Hvenær er matatími?

Ég hef stundum heyrt talað um að ekkert hafi veiðst í tiltekin tíma vegna þess að fiskurinn hafi legið á meltunni. Sjálfur hef ég aldrei upplifað það að sjá silung liggja á meltunni og hef satt best að segja ekki minnstu hugmynd um hvernig það ætti að fara fram. Hingað til hef ég trúað líffræðingum sem halda því fram að silungur éti stöðugt svo lengi sem fæðuframboð er til staðar og hitastig vatnsins fellur ekki þannig að orkubúskapurinn verði neikvæður. En, svo lengi má halda einhverju fram að maður fer að leggja trúnað á það, eða hvað?

Ég hef séð bleikju leggjast fyrir þegar vatnshitinn fer upp fyrir 9°C, þá leitar hún niður á botn eða eins og þekkt er í Frostastaðavatni, inn í víkur þar sem kalt vatn sprettur fram undan hrauninu. Urriðinn dregur sig víst í hlé þegar hitastigið nær 12°C en mér hefur aldrei tekist að sjá hvar og hvernig hann leggst fyrir. En þetta kemur matarást silungs eiginlega ekkert við. Meira að segja þegar bleikjan sækir í kaldara vatn, leggst fyrir, þá hættir hún alls ekkert að éta, annars væri lítið um fluguveiði á sumrum víðast hvar.

fos_bleikja_rod
Bleikja

Veiðimenn þurfa væntanlega að leita annarrar ástæðu heldur margumtalaðs matarhlés þegar silungurinn hættir skyndilega að taka agn þeirra. Frá vori og fram á haust er líklegasta skýringin að fiskurinn hafi fært sig til í vatnsbolnum vegna hita eða vegna þess að álitlegra æti hafi skyndilega tekið að klekjast eða komið inn á veiðisvæði hans. Veiðimenn mega ekki gleyma því að silungur er nýjungagjarn, hann tekur nýframkomið æti fram yfir það sem hefur verið á matseðlinum fram að þeim tíma. Fiskurinn færir sig meira að segja til í vatnsbolnum til að nálgast nýja ætið, snýr eiginlega baki við gamla matseðlinum þótt nóg sé eftir á honum. Dæmi um svona háttalag er þegar urriði tekur Nobbler grimmt fyrri part dags, en hættir því skyndilega um hádegisbil eða um seinna kaffi þegar t.d. toppflugan tekur að klekjast. Þá færir fiskurinn sig til í vatninu, leitar örlítið út frá ströndinni eða skerjum, utar á vatnið og tekur toppfluguna rétt undir yfirborðinu. Ef þessi breyting fer framhjá veiðimanninum, þá virkar þetta eins og urriðinn verði skyndilega saddur, hætti að éta og leggist á meltuna, en því fer fjarri. Hann er einfaldlega að skipta um rétt á matseðlinum sem þýðir að veiðimaðurinn verður þá að skipta um agn, hvíla Nobblerinn og taka fram Toppfluguna.

Síðla sumars og á haustin er ekki óalgengt að fiskurinn dragi sig niður á botn eða út í dýpið þegar skyndilega hvessir eða langvarandi goluskítur hefur verið við vatnið. Vindkæling getur verið töluverð og fellt vatnshita um nokkrar gráður á skömmum tíma ef hressilega blæs. Fiskurinn hættir ekkert endilega að éta, hann étur bara eitthvað allt annað og á öðru dýpi heldur en áður. Það er undir veiðimanninum komið að finna út úr því hverju hann er að sinna og koma réttu agni niður eða út til hans. Auðveldlega sagt, erfiðara við að eiga.

Nokkur atriði til að varast

Það vantar yfirleitt ekki varnaðarorð til veiðimanna um hitt eða þetta og litlu við þau flest að bæta. Það er því með mikilli ánægju sem hér verða sett fram nokkrar minna þekktar staðreyndir sem gefa til kynna skort á veiðiferðum.

Þú lítur ekki út eins og þvottabjörn – Ef þú hefur ekki áunnið þér náttúruleg gleraugnaför eftir sumarið, þá er það örugg vísbending um að fjöldi veiðidaga hefur verið langt innan ásættanlegra marka.

Það var þarna um daginn – Ef veiðisögurnar þínar í sumar hafa byrjað á óræðum tímasetningum í stað; Í gær… eða það sem er enn betra; Í morgun… þá hefur þú ekki farið nógu oft í veiði.

Óþarfa myndir á Facebook – Ef veiðimyndir eru ekki í meirihluta allra þinna mynda á Facebook, þá er það vísbending um of fáar veiðiferðir. Fyrir hverja ættarmótsmynd ættu að vera í það minnsta tvær veiðimyndir. Göngutúrar án veiðistangar teljast ekki lögmætar veiðiferðir.

Bíllinn þinn er hreinn – Ef bíllinn þinn er svo hreinn að ekki einn einasti farþegi fitjar upp á trýnið, þá hefur hann ekki lent í nægjanlegu slarki í sumar. Ergo: skortur á veiðiferðum.

Engin táfýla – Ef engar kvartanir hafa borist yfir táfýlunni úr geymslunni þinni, þá hafa vöðlurnar ekki verið hreyfðar nægjanlega mikið í sumar. Eina undantekningin er ef þær hafi slitnað upp til agna og endað í ruslinu.

fos_plagur

Almenn leiðindi og óþol fyrir stjórnmálum – Ef það ber á almennum leiðindum í þínu fari og óþoli fyrir stjórnmálum, þá hefur þú ekki farið nægjanlega oft í veiði. Ásættanlegur fjöldi veiðiferða veitir veiðimanninum þvílíka hugarró að ástand heimsmála og framkoma stjórnmálamanna ættu ekki að skipta hann neinu máli.

Meira en helmingurinn eftir í fluguboxinu – Alvarlegasta vísbendingin um að fjöldi veiðidaga hefur ekki verið nægjanlegur er þegar fluguboxið er enn hálf-fullt. Hefur þú eitthvað hugsað fyrir því hvað þú ætlar að hafa fyrir stafni næsta vetur? Drífðu þig nú út að veiða þannig að þú hafir eitthvað að hnýta næsta vetur.

