Það er vissulega erfitt að hemja sig þessa dagana þegar frystu vötnin koma undan ís. Já, þú last rétt ég sagði frystu vötnin því mörg vötn hafa verið á frosti síðan fyrir áramót og víða er enn ís á vötnum þótt komið sé fram undir maí. Að þessu sinni ætla ég ekki að minnast einu orði á það að fiskurinn fer sér einstaklega hægt þegar vötnin koma undan ís og því ættu veiðimenn að gefa gaum þegar þeir velja agn og inndrátt. Nei, ég ætla að segja sögu af sjálfum mér þegar ég flýtti mér of mikið.
Það þarf oft ekki stóra glufu á milli élja í fyrstu viku veiði til að maður leggi í smá ferðalag upp í Kjós. Ég held að það hafi verið 1. apríl eitthvert árið sem ég sá slíka glufu í skýjunum yfir Esjunni og myndavélin á Bæ í Kjós gaf til kynna að fært væri í Meðalfellsvatnið. Þetta var nóg til þess að óeirðin varð óviðráðanleg og ég skaust út í bílskúr, snaraði veiðivesti, vöðlum og stöng í skottið á bílnum og brenndi upp í Kjós. Já, einmitt, það sem ég taldi upp var það sem ég tók með mér. Til allrar lukku tókst mér að troða mér og vöðlusokkunum í gönguskóna mína þannig að ég gat staulast fram á bakkann með stöngina og hitt út í vatnið þar sem það var ekki undir ís. Mig minnir að einn ágætur hafi komið á land þannig að mér var hlýtt um hjartaræturnar á leiðinni heim, en mikið rosalega var mér kalt á fótunum í rennandi blautum skónum þennan spotta úr Kjós og heim til Reykjavíkur. Lærdómur: ekki gleyma vöðluskónum.
Það er margt að breytast í umhverfi veiðimanna á Íslandi þessi árin. Veiðimenn verða varir við aukna ásókn erlendra aðila í veiðileyfi og veiðileyfasalar bregðast við með því að hækka verð og jafnvel gengistryggja heilan- og hálfan dag í ám og vötnum. Það er eiginlega alveg sama hvort maður ber veiðileyfi saman við innlendar vísitölur eða erlenda gjaldmiðla, það er stígandi í verðum veiðileyfa og þau virðast ekkert lækka þótt illa ári, þá standa þau í stað en hækka svo bara þegar betur árar.
Að þessu sögðu, þá verð ég líklegast að viðurkenna að ég hef aðeins verið áhorfandi að laxveiðileyfum á Íslandi undanfarin ár og ekki lagt í nein kaup á slíkum leyfum og það kemur verðlagningu eiginlega ekkert við. Að vísu hafa einnig orðið nokkur umskipti í silungsveiðileyfum hin síðari ár og þá sérstaklega í vötnum. En það breytir því ekki að mér finnst einfaldlega skemmtilegra að eiga við silung heldur en lax og guði sé lof kemst maður ennþá í silungsveiði án þess að fórna handlegg eða lífsnauðsynlegum líffærum í skiptum fyrir dag í góðu vatni. Silungur er vissulega laxfiskur, en hann hagar sér allt öðruvísi í vatni og á pönnu, svo ekki sé farið að bera saman villtan silung og eldislax sem er töluvert í umræðunni þessa dagana.
Hér á Íslandi er ekki um margar tegundir ferskvatnsfiska að ræða. Við erum með silung, urriða og bleikju og svo lax. Að auki finnst hér álar og hornsíli sem afskaplegar lítið er um að menn veiði á stöng. Stuttur og hnitmiðaður listi og því ætti þetta ekkert að vefjast fyrir mönnum. Þess ber þó að geta að silungur er víðast þekktur fyrir að haga sér nokkuð breytilega eftir því hvort hann syndir í straumvatni eða stöðuvatni. Sumir veiðimenn ganga svo langt að segja að hamskipti silungs séu algjör eftir því hvort hann berst í straumi eða svamli um í vatni, það sé eins og kvarnirnar skipti um gír eftir því hvar hann heldur til. Ég hef heldur takmarkaða reynslu af veiði í straumvatni miðað við stöðuvötnum og því e.t.v. ekki dómbærastur um hegðun fiska. Ef eitthvað er, þá gæti ég best trúað því að silungur í straumvatni sé töluvert skarpari heldur en sá í stöðuvatninu. Í það minnsta hafa þeir oftar séð við mér og tekist að forðast flugurnar mínar í straumi heldur en stöðuvatni.
