FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Herbjarnarfellsvatn – júlí 2019

    30. júlí 2019
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Í samantektir veiðiferða síðustu vikna hefur vantað tvær ferðir okkar veiðifélaganna. Hér verður þeim smellt saman í eina stutta frásögn, enda eru þær nátengdar hvað varðar veiðistað og tilefni.

    Þannig er að veiðifélag okkar, þ.e. Ármenn, standa að fiskirækt að Fjallabaki í sumar og þangað höfum við veiðifélagarnir farið einar fjórar ferðir, þrjár til formlegra starfa og eina til undirbúnings. Fyrstu tveimur ferðum okkar í þetta verkefni hef ég þegar gert skil hér og hér, en hinar sameinast hér í einni frásögn.

    Þar sem starf Ármanna fer fram við Löðmundarvatn og flestir þeir sem taka þátt í starfinu hafa aðsetur við Landmannahelli, þá er tilvalið að skjótast þessa stuttu vegalend inn að Herbjarnarfellsvatni, skammt vestan og norðan Landmannahellis.

    Við Landmannahelli – smellið á mynd fyrir stærri útgáfu

    Helgina 12. – 14. júlí fórum við veiðifélagarnir í félagi með tveimur öðrum Ármönnum til starfa í fiskiræktinni og gerðum okkur ferð í Herbjarnarfellsvatnið. Það er skemmst frá því að segja að ég setti aðeins í einn fisk á meðan veiðifélagi minn setti í þrjá, en allir fengu þeir líf. Það virðist vera töluvert af fiski undir pundinu í vatninu eftir nokkrar stórar sleppingar síðustu ára, en eins og kunnugt er þá er urriða af Veiðivatnastofni sleppt í vatnið og margir þeirra hafa náð mjög góðum vexti þar á liðnum árum. Mér hefur samt reynst erfitt að ná þeim stóru upp á síðkastið og það sannaðist aftur um nýliðna helgi.

    Dagana 25. – 28. júlí vorum við aftur á ferðinni við Landmannahelli, mættum þar á fimmtudaginn í rjómablíðu og gengum beint til verka við fiskiræktina. Þegar vinnu var lokið um kvöldið var nær ómögulegt annað en skjótast inn að Herbjarnarfellsvatni, slík var stillan og kvöldið fallegt.

    Þegar við komum að vatninu voru vökur um allt vatn, fiskur á fullu í æti og nokkrir aðrir veiðimenn á staðnum. Við héldum inn með suðurströndinni til austurs, ekki langt því fiskur var uppi í harða landi í æti. Ég setti fljótlega í vænan fisk en heldur var takan naum og eftir stutta en snarpa viðureign lét hann sig hverfa. Raunar er ég sannfærður um að hann hafi ekki fært sig langt, því skömmu síðar setti veiðifélagi minn í 2 punda ljóngrimman urriða sem endaði á landi. Sjálfur setti ég síðar í tvo undir væntingum sem fengu líf, en veiðifélagi minn hélt uppteknum hætti og bætti einum við á land og sleppti tveimur til viðbótar.

    Regnbogi við Landmannahelli

    Ég sá mér síðan færi á að skjótast á milli vakta í vatnið á föstudaginn og fór þá í þver öfuga átt, inn með suðurströndinni til vesturs, alveg inn í norð-vestur horn vatnsins. Alla þá leið varð ég var við fisk sem rótaðist þar í æti sem aldan þyrlaði upp, en allir þeir sex sem ég setti í fengu líf með þeirri kveðju að þeir ættu nú að vera duglegir að éta og koma aftur að ári eða tveimur.

    Á laugardagskvöldið stóð þannig á vindátt að Hellisfjall og Löðmundur mynduðu smá skjól við Herbjarnarfellsvatn fyrir þeim djöfulgangi sem annars var í veðrinu. Við gerðum okkur því ferð inn að vatninu og það endaði þannig að við settum í sitt hvorn fiskinn sem báðir fengu líf og létum gott heita þegar vindurinn náði sífellt betur til okkar, tókum á okkur náðir og biðum þess að vind lægði við Löðmundarvatn þannig að við gætum haldið störfum áfram.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
    0 / 0 55 / 71 8 / 9 15 / 23 18 / 18

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn 21. & 22. júní 2019

    24. júní 2019
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Um liðna helgi fórum við veiðifélagarnir í mikla og skemmtilega vísindaferð upp að Löðmundarvatni og tókum þátt í Fiskirækt að Fjallabaki, samstarfsverkefni Ármanna og Veiðifélags Landmannaafréttar. Þetta var meiri vinnuferð heldur en veiði, en samt tókst okkur að bleyta færi í Dómadalsvatni, Blautaveri og Herbjarnarfellsvatni.

