Þegar tíðarfarið er hryssingslegt og lítið um að vera í veiðinni leitar maður aftur að hnýtingarbekknum eða fer í huganum yfir kasttæknina, nokkuð sem maður ætti víst frekar að vera að hugsa um síðla vetrar, rétt fyrir tímabilið. Inniæfingar í fluguköstum eru nokkrum annmörkum háðar eins og gefur að skilja, en þar með er ekki sagt að öll sund séu lokuð. Það eru til nokkrar æfingar sem hægt er að taka í bílskúrnum án þess að hætta á að brjóta toppinn af stönginni. Ein þessara æfinga er ‚kartöflukastið‘. Ef fremra og/eða aftara stopp er ekki alveg nógu ákveðið hjá þér er ágætt að taka venjulega kartöflu (ósoðna) og stinga henni á venjulegan matargaffal. Vertu staðsettur c.a. bíllengd frá bílskúrshurðinni og haltu á gafflinum eins og flugustöng með olnbogann upp að síðunni og reistu framhandlegginn þannig að kartaflan nemi við augnhæð. Færðu höndina í aftara stopp og taktu gott framkast með ákveðnu stoppi. Markmiðið með æfingunni er að reyna að losa kartöfluna af gafflinum með fremra eða aftara stoppinu einu saman. Þegar þér svo tekst það, settu hana aftur á og nú aðeins dýpra og endurtaktu leikinn. Þetta hljómar auðvitað allt frekar sauðslega en merkilegt nokk, virkar ágætlega til að skerpa á köstunum.
Senda ábendingu