Erlendis, og þá á ég helst við Bandaríkin, hafa fræðingar skrifað margar lærðar greinar um atferli silunga eftir búsetu. Þar í landi hafa fræðimenn úr aðeins fleiri tegundum að spila í rannsóknum sínum því mér skilst að það séu einar 8 tegundir silunga á sveimi vestan hafs á meðan við státum okkur af tveimur hér heima. En hvað er það sem skilur á milli í hegðun og atferli eftir búsetu? Jú, silungur í stöðuvötnum á auðveldara með að aðlaga sig að breyttum aðstæðum í fæðuvali heldur en sá sem lifir í straumvatni. Ef ákveðna fæðu þrýtur í straumi, þá hættir hann einfaldlega að éta, leggst fyrir og bíður þess að ætið birtist á ný á meðan silungurinn í stöðuvatninu leitar að nýjum réttum á matseðlinum og heldur áfram að éta. Það væri áhugavert að komast yfir einhverjar niðurstöður úr viðlíka rannsóknum hér heima, þ.e. ef þær hafa farið fram.
Raunar held ég að við gætum flett töluvert upp í veiðimönnum þegar kemur að svona pælingum. Það eina sem vantar er mögulega að veiðimenn skrái magafylli veidds silungs í ám og vötnum. Þetta er auðvitað háð því að ekki sé öllu sleppt sem veitt er eins og víða er farið að tíðkast. Það er jú hægt að selja sama fiskinn oftar ef honum er sleppt á milli taka.
Stundum velti ég því fyrir mér hvenær komi að því að ég nái fullorðinsaldri þegar kemur að flugukasti. Smátt og smátt og með nokkrum flugum (sem aldrei koma fyrir nokkurs manns sjónir) tókst mér að komast upp á lagið með hnýtingar. Ég er ekki neinn afburða hnýtari, en ég reyni og mér tekst yfirleitt að fylla á boxin fyrir sumarið. Ég var reyndar spurður að því um daginn hvort ég ætti ekki orðið einhverjar þúsundir flugna, ég væri alltaf að hnýta eitthvað. Stutta svarið er; kannski. Ég veit ekki hvað ég á margar flugur, sumum týni ég og sumar lifa einfaldlega ekki sumarið, trúlega vegna þess að þær eru ekki nægjanlega vel hnýttar.
Ég hef líka með tíð og tíma náð að þroska með mér áhuga á lífríkinu, hvenær hvaða pöddur eru á ferli, hvernig þær haga sér og líta út, þannig að ég er þokkalega nálægt því að velja rétta flugu miðað við aðstæður. Ég hef aftur má móti aldrei náð alveg að setja mig í spor fisksins sem tekur grimmt einn daginn, ákveðnar flugur á ákveðnu dýpi með ákveðnum inndrætti, en svo næsta dag vill hann eitthvað allt annað með allt öðrum hætti. Kannski verður mér það aldrei gefið að setja mig í spor fisksins, ég verð þá bara að spila þann part eftir eyranu hverju sinni.