    Eftir að hafa komið ýmsu dóti fyrir á hinum ýmsu stöðum á föstudagskvöldið, brugðu við okkur í Dómadalsvatn og nutum þess að baða flugur á Sumarsólstöðum í allri kyrrðinni sem ríkti. Aflabrögð voru ekki neitt rosaleg, en saman tókst okkur að setja í þrjá spræka urriða sem við slepptum þó. Við stefnum ótrauð á að heimsækja þessa félaga aftur að ári og sjá þá hvort þeir hafi ekki stækkað aðeins.

    Við Blautaver

    Á milli vinnustunda í blíðunni á laugardag, smelltum við okkur í félagi við á annan tug Ármanna í Blautaver. Þetta varð nú ekki nein frægðarför, öðru okkar, þ.e. því sem ekki þurfti á því að halda, tókst að taka eina bleikju með, annars var allt frekar rólegt. Eins og kerlingin sagði um árið; Áður mér brá og átti þá trúlega við ævintýraveiðina fyrir viku síðan.

    Eftir það sem taldist fullreynt við Blautaver, fórum við veiðifélagarnir inn að Herbjarnarfellsvatni þar sem við settum í sitt hvorn urriðann. Annar þeirra slóst síðar í för með okkur til Reykjavíkur, en hinn varð eftir og fær næði til að éta aðeins meira.

    Meiri varð nú ekki stangveiðin um síðustu helgi, það verður bara betra og kannski meira næst.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
    0 / 1 43 / 57 3 / 2 6 / 11 13 / 13

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn 15.-17. júní 2019

    18. júní 2019
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Það er aldrei leiðinlegt að eiga erindi inn að Fjallabaki og þannig var því einmitt háttað á laugardaginn. Vegna undirbúnings fyrir Fiskiræktarstarf Ármanna og Veiðifélags Landmannaafréttar í sumar áttum við veiðifélagarnir erindi inn að Landmannahelli um helgina og því var ekki úr vegi að slá margar flugur í einu höggi og gera veiðiferð úr þessu ferðalagi okkar.

    Laugardagurinn var tekinn tiltölulega snemma þannig að helgin nýttist til alls þess sem við vildum gera. Oftast höfum við félagarnir veðjað á Landmannaleið (F225) inn að Landmannahelli og það gerðum við á laugardaginn. Vegurinn var opnaður almennri umferð fyrir nokkrum vikum síðan og var enn í ágætis standi. Þó bar við að þeir kaflar sem bjóða upp á þvottabretti væru að vakna til lífsins, en voru ekki orðnir neitt óþolandi. Kaflinn inn að Sauðleysi var því í betra ástandi en í meðalári og við tóku kaflar í átt til Landmannalauga og Landmannahellis. Báðir þeir kaflar eru með því besta móti sem við höfum upplifað í háa herrans tíð. Trúlega munar þar mestu að þurrt var þegar þeir voru heflaðir og því hefur tekist að ná vel upp úr köntunum þannig að ofaníburður var til staðar. Vatn í Rauðfossakvísl og Helliskvísl var í meira lagi, þó ekkert til vansa ef varlega er farið yfir vöðin við Sauðleysi. Líkur hér frásögu af vegum og við tekur frásögn af veðri.

    Veðrið að Fjallabaki var einstakt um helgina. Oftast erum við alltaf sátt við veðrið að Fjallabaki, en í þetta skiptið var ekkert út á það að setja. Hitastig að degi til um og yfir 20°C, eitthvað um hreyfingu á lofti sem var bara til bóta, en aldrei neitt rok. Óþarfi að hafa fleiri orð um blíðuna, snúum okkur þá að veiðinni.

    Frostastaðavatn

    Þegar við höfðum komið okkur fyrir á tjaldstæðinu við Landmannahelli, gert vart við okkur og fengið veiðiskýrslu hjá skálavörðum var stefnan tekin á Löðmundarvatn. Eins og fram hefur komið, þá er stefnt á að grisja í vatninu um rúmlega 1.700 kg. í sumar og það er svo sannanlega ekki vanþörf á. Þeir fiskar sem við tókum sem snöggvast úr því á laugardaginn voru ekki upp á marga fiska, þ.e. í grömmum talið. Meðalþyngd 100 – 125 gr. af meira og minna kynþroska bleikju. Já, það er töluvert verk fyrir höndum í Fiskirækt að Fjallabaki. Það skal strax fært til bókar að við félagarnir vorum sammála um að telja ekki til afla í sumar þá fiska sem við tækjum úr Löðmundarvatni eða Frostastaðavatni.

