Margir veiðimenn halda dauðahaldi í ákveðnar flugur í orðsins fyllstu merkingu. Að halda of stíft við línuna er næstum alveg eins slæmt og að halda ekkert við, sérstaklega þegar maður hefur sett í fisk og hann tekur á rás í þveröfuga átt við stefnu flugunnar.
Ef veiðimaðurinn heldur of stíft við eftir töku, þá gefst stundum ekki tími til að gefa hæfilega eftir þegar fiskurinn vindur upp á sig og reynir að synda í gagnstæða átt og það eina sem veiðimaðurinn græðir er að geta sagt; Ég missti þann stóra, hann reif sig lausann. Ef flugan situr tæpt í fiskinum, þá þarf oft ekki nema smá átak til að hún losni. Þá getur verið kostur að gefið örlítið eftir án þess að sleppa alveg lausu. Veiðimanninum gefst þá örlítið betra tóm til að tryggja fluguna með því að herða örlítið tökinn þegar fiskurinn syndi í áttina frá honum.
Ég hafði verið að veiða á flugu í nokkur ár áður en ég fór að íhuga aðra flugulínu heldur en hefðbundna framþunga flotlínu. Ástæðan? Jú, ég var spurður hvernig ég ætlaði að koma flugunni niður til stóra urriðans í Veiðivötnum fyrst ég ætti ekki sökklínu. Ég var ekki alveg sannfærður, þyrfti ég virkilega sökklínu til að veiða í Veiðivötnum? Niðurstaðan varð sú að ég keypti mér Intermediate línu með miðlungslöngum haus og afskaplega litlum sökkhraða, undir tommu á sek. Til vonar og vara samþykkti ég að taka með mér láns-línu með sökkhraða 5 tommur á sek. ef flugan mín vildi bara alls ekki fara niður.
Það er skemmst frá því að segja að ég veiddi 90% af fiskunum í þessari fyrstu Veiðivatnaferð minni í yfirborðinu með ‚gömlu góðu‘ flotlínunni, ekki einu sinni með Intermediate línunni, hvað þá sökklínunni. Í dag veiði ég reyndar nokkuð jöfnum höndum með Intermediate og flotlínu. Þess vegna er ég vopnaður einu góðu veiðihjóli með tveimur mismunandi spólum; einni með flotlínu og annarri með intermediate línu. Ég smelli annarri á hjólið og set hina í bakpokann þannig að ég get skipt eftir hentugleikum. Enn þann dag í dag hef ég ekki séð ástæðu til að fjárfesta í sökklínu, þess í stað hef ég verið að íhuga líftíma flugulína af meiri áhuga heldur en áður.
Mér telst til að ég sé að nota fjórðu og fimmtu flugulínurnar sem ég hef keypt um ævina. Fleiri eru þær nú ekki og ekki eru þær af einhverri ákveðinni tegund. Í mínum huga ræður mestu að línan renni þokkalega, leggist vel fram og krullist ekki fram úr hófi þegar hún fer í kalt vatnið að vori eða hausti. Reyndar er svo komið að ég verð að huga að endurnýjun, leggjast í landkönnun línufrumskógarins og finna mér línu sem leyst getur af hólmi slitna Intermediate línuna mína og þá mögulega eina í stað flotlínunnar sem hefur eiginlega alla tíð verið hálf leiðinleg í framkastinu þegar mikið af henni liggur í vatninu við fætur mér.
Ég gleymdi einu varðandi línurnar sem ég hef valið; þær hafa allar verið í ódýrari kantinum, einfaldlega vegna þess að ég vil ekki vera með lífið í lúkunum að skemma þær ekki á brölti mínu í hrauni og eggjagrjóti.
Mér liggur við að segja að það gerist allt of sjaldan að það sé sett ofan í við mig, en það kom nú samt fyrir um daginn. Áttu ekki bara einhver einföld ráð? sagði einn við mig sem hafði lesið sig í gegnum pistlana á síðunni. Ég hélt nú reyndar að þessar athugasemdir mínar væru ekkert sérstaklega flóknar, en svo renndi ég í huganum yfir ýmislegt sem angraði mig þegar ég var að byrja í fluguveiðinni. Það sem kom fyrst upp í hugann var auðvitað hvað mér gekk einfaldlega mjög illa að finna hvenær fiskurinn hafði einhvern áhuga á flugunni minni.
Mér gekk einstaklega illa að brjóta múrinn á milli mín og bleikjunnar í Þingvallavatni. Satt best að segja hef ég ekki hugmynd um hve oft ég fór heim með öngulinn í rassinum áður en ég fékk minn fyrsta fisk í Þjóðgarðinum. Ég var búinn að prófa öll trikkinn sem reyndir veiðimenn höfðu fram að færa, mismunandi tíma dags, ýmsar flugur og mismunandi dýpi, en ekkert gekk. Svo var það að múrinn féll eftir að ég mætti á staðinn og hélt við línuna, ekki með einum fingri, heldur tveimur og var ekkert að gaufast með slaka línu eftir að hafa lagt hana fram.
Línunni brugðið undir tvo fingur
Um leið og ég tamdi mér að setja línuna fasta með einum eða tveimur fingrum um leið og ég var búinn að leggja hana fram, þá fór bleikjunum að fjölga sem enduðu í netinu mínu. Það var eins og ég fyndi betur með tveimur fingrum þegar bleikjan sýndi flugunum mínum áhuga og þá gat ég brugðið við. Vel að merkja, ég hef aldrei komist upp á lagið með tökuvara, það er eins og ég lokist af við það að glápa á þessa litlu þúst þarna úti á vatninu, ég næ einfaldlega betri árangri með því að glápa eitthvað út í loftið og leyfa fingrunum að finna lauflétta snertingu bleikjunnar.
Það er til marks um gott sumar þegar snjóskaflinn undir Miðmorgunsöldu í Veiðivötnum nær að bráðna áður en síðasti fiskurinn er dreginn upp úr Veiðivötnum, sú varð raunin í sumar sem leið. Veiðimenn urðu því að taka með sér ís eða annan útbúnað í Vötnin til að kæla aflann. Svipaða sögu er að segja af öðru hálendissvæði, Framvötnum. Í síðustu ferð okkar veiðifélaganna í sumar inna að Frostastaðavatni, þ.e. 11. september var litli skaflinn undir Fitjahlíð í Dómadal næstum því horfinn og í raun fyrir löngu ómögulegt að ná einhverjum ís úr honum.
Það skiptir miklu að kæla afla vel, sérstaklega ef úthaldið eru nokkrir dagar í sól og blíðu. Í veiðiferðir okkar í sumar höfum við verið að taka með okkur ísmola í frauðplastkassa eða kæliboxi með misjafnri endingu og oftar en ekki höfum við þurft að bregðast við ótímabærri bráðnun með því að sníkja ís hjá öðrum eða renna í næstu kjörbúð og endurnýja ísbirgðirnar. Ísmolar hafa þennan leiða ávana að bráðna, hverfa og umbreytast í vatn með tilheyrandi sulli og sóðaskap í kæliboxinu. Oft hefur maður brugðið á það ráð að setja kæliboxið í næsta læk til að lengja líftíma molanna, en eins og veðráttunni var háttað s.l. sumar var ekki á neitt að stóla í þeim efnum, þeir voru nokkrir lækirnir sem fóru á þurrt í blíðunni.
Síðla sumar mundi ég eftir ábendingu á spjallsvæði veiðifélags míns; Settu vatn í gosflösku, frystu og áttu klárt í kistunni fyrir næstu veiðiferð. Það tók mig að vísu nokkrar veiðiferðir að muna eftir því að útbúa svona kuldabola og eiga tiltæka í frystinum, en það tókst á endanum. Kosturinn við flöskurnar er að þykkur klakinn heldur lengur en molarnir, ekkert sull þótt þeir bráðni og einfalt að endurnýta með því að skjóta þeim í frystinn að veiðiferð lokinni. Munið bara að fylla flöskurnar ekki nema upp að öxlum, annars er eins víst að upp úr kistunni komi frosinn gosbrunnur, tappinn af og plastið sprungið.
Það er langt því frá að þær flugur sem spretta af minni hnýtingarþvingu séu einhver listaverk en þær eru alls ekki þær verstu sem hafa sést, þó ég segi sjálfur frá. Ég fylgist með mörgum hnýturum á veraldarvefnum og í tímaritum og smátt og smátt hefur maður tekið ástfóstri við handbragð nokkurra þeirra, ekki endilega hvaða flugur þeir hnýta, heldur hvernig þeir hnýta. Þetta eru snillingar í sínu fagi, nákvæmir í vinnubrögðum og hreinn unaður að horfa á afrakstur þeirra. Þessum hnýturum hrósar maður, spyr þá ráða um aðferð eða handbragð og þeir svara yfirleitt uppbyggilega eins og sönnum heiðursmönnum og konum er lagið.
Mér hefur líka þótt áhugavert að fylgjast með nokkrum hnýturum sem ég hef talið vera byrjendur. Sumir þeirra eru duglegir að pósta myndum af flugunum sínum, aðrir eitthvað feimnari eða á ég að segja; þeir veigra sér við að sýna verkin sín. Ég skil sumar þessara hnýtara mæta vel því sumar athugsemdir (komment) sem settar eru við myndirnar eru heldur óvægnar. Reyndar bíður mér svo í grun að einhverjar þeirra séu meira settar fram í gríni heldur en alvöru, en stundum er erfitt fyrir ókunnugan að gera sér grein fyrir glensinu á milli vina.
Eitthvað mjög rangt við þessa
Ég varð eitt sinn vitni að því að hnýtari setti mynd af flugu á spjallsíðu og fékk einstaklega alúðleg viðbrögð við henni. Reyndir hnýtarar gáfu honum ágæt ráð um breytingar sem hann gæti gert, hlutföll eitthvað einkennileg, hausinn heldur stór, vængur allt of stuttur o.s.frv. Eftir þrjár ábendingar kom heldur snubbótt svar frá unga hnýtaranum; Mér finnst hún fín svona!. Æ, þarna brást einhverjum bogalistinn í ábendingum, hugsaði ég og renndi yfir það sem skrifað hafði verið. Ég fann að vísu ekkert særandi eða dónalegt, allt uppbyggilegar athugasemdir sem ég sjálfur hefði þegið þegar ég var að byrja að hnýta. Engu að síður lét ungi hnýtarinn ekki við þetta svar sitja, heldur fjarlægði fluguna af spjallsvæðinu og hefur ekki átt innlegg þar síðan.
Ófögur fluga eftir höfundinn
Ég veit aftur á móti að þessi fyrrum ungi hnýtari er enn iðinn við kolann. Hann hnýtir mikið, veigrar sér ekkert við að hnýta heilu seríurnar af þekktum silunga- og laxaflugum, en því miður eru margar þeirra ennþá heldur óásjálegar. Auðvitað skiptir mestu að hann sé sáttur við sínar flugur, en hefði hann ekki nema tekið örlítið mark á ábendingunum, þá væru flugurnar hans í dag örugglega snöggtum fallegri á að líta. Mikið vildi ég að ég hefði fengið þær ráðleggingar sem honum voru boðnar hér um árið, þá væri ég ekki með hálfan vegginn í horninu mínu fullan af ljótum flugum. Ég vona að tími hreinskilni og vinsamlegra athugasemda sé ekki liðinn, það væri synd ef reyndari hnýtarar hættu að leiðbeina þeim ungu og óreyndu. Og að sama skapi, þá hvet ég byrjendur til að taka fagnandi ábendingum sem þeim eru boðnar, það getur verið erfitt að kyngja þeim til að byrja með, en það borgað sig margfalt þegar fram líða stundir.
Stórt er ekki endilega alltaf betra, en þegar kemur að fluguhjólum verð ég víst að taka undir með þeim sem mæla frekar með stórum hjólum, þ.e. large arbor hjólum. Vissulega eru þessi hjól oft svolítið meiri um sig heldur þau smágerðu með litlu miðjunni, small arbor. Það gefur augaleið að línuspólan þarf að vera aðeins meiri um sig ef miðjan er stærri þannig að öll línan með undirlínu komist fyrir. Hin síðari ár hefur reyndar örlað á því að ofvöxtur hafi hlaupið í sum þessara hjóla þannig að nærri liggur að finna þurfi annað einkenni á þau heldur en large, en það er önnur saga.
Stærsti kostur large arbor hjóla er vissulega sá að línan leggst inn á þau í víðari hring þannig að minni líkur eru á að hún dragist út af þeim í einni krullu, gormi sem oft verður til trafala í kasti. En það er einnig annar kostur sem er ekkert síðri og vert er að nefna. Þegar línan spólast í víðari hring inn á hjólið verða hringirnir færri á hjólinu. Nei, ég er ekki að tala um þann kost að menn séu fljótari að spóla inn á large arbor heldur en mid- eða small arbor hjól. Með færri hringjum af línu á hjólinu eru færri lög af línu sem óhreinindin geta tekið sér bólfestu í heldur en á smærri hjólum.
Vissulega eru alltaf dagsdagleg óhreinindi sem flækjast fyrir manni í veiði; slý, gróðurleifar og sandur. En þetta er í flestum tilfellum einfalt að losa sig við sé klút brugðið á línuna annað slagið og hún dregin inn í gegnum hann. Verra mál getur verið þegar þessi óhreinindi fá að liggja óáreitt inni á fluguhjólinu, þorna og éta sig fasta á línuna. Þá getur þurft eitthvað meira til heldur en rakan klút. Svo er það blessaður jarðvegurinn, sá sem hefur óvart spólast inn með línunni þegar tekið er saman í lok dags. Smágerð sandkorn, jafnvel einfalt þjóðvegaryk getur farið illa með línukápuna ef það fær að liggja inni á hjólinu einhvern tíma. Þá er kostur að vera með færri hringi af línu á hjólinu, það þýðir færri sandkorn. Þetta er mögulega eitthvað sem menn vilja hafa í huga þegar þeir setja eitthvað á jólaóskalistann á næstunni.