Ekki svo vitlaus

Það hefur stundum verið sagt um silunginn að hann sé nú ekki eins vitlaus og veiðimennirnir vilja vera láta. Hvort sem það eru nú vitsmunir eða eðlislæg viðbrögð silungsins, þá tekur hann stundum upp á því að skipta um stefnu í miðri viðureign. Fer frá hægri til vinstri, vinstri til hægri eða það sem kemur veiðimanninum oftast í opna skjöldu, beint í fangið á honum.

fos_urridi2016b
Skarpari heldur en margur heldur

Ég er í svolitlum vafa um hvort ég eigi að segja að fiskurinn víki sér yfirleitt undan sársaukanum því ekki eru allir veiðimenn sammála því að fiskur hafi sársaukaskyn. Sumir segja að hann víki sér undan þrýstingnum, átakinu þegar flugan festist í honum og togar hann í ákveðna átt. Við getum í það minnsta verið sammála um fiskurinn víkur sér undan flugunni, hver sem ástæðan er. Ef hann tekur nú á rás í áttina frá okkur, þá herðum við á en þá getur fiskurinn tekið upp á því að snúa sér í 180° og stefna beint á okkur. Þá er eins gott að vera viðbúin og ná að taka allan óþarfa slaka af línunni því annars getur flugan losnað úr fiskinum. Ábending til veiðimanna; verið ekkert að reyna að spóla línunni inn á hjólið undir þessum kringumstæðum, dragið hana inn með höndunum, það tekur yfirleitt allt of langan tíma að gera það með hjólinu. Ég hef sagt þetta áður og segi það enn, kannski vegna þeirra sem hafa sloppið hjá mér undir þessum kringumstæðum.

Er best að byrja á straumflugu?

Ég byrjaði stangveiði eins og svo margir aðrir á því að veiða með færi niðri á bryggju. Þar sem ég ólst upp var ekki mikið um að ufsi, ýsa eða þorskur væru að flækjast í höfninni þannig að fyrstu fiskarnir mínir voru koli og marhnútur. Síðar færði maður sig eitthvað upp á skaftið, leitaði vestur fyrir þorpið í átt að Ölfusá og alveg vestur í ós þar sem birtingar og smálaxar gerðu vart við sig. Veiðiskapurinn einkenndist af maðki undir flot eða á pungsökku sem grýtt var eins langt út og stöngin og girnið leyfði.

Þegar svo veiðiáhuginn endurnýjaðist, mörgum árum síðar, var nærtækast að taka upp þráðinn þar sem ég hafði sleppt honum sem unglingur. Aftur varð beita fyrir valinu og fjárfest í góðri kaststöng og til að krydda aðeins veiðiferðirnar og hafa eitthvað að gera, þá var fjárfest í ýmsum tegundum af spúnum. Málið er nefnilega að mér leiddist svolítið beituveiðin. Ég er ekki greindur maður, þ.e. mér hefur aldrei verið fundinn staður í stafrófinu og flokkaður virkur, með einhvern brest eða röskun, mér einfaldlega leiðist aðgerðarleysi og það sem verra er, þegar mér leiðist, þá leiðist ég öðrum.

fos_spunar2_big
Þessir hafa hvílt sig í nokkur ár

Fluguveiði var svarið fyrir mig. Þetta er óþrjótandi brunnur afþreyingar fyrir þann sem leiðist auðveldlega. Miðað við ágæta grein sem ég las um daginn eftir Andy McKinley hjá Duranglers vestur í Colorado, þá byrjaði ég reyndar á kolvitlausum flugum. Ég hefði átt að byrja á straumflugu, ekki púpu eða votflugu. Straumflugan er miklu nær spúnaveiðinni, þaðan sem mín leið lá og því hefði ég skv. áliti Andy átt að byrja fluguveiðina með straumflugu. Og svo kom gullkornið sem ég hnaut um; there is no wrong way to fish a streamer. Einmitt, það er enginn leið að veiða straumflugu á rangan hátt. Jæja, blessaður karlinn hefur ekki glímt við kræsna bleikju í Veiðivötnum, sem leggur bara hreint ekki til atlögu við bleikan nobbler nema hann sér dreginn inn á nákvæmlega réttum hraða, á nákvæmlega réttu dýpi og með nákvæmlega réttu handtökunum. Annars get ég alveg samþykkt það, að straumfluguveiði er e.t.v. rökrétt fyrsta val þeirra sem leiðist orðið beituveiðinn eins og mér, hafa fært sig yfir í spúna og spunakróka til að hafa eitthvað fyrir stafni. Kannski ég kíki aðeins á straumfluguboxið mitt í sumar.

Að hvíla

Þegar fiskurinn hefur verið að sýna sig og þú hefur fengið þín tækifæri án þess að ná honum, þá er væntanlega rétt að hinkra við og þá meina ég að hinkra alveg við. Ekki kasta bara einhverjum flugum í sífellu á meðan þú veltir vöngum hvað gera skuli næst.

Ég prófaði þetta svolítið á sjálfum mér í sumar. Í stað þess að þrælast í gegnum allt boxið, kasta í sífellu og draga inn með mismunandi hætti, þá hætti ég alveg og fór að snuddast í tauminum, athuga með hnútana og velti á meðan fyrir mér, og þá mér einum, öllum þeim flugum sem ég hafði prófað með mismunandi hætti.