    Talandi um Frostastaðavatn. Sem tilraun til að virkja veiðimenn og aðra náttúruunnendur í grisjun, þá er frítt að veiða í Frostastaðavatni í sumar, hvort heldur á stöng eða í net. Það eina sem veiðimenn þurfa að gera er að láta vita af sér hjá skálavörðum við Landmannahelli eða í Landmannalaugum og fá veiðiskýrslu sem skila ber í lok dags eða daga. Það er mikilvægur liður í grisjuninni að afli úr vatninu sé skráður þannig að unnt sé að meta áhrif grisjunarinnar. Fjöldi veiðimanna við Frostastaðavatn vakti athygli okkar yfir helgina og það er gott að veiðimenn taki svona vel í að leggja grisjuninni lið með þessum hætti. Persónulega langar mig þó til að biðja veiðimenn um að ganga vel um og umfram allt; varlega. Sumrin eru stutt á hálendinu og átroðningur á viðkvæmum gróðri utan göngustíga getur verið lengi að jafna sig á þessum slóðum.

    Eftir heimsókn okkar í Löðmundarvatn renndum við austur að Kýlingavötnum svona rétt aðeins til að taka stöðuna á samskiptum vatnsins við Tungnaá. Eitthvað hefur sú gamla verið að snuddast inn í vötnin því þau voru nokkuð lituð sem og Tungnaá sjálf. Oft hefur áin og þar með vötnin verið nokkuð tærari snemmsumars, en því stjórna væntanlega mest bráð og leysing. Tíðarfar hefur trúlega verið hagstætt þeim efnum upp á síðkastið. Vel getur ræst úr á næstu vikum, en við verðum væntanlega bara aðeins að bíða þar til fiskurinn verður aðgengilegri í Kýlingavötnum.

    Dómadalsvatn

    Á leið okkar til baka að Landmannahelli stoppuðum við aðeins í Dómadalsvatni, en gerðum ekki stórt mót þar sökum mikils vatns. Vatnið var að mestu inni í vöðlum okkar hjóna þannig að við stoppuð ekkert rosalega lengi, þó nóg til að sjá stöku fisk velta sér og stökkva, en enginn þeirra var til í okkar flugur þannig að við drógum okkur snemma í vagninn.

    Blautaver

    Sunnudagurinn var flottur, mjög flottur að öllu leiti. Við vorum nú ekkert sérstaklega árrisul en vorum þó komin í Blautaver um hádegið og þar gerðust hlutirnir. Verin skörtuðu sínu fegursta, sól og blíða með stöku gáru og fiskur að vaka um allt vatn, vaðandi í æti upp í harða land. Við vorum lengi vel ein í heiminum þarna og nutum þess í ræmur að egna fyrir bleikjurnar sem voru ekkert lítið æstar í lítinn bleikan Nobbler. Þegar leið á daginn fór veiðimönnum að fjölga og ég held að ég megi fullyrða að allir hafi gert góða, ef ekki frábæra veiði þennan dag í Blautaveri og farið heim með fínan matfisk á bilinu 1 – 2 pund. Sjálf vorum við orðin miklu meira en mett upp úr seinna kaffi og vorum því komin heim í vagn um kl.18 eftir að hafa gert að og raða upp á nýtt í þá tvo kælikassa sem við höfðum með okkur. Þar sem kassarnir voru nýttir undir afla, var ekkert um annað ræða heldur en éta það sem þurfti að éta og það þýddi náttúrulega bara eitt, við fórum ekkert að veiða eftir kvöldmat. Södd, sæl og meira en ánægð með daginn sátum við bara úti og nutum þess að vera í kyrrðinni að Fjallabaki.

    Kvöldsól við Landmannahelli

    Við tókum Þjóðhátíðardaginn snemma og renndum aftur austur að Blautaveri, eins og við hefðum ekki fengið nóg daginn áður. Þar var ekki alveg sami ofstopinn í bleikjunni og daginn áður, en vænn og góður fiskur sem kom á flugurnar okkar í rólegheitunum um morguninn. E.t.v. vorum við eitthvað of snemma á ferðinni, vatnið var enn að lifna við eftir nóttina sem mig grunar að hafi verið í kaldara lagi þarna niðri við Tungnaá.

    Heilt yfir var þetta dásamleg ferð inn að Framvötnum og eitt er víst, það eru ekki margir staðir sem eru jafn vel til þess fallnir til að hreinsa út amstur hversdagsins eins og að Fjallabaki.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
    39 / 44 43 / 56 0 / 2 3 / 9 12 / 12

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn 10. & 11. ágúst

    12. ágúst 2018
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Það var með nokkurri tilhlökkun að við lögðum af stað út úr bænum á föstudaginn, stefnan var tekin á Fjallabak og ætlunin að ná í nokkrar bleikjur í harðfisk. Það tekur um það bil 3 klst. að keyra úr Reykjavík inn að Landmannahelli, en þessi tími er fljótur að líða, ólíkt þeim þremur sem sem það tekur að keyra til baka. Svona virkar svæðið einfaldlega á mann, það laðar og vill helst ekki sleppa manni lausum.

