Án þess að hafa hugmynd um að loðnir gestir frá Grænlandi væru að gera sig heimakomna á austanverðum Skaga, ákváðum við hjónin að fara á Skagaheiðina að vestan í þetta skiptið og heimsóttum Langavatn í fyrsta skiptið. Veiðifélagar (Mosó-gengið) höfðu farið að vatninu í fyrra en lítið séð af því sökum þoku, þannig að okkur lék forvitni á að kynnast Langavatni því vel hefur verið látið að því.
Við renndum norður á miðvikudaginn, komum við á Steinnýjarstöðum og fórum þaðan eins og leið liggur inn að vatni. Það verður ekki af umhverfinu skafið að þarna er fallegt og vatnið skartaði sínu fegursta þegar við komum að því þótt nokkur gjóla væri af norðaustri og heldur liðið á daginn.

Næsta dag reyndum fyrir okkur inn með vatninu að norðan, alveg út að tanga sem þar kallast á við annan frá suðurbakkanum. Kunnugur veiðimaður sem gaf sér tíma til að uppfræða okkur, sagði að við þessa þrenginguna í vatninu væri helst von á fiski, en því miður urðum við lítið vör við fisk þarna. Þess í stað pikkuðum við upp urriða og bleikjur á minni töngum og tám sem stóðu út í vatnið á leið okkar. Það fylgdi reyndar sögu þessa veiðimanns að það hefði verið nokkuð kalt síðustu daga, hitastigið farið niður í 4 °C og fiskurinn trúlega lagst fyrir. Mér finnst þetta hin ágætasta afsökun og tek hana góða og gilda, en 6 fiskum náðum við samt á land, þremur urriðum og þremur bleikjum. Allt fallegum og vel höldunum fiskum sem nú eru komnir í frost og bíða reyks.

Eftir að hafa sofið vel og lengi á föstudaginn, renndum við til baka og tókum hús á Árnýju á Steinnýjarstöðum sem fræddi okkur um ýmislegt um tilhögun veiði í Langavatni sem ég hyggst nýta í nánari umfjöllum um vatnið á næstunni. Af þessum sólarhringskynnum af vatninu, þori ég alveg að mæla með því. Dásamlegt umhverfi og trúlega er fiskjar von hringinn í kringum vatnið, þótt flestir veiði víst helst í þeim hluta þess sem komið er að frá slóðanum. Nánar um það síðar og svo fréttir af framhaldi ferðalags okkar hjóna á veiðislóðir síðustu daga.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
1 / 2 | 104 / 121 | 2 / 1 | 10 / 20 | 11 / 13 |