Það er víðar en í laxveiðinni sem sala veiðileyfa breytist og færist til. Nú hefur eitt þeirra vatna sem ég hef lengi átt í opinberu ástarsambandi við bæst við vötnin á Veiðikortinu. Hlíðarvatn í Hnappadal fyrir landi Hraunholta var að koma inn á kortið og er það eflaust mörgum kærkomin viðbót við annars frábæra flóru vatna á Veiðikortinu.

Síðustu ár hafa bændur við Hlíðarvatn selt sjálfir í það, auk þess sem félagar Stangaveiðifélags Borgarness hafa veitt fyrir landi Hraunholta. Með þessari viðbót á Veiðikortið má segja að sala bænda í Hraunholtum færist af þröskuldinum þeirra og yfir á Veiðikortið. Allar nánari upplýsingar um veiðisvæðið og fyrirkomulag má finna á vef Veiðikortsins auk þess sem ítarleg umfjöllun og upplýsingar um vatnið má auðvitað finna hér á vefnum.

Annað vatn í næsta nágrenni var um árabil innan vébanda Veiðkortsins en við færslu Hítarár í vor frá SVFR færðist Hítarvatn undan kortinu og yfir til Grettistaks. Nú hafa þeir félagar í Grettistaki stofnað sérstaka heimasíðu fyrir Hítarvatn og selja þar dags-, helgar- og sumarleyfi. Dagsveiði kostar 2.500,- kr. helgarveiði 5.000,- og sumarkortið 10.000,- kr. Þessar fréttir gleðja eflaust einhverja gesti FOS.IS því nokkuð hefur verið spurt um fyrirkomulag veiðileyfasölu í Hítarvatn frá því breyting varð á. Allar nánari upplýsingar um Hítarvatnið má vitaskuld finna hér á síðunni.