    Eftir að við höfðum komið færanlega veiðihúsinu fyrir við Landmannahelli var stefnan tekin á Frostastaðavatn. Þetta sumar eru þegar skráðir rétt um 700 fiskar á land úr vatninu og ekki eru öll kurl komin til grafar enn, eitthvað óskráð og oft hefur vatnið verið gjöfult langt fram í haustið. Eins og kunnugir vita, þá hefur farið ýmsum sögum af aflabrögðum og ástandi fiska í vatninu þetta sumar. Síðastliðin ár hafa gefið það til kynna að bleikjan í vatninu hafi það ekkert oft gott, hún er orðinn heldur liðmörg og hefur farið smækkandi. Það er reyndar reynsla okkar hjóna að stærri og betur haldin bleikja leitar inn í kastfæri flugustanga þegar líður á sumarið og því ætluðum við að ná okkur í nokkrar slíkar í þessari ferð.

    Frostastaðavatn

    Við lögðum leið okkar inn fyrir Suðurnámshraun, kíktum í nokkrar víkur og enduðum á því að leggja flugur okkar niður á þremur stöðum. Himbriminn gerði sitt besta til að fækka bleikjunni í innstu vík hraunsins og við hjálpuðum til. Til að gera langa sögu stutta þá tókum við 20 fiska með okkur úr vatninu og því miður var aðeins lítill hluti þeirra af nýtanlegri stærð. Kenning okkar um stærri fiska féll þar með um sig í þetta skiptið, en við heyrðum reyndar frá góðum kunningjum okkar sem við hittum á laugardaginn að þær (stærri bleikjurnar) hefðu gefið færi á sér í miklu magni undan bílastæðinu að norðan um síðustu helgi.

    Blautaver

    Úr Frostastaðavatni lögðum við leið okkar í Blautaver eftir að hafa heyrt ágætar sögur af veiði þar. Á síðustu árum hafa ekki margir fiskar verið skráðir úr verinu, en eitthvað hefur ræst úr aflatölum á þessum sumri. Kannski hjálpar það til að Tungnaá hefur valið sér farveg fjær Blautaveri síðustu mánuði heldur en oft áður og því ekki alveg eins greiður samgangur á milli núna. Vatnið er ekki alveg eins litað og oft áður og gera má ráð fyrir að gróður og pöddulíf hafi nýtt sér tærara vatn og dafnað vel í sumar. Það hefur vitaskuld áhrif á fiskinn og það kom okkur skemmtilega á óvart hvað bleikjan var vel haldin og að Tungnaár-urriðinn væri knár þótt smár væri.

    Sólin að setjast á bak við Hnausa  við Eskihlíðarvatn – tekið við Blautaver kl.21

    Á leið okkar í náttstað renndum við inn að Dómadalsvatni þar sem við settum í sitthvort parið af urriðum í yngri kantinum. Af öllum ummerkjum að dæma, lífi og narti þá er ekki skortur á upprennandi boltum í vatninu og það verður spennandi að kíkja á þá að ári eða tveimur þegar þeir hafa bætt aðeins á sig. Einn urriði var tekin og kíkt inn í. Var sá pakkaður af skötuormi frá koki og aftur í rauf og greinilegt að nóg er af þessu urriðasælgæti í Dómadalnum. Þegar hitastigið féll skyndilega niður í 5°C rétt fyrir kl.23, var eins og skrúfað væri fyrir allt nart og tökur þannig að við pökkuðum saman og fórum inn í veiðihúsið okkar við Landmannahelli, settum miðstöðina á og bjuggumst í ból eftir síðbúinn kvöldverð.