Flugustangir
En aftur að flugukastinu. Kastið er framkvæmt með tæki sem heitir flugustöng; prik sem sveigist og bognar, hleðst og afhleðst og eftir henni rennur lína sem ber fluguna mína fyrir fiskinn. Sumar stangir eru mjúkar, hlaðast frá toppi og niður að handfangi. Aðrar eru millistífar og hlaðast niður að miðju og svo eru kústsköft sem bogna rétt aðeins í toppinn og flengja línunni út, langt út. Til að ná einhverju samspili í þetta þarf maður að hreyfa kasthendina með ákveðnum hætti sem ekki ofbíður stönginni og línunni, passa upp á að línan hreyfist eftir ákveðnum ferli, fram og til baka eða út og til hliðar. Þarna finnst mér ég alltaf vera hálfgerður unglingur, ekki náð fullum þroska. Þegar ég vanda mig, þá á ég það til að ofhugsa kastið. Þegar ég gleymi mér þá hugsa ég ekki neitt og kasta bara eins og mér sýnist. Og vitiði hvað? Ég er bara nokkuð sáttur við þá leið.
Að finna sjálfan sig í fluguveiðinni er hið besta mál, eða eins og Mike Heritage sagði; Ef allar þessar reglur í flugukasti væru nauðsynlegar, þá væru aðeins 10-20 manns sem stunduðu fluguveiði í heiminum.Þetta er allt í hausnum á þér og meðan hann er rétt fyrir ofan búkinn og þú notar hann ómeðvitað, þá ertu í góðum málum. Hann klikkir síðan út með að hvetja veiðimenn til að slaka á, njóta þess að veiða og rembast ekkert of mikið við flugukast skv. einhverjum reglum, þetta er allt þarna inni og það síast fram þegar þess er þörf. Ég er mjög sáttur við Mike, sem er vel að merkja FFF flugukastkennari frá Bretlandi. Reyndar nefnir Mike líka þann kost að sækja sér af og til smá leiðbeiningar frá kastkennara þannig að hægt sé að viðhalda heilbrigðri heilastarfsemi. Ég viðurkenni að hann hefur töluvert til síns máls.
Veiðigræjurnar verða aldrei öflugri heldur en veikasti hlekkurinn í keðjunni. Það er marg tuggið tóbak að maður fer yfir græjurnar áður en maður heldur í fyrstu veiði. Að rjúka niður í geymslu daginn fyrir fyrstu veiðiferð, rífa fram stöngina, hjólið og vöðlurnar kann ekki góðri lukku að stýra.
Það ætti að vera sjálfsagður hlutur að fara tímanalega yfir stöng, hjól, línu, taum og taumaenda áður en haldið er í fyrstu veiðiferð. Ég tel þetta upp í þessari röð því stöngin þarf að vera í lagi, þokkalega hrein, allar línulykkjur í lagi og samsetningar hreinar. Hjólið þarf að vera liðugt, bremsan ekki föst í læstri stöðu og svo auðvitað hægt að setja bremsuna á þannig að hún haldi. Við hjólið er tryggilega fest undirlína og við hana ætti sömu leiðis að vera fest hrein og eftir atvikum, vel smurð lína.
Á þann enda sem er nær fiskinum hef ég vanist á að festa línulykkju sem auðvelt er að smeygja taumi í og úr. Sumir hnýta taum við línu með þar til gerðum hnút, en ég vil ganga tryggilega frá línunni minni og verja enda hennar fyrir vatni sem gæti smogið inn í hana og þannig ruglað þyngd hennar. Þetta á sérstaklega við um flotlínu, en í raun á þetta við um allar línur. Ef vatn kemst inn undir kápuna á línunni, þá er ekkert víst að hún hagi sér í vatni eins og vera ber og maður gerir ráð fyrir.
Í gegnum tíðina hef ég prófað ýmsar gerðir línulykkja. Sumar eru svo þéttofnar að þær standa eins og tannstöngull út í loftið, aðrar eru svo lausofnar að þær safna í sig skít og drullu og enda þá með því að standa alveg jafn mikið út í loftið eða það sem verra er með einhverja einkennilega kryppu sem vísar út eða suður. Hæfilega þétt ofinn línulykkja með kínverskum handjárnum sem línunni er smokrað í og fest með plasthólk hefur reynst mér best. Hin síðari ár hef ég síðan lagt af þann sið að líma lykkjuna með tonnataki eða einhverju álíka við línuna. Tonnatak er ekki heppilegt þar sem sveigjanleiki á að vera til staðar og svo vill tonnatak eldast illa í vatni, verður stökkt og brotnar auðveldlega með tímanum. Eina límið sem ég nota er mjúkt PVC lím til að loka enda línunnar þannig að framangreind vatnssmitun eigi sér ekki stað.
Samtenging línu og taums
Um sumarið fer ég síðan reglulega fyrir línulykkjurnar mínar og geng úr skugga um að trosnaðar lykkjur gefi sig ekki þegar sá stóri bítur á.
Á vel sóttu málþingi Landsambands stangaveiðifélaga og Landssambands veiðifélaga í Háskólabíói þann 14. apríl 2016, var eftirfarandi ályktun samþykkt:
Fundur í Háskólabíó 14. apríl 2016 mótmælir harðlega áformum um stóraukið laxeldi í sjókvíum í fjörðum á Íslandi. Reynslan sýnir að lax- og silungsstofnum er mikil hætta búin fari svo fram sem horfir. Fundurinn hvetur alla til aðgerða á grundvelli laga, stjórnmála og náttúruverndar gegn þessari alvarlegu vá sem nú steðjar að íslenskum veiðiám. Fundurinn vekur athygli á að sjókvíaeldisfyrirtækin, sem flest eru að stórum hluta í eigu erlendra aðila, hafa nú fengið þessa auðlind hafsins afhenta í formi ókeypis laxeldisleyfa og án mikils endurgjalds. Fundurinn skorar á stjórnvöld að láta viðkvæma náttúru landsins njóta vafans þegar ákvarðanir eru teknar um rekstrarleyfi fyrirtækjanna.
Margt fróðlegt kom fram í málflutningi framsögumanna og margir neikvæðir vinklar á áhrif sjókvíaeldis dregnir fram í dagsljósið. Sjálfum fannst mér löngu tímabært að draga með skeleggum hætti fram í dagsljósið áhrif og ógnir sjókvíaeldis á aðra stofna en laxa, svo sem sjóbleikju og birting, en það gerði Erlendur Steinar Friðriksson með ágætum í erindi sínu.
Málþingið í heild sinni var tekið upp og ég gerir mér vonir um að það verði aðgengilegt á samfélagsvefjum innan tíðar þannig að þeir sem ekki höfðu tök á að mæta geti hlýtt á framsögur og fyrirspurnir í heild sinni. Þar til svo verður geta áhugasamir kynnt sér einkar áhugavert erindi Ella Steinars frá því í apríl 2015 hér að neðan.
Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar í pontu
Síðastliðinn vetur var ég að grúska í fjölda greina um silung og silungsveiði á Íslandi. Það er alltaf töluverður pakki af skýrslum sem lagðar eru fram á vef Veiðimálastofnunar og svo koma sjálfstætt starfandi líf- og fiskifræðingar annað slagið með áhugaverðar greinar.
Ég las til dæmis nokkrar greinar þar sem rannsóknir á silungs- og laxveiði voru bornar saman eða í það minnsta tæpt á því sem skilur þessar rannsóknir að. Það kom svo sem ekkert á óvart að rannsóknir á silungastofnum hér á landi hafa ekki verið eins viðamiklar og rannsóknir á laxi og laxagengd, en samhljómur skýrslnanna um vöntun á skráningu silungsveiði kom mér svolítið á óvart.
Veiðiskýrsla
Mikið væri nú óskandi að veiðimenn tækju sig saman nú í sumar og settu sér það markmið að skrá afla eins og hann kemur upp úr vötnunum okkar þannig að hægt væri að skila skýrslum til Veiðimálastofnunar eins og mælst er til um. Þá hefðu svona nördar eins og ég eitthvað til að lesa næsta vetur.