Vatn

Langavatn á Skaga liggur rétt rúmlega 13 km. norðan Skagastrandar. Það er 3,5 km2 og í rétt rúmlega 200 m h.y.s. Til að komast að vatninu er ekið sem leið liggur eftir þjóðvegi 745 frá Skagaströnd að gatnamótum við Steinnýjarstaði. Þaðan liggur um 6 km. slóði inn að vatninu vestanverðu. Umsjónarmaður vatnsins og veiðivörður er Árný Hjaltadóttir, húsfreyja að Steinnýjarstöðum, sími 452-2745 / 860-2745 sem jafnframt annast sölu veiðileyfa. Um vatnið er veiðifélag, Veiðifélag Langavatns og Fjallabaksár á Skaga, en það er í eigu þeirra býla sem land eiga að vatninu.

Að sögn Árnýjar kom nokkur sýking upp í vatninu fyrir einhverjum árum síðan sem rekja mátti til mikillar fjölgunar fiskjar. Var þá netaveiði / grisjun aukin í vatninu á ný og þannig komist fyrir þessa óværu, enda er fiskurinn í vatninu nú vænn og vel haldin. Í vatninu er bæði bleikja og urriði og virðist þeim koma vel saman því undirritaður hefur veitt hvoru tveggja á sama veiðistað og gerðu fiskarnir engan greinarmun á flugum.

Komið er að vatninu að vestan og stendur þá val veiðimanna um að fara með því að norðan að tanga sem kallast á við annan stærri sem stendur út frá suðurströndinni eða með suðurbakkanum að tanganum þar. Út frá þessum töngum þykja góðir veiðistaðir, en til muna fleiri staði er að finna við vatnið, sérstaklega þar sem rennur í það úr fjölda lækja. Má þar nefna framundan Þórhildardalslæk og Fjallabaksá sem fellur til vatnsins að sunnan. Vatnið er heldur aðgrunnt þar sem komið er að því og vaða má töluvert langt út frá vesturbakkanum áður en komið er að dýpi. Af loftmyndum má ráða að dýpi sé helst við framangreinda tanga og í suð-austur hluta vatnsins, en fáar sögur fara af veiði þar um slóðir en eins víst að þar megi gera góða veiði eins og víðar í vatninu.

Rétt er að taka það fram að við Langavatn gengur stóð hesta úti yfir sumarið og rétt að hafa allan vara á ef vikið er frá bílum eða vögnum á svæðinu til einhvers tíma. Ég sá í það minnsta ekki eftir því að hafa rekið niður fjórar stangir og strengt snúru á milli til að halda stóðinu frá mínum bíl.

Tenglar

Flugur

Krókurinn
BAB / Kibbi
Nobbler (orange)
Nobbler (svartur)

Myndir

Langavatn á Skaga
Stóð við Langavatn

Myndbönd

Vötnin

Vesturland
Norðvesturland
Norðausturland
Austurland
Suðurland
Hálendið

Create a website or blog at WordPress.com