    Við Dómadalsvatn kl.23:00

    Það var úr vöndu að ráða á laugardagsmorgun, hvert skyldi halda? Úr varð að við fórum í rannsóknarferð inn að Eskihlíðarvatni. Leiðin að vatninu var víst fær jeppum á 44“ dekkjum og því var það með varúð að við lögðum í þennan leiðangur á okkar borgar- og slyddu jepplingi. Hvað sem menn hafa um þessa ákveðnu tegund bifreiðar að segja, þá átti hann ekki í nokkrum vandræðum með brekkur, sneiðinga og lausan sand og inn að vatni komumst við án nokkurra vandræða. Eskihlíðarvatn er trúlega frægasta dæmi um ris og fall bleikjuvatns að Fjallabaki. Á sínum tíma var sleppt í það bleikju, fiskurinn óx og dafnaði með miklum myndarbrag í nokkur ár en svo tók við skeið offjölgunar, tilraun til grisjunar og að lokum hreinnar uppgjafar fyrir fjölda bleikjunnar. Fyrir nokkrum árum fórum við viðlíka rannsóknarferð inn að vatninu og þóttumst merkja að fiskurinn væri eitthvað að koma til. Þá gátum við meira að segja nýtt eihvern hluta fisksins í harðfisk, en í þetta skiptið var það aðeins 10% sem töldust hæf til slíks. Við tókum sem sagt 20 fiska upp úr vatninu á nokkrum stöðum og aðeins tveir þeirra urðu að flökum sem nýtast.

    Eskihlíðarvatn, Löðmundur í baksýn

    Eftir þessa vísindaferð okkar komum við rétt aðeins við í Löðmundarvatni og strengdum á línum á móti vindi undir bílastæðinu við Löðmund. Eftir ótilgreindan fjölda kasta og fluguskipti sem færðu öðru okkar það sem líst er sem ‚tikk, tikk, tikk nart‘ þá héldum við leið okkar áfram í vestur og kíktum á Herbjarnarfellsvatn. Eitthvað vorum við lúin eftir vindsperringinn undir Löðmundi og því nenntum við ekki að labba inn með vatninu og reyna fyrir okkur í norð-vestur horninu þar sem líklegast var að fiskur héldi sig undan austan stæðum vindinum. Að vísu sáum við aðeins til fiskjar undir bílastæðinu, en ítrekaðar tilraunir til að lokka hann til töku með ýmsum tegundum nobblera báru ekki árangur. Vel að merkja, það stendur óvenju hátt í Herbjarnarfellsvatni m.v. árstíma, ströndin við suðurbakka vatnsins er á eins metra dýpi og flæðir inn í skútana og hef ég ekki séð jafn hátt í vatninu áður.

    Hellisskútarnir við Herbjarnarfellsvatn – mynd frá 2017

    Lífið í Dómadalsvatni frá síðasta kvöldi freistaði okkar og því renndum við aftur að vatninu og tókum okkur stöðu við vesturbakkann á móti öldunni. Þar tók frúin ágætan urriða, en ég var helst í því að hrekkja ungviðið sem gerði sér ýmsa fæðu að góðu í öldurótinu við bakkann. Við enduðum daginn á að rölta undir hlíðina við austanvert vatnið, ég fékk eitt högg á mína flugu meðan frúin tók einn þokkalega stóran, en sérstakan í vextinum. Þetta einkennilega vaxtarlag skýrðist síðan þegar gert var að honum. Lengd fisksins hefði gefið til kynna að um 2,5 punda fisk væri að ræða, en hann var sérstaklega linur og mjósleginn. Fyrst datt mér einhver sýking í hug þegar ég flakaði hann, svo ljós var hann og rýr á holdið. Ekkert benti til að hann ætti við heilsubrest að ræða, hvorki sníkjudýr né æxli fundust í honum, raunar fannst ekkert í maga hans heldur, hvorki síli né skötuormur. Það var ekki fyrr en ég þuklaði kokið að skýringin fannst. Þvert í kokinu með nappa sem stungist hafði í gegn, sat steinn kyrfilega fastur og hafði greinilega verið þar nokkuð lengi og þannig komið í veg fyrir að fiskurinn gæti kyngt því sem hann át. Það var því sannkallað náðarhögg sem frúin veitti þessum fiski með rotaranum.

    Eftir kvöldverð pökkuðum við veiðihúsinu okkar saman og lögðum af stað heim á leið. Það voru blendnar tilfinningar sem veltust um í kollinum á okkur á leiðinni og þær styttu ekkert þennan þriggja tíma akstur heim. Vonandi koma fiskifræðingar fram með skeleggar tillögur að aðgerðum í Frostastaðavatni því í næstu viku munu þeir væntanlega hnýta endahnútinn á rannsóknir á vatninu sem hófust í fyrra, unnendur Framvatna bíða þeirra og aðgerða spenntir.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
    20 / 23 57 / 78 4 / 4 43 / 34 16 / 19

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn 23.júní

    24. júní 2018
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Það er náttúrulega eitthvað að þeim veiðimanni sem smellir í 360 km. fram og til baka á 12 tímum til þess að komast í ákveðið vatn til að veiða, en það gerði ég einmitt á laugardaginn þegar ég brenndi upp að Landmannahelli, kvittaði mig inn á svæðið og fékk veiðiskýrslu til að skila í lok dags. Ferðinni var heitið í Frostastaðavatn og einhver þau önnur vötn sem lægju vel við höggi og þá helst töku.

