Nú er tímabilið rétt handan við hornið og nokkra farið að klæja allóþyrmilega í kasthöndina. Sumir hafa æft hana síðustu vikur við hnýtingar og líklega liggja nokkrar þúsundi glansandi fínna flugna í boxum veiðimanna og bíða þess að fara í bað. Hér ætla ég að lauma inn smá játningu; ég er ekki búinn að hnýta eina einustu flugu fyrir sjálfan mig í allan vetur. Það eina sem ég hef hnýtt eru nokkrar hrognaflugur sem ég setti í um daginn fyrir kunningja minn og nágranna, Svarta Zulu. Í staðinn laumaði hann að mér þessum glæsilegu blendingjum.

Ég verð nú að játa að mér fundust skiptin heldur ójöfn, nokkur hrogn í staðinn fyrir úrval glæsilegra marabou flugna. Það verður sko látið reyna á þessar í sumar, því get ég lofað. Það má lesa meira um þessar glæsiflugur og fleiri hér.
Þennan mánuðinn hafa nokkur stangveiðifélög skotið skjólshúsi yfir félagsmenn sína og boðið upp á kastkennslu sem vonandi sem flestir hafa nýtt sér. Sjálfur er ég utangarðs í félagsmálum og hef því ekki í eins mörg hús að venda með æfingar. Engu að síður getur maður gert ýmsar æfingar, svona heima við, einn sér eða í smærri hópum. Spottastangir eru fáanlegar víða og með þeim má gera kvöldfréttatíma RÚV miklu skemmtilegri, meira að segja notið þess að sitja fyrir framan beina útsendingu frá Alþingi. Svo má ekki gleyma bílskúrsæfingunni, Kartöflukastinu. En umfram allt, nú er tíminn til að æfa kasthöndina, annars er hætt við að fyrstu dagarnir í veiði verði frekar stirðir og þvingaðir.
Senda ábendingu