Örlítil uppitaka
Örlítil uppitaka

Að hvíla vatnið smá stund er yfirleitt ágæt hugmynd og gerir bæði veiðimanni og fiski gott. Fiskurinn getur alveg orðið hvektur á endalausu áreiti ef hann er í mjög ákveðnu æti. Það er ekki þar með sagt að hann víki sér undan hlaðborðinu sem er til staðar, en ef hann verður sífellt truflaður á matmálstímum af einhverju sem hann hefur engan áhuga á, þá er eins og það byggist upp ónæmi hjá honum fyrir þeim flugum sem maður kastar fyrir hann. Svo er líka bara ágætt að líta upp, virða fyrir sér sjóndeildarhringinn og dást að umhverfinu. Bregða á leik og geta sér til um hvort það sé fiskur að vaka þarna í fjarska, hvað ætli hann sé að éta? Það er aldrei að vita nema það skjóti einhverri flugu fyrir hugskotssjónir. Já, þessi gengur örugglega. Setja hana undir og reyna aftur við þann sem ekkert vildi.

Ef fiskurinn er aftur á móti ekkert í ákveðnu æti, liggur bara fyrir eða sólar bara á sér uggana, þá getur verið lag að standa við og reyna allar flugur í boxinu þangað til hann bregst við.

Nýr formaður Ármanna

Þann 11. júní 2014 birti ég hér á síðunni frétt þess efnis að ég hefði hlotið inngöngu í Ármenn, félagsskap veiðimann sem berst lítið á og hugsa fyrst og fremst um gott sambýli við allt sem að veiðum lýtur. Á þessum tæpum þremur árum sem liðin eru frá inngöngu minni í Ármenn hef ég átt einstaklega gott samstarf við fjölda félagsmanna og notið leiðsagnar mér eldri og reyndari félaga í öllu því sem að stangveiði með flugu lýtur.

Á aðalfundi Ármanna sem fram fór þann 8. mars, lét Árni Þór Sigurðsson af störfum sem formaður eftir fjögur farsæl ár í því embætti. Það er missir af jafn öflugum formanni og Árni Þór reyndist, en maður kemur í manns stað og sá veit fyrir víst að hægt verður að leita til fyrrum formanns, rétt eins og annarra félagsmanna, í því starfi sem hann var kosinn til næstu tvö árin.

Ármenn er öflugur og þéttur félagsskapur yfir 300 veiðimanna sem umfram allt njóta þess að veiða og vera í sem nánustu tengslum við náttúruna. Félagsstarfið hefur einkennst af gróskumiklu vetrarstarfi þar sem hæfileg blanda gamans og alvöru hefur ráðið för í viku hverri frá hausti og fram á vor. Vikuleg hnýtingarkvöld Ármanna sem ganga undir nafninu Skegg og skott hafa laðað félagsmenn til sín á mánudagskvöldum og reglulegir fræðslufundir á miðvikudagskvöldum hafa ekki síður verið burðarás í vetrarstarfinu. Þegar vorar færa Ármenn sig út, safnast saman við kastæfingar og fínpússa í sameiningu þá list að kasta flugu fyrir fisk svo sómi sé að.

Starf félagsins og markmið eru vel mörkuð í 2. grein laga þess:

  1. Að auka hróður þeirrar íþróttar að veiða vatnafisk á flugu.
  2. Að efla virðingu veiðimanna fyrir íslenskri náttúru.
  3. Að hvetja til góðrar umgengni, hófsemi við veiðar og háttvísi á veiðislóð.
  4. Að stuðla að því að félagar geti stundað stangaveiði fyrir hóflegt verð.
  5. Að auka rétt almennings til veiða á stöng í almenningum og þjóðlendum.

Þessi markmið hafa alltaf fallið mér mjög í geð og tóna vel við það ég hef reynt að koma á framfæri hér á FOS.IS og því er mér það mikill heiður að hafa verið kosinn formaður Ármanna á framangreindum aðalfundi þann 8. mars.

Ég vonast til að eiga gott og farsælt samstarf við Ármenn í anda félagsins, en síðast en ekki síst vonast ég til þess að eiga eftir að kynnast dyggum lesendum þessarar síðu innan félagsstarfs Ármanna á komandi mánuðum. Ég bendi áhugasömum á að kynna sér upplýsingar um aðildarumsókn á nýjum vef Ármanna sem nálgast má hérna.

Ármaður #861
Kristján Friðriksson, formaður

Grafin langloka

Einmitt á þessum tíma ársins er matarlystin farin að leita að allt öðru en stórsteikum og endalausum sætindum. Þá getur verið gott að grípa eins og eitt gott flak af gröfnum urriða frá síðasta sumri úr frystinum, sjóða sér egg og sneiða rauða papriku og lárperu í grófar sneiðar. Smella þessu á gróft langlokubrauð með smá slettu af graflaxsósu, ferskan ávaxtasafa í glas og gera vel við sjálfan sig. Góð veiðibók eða tímarit á kantinum til að blaða í, skemmir svo ekki fyrir.

fos_grafin_langloka

Myndin er að vísu frá síðasta sumri en svona geta nú nestistímarnir verið í veiðinni.

Kuldabolar

Það er til marks um gott sumar þegar snjóskaflinn undir Miðmorgunsöldu í Veiðivötnum nær að bráðna áður en síðasti fiskurinn er dreginn upp úr Veiðivötnum, sú varð raunin í sumar sem leið. Veiðimenn urðu því að taka með sér ís eða annan útbúnað í Vötnin til að kæla aflann. Svipaða sögu er að segja af öðru hálendissvæði, Framvötnum. Í síðustu ferð okkar veiðifélaganna í sumar inna að Frostastaðavatni, þ.e. 11. september var litli skaflinn undir Fitjahlíð í Dómadal næstum því horfinn og í raun fyrir löngu ómögulegt að ná einhverjum ís úr honum.