    Landmannaleið (F225) frá Landvegi (26) inn að Landmannahelli var nýlega opnuð og enn hafði þunglestuðum túristaferjum ekki auðnast að breyta henni í þvottabretti eða dusta af henni ofaníburðinn þar sem hann er þynnstur. Vel að merkja, vegurinn frá Landmannahelli til austurs er enn lokaður vegna bleytu þannig að ferðalangar verða að láta sig hafa það að aka til baka að vöðunum á Helliskvís og Rauðfossakvísl og þaðan inn Kringlu í átt að Dómadal og Frostastaðavatni.

    Frostastaðavatn 23. júní 2018

    Einhvers staðar las ég að meðalhæð Hollywood leikara væri vel undir meðalhæð almennings. Þetta kitlaði mig aðeins á laugardaginn þegar ég setti í hverja bleikjuna á fætur annarri í Frostastaðavatni sem náði ekki þeirri stærð sem ég hefði óskað. Samhengi þessa er e.t.v. heldur langsótt en það á rætur að tekja til nýlegs sjónvarpsþáttar þeirra tvibba Gunna og Ása þar sem þeir heimsóttu Frostastaðavatn. Gat það virkilega verið að skyndileg frægð bleikjunnar í Frostastaðavatni hefði stigið henni svo til höfuðs og aðeins væri teflt fram fiskum af svipaðri stærð og Hollywood leikurum? Nei, það er nú ekki svo, en vissulega var það áberandi hve fiskurinn var smágerður, nettur, stuttur í annan endann eða hvaða lýsingu maður getur gefið á fiski sem ekki nær meðalstærð síðustu ára. Að þessu sögðu er rétt að taka það fram að oftar en ekki hefur verið smá bið eftir stærri fiski upp að Suðurnámshrauni á vorin (vorið nær nokkuð langt inn í sumarið á hálendinu) þannig að það kom mér ekkert á óvart að þegar ég náði lengri köstum út á vatnið, þá komu aðeins vænni fiskar.

    Væn bleikja úr Frostastaðavatni á laugardaginn

    Eftir að ég hafði eytt tveimur tímum undan Suðurnámshrauni rölti ég til baka og færði mig að vatninu að norðan. Í fyrstu ferð minni í fyrra óð ég eftir malarrifinu undir Frostastaðahrauni og náði þannig til nokkuð vænni fiskjar ef ég veiddi eins utarlega og mér var unnt og þetta langaði mig að prófa aftur. Þetta árið er ekki eins mikið í Frostastaðavatni og á sama tíma og í fyrra en yfirdrifið samt. Næst austurbakkanum var nóg af fiski og á í hverju kasti, smár fiskur en nokkuð vel haldinn. Sem því næst fyrir miðju hrauni var fiskurinn aðeins stærri, ekki þó stór, en í mjög góðum holdum. Annars langar mig sérstaklega að taka það fram að í þessari ferð fékk ég ekki einn einasta sláp, þ.e. þessa hausstóru og mögru fiska sem stundum hafa verið áberandi í vatninu á vorin. Þegar allt var talið, stórt og smátt, voru það 25 fiskar sem ég tók úr vatninu (hirti allt, líka smælkið) og þeir vigtuðu tæp sex kíló. Það gerir meðalvigt upp á 240 gr. sem er vitaskuld ekkert sérstök vigt.

    Nýipollur í Dómadal 2018

    Eftir Frostastaðavatn renndi ég aftur í átt að Dómadal ef svo bæri undir að þokkaleg kastátt væri við Dómadalsvatn. Á leiðinni keyrði ég framhjá Nýjapolli sem enn eitt árið kom sér fyrir í Dómadal. Þetta árið er hann aftur á móti ekki til trafala og snertir Landmannaleið nánast ekkert.

    Skaflar við vesturenda Herbjarnarfellsvatns

    Þar sem vindur var nokkur í Dómadal og ég orðinn heldur blautur og kaldur, ákvað ég að renna til baka að Landmannahelli en kom þó við í Herbjarnarfellsvatni og barði það augum og flugum í smá stund. Ef mér skjátlast ekki því meir, þá var ég trúlega fyrsti veiðimaður að vatninu þetta sumarið því ekki sá ég nein bílför í átt að því og nokkurn spotta varð ég að aka eftir minni því vegurinn var hvergi sjáanlegur. Ég held að þetta sé það mesta sem ég hef séð í vatninu og greinilegt að það getur alveg hækkað enn meira í vatninu ef allur snjórinn sem var við bakkana skyldi taka upp á því að bráðna snarlega. Að vísu þarf þá eitthvað að hlýna eða rigna enn meira í sumar heldur en þegar hefur gert.

