Annað slagið reynir maður sig í veiði þar sem klukkan er á manni; veiði hefst á ákveðnum tíma, jafnvel gerð krafa um hlé á ákveðnu tímabili og svo verður maður að vera hættur ekki seinna en eitthvað ákveðið. Eftir að hafa leikið nokkuð lausum hala í veiði um árabil, veitt þegar mér sýnist og eins lengi og nennan er til, þá getur það beinlínis tekið á taugina hjá mér að fylgja klukkunni. Ég hef staðið sjálfan mig að því að taka sífellt upp klukkuna, sem í mínu tilfelli er farsíminn, og þá er stór partur af ánægjunni farinn. Ég beinlínis finn að rósemdin sem veiðin færir mér að öllu jöfnu er rokinn út í buskann og ég er allur svolítið á nálum. Á þeim veiðistöðum þar sem tiltölulega margt er um manninn eða vatn er nærri byggð, þar get ég alveg skilið að ákveðin tímamörk eru sett í veiði og ég fer fúslega eftir þeim, þannig að það sé á hreinu. En þar sem maður er jafnvel einn með sjálfum sér, órafjarri öllu nema náttúrunni sjálfri, þar vil ég getað farið á fætur í rólegheitunum, sötrað morgunkaffið mitt í friði og veitt síðan inn í nóttina eins og mér sýnist.
Ekkert stress
Ég las fyrir nokkru ágæta umfjöllun í The Huffington Post um áhrif stangveiði á andlega vellíðan. Þetta var hin ágætasta grein, en hún gerði svo sem ekkert annað en setja í orð það sem ég upplifi á sjálfum mér í veiðinni. Í nútíma þjóðfélagi þar sem ríflega 80% landsmanna telja sig finna fyrir streitu eða afleiðingum hennar, þá er útivera í óspilltri náttúru, einn með sjálfum sér eða sínum nánustu, trúlega áhrifaríkasta leiðin til streitulosunar sem býðst í dag.
Það verður seint hægt að setja raunhæfan verðmiða á þann auð sem við eigum í óspilltri náttúrunni þótt einhverjir telji sig geta sett verðmiða á náttúruna þegar búið er að gelda árnar, stífla vötnin og umbreyta þeim í uppistöðulón fyrir raforkuframleiðslu. Mesti auður náttúrunnar verður einfaldlega aldrei virkjaður með vélum og tækjum, hann er aðeins virkjanlegur með mannsandanum.
Hvernig hljómar nú málshátturinn? Gefðu manni fisk og hann verður mettur einn dag, kenndu honum að veiða og hann verður mettur alla ævi. Þegar maður er að meðhöndla íslenskan silung er engin ástæða til að flækja málið. Allt sem þarf er smjör, hvítlaukur og snarpheit panna.
Bestur þykir mér silungurinn þegar hann er steiktur upp úr nógu smjöri með nokkrum sneiðum af hvítlauk og kannski nokkrum sveppum til hliðar. Um leið og smjörið hefur bráðnað eru sveppirnir og hvítlaukssneiðarnar sett út í og þeim leyft að gyllast örlítið. Því næst er flakið af silunginum steikt á holdið í örstutta stund, rétt aðeins þar til það tekur lit. Þá er því snúið snarlega á roðhliðina, hvítlaukurinn lagður ofan á og steikt þangað til maður heldur að fiskurinn eigi 30 sek. eftir, þá er hann tilbúinn. Ef þú bíður í þessar 30 sek. er hann ofsteiktur.
Smjörskeiktur silungur með sveppum og gúrkusalati
Það þarf ekki flókið meðlæti með svona villibráð. Nýjar soðnar kartöflur eru auðvitað frábærar (með smjörbráðinni yfir) en það má líka spara sér suðuna og skera gúrku gróft og skreyta með nokkrum brauðtengingum. Ef þetta er ekki villibráð eins og hún gerist best, þá er hún ekki til.
Á árum áður stóð Landmönnum og Gnúpverjum mikill stuggur af systrum tveim í Búrfelli og Bjólfelli. Litlum sögum hefur farið af þeirri yngri eftir að sú úr Búrfelli sprakk á hlaupunum við Tröllkonugil hér um árið. Síðan þetta var hefur verið nokkuð rólegt yfir Þjórsárdal, ef undan eru skilin nokkur meinleysisleg gos í Heklu og skvettur úr Þjórsárhlaupum á árum áður. En það vill stundum gerast að óvættir taki sig upp þar sem hagsæld er mikil og nú eru það þrír óvættir sem herja á dalinn neðan Búrfells; Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun.
Það er með eindæmum hve lífseigir þessir óvættir geta verið. Þeir risu upp skömmu eftir 1900 og voru þá kveðnir niður af almannarómi en hafa nú rumskað á ný undir nýjum nöfnum. Umbúðirnar eru endurnýjaðar í hvert skipti sem þessar tillögur eru lagðar fram til nýtingar, en innihaldið er alltaf það sama. Fátt fer eins í pirrurnar á mér eins og að þurfa að svara sömu spurningunni trekk í trekk, eingöngu vegna þess að spyrjandinn væntir annars svars í hvert skipti sem hann spyr. Mitt svar er; nei, takk.
Fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár – Kort: verndumthjorsa.is
Á liðnum vikum hef ég birt hér þrjár greinar, eina fyrir hverja virkjunartillögu sem lögð hefur verið fram til Rammaáætlunar. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að ég er ekki sérlega ginkeyptur fyrir þessum hugmyndum, mér þykir einfaldlega nóg komið. Náttúru Íslands ætti ekki að setja á útsölu fyrir erlenda iðjuhölda sem sækjast eftir ódýrri raforku og ónýttum mengunarkvótum.
Þessum þremur virkjunum hefur verið teflt fram sem sjálfstæðum einingum, en með miklum samlegðaráhrifum og þannig er ríflega gefið í skyn að ef af einni verður, þá þarf að verða af þeim öllum. Samt sem áður hefur skort á heildstætt mat á umhverfisáhrifum þessara þriggja virkjana. Til hafa verið týnd ýmis rök með og á móti hverri virkjun fyrir sig, en stóru myndina vantar. Sem dæmi um brenglaða tölfræði má nefna að lífslíkur laxaseiða sem fara í gegnum hverfla einnar virkjunar eru sögð 80 – 95%. Stóra myndin er eftir sem áður sú að flest þessara seiða þyrftu að fara í gegnum hverfla þriggja virkjana á leið sinni til sjávar og þá eru lífslíkur þeirra á bilinu 51 – 80%. Skiptir þá litlu hve stórir hverflar eru settir í virkjanirnar. Ef við tökum svo þrýstinginn í aðrennslispípum virkjananna með í reikninginn þá er næsta víst að einungis helmingur þeirra lifið ferðalagið af og nái til sjávar. En þetta er bara hálf sagan, þessi seiði eiga síðan eftir að skila sér til baka úr sjógöngu. Til þess að ná til einu ósnertu búsvæða árinnar þurfa þau að ganga upp fyrir þrjár stíflur og í gegnum jafn mörg uppistöðulón. Ég gæti ekki annað en fyllst stolti yfir íslenskum laxfiskum ef þeim tekst þetta án annarra 50% affalla. Annað eins afrek hefur aldrei verið skráð í heiminum.
Nú kann einhver að spyrja hvar öll mín rök séu fyrir þessum fullyrðingum og það er ekki nema eðlilegt. Mikið efni um þessar fyrirhuguðu virkjanir má finna á vef Landsvirkjunar hér og hér, á vef Orkustofnunar, hjá Verkefnastjórn um Rammaáætlun og samtökunum Verndum Þjórsá. Einstaklega áhugaverður fyrirlestur dr. Margaret J. Filardo í HÍ hefur einnig verið mér hugleikinn. Upptöku af fyrirlestrinum má nálgast á vef HÍ með því að smella hér. Auk þessa hafa einstaklingar borið á borð fyrir okkur margar góðar greinar og samantektir á liðnum árum. Sem dæmi má nefna Hvammsvirkjun eftir Árna Árnasonar frá því í apríl 2015 sem nálgast má hér. Góð grein og vel rökum studd.
En ein eru þau rök sem ég hlusta mest á og met mikils. Það eru orð þeirra sem þekkja Þjórsá og nágrenni hennar betur en flestir aðrir, þeir sem þar búa. Málsvarar 28 bæja beggja vegna Þjórsár hafa lýst miklum efasemdum með áform um virkjanir í Neðri-Þjórsá. Þetta eru raddir sem mark er á takandi, fólk sem þekkir Þjórsá og lífríkið í nágrenni hennar af eigin raun. Þetta eru raddirnar sem stjórnvöld eiga að hlusta á, ekki þeirra sem einungis sjá verðmæti Þjórsár í kílóvattstundum, krónum og aurum. Ég leyfi mér að hvetja lesendur til að gefa grein í Bændablaðinu frá því í mars 2015 góðan gaum. Greinina má nálgast hér.
Íslensk náttúra hefur ótrúlegt aðdráttarafl, óspillt. Hér er að finna einhver stærstu ósnertu víðlendur í Evrópu, fjöll, ár og vötn sem draga að sér athygli og áhuga heimsbúa umfram allt annað sem Ísland hefur að bjóða. Íslendingum ber að varðveita þessa auðlind, við skuldum komandi kynslóðum ýmislegt og það er óþarfi að bæta óorðnum náttúruspjöllum á þann reikning. Um þessar mundir nýtur Ísland áhuga heimsbyggðarinnar eftir brókarbað hins Kanadíska Biebers. Af þeim ríflega 23.000.000 sem hafa horft á umrædda klippu hafa ótrúlega margir einblínt á og spurst fyrir um þetta ótrúlega land, náttúruna og umhverfið. Forsvarsmenn ferðamála hafa keppst við að lofa þessa ókeypis auglýsing og bent á að þetta sé 23 sinnum meira áhorf heldur en náðst hefur að Inspired by Iceland. Hversu margir ætli hafi ráðgert ferðalag til Íslands eftir að hafa rekist á kynningarmyndbönd Landsvirkjunar á síðustu árum?
Kyrrsetumenn eins og ég kannast vel við að stundum þarf að standa upp og teygja úr sér. Það er sem sagt skrifstofuvinna sem tefur mig frá veiðinni. Þegar ég teygi úr mér nota ég yfirleitt tækifærið og fer fram í mötuneyti og sæki mér kaffi eða sinni aftöppun fyrra kaffiþambs. Í það minnsta, þá stend ég upp, teygi úr fótum sem hafa mögulega bögglast einhvers staðar undir skrifborðinu og handleggjum sem hafa hangið niður á lyklaborðið í allt of langan tíma. Ef maður gerir þetta ekki reglulega, þá tapast einbeitingin, vinnan verður fálmkenndari og þreyta fer að gera vart við sig.
Flugulínan og taumurinn okkar eru ekkert ósvipuð. Þegar hvoru tveggja hefur legið óhreyft á veiðihjólinu okkar í einhvern tíma verðum við að teygja á og ganga úr skugga um að línan og taumurinn myndi nokkuð beina línu í kasti. Lykkjur og snúningar á línu og taum koma í veg fyrir það að við finnum þegar fiskurinn tekur í fluguna, þær virka eins og dempari fyrir fiskinn. Hann hefur svigrúm til að hrækja út úr sér flugunni áður en strengst hefur svo línunni á að við finnum tökuna.
Flugulínur
Sama ástæða gildir fyrir því að rétta sem fyrst úr línunni eftir að flugan hefur verið lögð fram. Það er glettilega oft sem fluga vekur athygli fisks á innan við 30 sek. frá því hún leggst á vatnið. Því er um að gera að rétta sem fyrst úr línunni með því að draga hæfilega í hana, halda við og finna fyrsta áhuga fisksins á henni, þá er lag að bregða við. Þetta getum við ekki nema línan og taumurinn séu í beinni línu frá stangartoppi og strengt sé hæfilega á.
Á fyrri hluta 20. aldar voru uppi áform um virkjun Urriðafoss. Fossfélag Einars Benediktssonar hafði þá uppi stórkallaleg áform um virkjanir í Þjórsá og járnbraut frá Reykjavík þangað austur.
Urriðafossvirkjun – Mynd: G. Sætersmoen, Vandkraften i Thjorsá elv, Island 1918
Vegna almennrar andstöðu varð ekkert úr þessum áformum Fossfélagsins og um langan aldur höfum við fengið að njóta neðrihluta Þjórsár óspilltrar að mestu. En almenningur var ekki lengi í paradís og enn og aftur eru uppi hugmyndir um virkjun við Urriðafoss. Þau áform sem nú eru uppi eru ekki síður stórkallaleg og eru lýsandi dæmi um þá endalausu kröfu sem virðist vera sett á okkur að þurfa að berjast fyrir því að halda náttúrunni, því verðmætasta sem við eigum, óspjallaðri af arðsemisárásum og orkuþörf erlendra iðnrekenda.
Urriðafoss og umhverfi hans er einstaklega vel staðsett við Hringveginn okkar, rétt neðan brúarinnar yfir Þjórsá. Þar mætti byggja veglega aðstöðu fyrir ferðamenn, innlenda sem erlenda, því þarna er margt áhugavert að sjá. Þarna fellur þessi vatnsmesti foss landsins fram af tæplega 250 metra breiðum misgengisstalli í ánni þar sem hún sker stærsta samfellda hraun sem runnið hefur á jörðinni á sögulegum tíma, Þjórsárhraun. Óvíða er hægt að berja þetta hraun jafn glöggt augum eins og rétt ofan við Urriðafoss þar sem það gægist undan yngri jarðlögum. Aðdráttarafl fossins og umhverfisins er óumdeilt hjá þeim sem þangað hafa komið.