Það skiptir miklu að kæla afla vel, sérstaklega ef úthaldið eru nokkrir dagar í sól og blíðu. Í veiðiferðir okkar í sumar höfum við verið að taka með okkur ísmola í frauðplastkassa eða kæliboxi með misjafnri endingu og oftar en ekki höfum við þurft að bregðast við ótímabærri bráðnun með því að sníkja ís hjá öðrum eða renna í næstu kjörbúð og endurnýja ísbirgðirnar. Ísmolar hafa þennan leiða ávana að bráðna, hverfa og umbreytast í vatn með tilheyrandi sulli og sóðaskap í kæliboxinu. Oft hefur maður brugðið á það ráð að setja kæliboxið í næsta læk til að lengja líftíma molanna, en eins og veðráttunni var háttað s.l. sumar var ekki á neitt að stóla í þeim efnum, þeir voru nokkrir lækirnir sem fóru á þurrt í blíðunni.

fos_isfloskurSíðla sumar mundi ég eftir ábendingu á spjallsvæði veiðifélags míns; Settu vatn í gosflösku, frystu og áttu klárt í kistunni fyrir næstu veiðiferð. Það tók mig að vísu nokkrar veiðiferðir að muna eftir því að útbúa svona kuldabola og eiga tiltæka í frystinum, en það tókst á endanum. Kosturinn við flöskurnar er að þykkur klakinn heldur lengur en molarnir, ekkert sull þótt þeir bráðni og einfalt að endurnýta með því að skjóta þeim í frystinn að veiðiferð lokinni. Munið bara að fylla flöskurnar ekki nema upp að öxlum, annars er eins víst að upp úr kistunni komi frosinn gosbrunnur, tappinn af og plastið sprungið.

Með morgunkaffinu

Með morgunkaffinu í dag fletti ég í gegnum mjög áhugaverðan bækling frá frændum okkar í Noregi. Hér eru taldar til nokkrar áhugaverðar staðreyndir um flesta þá umhverfisþætti og ógnanir sem steðja að laxi og urriða í Noregi. Margir áhugaverðir punktar, þ.á.m. áhrif fiskeldis og virkjana, atriði sem brenna á veiðimönnum hér heima þessa dagana.

Veiðidagur fjölskyldunnar á sunnudaginn

Veiðidagur fjölskyldunnar verður haldinn næstkomandi sunnudag, 26. júní. Þennan dag er landsmönnum boðið að veiða í 29 vötnum, víðsvegar um landið. Það er að venju Landsssamband Stangaveiðifélaga sem bíður til þessa og í ár verða eftirtalin vötn í boði;

Austurlandi – Langavatn  í landi Staffells, Urriðavatn í Fellum, Þveit, Víkurflóð

Suðurlandi – Eyrarvatn, Geitabergsvatn, Þórisstaðavatn, Meðalfellsvatn, Elliðavatn, Þingvallavatn (þjóðgarðurinn), Gíslholtsvatn, Úlfljótsvatn

Vesturlandi – Syðridalsvatn, Vatnsdalsvatn, Langavatn á Mýrum, Hítarvatn, Haukadalsvatn, Hraunsfjörður, Hraunsfjarðarvatn, Baulárvallavatn

Norðurlandi – Hópið, Botnsvatn, Ljósavatn, Höfðavatn, Hraunhafnarvatn, Arnarvatn, Æðarvatn, Kringluvatn, Sléttuhlíðarvatn

vdf2016

FOS.IS hvetur alla sem vettlingi geta valdið að nýta sér þetta tækifæri til að kanna ný vötn eða endurnýja eldri kynni og endilega takið ungviðið með ykkur, það er aldrei of snemmt að koma þeim á bragðið.

Er mamma þín hér?

Þingvellir eru helgur staður í hugum margra hér á landi og þá ekkert síður Þingvallavatn með öllum sínum undrum og lífríki. Þegar maður mætir á Þingvöll, stígur maður léttar til jarðar, hefur augun hjá sér og gætir þess sérstaklega að skilja ekkert rusl eftir sig og munar ekkert um að taka það upp sem aðrir hafa misst frá sér, viljandi og óviljandi. Svipaða sögu má segja af Elliðavatni, sem er mörgum kært. Perla í næsta nágrenni við þéttbýlasta kjarna landsins, útivistarparadís með silungavon eins og einhver sagði. Þar gæta allir þess að ekkert óhreint skolist út í vatnið og hrófatildur fyrri tíðar víkja nú umvörpum af vatnsbakkanum.

Lífríki beggja þessara vatna er vaktað og rannsakað með ærnum tilkostnaði sem greiddur er af almannafé, í einni eða annarri mynd. Hver reglugerðin á fætur annarri er sett fram til verndar lífríkinu þannig að úrgangur og affall manskepnunnar mengi nú örugglega ekki þessi vötn og næsta nágrenni þeirra. Hvort reglunum er síðan framfylgt er allt annað mál, á þessum stöðum eins og öðrum er bæði Jón og séra Jón og ekki gildir endilega það sama fyrir báða. Um bæði þessi vötn gildir að hægt er um vik fyrir gesti að losa sig við umbúðir og annað rusl í þar til gerð ílát og yfirleitt bregðast menn hart við þegar einhver verður uppvís að sóðaskap. Það ætti því að vera algjör óþarfi að þurfa ítrekað að hvetja menn til sjálfsagðrar umgengni sbr. þessa frétt.

En veiðivötn má finna víðar en í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og mörgum manninum þykir jafnvel vænna um þau sem fjarri eru erli og umferðanið borgarinnar. Fjöldi fólks sækir í kyrrð hreinnar og óspilltrar náttúru og er því tilbúið að draga börn og buru á vit afdala og heiða hvenær sem færi gefst. Ég skil þetta mjög vel, það er ekkert sem hleður mín batterí betur en hrein og tær náttúra. En, að sama skapi er það fátt sem dregur mig jafn mikið niður eins og að sjá óþarfa ummerki ferðalanga hvert sem litið er.

Þótt barni verði brátt í brók.... við Frostastaðavatn
Þótt barni verði brátt í brók…. við Frostastaðavatn

Það er svo löngu ljós staðreynd að það sem maður getur borið með sér út í náttúruna getur maður líka tekið mér sér til baka. Víðast hvar er stutt í næsta rusladall og þó svo ekki væri, þá er örugglega alltaf pláss í bílnum fyrir smá rusl þar til komið er aftur til byggða.

