Þessi spurning rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég fékk orðsendingu um að tiltekið hnýtingarefni væri nú aftur fáanlegt í verslunum hér heima. Kelly Green? Það eru alveg líkur á að einhver beri þetta nafn vegna þess að ættarnafnið Green á sér saxneskar og norrænar rætur og finnst í ensku og keltnesku, einna helst írsku. Eiginnafnið Kelly er líka til og það á sér svipaðar rætur því það er enska útgáfa írska karlmannsnafnsins Ceallach eða yfirfærð merking ættarnafnsins O’Ceallaigh. Og þannig að ég velti út fleiri ónauðsynlegum upplýsingum, þá stendur O’-ið í ættarnöfnum fyrir afkomandi og Mac stendur fyrir sonur.
En, auðvitað var þetta ekki svarið sem ég gaf viðkomandi, heldur að þetta væri heiti á ákveðnum lit sem væri vinsæll í augum fiska og því töluvert notaður í fluguhnýtingum. Rétt eins og ættar- og eiginnöfnin hér að ofan, þá á þessi litur ættir að rekja til Írlands og á að minna á græna haga þess, sem getur einmitt verið ástæðan fyrir því að hann er einkennislitur dags heilags Patreks og írskra búálfa (leprechauns).
Kelly green er bjartur og orkumikill litur, nánast yfirþyrmandi og er því oft paraður saman með svörtu eða skógargrænu til að milda áhrif hans. Á myndinni hér að ofan er litrófið frá hreinum Kelly green yfir í skógargrænan og á þessu rófi er flest hnýtingarefni sem merkt er Kelly Green. Eitt það vinsælasta hér á landi, Wapsi Tinsel Chenille – Kelly Green er nánast á miðju þessa rófs og notað í vinsælar Veiðivatnaflugur eins og Öldu, Helga V. Úlfssonar og Kelly Green, Olgeirs Andréssonar.
Vinsamlegast athugið að mismunandi stillingar tölvuskjáa geta haft töluverð áhrif á hvernig tilteknir litir birtast hjá hverjum og einum. Litirnir hér að ofan eru skv. RGB litastillingu sem notast við rauðan (R), grænan (G) og bláan (B) lit en það er ekki sjálfgefið að allir tölvuskjáir séu stilltir þannig.
Því var gaukað að mér fyrir mörgum árum síðan að vestur í Kanada væri til fluga sem héti Carey Special og hún væri gerð úr þremur tegundum fjaðra af einum og sama fuglinum, fasana (e. Ringneck Pheasant). Þar sem ég, fyrir enn fleiri árum síðan, eignaðist ham af slíkum fugli, vaknaði töluverður áhugi hjá mér á þessari flugu og því leitaði ég á náðir veraldarvefsins eins og svo oft áður. En í þetta skiptið renndi vefurinn sér léttilega framhjá staðreyndum og dældi þess í stað á mig endalausum getgátum um þessa flugu.
Fyrir það fyrsta þá fann ég óteljandi útgáfur af flugu með þessu heiti. Allar voru þær þokkalega keimlíkar, en litadýrð þeirra og efnisval var ekki í samræmi við það sem mér hafði verið bent á og þeir fáu sem voguðu sér að geta uppruna hennar voru nánast ekki sammála um nokkurn skapaðan hlut, þannig að ég leitaði í bókaskápinn minn.
Það kennir ýmissa grasa í bókaskápnum á þessu heimili og Carey Special var þar á meðal í nokkrum bókum. Í bókinni Trout Flies frá 1999 telur Dave Huges upp að í búk flugunnar sé notað ólívugrænt chenille eða fasani, auk þess sem kraginn sé gerður úr bakfjöður fasana. Chenille kom mér ekkert á óvart eftir að hafa rekist á það á vefnum, en mig vantaði örlítið betri lýsingu á flugunni og helst eitthvað um uppruna hennar, þannig að ég hélt áfram að blaða í bókum.