Um langan aldur hefur lax og sjóbirtingur gengið upp Urriðafoss, nýtt sér vatnsmagn hans til þess að komast ofar í Þjórsá eins langt og fiskgengt hefur verið hverju sinni. Mestar líkur eru á að fiskur hafi haft þennan hátt á frá upphafi vega og í það minnsta fram til 1896 þegar farvegur árinnar breyttist við jarðhræringar. Sá tálmi var endanlega yfirstiginn árið 1991 og nú nær göngufiskur aftur til efri svæða árinnar, þó sagnir hermi að hann hafi eftir sem áður gert hjálparlaust fram til 1991. Verði Þjórsá leidd í jarðgöngum frá fyrirhugaðri virkjun og niður fyrir Urriðafoss er eins víst að algjört hrun verði í þessum stærsta sjálfbæra laxastofni á Íslandi nema til stórkostlegra mótvægisaðgerða komi. Enn sem komið er hafa þessar aðgerðir ekki verið rannsakaðar né kortlagðar sem skildi. Mjög skiptar skoðanir eru á hugmyndum Landsvirkjunar um seiðafleytu við stífluna og allsendis óvíst að niðurgöngufiskur lifi ferðalag og fallhæð í slíku mannvirki af. Og þá á fiskurinn enn eftir að komast upp þann fiskveg sem byggja þyrfti. Enn og aftur er óvilhallra rannsókna þörf.
Eftir því sem ég kemst næst yrði uppistöðulón Urriðafossvirkjunar rétt ríflega 12 ferkílómetrar að stærð. Þetta er næstum því jafn stórt og Skorradalsvatn eða Apavatn svo stærðin sé sett í samhengi við vötn sem lesendur þekkja. Þetta uppistöðulón mun færa á kaf gróið land og mýrar auk þess sem uppgreftri úr árfarveginum, efni sem til fellur við gangagerð ásamt seti úr lóninu yrði komið fyrir í grennd við lónstæðið, umhverfinu til lýtis og með töluverðri hættu á foki.
Urriðafossvirkjun hefur stundum verið nefnd punkturinn yfir i-ið í virkjunum Þjórsár. Mér er skapi nær að kalla hana skömmina sem bítur fórnarlambið.
Síðustu tvö sumur hef ég veitt í Veiðivötnum og notið þess ómælt, bæði hvað varðar náttúru og félagsskap annarra veiðimanna í hollinu. Í bæði þessi skipti hef ég verið svo lánsamur að veður og veiði hefur leikið við mig og trúlega mundi það engu breyta fyrir mig þótt annað er bæði brygðust.
Síðastliðinn vetur hitti ég eldri veiðimann, hokinn af reynslu sem innti mig eftir upplifun minni af Vötnunum. Umsvifalaust hóf ég hástemmda lýsingu á náttúrunni, fjölbreytileikanum, mannlífinu og …. bara öllu sem ég hafði innbirgt á staðnum. Í miðri ræðunni tók ég eftir gráma og leiða sem færðist yfir ásjónu þessa reynda veiðimanns þannig að ég gleypti mína síðustu setningu, lækkaði róminn og ég laumaði út úr mér; En hvað með þig? Svarið kom mér svolítið á óvart og ég þurfti svolítinn tíma til að melta það; Ég hef nú ekkert farið síðan gemsarnir fóru að virka þarna uppfrá.
No signal
Fyrir yngri veiðimenn sem ekki þekkja neitt annað en að GSM símar virki nánast alls staðar á landinu, þá skal það upplýst að það eru ekki svo mörg ár síðan að GSM sambandi var komið á í Veiðivötnum. Fyrir þann tíma virkuðu aðeins NMT símar á svæðinu og þar á undan bara talstöðvar.
Auðvitað er gott að geta haft samband við umheiminn þegar upp á fjöll eða hálendi er komið, þó ekki væri nema vegna öryggisins sem fylgir því að geta gólað á hjálp ef eitthvað ber útaf. Sjálfur nýt ég þess út í ystu æsar að geta dottið úr sambandi við alla tækni (segi ég með GPS tæki, digital mynda- og vídeóvélar). Mér finnst það oft beinlínis óviðeigandi þegar ég er búinn að koma mér fyrir við eitthvert fjallavatn þegar skyndilega upphefst skerandi Nokia hringing handan næsta hóls og svo; Halló …. nei, ég er í Veiðivötnum …. Hva, sástu ekki myndina af mér á Facebook í gær ….
Við erum nefnilega ennþá til sem njótum þess að komast í samband við náttúruna og til þess þarf maður stundum að geta dottið úr sambandi við nútímann, í það minnsta geta stjórnað því hvenær nútíminn hringir. Þess vegna slekk ég iðulega á símanum mínum eða skil hann eftir í veiðihúsinu eða bílnum. Það er svo margfalt skemmtilegra að njóta náttúrunnar, ótruflaður.