Um síðustu helgi var ég á ferð í Hítardal. Það er ekki aðeins vatnið sem dregur mig þangað, umhverfið og náttúran eru alveg einstök og það er næstum alveg sama hve margir mæta á staðinn, það er alltaf einhver kyrrð yfir svæðinu. Eins og áður segir, tel ég það ekkert eftir mér að tína það upp sem nágranni minn hefur misst frá sér, en þessa helgi féllust mér hendur. Ég einfaldlega hafði mig ekki í að tína upp allan þann notaða salernispappír, matarafganga og umbúðir sem gestir dalsins höfðu skilið eftir sig. Að ég tali nú ekki um óþrifnað og sóðaskap veiðimanna sem höfðu verið þar að veiðum. Það ætlar seint að takast að gera mönnum grein fyrir afleiðingum þess að henda innyflum og fiskafgöngum í veiðivötn. Fiskiandarmaðkur eykur útbreiðslu sína jafnt og þétt ef veiðimenn viðhalda hringrás hans á milli hýsla með þessum óþrifnaði. Sjá nánar í nýlegri grein minni Bandormar í fiski.

Hítardal hefur um árabil verið sinnt af stakri prýði. Ruslatunnur eru þar víða, salernisaðstaða opin almenningi og aðgengi svæðisins með ágætum. En þetta virðist ekki duga öllum sem þangað leggja leið sína. Ég velti því fyrir mér hvernig heimilishald þessara gesta er eða uppeldi þeirra hefur verið háttað. Eiga þeir virkilega von á því að mamma þeirra mæti á staðinn og taki til eftir þá? Ég ætla rétt að vona að þessir aðilar hafi verið einir á ferð, mig óar við því að þeir hafi verið yngri veiðimönnum eða börnum sínum fyrirmynd í umgengni.

Ályktun gegn sjókvíaeldi

Á vel sóttu málþingi Landsambands stangaveiðifélaga og Landssambands veiðifélaga í Háskólabíói þann 14. apríl 2016, var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Fundur í Háskólabíó 14. apríl 2016 mótmælir harðlega áformum um stóraukið laxeldi í sjókvíum í fjörðum á Íslandi. Reynslan sýnir að lax- og silungsstofnum er mikil hætta búin fari svo fram sem horfir.  Fundurinn hvetur alla til aðgerða á grundvelli laga, stjórnmála og náttúruverndar gegn þessari alvarlegu vá sem nú steðjar að íslenskum veiðiám.  Fundurinn vekur athygli á að sjókvíaeldisfyrirtækin, sem flest eru að stórum hluta í eigu erlendra aðila, hafa nú fengið þessa auðlind hafsins afhenta í formi ókeypis laxeldisleyfa og án mikils endurgjalds.  Fundurinn skorar á stjórnvöld að láta viðkvæma náttúru landsins njóta vafans þegar ákvarðanir eru teknar um rekstrarleyfi fyrirtækjanna.

Margt fróðlegt kom fram í málflutningi framsögumanna og margir neikvæðir vinklar á áhrif sjókvíaeldis dregnir fram í dagsljósið. Sjálfum fannst mér löngu tímabært að draga með skeleggum hætti fram í dagsljósið áhrif og ógnir sjókvíaeldis á aðra stofna en laxa, svo sem sjóbleikju og birting, en það gerði Erlendur Steinar Friðriksson með ágætum í erindi sínu.

Málþingið í heild sinni var tekið upp og ég gerir mér vonir um að það verði aðgengilegt á samfélagsvefjum innan tíðar þannig að þeir sem ekki höfðu tök á að mæta geti hlýtt á framsögur og fyrirspurnir í heild sinni. Þar til svo verður geta áhugasamir kynnt sér einkar áhugavert erindi Ella Steinars frá því í apríl 2015 hér að neðan.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar
Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar í pontu

Nesti

Þegar lagt er af stað í veiðiferð er eins gott að vera þokkalega nestaður. Það er aldrei að vita hve langan göngutúr maður þarf að leggja í til að finna fisk og ef maður finnur gjöfulan stað, getur teygst á því að maður tölti til baka.

Orkuríkt nesti er málið og þá koma fyrst upp í huga manns hnetur, þurrkaðir ávextir og fræ í poka. Það er náttúrulega hægt að kaupa svona hnetumix í sjoppum, en það er líka hægt að útbúa þetta sjálfur áður en lagt er af stað. Þá getur maður líka valið eitthvað sem manni finnst gott í blandið. Sem dæmi um svona orkubombu sem setja má í poka er t.d.; kassjúhnetur, jarðhnetur, möndlur, graskersfræ, sesamfræ, döðlur, þurrkaðar apríkósur og rúsínur. Og til að skjóta óvæntum glaðningi í pokann er rétt að setja nokkra mola af suðusúkkulaði með. Stærsti ókosturinn við svona blöndu er að það virðist aldrei vera nóg af henni, þetta á það til að gufa upp í einni eða tveimur kaffipásum, alveg sama hvað maður setur mikið í pokann.

Hnetumix með fræjum og ávöxtum
Hnetumix með fræjum og ávöxtum

Ef maður er síðan með kókómjólk í farteskinu eða hitabrúsa og bollasúpu, þá er maður nokkuð vel settur langt frameftir degi, jafnvel langt fram á kvöld og næg orka til staðar til að bera allan aflann til baka.

Meira um Hvammsvirkjun

Skv. frétt á vef Skipulagsstofnunar þann 18.nóv. hefur stofnunin ákveðið að víkja frá upphaflegum fresti til að vinna ákvörðun um endurskoðun umhverfismats Hvammsvirkjunar, sjá hér. Eins og fram kemur hefur stofnunin tekið sér frest til 11.des. til að ljúka verkinu.

Það má ráða af fréttinni að starfsmönnum Skipulagsstofnunar þykir málið viðamikið, sem von er, og því þörf á lengri tíma til að komast að niðurstöðu um það hvort framkvæma þurfi nýtt umhverfismat.