    Skaflar í austurenda Herbjarnarfellsvatns

    Þegar mér þótti fullreynt að ná fiski upp úr jökulköldu Herbjarnarfellsvatni hélt ég til baka að Landmannahelli, skilaði veiðiskýrslunni minni og kastaði kveðju á hóp Ármanna sem komnir voru í hús og annan hóp sem ég hitti fyrr um daginn. Það gladdi mitt litla hjarta þegar ég hitti þann hóp í Dómadalnum og sá að þeir voru með handbært prent af samantekt minni um Framvötn frá 2016. Það kemur þá mögulega einhverjum að gagni sem ég set hér fram á síðunni.

    Því miður var það samdóma álit allra sem ég hitti á laugardaginn að þeim þótti fiskurinn heldur smár í Frostastaðavatni og deginum ljósara að bleikjan er heldur liðmörg. Til einhverra ráða verður að grípa þannig að ekki fari illa fyrir vatninu og bleikjustofninum. Ég ber nú samt þá von í brjósti að þegar sumarið gengur fyllilega í garð að Fjallabaki, þá komi stærri fiskar í kastfæri í Frostastaðavatni, rétt eins og gerst hefur undanfarin ár.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
    0 / 25 15 / 38 0 / 0 0 / 1 6 / 9

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn, 17. & 18. sept.

    18. september 2017
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Hálendið virðist ætla að toga endalaust í mann þetta haustið. Til að mynda var útlit fyrir einmuna blíðu á sunnanverðu hálendinu um síðustu helgi og auðvitað lét þetta fyrirheit mann ekki í friði þegar fór að líða að helginni. Þegar kemur að hálendinu er mótstöðuafl mitt ekki mikið og því tókum við föggur okkar á föstudaginn, pökkuðum í vagninn og renndum inn að Landmannahelli.

    Þegar við vöknuðum á laugardaginn var blíðan með eindæmum og við ákváðum að renna inn fyrir Landmannalaugar og kíkja á Kýlingavötn og Kirkjufellsvatn. Ekki beint í þeim erindum að taka  fram stangir heldur til að njóta haustlita og stórbrotins umhverfis. Það verður ekki af Kýlingavötnum tekið að umhverfi þeirra er ótrúlega fallegt og það skartaði sínu fegursta á laugardaginn. Við renndum einnig inn að Kirkjufellsvatni þar sem veiðimenn héldu til og voru með netalagnir úti. Eftir smá viðkomu við Kirkjufellsós og Tungnaá undan Höllinni í Kýlingum, tókum við stefnuna til baka á Frostastaðavatn eins og svo oft áður.

    Kýlingavötn

    Það blundaði í okkur frá síðustu ferð að komast að því hvar bleikjan í Frostastaðavatni héldi sig fyrst hún var horfin úr víkunum undir Suðurnámum. Til vonar og vara, ef hún skildi hafa skilað sér aftur í hraunið í blíðunni, töltum við inn í hraunið. Eina sáum við í fyrstu vík, enga í þeirri næstu og þaðan af síður einhverja í þeirri innstu. Jæja, þá var það fullreynt og eins gott að taka stefnuna út að skerjum eins og hægt var. Stuttur gangur varð heldur lengri því allar víkur, lægðir og lautir eru næstum fullar af vatni þannig við þurftum að krækja fyrir hverja víkina á fætur annarri á leið okkar. Við eyddum töluverður tíma í þetta ráp okkar og uppskárum ekki margar fiska, ég fékk þrjá og veiðifélagi minn einn. Fleiri veiðimenn voru á sveimi, ungir sem aldnir en fáum sögum fór af aflabrögðum, enda nokkuð ljóst að bleikjan er farin að stússast í einhverju allt öðru en áti í Frostastaðavatni.

