Ölfusárós – austurbakki

Ölfusárós að austan, Eyrarbakka megin, er í daglegu tali gjarnan skipt í þrjú svæði. Ósinn sjálfur nær frá brú og upp að Móskurði, þar fyrir ofan og upp að Ósastykki er Neðra svæðið (Neðri Engjar). Ofan Ósastykkis og upp að Álftavík er gjarnan kallað Efra svæðið (Efri Engjar).

Á þessum svæðum veiðist mest af sjóbirtingi, en minna af bleikju og laxi. Mikið af sjógengnum fiski þarna virðist flakka um ósinn neðanverðan yfir sumarið og fram á haustið, en það er nokkuð misjafnt hve mikill fiskur berst inn með flóðinu, en yfirleitt er talsvert af fiski við austurbakka Ölfusár því þar liggur meginstraumur árinnar og þar fer um allur fiskur sem stefnir upp í árnar sem mynda Ölfusá.

Veiði í Ölfusárósi er nátengd sjávarföllum og í minningunni var það svo að maður stefndi á að vera mættur á neðstu veiðistaðina u.þ.b. 2 klst. fyrir flóð og veiddi þar fram að liggjandanum en fikraði sig síðan eins og nennan var til upp eftir svæðinu, fylgdi liggjandanum. Margur veiðimaðurinn gerir raunar bestu veiðina á liggjandanum og þegar fellur aftur út, tímasetningarnar eru eflaust breytilegar eftir veiðimönnum og aðferðum. Áhlaðandinn við stífar suðlægar áttir getur líka flýtt hentugum veiðitíma í Ölfusárósi verulega og því gott að kíkja vel eftir vindaspánni.

Það skal viðurkennast að ég hef ekki gert mikið af því að veiða Ölfusárósinn eftir að fluguveiðinn tók hug minn allan, en allt svæðið hentar ágætlega til veiði með hægsökkvandi línu, jafnvel sökkenda þar sem botninn er 99% sandur og lítið sem ekkert um festur.

Björgunarsveitin Björg á Eyrarbakka fer með veiðirétt í ósnum og veiðileyfi er hægt að kaupa á Veiðitorg og er verði stillt í hóf.

Varðandi kortið hér að ofan skal það tekið fram að dökkgráu svæðin hverfa yfirleitt með öllu undir vatn á flóði og ósinn tekur miklum breytingum milli flóðs og fjöru.

Rétt er að geta þess að svæðið milli Móskurðar og upp að Skúmseyju er innan Fuglafriðlands í Flóa og eru veiðimenn, rétt eins og aðrir sem eiga ferð um svæðið, beðnir um að fylgja merktum stígum, ganga vel um og virða varp fugla á svæðinu. Nánar má fræðast um Friðland í Flóa með því að smella hérna.

Tenglar

Flugur

Nobbler (orange)
Nobbler (svartur)
Nobbler (olive)
Flæðarmús
Alda
Brúnn og kopar
Nobbler (hvítur)
Gullið
Gullbrá
Silfur og bekkur

Myndir

Vötnin

Vesturland
Norðvesturland
Norðausturland
Austurland
Suðurland
Hálendið

Create a website or blog at WordPress.com