Það gefur augaleið að svo lítið vatn dugir seiðum og hrognum ekki til lífs. Heildarárhrif virkjunarinnar á vatnasvæði Þjórsár, neðan Búrfells, nema um 30% Áhugasömum um vernd svæðisins er bent á mikið efni sem finna má á vefnum Verndum Þjórsá.

    Þegar ég nefni hér önnur fyrirhuguð lón á svæðinu hugsa ég til þess að Hvammsvirkjun er skv. minnisblaði OS; ..hluti af samfelldri heild virkjanasvæða. Vegna ísmyndunar í ánni þarf að byggja Hvammsvirkjun og Holtavirkjun á undan Urriðafossvirkjun. Hvammsvirkjun er aðeins fyrsta skrefið í keðju virkjana í Neðri-Þjórsá, hún er fyrsta skrefið í óafturkræfri eyðileggingu árinnar neðan Búrfells og trúlega sú sem mest áhrif hefur á lífríkið. Athugið, ég á eftir að skrifa greinarnar um Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun, ég gæti hæglega skipt um skoðun þegar ég hef lokið lestrinum um þær virkjanir.

    Í sumar sem leið átti ég því láni að fagna að spreyta mig í veiði í Þverá við bæinn Fossnes. Í ármótum Þjórsár og Þverár er ótrúlegur veiðistaður þar sem staðbundinn fiskur, urriði og bleikja skjótast fram og til baka á milli bergvatnsins og jökulvatnsins auk þess sem göngufiskur, lax og sjóbirtingur stökkva í vatnaskilunum og gefa fyrirheit um kröftugar tökur. Þar sem ég stóð við ármótin og mátaði ýmsar flugur fyrir fiskinn, varð mér litið upp í hlíðina við afleggjarann að Gnúpverjavegi og sá hvar fyrirhuguð lónshæð er merkt með skilti. Verði að Hvammsvirkjun fer kletturinn sem ég stóð á undir vatn, nokkrar þúsundir tonna og væntanlega fá veiðimenn framtíðarinnar aldrei tækifæri til að njóta dásemda þessa svæðis. Ég vildi óska þess að önnur sjónarmið en peningar fái ráðið um framtíð Þjórsár og þess ótrúlega lífríkis sem þar er. Ég er hræddur um að uppistöðulón og varnargarðar fái ekki fólk til að andvarpa og segja; Guð, hvað þetta er fallegt.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Dónar

    15. júlí 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Það lá við að ég hoppaði hæð mína þegar ég renndi í fljótheitum yfir fréttir liðinnar viku. Loksins er að komast á skrið vitundarvakning um að banna dóna á veiðistöðum. Nú síðast var það Landssamband veiðifélaga sem vakti máls á þessu vandamáli. Veiðidónar eru til af ýmsum gerðum; Færðu þig, þetta er minn staður – Æ, það kemur einhver og tekur upp ruslið eftir mig, mamma? – Er ekki pláss fyrir einn enn á milli ykkar hjóna? og svo má lengi telja.

    Að vísu rann fljótlega upp fyrir mér að mér hafði yfirsést einn bókstafur í fyrirsögninni, þetta voru víst drónar sem menn vildu banna. Jæja, það er alveg eins hægt að hella úr skálum reynslu sinnar af drónum eins og dónum. Eins skemmtileg og tæknin er, þá get ég alveg tekið undir með LV að drónar eiga lítið erindi á veiðistaði, nema þá veiðimenn og flugstjórar séu í þægilegri fjarlægð frá öðrum og valdi ekki ónæði með suði og lágflugi yfir hausum annarra.

    Ég er annars lítið fyrir að setja boð og bönn um hitt og þetta sem í raun á að vera innifalið í almennri skynsemi og kurteisi. Það að raska kyrrð og ró næsta veiðimanns með óþarfa látum og nærgengi (nærgöngull, ganga nærri næsta manni) er einfaldlega eitthvað sem á ekki að þurfa að binda í lög og reglur. Mér er reyndar skapi nær að biðja menn um að horfa til himins á björtum degi á Þingvöllum eða inni á hálendi og leiða þá hugann að því hvort ekki sé rétt að setja einhverjar reglur um flug trukka yfir veiðistað, sjá grein mína frá í febrúar á þessu ári.

    En vitaskuld verður eitthvað að gera, því á meðal okkar veiðimanna finnast ekki aðeins dónar og drónar, heldur einnig flón sem láta alltaf eins og þeir séu einir í heiminum. Það verður víst seint hægt að setja reglur sem banna þess háttar veiðimenn, við verðum víst bara að bíða eftir því að þeir þroski með sér smá kurteisi.

    fos_flon

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Múrar

    2. júní 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Á tímum síðari landaflutninga hefur fólk flust frá einu landi til annars í leit að betra lífi, öruggari framfærslu og þá ekki síst með framtíð afkomenda sinna í huga. Þetta þekkja Íslendingar frá árinu 2008 og allt til dagsins í dag. Það er einkennandi við landaflutninga hina síðari, að þeir eiga sér flestir stað í kjölfar náttúruhamfara, styrjalda eða annars mannlegs klúðurs. Það er fátt sem aftrar því að stórir hópar fólks flytji búferlum, nema þá vegabréfaeftirlit, girðingar eða múrar sem reistir hafa verið til að halda fólki inni á ákveðnum svæðum, eða hvað?