    Frostastaðavatn eins og það leggur sig – Smellir fyrir stærri mynd

    Á heimleið okkar að Landmannahelli var ákveðið að koma við í Dómadalsvatni þar sem stillt veðrið var ekki beint til þess fallið að draga okkur í bólið. Að vísu var örlítið tekið að rökkva, en það væri í það minnsta alltaf hægt að taka nokkur köst áður en of skuggsýnt yrði til að hnýta flugu á taum. Það er skemmst frá því að segja að Dómadals vatn hefur hreint og beint hrapað í vatnshæð og lækurinn rennur ekki lengur sýnilega til vatnsins. Við óðum því töluverðan spotta út frá suðurbakkanum í áttina á dýpinu og lögðum flugur okkar fyrir urriða sem þar var að sýna sig í yfirborðinu. Eftir skamma stund var tekið hraustlega í flugu veiðifélaga míns og öllum illum látum látið yfir því ónæði sem flugan greinilega var þessum urriða. Viðureignin tók nokkurn tíma því hvorugt vildi greinilega gefa eftir og auðsýnt var að veiðifélagi minn vildi allt til þess vinna að ná fyrsta fiski sínum úr vatninu í netið. Að lokum komst þessi líka fallegi 2,5 punda urriði í netið og þar með voru álög Dómadalsvatns rofin hjá félaga mínum. Skömmu síðar var tekið aftur mjög hressilega í fluguna hjá henni. Sú viðureign varði nokkru lengur og á endanum lá 3 punda urriði í netinu hjá frúnni. Já, sumir brjóta álögin með trompi á nokkrum mínútum á meðan aðrir verða bara ekki varir.

    Ströndin undan Frostastaðahrauni

    Fyrst bleikjurnar voru ekki við Suðurnámshraun í Frostastaðvatni taldi ég mér trú um að þær hefðu safnast saman undan Frostastaðahrauni og þangað stefndum við upp úr hádegi á sunnudag. Við skiptum örlítið liði, frúin fór inn með vatninu til suðurs en ég hélt mig við hugmynd mína að bleikjan væri í hrygningu eða hefði lokið henni undir hrauninu að norðan. Eftir að ég hafði fikrað mig því sem næst miðja vegu á ströndinni fóru tökurnar að kræla á sér og það endaði með því að ég tók samtals 9 fiska þarna á nokkuð afmörkuðu svæði. Sumir tóku djúpt, aðrir grunnt og meirihluti fiskanna var í matfiska stærð.

    Þessi var t.d. búinn að hrygna

    Eftir að frúin hafði eytt nokkrum tíma við austurbakkan og náð tveimur þokkalegum, tölti hún í áttina til mín og bætti fimm fiskum við í netið hjá sér. Þeir fiskar sem við tókum þarna voru almennt í ágætum holdum, en þeir sem búnir voru að hrygna voru vitaskuld ekki alveg eins holdmiklir, en þeim mun tökuglaðari.

    Sunnudeginum lukum við í Herbjarnarfellsvatni sem hefur leikið mig nokkuð grátt þetta sumarið, ekki einn fiskur á land, ekki einu sinni smá nart. Við fórum nú ekki langt frá bílastæðinu, veiðifélaginn kom sér fyrir austan við stæðið og ég framundan því. Veðrið var hreint út sagt frábært og ekki skemmdi að fiskur sýndi sig um leið og við komum niður að vatninu. Leikar fóru þannig að við veiddum tvær tegundir af fiski; urriða og makríl, því skömmu á undan okkur höfðu veiðimenn með makríl verið á ferð og því miður skilið töluvert af beitunni eftir í vatninu sem urriðinn hafði greinilega verið að atast í eða étið af önglum þeirra.

    Mér finnst lítið varið í að rekast á þetta við vötnin okkar – Löðmundarvatn fyrir skemmstu

    Ég fer ekki ofan af því að mér er ekkert um makríl gefið þegar hann er skilinn eftir í eða við vötnin okkar. Menn mega svo sem veiða á það sem þeim sýnist og er leyfilegt á hverjum stað, en mér finnst það lágmark að þeir gangi þannig frá eftir sig að maður þurfi ekki að vaða slor og úrgang í vatni og á vatnsbakka eftir þá. Annars lét vatnið mér einn urriða í té og veiðifélaga mínum tvo þannig að við vorum nokkuð sátt við stutt stoppið okkar áður en við héldum heim á leið.

    Safn leitarmanna í Dómadal

    Sunnudagurinn var rekstrardagur fjársafns leitarmanna úr Landmannalaugum að Sátu við Landmannahelli. Næstu daga munu leitarmenn síðan smala hóla og hæðir í grennd við Landmannahelli og áður en það verður rekið eða keyrt til byggða á næstu dögum. Eins tilkomumikið og það nú er að sjá svona safn fjár að hausti, þá vorum við eiginlega nokkuð fegin að hafa ekki ætlað að eyða þriðju nóttinni okkar við Landmannahelli þegar við heyrðum margradda jarm safnsins þegar því hafði verið safnað í Sátu. Þar kenndi ýmissa radda, rámar og hásar rollur að jarma þreytu- og ámátlega eftir reksturinn innan úr Laugum var ekki beint ávísun á kyrrláta nótt við Landmannahelli.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     8 / 12 115 / 157 4 / 1 32 / 31 15 / 17

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 5 6
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar