Nú er vetur genginn í garð og FOS.IS vaknar af örstuttum dvala um þetta leit líkt og undanfarin ár. Þó rólegt hafi verið á vefnum síðustu vikur, þá hefur verið í nógu að snúast að raða niður efni fyrir veturinn og nokkuð fram á næsta sumar.
Líkt og undanfarin ár verða reglulegar færslur á vefnum í vetur þetta 2 – 3 á viku og reynt að tappa af kollinum nokkrum hugleiðingum sem fengu að gerjast á bakkanum í sumar sem leið. Það vita það eflaust einhverjir að ég reyni að klára allar greinar að hausti sem eiga að birtast yfir veturinn, því yfir veturinn hef ég í ýmsu öðru að snúast heldur en fanga hugsanir niður á blað. Svo verð ég líka að viðurkenna að ef of langur tími líður frá því ég set einhverja hugmynd niður í orð og móta hana í grein, þá veit ég hreint ekki hvert ég var að fara í punktum mínum.
Hliðarskref FOS.IS sem hefur dafnað og stækkað ár, frá ári undanfarin ár verður á sínum stað. Febrúarflugur verða á sínum stað, vonandi með enn skemmtilegra sniði heldur 2020. Það var ekki annað að sjá heldur en formið félli lesendum og þátttakendum í geð, hver veit nema einhverjar nýjungar líti dagsins ljós í febrúar en það er jú allt undir þátttakendum komið. Eins og ástandið er í dag, þá er það ótvíræður kostur að viðburðurinn eigi sér sitt aðalaðsetur á vefnum, ekki er COVID-kvikindið að skemma það að hnýtarar setjist niður heima hjá sér, hnýti nokkrar flugur og smelli inn á hópinn á Facebook.
Undanfarin ár hef ég boðað hefðbundið efnisval á vefnum og það geri ég enn og aftur. Þegar ég lít yfir þær greinar sem ég hef nú tímasett til birtingar, þá virðist vera einhver beinskeyttari tónn í einhverjum þeirra. Það leyfist vonandi líka, ég hef mínar skoðanir á ýmsu sem hefur fengið að gerjast í samfélagi stangveiðinnar á undanförnum árum sem mér sannast sagna hugnast ekki og leyfi mér því að segja það sem mér í brjósti býr. Það verður í það minnst af nógu að taka á vefnum komandi mánuði.
Senda ábendingu