Jack Dennis segir í bók sinni Tying Flies: With Jack Dennis and Friends frá 1993 að þráðurinn eigi að vera svartur, skottið úr svörtum eða brúnum bjarnarhárum, búkurinn úr því sama og hringvafið sé gert úr söðulfjöður fasana. Þetta var greinilega ekki uppskriftin sem mig vantaði.
John Veniard segir í bók sinni A Future Guide to Fly Dressins frá 1964 að skottið sé gert úr söðulfjöður fasana, búkurinn úr brúnni ull að einum þriðja aftast, vafinn hringvafi úr söðulfjöður fasana þaðan og fram að haus. Hausinn svartur og lakkaður. Nei, ekki heldur sú uppskrift sem mig vantaði og nú var ég alveg strand. Eina vísbendingin sem ég átti eftir að rekja var í bók frá árinu 1939 og hana átti ég ekki í mínum fórum, þannig að ég setti þetta á ís á sínum tíma.
Nú bar svo við að veraldarvinur minn eignaðist umrædda bók í sumar og sendi mér myndir af nokkrum blaðsíðum hennar. Bókin heitir The Western Angler og höfundur hennar er Roderick Haig-Brown. Í bókinni er að finna elstu skráðu lýsingu á Carey Special og sögu hennar. Hvoru tveggja hefur Roderick eftir Tommy Brayshaw sem sá um að myndskreyta bókina, en hann var einstaklega fær listamaður, fluguhnýtari og veiðimaður sem að sögn hitti höfund flugunnar, Thomas Carey árið 1934 í Bresku Kólumbíu í Kanada. Í bókinni er efnisvali flugunnar lýst svo; skott úr nokkrum fönum söðulfjaðrar fasana, búkurinn úr fönum stélfjaðrar fasana, vöf úr svörtum hnýtingarþræði, kragi úr hálsfjöður fasana. Flugan sé hnýtt á legglanga króka, allt frá #2 og niður í #12.
Þetta var greinilega uppskriftin sem ég var að leita að og Roderick segir jafnframt frá tilurð og forsögu flugunnar. Hér verð ég að setja þann fyrirvara að mjög margar útgáfur þessarar sögur eru til, en ég hallast svolítið að því að þetta sé sú sem kemst nærri sannleikanum, jafnvel þó hún stangist örlítið á við frásagnir annarra flugna sem koma við sögu.
Roderick getur þess að ef búkurinn hafi verið hnýttur úr dádýri (deer) þá hafi flugan gengið undir heitinu The Dredge en fer ekkert nánar út í hvaða efni hafi verið í skotti eða hringvafi. Annars rekur hann upphaf flugunnar til flugu sem gekk undir heitinu Monkey Faced Louise sem frumbyggi (e. First Nation, frumbyggi af indjánaættum) hnýtti upphaflega. Thomas Carey bætti hringvafinni fjöður við sem kraga að hætti Yorkshire-manna, en hann var einmitt fæddur og uppalinn í Yorkshire á Englandi þó hann hafi síðar sest að í Quesnal í Bresku Kólumbíu. Útgáfa Carey þótti einstaklega veiðin og fljótlega fékk hún viðurnefnið Carey Special og var orðin nokkuð þekkt í Bresku Kólumbíu þegar Brayshaw hitti Carey árið 1934. Á þeim fimm árum sem liðu þar til Roderick sendir frá The Western Angler hafði flugan þegar tekið nokkrum breytingum, m.a. fyrir áeggjan Dr. Lloyd A. Day frá Kelowna (sem ég veit engin deili á) sem ku hafa rekist á dautt múrmeldýr við Arthur Lake og fengið Carey til liðs við sig að nota í útfærslu á flugunni þar sem búkur hennar og skott voru úr múrmeldýri. Þess ber að geta að síðari tíma heimildir nefna umræddan Lloyd A. Day sem höfund Monkey Faced Louise, án þess að færa rök fyrir því, auk þess sem sömu heimildir slá iðulega saman þeim flugum sem hér hafa verið nefndar til sögunnar, þannig að ég tek þessum fullyrðingum með varúð.
Hvenær Carey settist niður og útfærði fluguna er óljóst og fáar heimildir til staðar. Vitað er að Carey fluttist til Bresku Kólumbíu upp úr lokum fyrri heimstyrjaldarinnar 1918 og eins og áður er getið, þá spjölluðu þeir Brayshaw og Carey saman árið 1934. Það eina sem hægt að segja með vissu er að hún hafi orðið til á milli 1918 og 1934. Nokkuð margir telja að Carey hafi komið flugunni á framfæri árið 1925, en eins og við vitum þá þarf ekki með einum að verða fótaskortur á tungunni þannig að ártal festist í munnmælum ef enginn andmælir því. Hvað sem öðru líður þá hefur Carey Special verið mjög vinsæl í Bresku Kólumbíu og víðar allt fram á þennan dag. Efnisval hennar hefur fylgt straumum og stefnum, en alltaf stendur þó upp úr að hringvaf flugunnar er óvanalega langt og mikilfenglegt. Ef þú hefur áhuga á að skoða þá útgáfu sem leit mín endaði á og ég tel vera þá upprunalegu, þá má skoða hana hérna eða smella á myndina af henni hér að neðan sem ég hnýtti skv. uppskriftinni.
Sá siður FOS að kveðja á árið með því að birta grein ársins sem er að finna í bæklingi Veiðikortsins fær að halda sér hér á síðunni. Þetta er ekki aðeins kveðja til ársins, heldur og fögnuður þess að nýtt Veiðikort er komið í sölu. Frá því að bæklingurinn kom síðast út, hefur fjölgað um eitt veiðisvæði á kortinu, Hagavík í Þingvallavatni og því eru nú 38 veiðisvæði innan vébanda Veiðikortsins.
Hvað FOS.IS hefur til málanna að leggja í nýjasta bæklingi Veiðikortsins má finna með því að renna í gegnum hann, á pappír eða rafrænt með því að smella hérna.
Um fá önnur áhugamál hefur verið fjallað á jafn rómantískum nótum í gegnum tíðina eins og stangveiði. Það í sjálfu sér ætti ekkert að koma á óvart, því hver sá sem er nýlega kominn úr veiði hefur væntanlega losað sig við vænan skammt af stressi hins daglega lífs og er það sem i daglegu tali er nefnt sultuslakur. Þetta er ekki aðeins einhver mýta eða goðsögn því rannsóknir hafa sannað að stangveiði bíður upp á allt það sem fær okkur til að losa um streitu. Hæfilega spennu, tekur hann eða ekki, útiveru og nánd við náttúruna.
Meira að segja síðasta sumar, sumarið sem aldrei kom eins og sumir segja, bauð upp á allt þetta, þó vissulega hafi aflabrögð verið svona upp og ofan. Eitt verður þó ekki af síðasta sumri tekið, það er liðið og við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af því frekar. Nú erum við komin með nýtt Veiðikort I vasann eða veskið í símanum okkar og við kíkjum á vötnin sem í boði eru sumarið Hvert á að fara, hvenær og hve lengi á að staldra við hvert þeirra 37 vatna sem eru á kortinu. Raunar grunar mig að flest okkar sem nýta kortið reglulega heimsæki þau vötn sem næst okkur eru, skreppum eftir vinnu til að hreinsa vinnudaginn úr kollinum. Það má samt setja nokkur þeirra á óskalistann fyrir sumarfríið, elta góða veðrið því það verður örugglega sól við eitthvert vatnanna, kannski, vonandi. Það er nefnilega aldrei á vísan að róa með veðrið, rétt eins og veiðina.
Um daginn rakst ég á rykfallið fjölvítamínglas i eldhússkápnum. Í leit minni að best fyrir dagsetningunni sá ég að ráðlagður dagskammtur af D-vítamíni fyrir markhóp Veiðikortsins, 10 ára til 70 ára, er 15 míkrógrömm. Eins og allir vita þá er helsta uppspretta D-vítamíns sólarljósið okkar og meira að segja á skýjuðum degi myndum við D-vítamín, þó það taki aðeins lengri tíma. Mér fannst þetta stórmerkileg uppgötvun. Ef einhver fer að amast yfir of miklum tíma í veiði, þá getur maður alltaf borið því við að það hafi verið skýjað og því hafi maður þurft lengri tíma til að ná ráðlögðum dagskammti.