    Hvers vegna örfáum mönnum þótti áríðandi að flytja hundruð þúsunda einstaklinga frá Evrópu yfir til Ameríku árið 1880 er ekki fyllilega ljóst. Talað var um að auka fjölbreytileika tegundanna, rétt eins og náttúran gæti ekki séð um það sjálf. Nokkrir vöruðu sterklega við þessum flutningi, hann gæti stefnt framtíð innfæddra í hættu. Fram að þessum tíma hafði náttúran óáreitt séð um að vernda innfædda fyrir ásókn þeirra erlendu, það var og gild ástæða til. Þannig fór auðvitað að þetta óþarfa káf með stofn evrópsks urriða (Brown Trout) yfir til Ameríku varð til þess að innfæddir (Brook Trout) létu undan síga og við lá að þeir þurrkuðust út. Það hefur kostað ótrúlegar fjárhæðir og vinnu að viðhalda þeim litla stofni Brook Trout í Norður-Ameríku sem eftir er. Þá er ótalin sá skaði sem orðið hefur í Suður-Ameríku þar sem urriðanum hefur verið komið fyrir á ótrúlega víðfernu landsvæði.

    En viti menn, aðeins fjórum árum eftir að evrópski urriðinn var fluttur til Austurstrandar Ameríku, var Kyrrahafsurriðinn (Rainbow Trout) fluttur yfir til Bretlands. Þar hitt Skrattinn ömmu sína í öðru veldi og á Regnbogasilungurinnan við einu ári höfðu tugir þúsunda sloppið úr eldisbúrum út í nálægar ár. Þar með var framtíð Brown Trout á Bretlandseyjum stefnt í hættu sem jókst síðar enn frekar með tilkomu iðnbyltingarinnar og meðfylgjandi mengun. Í dag kemur ekki nokkrum heilvita manni til hugar að drepa Brown Trout í ám og lækjum Bretlands á meðan víða eru viðurlög gegn því að sleppa regnbogasilungi. Endurheimt fiskfarvega, hreinsun áa og lækja á Bretlandi hefur kostað ómælda vinnu og fjármuni. Því miður er svo komið að þarlendir aðilar hafa orðið að sætta sig við að regnbogasilungurinn er kominn til að vera í lífríkinu, öðrum stofnum til sífelldrar hættu.

    Ég er ekki að gera því skóna að regnbogasilungur sem fluttur hefur verið til Íslands eigi eftir að verða hluti af íslenskri náttúru, til þess skortir mig framsýni og þekkingu á óorðnum breytingum á veðurfari. Okkar helsta von, að því mér skilst, er að klak regnbogasilungs á sér stað á þeim tíma sem síst er lífvænlegur fyrir hann hér á landi. Ef veðrátta breytist til einhverra muna hér næstu árin eða tugina, þá gæti málið horft öðruvísi við. Rétt eins og mannskepnan, þá leitar fiskurinn út í frelsið því mannanna verk, girðingar og múrar, mega sín lítils þegar náttúran er annars vegar. Nýleg dæmi um eldisfisk sem fundist hefur í ám Norðanlands eru áhyggjuefni, sama hvernig á það er litið.

    Að sama skapi eru áform um stóriðju í laxaeldi meira en áhyggjuefni fyrir þá sem unna íslenskri náttúru og dýralífi. Sá ótrúlegi massi af úrgangi sem fellur til við laxeldi í sjó getur ekkert annað en stefnt nálægri náttúru í voða, hvort heldur náttúrulegum laxastofni, silungi eða botndýrum þröngra fjarða. Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar eldis- og verkfræðinga um öryggi sjókvía er ekkert sem getur komið í veg fyrir slys, stór eða lítil, samfara þessum fyrirætlunum. Bara það að setja slíkar kvíar niður við strendur landsins er slys eitt og sér. Allt káf okkar mannanna með landaflutninga náttúrulegra fiskistofna hefur endað með hörmungum, jafnvel óafturkræfum breytingum á lífríkinu sem við skilum af okkur til komandi kynslóða. Múrar halda aldrei.

    Er þessi óhultur í sinni á?
    Er þessi óhultur í sinni á?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Aukinn áhugi

    28. maí 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Mér skilst að áhugi á fluguveiði sé sífellt að aukast, sem er vel. Ég verð einna helst var við aukinn áhuga hjá vinum og kunningjum sem í ríkara mæli spyrjast fyrir um flækjustig fluguveiðinnar af hreinum áhuga í stað ‚small talk‘ spurninga yfir kaffibolla. Þær eru ýmsar spurningarnar sem maður fær um fluguveiði, en sú vinsælasta er örugglega; Er maður ekki rosalega lengi að læra þessi köst? Þá getur manni vafist tunga um tönn. Ef ég nú svara; Nei, nei, þetta er ekkert mál þá getur málið nú vandast þegar viðkomandi sér mig handleika stöngina. Nú, ertu ekki betri kastari en þetta? Sagðir þú ekki að þetta væri ekkert mál? Ef ég aftur á móti svaraði spurningunni; Jú, þetta er töluverð kúnst og útheimtir heilmikla æfingu, þá er eins víst að viðkomandi segi þetta bara gott og haldi sig bara við flot og maðk.

    Svo eru þeir sem spyrja í lotningu (af því þeir hafa lesið of margar rómantískar veiðifrásagnir) hvort fluguveiði sé ekki æðst allra aðferða. Það er alveg sama hve oft ég leita að góðu svari við þessari spurningu, mér kemur aldrei neitt gáfulegt í hug. Að mínu viti er engin ein aðferð annarri æðri svo lengi sem veiðimaður sýnir bráðinni þokkalega virðingu. Þrátt fyrir allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á fiskum og náttúru þá eru engar rannsóknir til sem segja okkur hvað telst virðing fyrir bráðinni. Viðmið virðingar verður hver og einn veiðimaður að finna hjá sjálfum sér; vill hann taka allan fisk sem gefst, veiða og sleppa eða bara vera á staðnum til að njóta náttúrunnar og þess sem hún gefur?

    Þeir nýliðar sem slást í hóp veiðimanna í dag eru eflaust betur að sér í náttúrufræði heldur en margur eldri veiðimaðurinn og því er það tilhlökkunarefni að fá hugsandi unga veiðimenn í hópinn. Okkur veitir ekki af aukinni virðingu og bættri umgengni við náttúruna, bæði sem einstaklingar og sem hópur sem lætur sig framtíð villtra fiskistofna varða. Hver veit hvað verður þegar þessir ungu menn setjast á Alþingi, verður þá mögulega aldrei aftur rifist um virkjanir á veiðislóðum, þær verða einfaldlega ekki einu sinni til umræðu.

    Veiðivötn - Litlisjór
    Veiðivötn – Litlisjór

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Þingvellir og nöfnin

    31. mars 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Ekki alls fyrir löngu var ég staddur á fundi þar sem Þingvellir og álitlegir veiðistaðir voru teknir fyrir. Á fundinum var stuðst við kort og lýsingar Guttorms Þ. Einarssonar ásamt annarra. Á fundinum voru margir kunnugir staðháttum og upphófust hinar skemmtilegustu lýsingar og frásagnir af veiðistöðum. Eins og gengur gekk mönnum mis-brösuglega að muna nöfnin á öllum veiðistöðunum og eitthvað var um samslátt örnefna og veiðistaða. Raunar er ég sjálfur svo gleyminn að ég man sjaldnast röð afleggjara og veiðistaða frá Valhöll, er það ekki annars Lambhagi, Vatnskot, Tóftir, Vörðuvík, Öfugsnáði, Nes og Vatnsvik? Jú, ég held það.

    Því meir sem ég hugsaði til þessa fundar, því ákveðnari varð ég í að setja saman kort yfir helstu veiðistaðina á norðurströnd vatnsins, innan Þjóðgarðs. Ég fór á stúfana, náði mér í kort og annað, ýmsar frásagnir og örnefnaskrá. Að útbúa kort í stóru broti var ekki svo erfitt, verra var að merkja örnefnin inn, velja rétt örnefni og hafna þeim sem auðsjáanlega voru á skjön við staðreyndir. Eftir sitja nokkur vafaatriði og spurningar þar á meðal varðandi víkina austan Öfugsnáða; heitir hún Hlóðavík eða Hlöðuvík? Af hverju eru svona fáir veiðistaðir merktir inn frá téðri vík og að Nautatanga? Hefur nánast engin kjaftur veitt frá Murtuskeri og að Litlutá, þar á meðan Vörðuvík? Eru virkilega tvær Kverkar á Lambhaga, ein á tánni og ein að vestan?

    Ég læt slag standa og set kortið í fullri stærð hér á síðuna. Sjáum til hvað ég fæ af athugasemdum og ábendingum yfir það sem ranglega er skráð hjá mér og hvaða veiðistaði vantar inn á kortið. Sem sagt; nú reynir á lesendur síðunnar að hjálpa til við að lagfæra kortið, ljúka því með sómasamlegum hætti.

    Smellið á myndina fyrir fulla stærð
    Smellið á myndina fyrir fulla stærð

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 5 6 7 8 9 … 14
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar