Flýtileiðir

Dagbókin mín 2023

Þegar nýtt ár er rétt handan við hornið þá gerist það vísvitandi og ómeðvitað að maður fer að leiða hugann að því markverðasta sem gerðist á árinu. Sumt á maður bara fyrir sig og sína, en öðru má alveg kasta fram eins og flugu á fallegum degi. Eins og gengur eru sumar flugur orðnar heldur sljóar og mikið notaðar á meðan aðrar eru hnýttar á nýja króka og eru því hárbeittar. Þannig er þetta bara og því gætu einhver minningabrot dagbókar ársins 2023 verið með broddi sem stingur á meðan aðrar rétt strjúkast hjá eins og hver önnur dægurfluga.

Fallegu dagarnir á árinu voru ótrúlega margir og meira að segja sljóar, gamlar og þrautreyndar flugur færðu mér ánægju langt umfram væntingar. Hvergi vatnsskorti fyrir að fara, veðurskilyrði frábær þó vissulega hafi einum og einum degi brugðið fyrir þar sem ég saknaði þess að hafa lagt spúnastönginni minni fyrir mörgum árum síðan. Veiðiferðir sumarsins lutu sama lögmáli eins og fjöldi veiðistanga, æskilegur fjöldi er núverandi plús einn. Fjöldi fiska réðst meira af plássi í frystikistunni heldur en tökum og að þessu sinni var aflinn 90% urriði og ekki laust við að eitthvert samviskubit hafi gert vart við sig. Ekki þurfti ég að skammast mín fyrir að veiða fiska í útrýmingarhættu, eins og venjulega fékk Atlantshafslaxinn alveg frið fyrir mér. Það sem olli mér hugarangri var sjálfur urriðinn, ekki sá sem lá í kistunni minni, heldur sá sem enn syndir um.

Nú ætla ég ekki að fullyrða eitt né neitt fyrir aðra veiðimenn, en ég hef áhyggjur af sókn ágengra tegunda í íslenska náttúru og hef margoft haft orð á því[1]. Fram til þessa hefur hnúðlaxinn fylgt svipuðu hegðunarmynstri eins og ég í veiðibúð, kíkir við og kannar aðstæður í nokkur skipti áður en hann ræðst til atlögu. Ég trúi því að nú sé hann endanlega búinn að gera upp við sig að hér sé gott að búa, kominn til að vera eftir að hafa nær óáreittur fengið að kanna aðstæður hér annað hvert ár í nokkurn tíma. Kannski er þetta óafturkræf þróun, en ég á ekki von á öðru en gripið verði til róttækra aðgerða þegar hann tekur sér bólfestu í næsta nágrenni við innfædda laxastofna, líkt og Norðmenn hafa gert síðustu árin þar sem hnúðlaxi er skóflað upp í tonnatali úr norskum ám. Væntanlega verður ráðist í átaksverkefni hér með tilheyrandi kostnaði þegar þar að kemur sem einhver borgar.

Til að vera fullkomlega hreinskilinn, þá held ég reyndar að hnúðlaxinn sé ekki sú ágenga tegund sem herjar mest og verst á íslenska náttúru. Hin vanþróaða tegund Anthropos[2] sem nam hér land fyrir alllöngu síðan hefur sífellt gerst ágengari. Frá því tegundin komst fyrst í fréttirnar hefur hún þó lengstum verið til friðs og lifað í sátt við náttúruna eða í um tvær milljónir ára. Og hvað svo sem við teljum um framfarir hennar í dag, þá tók hún sín stærstu skref í þróun og þroska sjálfsvitundar þegar hún gerðist afræningi. Á síðustu árþúsundum hefur þó hallað undan fæti, þá sérstaklega eftir að tegundin tók til við að dýrka gjörðir sínar meira en eigið ágæti. Fyrir um 1.500 árum síðan, þegar eftirlifandi vottur samvisku tegundarinnar var farinn að bíta heldur hressilega, datt einhverjum snillingi í hug að sjóða saman texta í frípassa sem útdeilt var meðal valinnar ættkvíslar tegundarinnar og í veðri látið vaka að hann sé frá æðri máttarvöldum kominn. Textinn er svohljóðandi; „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. Hann skal drottna yfir fiskum sjávarins, fuglum loftsins, búfénu, villidýrunum og allri jörðinni og öllum skriðdýrum sem skríða á jörðinni.[3] Þennan frípassa hefur ákveðinn minnihluti notað æ síðan og gengið hve ötullegast fram í misnotkun annarra dýrategunda á jörðinni. Mikið vildi ég óska þess að höfundur þessa texta hefði orðað þetta með öðrum hætti, t.d. „Hann skal bera ábyrgð á …“ þá væri vestrænt samfélag byggt á öðru en drottnun og óskoruðum yfirráðum sem síðan hafa smitast út í löggjöf og reglur samfélagsins.

Það orð hefur raunar legið á tegundinni allri að henni fylgi bráðsmitandi faraldur sem kallast græðgi. Samheitavensl[4] þessa orðs eru m.a. gróði, siðblinda, sjálftaka, markaðsvæðing, drottnunargirni og sérhyggja, svo nokkur séu nefnd. Eitt afbrigði þessa faraldrar skall hér á upp úr síðustu aldamótum og á þeim tíma var sterklega varað við afbrigðinu af nokkrum aðilum og mælt með öflugri bólusetningu gegn henni. Helst var mælt með kröftugum meðulum eftirlits og strangra umgengnisreglna. Því miður var lítið sem ekkert mark tekið á þeim efasemdamönnum og afturhaldsseggjum sem vöruðu við þessum faraldri og ábendingum þeirra yfirleitt ekki svarað. Flestir sáu lítið annað en stórkostleg tækifæri og hagsæld með tilkomu sjókvíaeldis hér við land, enginn hætta væri á ferðum, umhverfisáhrif í lágmarki, endalaus tækifæri og næg atvinna fyrir byggðir sem höllum fæti stóðu. Þetta voru yfirlýsingar sem bláeygir Íslendingar gleyptu með húð og hári enda voru þessi orð matreidd í stóreldhúsum erlendra fiskeldisfyrirtækja með dyggum stuðningi þeirra sem voru keyptir eða gerðust sjálfskipaðir stuðningsmenn sjókvíaeldis á Íslandi. Ég er einn þeirra sem fékk svolítið á baukinn á þessum tíma, þótti ekki bera hag þjóðarbúsins fyrir brjósti þegar ég viðraði mínar efasemdir og varaði við því að stíga fæti niður í þennan drullupytt sjókvíaeldis. Nú má enginn taka því sem svo að ég telji mig einhvern sporgöngumann þessara efasemda, það voru margir mun háværari en ég sem hófu upp rödd sína en þær raddir drukknuðu í orðagjálfri og endalausum loforðum um betri tíð og blóm í haga og því fór sem fór. Gamalt og úr sér gengið erlent regluverk var þýtt yfir á íslensku, engin hætta á ferðum hér og stjórnkerfið tók bara Sumarliða á þetta og smellti í „Ég veit allt, ég get allt, geri allt miklu betur en fúll á móti … Haltu kjafti.

Á árinu sem er að líða kom í ljós að kynþroska eldisfiskur hafði sloppið úr sjókvíum, eitthvað sem átti bara alls ekki að geta gerst, en hafði þó gerst í nokkur skipti áður og látið nær óáreitt. Ábyrgðaraðilar drullupollanna fyrir vestan stukku upp til handa og fóta, ræstu þvottavélin, fylltu öll hólf af hvítu þvottaefni og tróðu öllu því af rekstrinum sem unnt var í belginn og settu í gang. Út úr þvottavélinni ullu síðan klisjukenndar afsökunarbeiðnir með skínandi hvítum orðum eins og ófyrirséð, slys og óvart. Hvíti þvotturinn[5] var síðan hengdur upp á snúru Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og hliðhollra fréttamiðla, fréttatilkynningar og auglýsingar sendar út um allar koppagrundir og lofað bót og betrun. Til að fanga hina lausgirtu kynóðu eldislaxa sem höfðu komið sér fyrir í íslenskum ám var brugðið á það ráð að flytja inn erlenda veiðimenn í latexgöllum sem höfðu mikla reynslu af því að synda eggjandi um í ýmsum ám Noregs og tæla eldislaxa til fylgilags við sig. Fyrst hélt ég að Gerður í Blush stæði á bak við þetta en þegar ég sá vopnin þeirra varð ég sannfærðum um að þeir væru á vegum Kristjáns í Hval. Með ótrúlegum dugnaði og væntanlega töluverðum kostnaði tókst þessum latexdólgum að fanga nokkur prómill af þessum kynóðu eldislöxum að vestan en við vitum enn ekkert hvar restin af þeim liggur í dag (hóst, hóst). Til vonar og vara var laxveiðitímabilið þó framlengt þannig að veiðiréttrétthöfum gæfist kostur á að taka til í ánum sínum, gegn hóflegu gjaldi (annað hóst, hóst). Send var út tilkynning til allra innfæddra laxa um að þeir ættu að halda í sér og taka vel í að vera teknir óvart í misgripum fyrir kynóða útlendinga. Fáum sögum fer af undirtektum þeirra, vonandi hefur þeim tekist að nýta sér áralanga reynslu sína af veiða og sleppa og ekki orðið meint af þessari vitleysu. Ég er samt ekki alveg viss um að þeir hafi tekið mark á þeim tilmælum um að halda í sér hrognum og svilum þar til betra næði gæfist til að hryggna, en það á eflaust eftir að koma í ljós. Það er þá alltaf hægt að ráðast í eitthvert átaksverkefni, grafa hrogn eða sleppa seiðum til að vega upp á móti þeim hrognum sem fóru forgörðum í atganginum.

Allt þetta vesen að vestan varð til þess að rétthafar og söluaðilar veiðileyfa sendu út neyðarkall og þúsundir manna gripu til vinsælasta úrræðis Íslendinga á síðari árum; fjöldamótmæli á Austurvelli. Þessi fundur var allra góðra gjalda verður, hann sýndi að fjöldi fólks hafði áhyggjur af útbreiðslu faraldursins og landsþekktir popparar komu fram og sungu til styrktar málstaðnum. Staðsetningin var frábær, mótmælaskilti á lofti, pólitísk slagorð á vörum og kæstum eldislaxi raðað upp til sýnis. Ískaldur sannleikurinn er aftur á móti sá að mótmæli á Austurvelli eiga sér álíka langan líftíma eins og niðursneiddur eldislax. Kliðurinn af mótmælunum verður löngu þagnaður þegar þessar þúsundir kjósenda stendur til boða að stilla nágrönnum sínum eða sjálfum sér á lista fyrir næstu Alþingis- eða sveitarstjórnarkosningar. Til að koma skoðun á framfæri í lýðræðisríki er frábært að hrópa hátt, en til að breyta þarf að taka þátt. Taktu þátt í næsta forvali, uppstillingu eða hvað það nú heitir hjá flokkunum þegar þeir raða frambjóðendum á lista fyrir næstu kosningar. Veldu þann sem svarar þér að skapi, því fleiri fulltrúar þjóðarinnar sem kveða sömu vísuna, því meiri líkur eru á að breytingar verði á pólitíska bragnum því í dag syngur hann útfararsöng yfir villtum laxi fiskistofnum landsins á Alþingi og heima í héraði. Það má aldrei vanmeta samtakamátt fólks, það sönnuðu Seyðfirðingar á árinu þegar þeir höfnuðu stórfelldu sjókvíaeldi, húrra fyrir Seyðfirðingum.

Já, ég strikaði yfir laxinn hér að framan og breytti í fiskistofna vegna þess að það er ekki aðeins Atlantshafslaxinum sem stendur ógn af gróðahyggju mannskepnunnar. Auðvitað var það gróðahyggja sem réð því í sumar sem leið að opinskátt var urriðinn í Ytri Rangá var færður á lista yfir afræningja og veiði- og leiðsögumönnum gert að drepa hann, hvar sem til hans næðist. Það sorglega við þetta er að í þessu tilfelli er laxinn hin ágenga tegund í ánni með dyggum stuðningi mannskepnunnar. Ég get bara ekki fengið það af mér að gera því skóna að það sé til laxastofn í Ytri, einfaldlega vegna þess að þar hefur laxastofn aldrei þrifist með náttúrulegum hætti. Búseturéttur frumbyggja í náttúrunni má sín lítils þegar peningaseðlum eða gullkortum er veifað og því réttlætanlegt að „grisja“ frumbyggjana eins og veiðimaður einn sagðist hafa skilning á. Þarna skilur á milli mín og þeirra sem tóku þátt í þessum ófögnuði, þessi rök finnast mér vera álíka gáfuleg eins og rök innflytjenda í Bandaríkjum Norður-Ameríku færðu fram þegar þeir murkuðu lífið úr innfæddum eftir að hafa stolið landinu þeirra og fjárfest í beljum sem sleppt var í haga vísundanna sem þurfti síðan að grisja. Því miður hefur það lengi tíðkast að lauma því að veiðimönnum að grisja frumbyggja ákveðinna svæða þannig að verðmætari fiskur fái nægt rými og frið fyrir afráni. En hvað er ég að rífa kjaft um þetta, lykillinn fólst í orðinu „verðmætari“ og þar með er málið dautt. Mér vitandi voru það einstaklingar einir sem hreyfðu málinu, ég heyrði í það minnsta ekki raddir stangaveiðifélaga eða náttúruverndarsamtaka og því þagnaðir kliðurinn jafnvel hraðar en kliðurinn af Austurvelli gerði.

Í byrjun desember var birtur uppfærður listi Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna yfir tegundir í útrýmingarhættu[6] og þar bar svo við að Atlantshafslaxinn færðist upp um sæti og er nú nærri því að vera ógnað (e: near threatened). Þetta hefur væntanlega ekki komið íslenskum laxveiðimönnum á óvart, ég vona bara að urriðanum og bleikjunni verði ekki kennt um, nóg er samt. Það vakti samt athygli mína að hvorki urriða né heimskautableikju er getið á lista IUCN, báðar tegundirnar fá stöðuna minnstu áhyggjur (e: least concern) sem ég vara þó sterklega við að trúa í blindni af þeirri ástæðu einni að staða þeirra var síðast metin á árunum 2008 og 2010. Þessi útúrdúr minn dregur þó alls ekki úr alvarleika þess að salmo salar færist upp um áhættuflokk, því fáir fiskistofnar hafa notið jafn mikillar athygli og verndarsjónarmiða eins og Atlantshafslaxinn á síðustu árum og samt hefur honum fækkað að því er talið er. Hér á landi er nú mikill meirihluti áa undir sleppiskyldu laxa settar og svo hefur víða verið í allmörg ár. Já, ég hef fylgst með umræðunni en lítið skipt mér af henni, það eina sem ég veit er að ef ég á eitt brauð sem dugar mér í viku, þá þýðir ekki fyrir mig að bjóða 10 manns í samlokumáltíð í heila viku. Ég get vissulega boðið þeim í eina samlokumáltíð, en þá er brauðið líka búið þangað til ég fer næst út í búð (sem ég geri venjulega vikulega). Ég gæti því boðið þessum hópi aftur í samloku að viku liðinni, en fráleitt ef hver og einn þeirra tekur með sér 10 gesti, þá dugir brauðið ekki einu sinni í eina samlokumáltíð. Það sama á nákvæmlega við um árnar og … takið eftir, sjóinn. Einu munurinn er að maturinn í ánni eða sjónum endurnýjast ekki í hverri viku eins og brauðið mitt, það gerist aðeins einu sinni á ári. Það þýðir ekkert að bjóða fleirum í mat ef það er ekki til nóg handa öllum. Hrognagröftur og veiða og sleppa virkar frábærlega, svo lengi sem það er eitthvað til að éta fyrir seiðin. Það skildi þó aldrei vera að Jón Kristjánsson hafi eitthvað til síns máls?[7] Ég hef þá trú að það þurfi að horfa til einhvers annars en fjölga löxum endalaust í ám án þess að skoða lífríkið. Gamalt búsvæðamat áa, segjum 6 – 10 ára gamalt á ekkert endilega við í dag, það hafa nefnilega orðið breytingar á lífríkinu og þær hafa gerst miklu örar heldur en flest okkar gera sér grein fyrir. Það er löngu kominn tími til að stokka spilin upp á nýtt, jafnvel gefa í allt annað spil heldur það sem spilað hefur verið hingað til. Þangað til við vitum hvaða spil við eigum að spila, þá trúi ég því að veiða og sleppa þjóni oft þeim tilgangi einum að selja sama fiskinn + fæði og uppihald oftar en einu sinni á hverju sumri.

Nú er árið alveg að klárast og síðunum í dagbók ársins fer fækkandi. Það eru þó nokkrir punktar sem standa eftir í bókinni minni sem ég hef ekkert nefnt. Þessir punktar tengjast þvottavélum fyrirtækja sem taka upp á því að gerast styrktaraðilar íþróttasambanda eða beita sér af miklu afli að náttúruvernd með grænt þvottaduft í farteskinu. HSÍ nýtur vonandi nægjanlega góðs af íþróttaþvotti Arnarlax til að vega upp á móti tekjutapi árlegs happdrættis síns sem fer væntanlega af stað á nýju ári. Ég læt það vera að þessu sinni að kaupa miða. Arnarlax er þó bara peð í samanburði við Ineos Foundations[8] þar sem óhætt er að segja að sé á ferðinni iðnaðarþvottavél sem beitt er við grænþvott þess efna- og orkurisa sem Ineos Group er. Það skiptir mig svo sem engu máli hvort eigandi Ineos kaupi eitthvert fótboltalið á Englandi, svo lengi sem vatnið og landið sem keypt hefur verið í nafni Six Rivers Project á Íslandi verði ekki nýtt til bergbrots eins og Ineos hefur boðist til að gera á Bretlandseyjum og Skotlandi. Og talandi um orkufyrirtæki, þá fékk Landvirkjunin okkar nýlega jólagjöf frá Umhverfisstofnun þegar hún boðaði breytingar á reglum um vatnshlot Þjórsár þannig að halda mætti áfram með áform um 95 MW Hvammsvirkjun[9] í Þjórsá. Ef ég skil niðurstöðuna rétt, þá þarf LV ekki að gera breytingar á fyrri áformum sínum, það eina sem verður gert er að færa kröfurnar niður og þá verður hægt að girða fyrir gönguleið stærsta náttúrulega laxastofns sem finnst á Íslandi. Ég hefði nú frekar kosið að skrúfað yrði raforkusóun í námugröft rafeyris með hreinni íslenskri orku. Það færi langt með að standa undir orkuþörf hins venjulega Íslendings næstu árin og gæfi Landsvirkjun tóm til að vinna í alvöru að eigin Loftslags- og umhverfisstefnu[10] og beita sér fyrir því að draga úr sölu raforku til þeirra aðila sem sóa auðlindum jarðar til þess eins að fullnægja gengdarlausri neysluhyggju skepnunnar sem segist öllu ráða hér á jörð. Landsvirkjun er í lófa lagið að beina hreinu orku okkar til umhverfisvænni notkunar, en gerir það ekki og því mun í það minnsta 85% orkunnar úr Hvammsvirkjun renna með einum eða öðrum hætti til Rio Tinto, Alcoa, Elkem, PCC eða Century Aluminum sem þegar eiga megnið af þeim tveimur milljónum tonna af gróðurhúsalofttegundum iðnaðar sem losaðar eru árlega út í andrúmsloftið hér á landi.[11] Það er þrisvar sinnum meira en öll losun íslensks landbúnaðar gerir. Og hvað kemur þetta fiskistofnunum okkar við? Ef þú hefur enn ekki tengt hlýnun jarðar við hop norrænna fiskistofna í sjó og á landi, þá átt þú töluvert ólært.

Takk fyrir árið, kæra dagbók.


[1] Stóriðja í VatnadalÞögla fórnarlambiðÉg neitaBölmóður o.fl.

[2] Wikipedia

[3] Bíblían. Fyrsta Mósebók 1:26

[4] Orðanet Árnastofnunar

[5] Þvottur og þvætti

[6] Rauði listi IUCN

[7] Veiða – sleppa, er gagn af því? Bændablaðið, bls.66

[8] Grænþvottur INEOS

[9] Guð, hvað þetta er fallegt

[10] Loftslags- og umhverfisstefna Landsvirkjunar

[11] Bráðabirgðatölur UTS fyrir 2022

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *