Það er langt því frá að þær flugur sem spretta af minni hnýtingarþvingu séu einhver listaverk en þær eru alls ekki þær verstu sem hafa sést, þó ég segi sjálfur frá. Ég fylgist með mörgum hnýturum á veraldarvefnum og í tímaritum og smátt og smátt hefur maður tekið ástfóstri við handbragð nokkurra þeirra, ekki endilega hvaða flugur þeir hnýta, heldur hvernig þeir hnýta. Þetta eru snillingar í sínu fagi, nákvæmir í vinnubrögðum og hreinn unaður að horfa á afrakstur þeirra. Þessum hnýturum hrósar maður, spyr þá ráða um aðferð eða handbragð og þeir svara yfirleitt uppbyggilega eins og sönnum heiðursmönnum og konum er lagið.

Mér hefur líka þótt áhugavert að fylgjast með nokkrum hnýturum sem ég hef talið vera byrjendur. Sumir þeirra eru duglegir að pósta myndum af flugunum sínum, aðrir eitthvað feimnari eða á ég að segja; þeir veigra sér við að sýna verkin sín. Ég skil sumar þessara hnýtara mæta vel því sumar athugsemdir (komment) sem settar eru við myndirnar eru heldur óvægnar. Reyndar bíður mér svo í grun að einhverjar þeirra séu meira settar fram í gríni heldur en alvöru, en stundum er erfitt fyrir ókunnugan að gera sér grein fyrir glensinu á milli vina.

Eitthvað mjög rangt við þessa
Eitthvað mjög rangt við þessa

Ég varð eitt sinn vitni að því að hnýtari setti mynd af flugu á spjallsíðu og fékk einstaklega alúðleg viðbrögð við henni. Reyndir hnýtarar gáfu honum ágæt ráð um breytingar sem hann gæti gert, hlutföll eitthvað einkennileg, hausinn heldur stór, vængur allt of stuttur o.s.frv. Eftir þrjár ábendingar kom heldur snubbótt svar frá unga hnýtaranum; Mér finnst hún fín svona!. Æ, þarna brást einhverjum bogalistinn í ábendingum, hugsaði ég og renndi yfir það sem skrifað hafði verið. Ég fann að vísu ekkert særandi eða dónalegt, allt uppbyggilegar athugasemdir sem ég sjálfur hefði þegið þegar ég var að byrja að hnýta. Engu að síður lét ungi hnýtarinn ekki við þetta svar sitja, heldur fjarlægði fluguna af spjallsvæðinu og hefur ekki átt innlegg þar síðan.

Ófögur fluga eftir höfundinn

Ég veit aftur á móti að þessi fyrrum ungi hnýtari er enn iðinn við kolann. Hann hnýtir mikið, veigrar sér ekkert við að hnýta heilu seríurnar af þekktum silunga- og laxaflugum, en því miður eru margar þeirra ennþá heldur óásjálegar. Auðvitað skiptir mestu að hann sé sáttur við sínar flugur, en hefði hann ekki nema tekið örlítið mark á ábendingunum, þá væru flugurnar hans í dag örugglega snöggtum fallegri á að líta. Mikið vildi ég að ég hefði fengið þær ráðleggingar sem honum voru boðnar hér um árið, þá væri ég ekki með hálfan vegginn í horninu mínu fullan af ljótum flugum. Ég vona að tími hreinskilni og vinsamlegra athugasemda sé ekki liðinn, það væri synd ef reyndari hnýtarar hættu að leiðbeina þeim ungu og óreyndu. Og að sama skapi, þá hvet ég byrjendur til að taka fagnandi ábendingum sem þeim eru boðnar, það getur verið erfitt að kyngja þeim til að byrja með, en það borgað sig margfalt þegar fram líða stundir.

2 Athugasemdir

 1. Sammála þér Kristján, þetta er vandfarið og menn misjafnir en oftast eru þessi ráð gefin af góðum hug. Hitt er svo annað mál að þegar maður birtir eitthvað á spjallsíðu er allt opið og allt getur gerst, vera viðbúinn því.
  Mér fannst ég læra mjög mikið af því þegar veidi.is var með fluguskiptin hér um árið, maður vandar sig þegar maður sendir inn flugur til annara og hugsar hlutina upp á nýtt.
  Ég hef því miður ekki ennþá sent inn í Febrúarflugur hjá þér, hlýtur að fara að koma að því.

 2. Takk Þórarinn. Já, stundum berar maður sig svolítið að birta eitthvað á bloggi eða samfélagsmiðlum, en það má einmitt líta á það sem áskorun á sjálfan sig, vanda bæði til orða og verka.
  Það væri nú gaman að sjá þín verk í Febrúarflugum, ekki seinna vænna heldur en skrá sig til leiks. Ég fer að hita upp fyrir viðburðinum um leið og sól tekur að hækka upp úr 21.des. og þá kynni ég eitthvað spennandi til sögunnar í samstarfi við hóp góðra manna.
  Bestu kveðjur,
  Kristján

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.