Eftir virkjun - Kort: verndumthjorsa.is
Eftir virkjun – Kort: verndumthjorsa.is

Þess má geta að FOS er kunnugt um að enn bætist við gögn sem Skipulagsstofnun er hvött til að kynna sér áður en kemur að endanlegri ákvörðun. Meðal þess sem lagt hefur verið til málanna er einstaklega góð og áhugaverð grein Árna Árnasonar, Hvammsvirkjun – Nauðsyn mats á umhverfisáhrifum. Greinina má nálgast á vef Árvíkur hérna, en nokkra úrdrætti má sjá hér að neðan. Eins og aðrar greinar Árna um þetta mál, er hún vel rökum studd og vert að gefa henni góðan gaum. Í henni rekur Árni þær breytingar sem orðið hafa á lífríki árinnar frá því nýgildandi umhverfismat var framkvæmt ásamt því að vekja verðskuldaða athygli á skorti rannsókna á s.k. mótvægisaðgerðum sem LV boðar samfara þessari virkjun.

Hugsanlegar virkjanir í neðri hluta Þjórsár, eins og Hvammsvirkjun, hafa þá sérstöðu í samanburði við eldri virkjanir ofar í ánni að göngufiskur á sér nú heimkynni í verulegum mæli ofan þeirra. Hvammvirkjun mun þannig hafa tvenns konar óheillavænleg áhrif á göngufisk. Virkjunin mun bæði spilla mikilvægum uppeldisstöðvum ofan og neðan virkjunar en auk þess þarf fiskur að komast fram hjá virkjuninni bæði á leið sinni upp og niður ána.

Virkni seiðafleyta er óviss og hefur ekki fengið neina gagnrýna umfjöllun í tengslum við Hvammsvirkjun. Það sem hentar Sockeye-laxi þarf ekki að henta Atlantshafslaxinum.

Niðurstöður rannsókna sýna að 89% seiða fara um seiðafleytuna við Wells-stífluna og 96% lifa það af. Árangurinn við Cowlitz-fossana er ekki jafngóður þótt hönnunin sé sú sama. Þar fara einungis 48% stálhausa (steelhead) um fleytuna en stálhaus er regnbogasilungur sem gengur í ár og vötn vestanhafs.

Ég hvet lesendur til að lesa þessa grein í fullri lengd, hún er full af fróðleik og varpar áhugaverðu og gagnrýnu ljósi á gildandi umhverfismat og er starfsmönnum Skipulagsstofnunar eflaust kærkomið innlegg í þá vinnu sem framundan er til 11.des.

Ómælanleg streitulosun

Annað slagið reynir maður sig í veiði þar sem klukkan er á manni; veiði hefst á ákveðnum tíma, jafnvel gerð krafa um hlé á ákveðnu tímabili og svo verður maður að vera hættur ekki seinna en eitthvað ákveðið. Eftir að hafa leikið nokkuð lausum hala í veiði um árabil, veitt þegar mér sýnist og eins lengi og nennan er til, þá getur það beinlínis tekið á taugina hjá mér að fylgja klukkunni. Ég hef staðið sjálfan mig að því að taka sífellt upp klukkuna, sem í mínu tilfelli er farsíminn, og þá er stór partur af ánægjunni farinn. Ég beinlínis finn að rósemdin sem veiðin færir mér að öllu jöfnu er rokinn út í buskann og ég er allur svolítið á nálum. Á þeim veiðistöðum þar sem tiltölulega margt er um manninn eða vatn er nærri byggð, þar get ég alveg skilið að ákveðin tímamörk eru sett í veiði og ég fer fúslega eftir þeim, þannig að það sé á hreinu. En þar sem maður er jafnvel einn með sjálfum sér, órafjarri öllu nema náttúrunni sjálfri, þar vil ég getað farið á fætur í rólegheitunum, sötrað morgunkaffið mitt í friði og veitt síðan inn í nóttina eins og mér sýnist.

fos_hraunsfjordur
Ekkert stress

Ég las fyrir nokkru ágæta umfjöllun í The Huffington Post um áhrif stangveiði á andlega vellíðan. Þetta var hin ágætasta grein, en hún gerði svo sem ekkert annað en setja í orð það sem ég upplifi á sjálfum mér í veiðinni. Í nútíma þjóðfélagi þar sem ríflega 80% landsmanna telja sig finna fyrir streitu eða afleiðingum hennar, þá er útivera í óspilltri náttúru, einn með sjálfum sér eða sínum nánustu, trúlega áhrifaríkasta leiðin til streitulosunar sem býðst í dag.

Það verður seint hægt að setja raunhæfan verðmiða á þann auð sem við eigum í óspilltri náttúrunni þótt einhverjir telji sig geta sett verðmiða á náttúruna þegar búið er að gelda árnar, stífla vötnin og umbreyta þeim í uppistöðulón fyrir raforkuframleiðslu. Mesti auður náttúrunnar verður einfaldlega aldrei virkjaður með vélum og tækjum, hann er aðeins virkjanlegur með mannsandanum.

Steiktur, reyktur, soðinn og …

Mér liggur við að segja að því miður fjaraði áhugi minn á fiski allsnarlega út eftir að hafa unnið í fiskvinnslu sem unglingur. Svo sterkt hefur eimt af þessari ládeyðu að ég legg mér nánast aðeins til munns þann fisk sem ég hef sjálfur veitt og verkað. En einn maður getur vart étið á annað hundrað fiska yfir sumarið og því ferð stór hluti aflans í frystinn til síðari tíma. Töluvert fer í reyk og er deilt þannig með vinum og vandamönnum, annað er eldað eftir hentugleikum. Þannig getur afli sumarsins nýst vel fram undir og rétt framyfir áramótin. Mikið lengur getur maður ekki geymt fisk í frysti án þess að eiga það á hættu að hann skemmist.

Ein er þó sú geymsluaðferð sem ég hef lengi ætlað að prófa og það er þurrkun. Fyrir nokkrum árum gaukaði vinsamlegur veiðimaður að mér þurrkaðri bleikju á bökkum Frostastaðavatns og frá þeim tíma hef ég alltaf ætlað að prófa þetta. Ég efast ekki um að fleiri veiðimenn hafa prófað að þurrka silung og eflaust eru nokkrar aðferðir notaðar, hver hefur sitt lagið á þessu og skiptir væntanlega litlu hvernig þetta er framkvæmt, svo lengi sem útkoman er góð.

Allur ferskvatnsfiskur getur borið með sér sníkjudýr sem geta tekið sér bólfestu í spendýrum og því er rétt að snyrta fiskinn vel og frysta áður en hafist er handa við þurrkun.

Fyrst af öllu útbý ég pækil með 100 gr. af salti í 1,5 ltr. af vatni. Þetta magn dugar ágætlega fyrir u.þ.b. 20 flök af undirmálsfiski, þ.e. fiski undir 500 gr. sem hentar einmitt ágætlega til þurrkunar, jafnt bleikja sem urriði.

Skorið í flökin
Skorið í flökin

Næst tek ég afþýdd flökin og sker þvert á þau inn að roði með u.þ.b. 1,5 sm. millibili. Þetta er gert til þess að fiskurinn þorni hraðar og jafnar. Eftir að öll flökin hafa verið þverskorin og spyrðubönd þrædd í hvert þeirra, læt ég þau liggja í pæklinum í 10 – 15 mín.

Flökin í pækil
Flökin í pækil

Svona rétt á meðan flökin liggja í pæklinum ætla ég að nefna að með því pækla fiskinn verður bragðið af honum skarpara auk þess sem saltið virkar sem rotvörn rétt á meðan fiskurinn nær að þorna. Annar kostur, ekki síðri er að saltið heldur lykt í algjöru lágmarki á meðan á þurrkun stendur, nokkuð sem ég hafði áhyggjur af í byrjun, þar sem ég þurrka fiskinn innandyra.

Komið í þurrk
Komið í þurrk

Til að hengja flökin upp hef ég fest nokkra króka undir hillu við hitaveitugrindina í bílskúrnum þar sem flökin fá að hanga í rúmlega viku eða þar til þau eru þurr í gegn. Sumir þurrka fisk utandyra eða í kaldri útigeymslu en þá verður að gæta þess að fluga komist ekki í fiskinn og því eins gott að velja svalari árstíma. Hitastig hefur auðvitað mikil áhrif á þann tíma sem það tekur að þurrka fiskinn og ekki síður hvort einhver hreyfing sé á loftinu. Staðið, kalt loft verður til þess að þurrkun tekur nokkuð lengri tíma.
Að þurrkun lokinni er það smekksatriði og undir styrkleika tanna komið hvort flökin eru barinn eða neytt sem bitafiskur. Hvort sem verður ofan á þá roðríf ég fiskinn og set í box eða poka og þannig ætti hann að geymast í frysti eins lengi og vill. Reyndar hefur ekkert af þeim fiski sem ég hef þurrkað hingað til náð því að fara í frysti, svo vinsæll hefur hann verið hjá þeim sem hafa smakkað.

Múrar

Á tímum síðari landaflutninga hefur fólk flust frá einu landi til annars í leit að betra lífi, öruggari framfærslu og þá ekki síst með framtíð afkomenda sinna í huga. Þetta þekkja Íslendingar frá árinu 2008 og allt til dagsins í dag. Það er einkennandi við landaflutninga hina síðari, að þeir eiga sér flestir stað í kjölfar náttúruhamfara, styrjalda eða annars mannlegs klúðurs. Það er fátt sem aftrar því að stórir hópar fólks flytji búferlum, nema þá vegabréfaeftirlit, girðingar eða múrar sem reistir hafa verið til að halda fólki inni á ákveðnum svæðum, eða hvað?

Hvers vegna örfáum mönnum þótti áríðandi að flytja hundruð þúsunda einstaklinga frá Evrópu yfir til Ameríku árið 1880 er ekki fyllilega ljóst. Talað var um að auka fjölbreytileika tegundanna, rétt eins og náttúran gæti ekki séð um það sjálf. Nokkrir vöruðu sterklega við þessum flutningi, hann gæti stefnt framtíð innfæddra í hættu. Fram að þessum tíma hafði náttúran óáreitt séð um að vernda innfædda fyrir ásókn þeirra erlendu, það var og gild ástæða til. Þannig fór auðvitað að þetta óþarfa káf með stofn evrópsks urriða (Brown Trout) yfir til Ameríku varð til þess að innfæddir (Brook Trout) létu undan síga og við lá að þeir þurrkuðust út. Það hefur kostað ótrúlegar fjárhæðir og vinnu að viðhalda þeim litla stofni Brook Trout í Norður-Ameríku sem eftir er. Þá er ótalin sá skaði sem orðið hefur í Suður-Ameríku þar sem urriðanum hefur verið komið fyrir á ótrúlega víðfernu landsvæði.

En viti menn, aðeins fjórum árum eftir að evrópski urriðinn var fluttur til Austurstrandar Ameríku, var Kyrrahafsurriðinn (Rainbow Trout) fluttur yfir til Bretlands. Þar hitt Skrattinn ömmu sína í öðru veldi og á Regnbogasilungurinnan við einu ári höfðu tugir þúsunda sloppið úr eldisbúrum út í nálægar ár. Þar með var framtíð Brown Trout á Bretlandseyjum stefnt í hættu sem jókst síðar enn frekar með tilkomu iðnbyltingarinnar og meðfylgjandi mengun. Í dag kemur ekki nokkrum heilvita manni til hugar að drepa Brown Trout í ám og lækjum Bretlands á meðan víða eru viðurlög gegn því að sleppa regnbogasilungi. Endurheimt fiskfarvega, hreinsun áa og lækja á Bretlandi hefur kostað ómælda vinnu og fjármuni. Því miður er svo komið að þarlendir aðilar hafa orðið að sætta sig við að regnbogasilungurinn er kominn til að vera í lífríkinu, öðrum stofnum til sífelldrar hættu.

Ég er ekki að gera því skóna að regnbogasilungur sem fluttur hefur verið til Íslands eigi eftir að verða hluti af íslenskri náttúru, til þess skortir mig framsýni og þekkingu á óorðnum breytingum á veðurfari. Okkar helsta von, að því mér skilst, er að klak regnbogasilungs á sér stað á þeim tíma sem síst er lífvænlegur fyrir hann hér á landi. Ef veðrátta breytist til einhverra muna hér næstu árin eða tugina, þá gæti málið horft öðruvísi við. Rétt eins og mannskepnan, þá leitar fiskurinn út í frelsið því mannanna verk, girðingar og múrar, mega sín lítils þegar náttúran er annars vegar. Nýleg dæmi um eldisfisk sem fundist hefur í ám Norðanlands eru áhyggjuefni, sama hvernig á það er litið.

Að sama skapi eru áform um stóriðju í laxaeldi meira en áhyggjuefni fyrir þá sem unna íslenskri náttúru og dýralífi. Sá ótrúlegi massi af úrgangi sem fellur til við laxeldi í sjó getur ekkert annað en stefnt nálægri náttúru í voða, hvort heldur náttúrulegum laxastofni, silungi eða botndýrum þröngra fjarða. Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar eldis- og verkfræðinga um öryggi sjókvía er ekkert sem getur komið í veg fyrir slys, stór eða lítil, samfara þessum fyrirætlunum. Bara það að setja slíkar kvíar niður við strendur landsins er slys eitt og sér. Allt káf okkar mannanna með landaflutninga náttúrulegra fiskistofna hefur endað með hörmungum, jafnvel óafturkræfum breytingum á lífríkinu sem við skilum af okkur til komandi kynslóða. Múrar halda aldrei.

Er þessi óhultur í sinni á?
Er þessi óhultur í sinni á?

Af hita í vötnum

Í grein minni hér um daginn um varmanám í vötnum, gat ég þess að vötn hitna nær eingöngu í efsta metra yfirborðsins. Þegar kemur að djúpum vötnum eins og Þingvallavatni er því ljóst að dýpri vatnslög hitna ekki fyrr en umhverfing vatnsins hefur átt sér stað, þ.e. heitt vatnið af yfirborðinu leitar niður á við og þrýstir köldu vatninu upp í vatnsbolinn. Þessi umhverfing er hæg og því er mikilvægt að raska ekki hlýnun þessara vatna á yfirborðinu með snefilefnum eins og leynast í tilbúnum áburði

Vötn sem svona er háttað til um eru mjög frjósöm, sífelld umskipti (mælt í árstíðum) færir næringu á milli svæða í vatninu og viðkoma gróðurs og skordýra eykst. Að raska þessu jafnvægi, jafnvel í litlum hluta vatnsins getur haft mjög neikvæð áhrif á lífríkið. Heitasta tíma ársins er yfirborðshiti Þingvallavatns rétt um 10°C, á 20 sm. dýpi er hann 8°C og 6°C á 80 sm. Allur vatnsbolurinn fyrir neðan þessa dýpt er kaldari, yfirleitt miklu kaldari nema þar sem linda nýtur við. Lindavatnið sem streymir inn í Þingvallavatn er á bilinu 2,7°C til 4°C og á miklu dýpi er það nánast eins hitaveita þar sem vatnið er að jafnaði ekki nema 1°C.

Ákveðið svæði við vatnið sker sig mikið úr hvað hitastig varðar og hefur gert svo í hundruð ára, Nesjahraun. Þarna hefur heitt grunnvatn ofan úr Hengli streymt fram og yljað vatnið næst ströndinni. Frá því Nesjavallavirkjun tók til starfa hefur hiti grunnvatns á þessum slóðum hækkað verulega, svo mjög á köflum að hitatölur 17 – 27°C hafa mælst í gjám sem áður voru rétt ilvolgar. Við þekkjum þessi svæði og nágrennið sem einstakar uppeldisstöðvar urriðans í vatninu og hafa veiðst þar ótrúlegir drekar. Kyrrstöðuástandið sem skapast á þessum slóðum, sífelldur sumarhiti og vel það, hefur að öllum líkindum breytt hegðunarmunstri fisksins þannig að hann leggst ekki í dvala nema mjög skamman tíma, ef þá nokkurn yfir veturinn. Hér hafa mannanna verk væntanlega getið af sér verulegt frávik í eðlilegri hegðun urriðans.

Almennt hefur meðalhiti Þingvallavatns hækkað hin síðari ár, rétt eins og annarra vatna á norðlægum slóðum. Einn fylgifiskur þessa er að nú leggur vatnið mun síður en áður. Ísinn á Þingvallavatni hefur hingað til virkað sem ágætis einangrun í miklum kuldum og þannig temprað hitasveiflur. Sé ísinn ekki til staðar er þessi temprun horfin og vatnshitinn getur tekið mjög miklum sveiflum í hita. Viðkvæmari tegundir gróðurs gætu þannig horfið og harðgerðari plöntur náð yfirhöndinni með ófyrirséðum afleiðingum fyrir lífríkið í heild sinni. Verði miklar breytingar á svifi í Þingvallavatni er næsta víst að það hafi mikil áhrif á viðkomu murtunnar og þar með annarra fiska í vatninu. Hvort sú verður raunin, verður framtíðin væntanlega ein að skera úr um en þangað til ber okkur skilda til að vernda umhverfi og lífríki vatnsins af fremsta megni. Eitt af því sem við verðum að horfast í augu við eru áhrif mannlegs inngrips í lífríkið sem hingað til hefur fyrst og fremst hefur verið hita- og efnamengun.

Þingvallavatn
Þingvallavatn – horft til Nesjavalla

2015

2015

Eins og venjulega er fyrsta færsla ársins kveðja til þeirra sem fylgt hafa þessari síðu á FacebookGoogle+ eða Twitter á liðnum árum. Nýtt ár færir okkur ný tækifæri og þá er eins gott að hafa dagatal við hendina. Þetta árið stækkar dagatalið okkar og við birtum nú tímasetningar og flóðhæð ár- og síðdegisflóða fyrir hvern einasta dag ársins. Dagatalið er hægt að nálgast með því að smella hérna.