Ég er fyrir löngu kominn á það skeið þar sem ýmsir partar af mér eru komnir á tíma og þarfnast meira viðhalds heldur en áður. Ég sprett ekkert lengur fram úr á morgnanna (nema ég sé að fara í veiði) og stundum man ég ekki stundinni lengur það sem ég á að muna. Svo er það þetta með sjónina. Annað hvort hafa framleiðendur króka tekið upp á því að spara vírinn í þá og minnkað augun á þeim eða ég þarf að heimsækja augnlækninn minn og fjárfesta í gleraugum. Það gladdi mig því óumræðanlega þegar ég las merkilega grein um daginn sem sagði að stangveiði tefði fyrir öldrunareinkennum, skerpti heilastarfsemina og bætti einbeitingu, ynni jafnvel gegn vit- og minnisglöpum.
Því miður var hvergi minnst á að stangveiði ynni gegn þyngdaraflinu, þessu sem hefur gert það að verkum að brjóstvöðvarnir hafa látið undan síga og fært sig neðar á líkama minn með árunum. Eiginlega safnast saman rétt fyrir ofan beltisstað. Aftur á móti skilst mér að miðlungs virkur veiðimaður brenni 150 – 550 hitaeiningum á klukkustund í veiði, sem mér þóttu góðar fréttir. Ég fékk því ekkert samviskubit þegar ég settist niður með kaffi og kleinu(r) til að skrifa þennan pistill í Veiðikortabæklinginn, ég veiði bara kleinurnar af mér næsta sumar á meðan ég fylli á D-vítamín birgðirnar og … já, alveg rétt, vinn gegn minnisglöpunum.
Ert þú ert á meðal þeirra 168.000 gesta sem kíkja reglulega á flóðatöfluna á FOS og ert að plana næsta ár í veiði, sjósundi eða einhverju öðru því sem tengist flóði og fjöru? Þá gæti það glatt þig að flóðataflan fyrir 2026 er komin inn á FOS.
Ef þú ert ekki komin svo langt að spá í næsta ár, þá getur þú auðveldlega sótt töfluna fyrir 2025, meira að segja fyrir 2024 ef þú ert að spá í fortíðina.
Í gegnum tíðina hafa lesendur FOS verið duglegir að skjóta fyrirspurnum og beiðnum um ákveðið efni á undirritaðann sem reynt hefur verið að verða við. Í skilaboðum hefur tvær flugur borið nokkuð oft á góma og hér verður, þó seint sé, orðið við uppskrift að annarri þeirra; Teppahreinsarinn eftir Örn Hjálmarsson.
Smelltu hér eða á myndina að neðan til að skoða uppskriftina að flugunni eins og Örn lét FOS í té ásamt eintökum flugunnar til myndatöku.
Já, þetta er ljómandi gott rauðvín og hæfir öllum aldurshópum silungsveiðimanna. Þó silungsveiðin sé komin vel af stað í þessu ljómandi góða árferði sem verið hefur síðustu vikur og vel flestir silungsveiðimenn búnir að fylla í boxin sín, þá má alltaf bæta í þau. Hér er á ferðinni fluga sem vakti töluverða athygli í Febrúarflugum 2025 og hefur reynst vel í urriða og bleikju, bæði staðbundnum og göngufiski.
Sökum mikillar eftirspurnar hefur flugunni Rauð-Vín verið bætt inn á FOS og það þótti tilvalið að fá nokkur eintök frá höfundi flugunnar, Jóhanni Ólafi Björnssyni til að sitja fyrir á mynd fyrir FOS. Þú getur smellt hér eða á myndina að neðan til að skoða uppskriftina að þessari flugu.