Það er til marks um gott sumar þegar snjóskaflinn undir Miðmorgunsöldu í Veiðivötnum nær að bráðna áður en síðasti fiskurinn er dreginn upp úr Veiðivötnum, sú varð raunin í sumar sem leið. Veiðimenn urðu því að taka með sér ís eða annan útbúnað í Vötnin til að kæla aflann. Svipaða sögu er að segja af öðru hálendissvæði, Framvötnum. Í síðustu ferð okkar veiðifélaganna í sumar inna að Frostastaðavatni, þ.e. 11. september var litli skaflinn undir Fitjahlíð í Dómadal næstum því horfinn og í raun fyrir löngu ómögulegt að ná einhverjum ís úr honum.
Það skiptir miklu að kæla afla vel, sérstaklega ef úthaldið eru nokkrir dagar í sól og blíðu. Í veiðiferðir okkar í sumar höfum við verið að taka með okkur ísmola í frauðplastkassa eða kæliboxi með misjafnri endingu og oftar en ekki höfum við þurft að bregðast við ótímabærri bráðnun með því að sníkja ís hjá öðrum eða renna í næstu kjörbúð og endurnýja ísbirgðirnar. Ísmolar hafa þennan leiða ávana að bráðna, hverfa og umbreytast í vatn með tilheyrandi sulli og sóðaskap í kæliboxinu. Oft hefur maður brugðið á það ráð að setja kæliboxið í næsta læk til að lengja líftíma molanna, en eins og veðráttunni var háttað s.l. sumar var ekki á neitt að stóla í þeim efnum, þeir voru nokkrir lækirnir sem fóru á þurrt í blíðunni.
Síðla sumar mundi ég eftir ábendingu á spjallsvæði veiðifélags míns; Settu vatn í gosflösku, frystu og áttu klárt í kistunni fyrir næstu veiðiferð. Það tók mig að vísu nokkrar veiðiferðir að muna eftir því að útbúa svona kuldabola og eiga tiltæka í frystinum, en það tókst á endanum. Kosturinn við flöskurnar er að þykkur klakinn heldur lengur en molarnir, ekkert sull þótt þeir bráðni og einfalt að endurnýta með því að skjóta þeim í frystinn að veiðiferð lokinni. Munið bara að fylla flöskurnar ekki nema upp að öxlum, annars er eins víst að upp úr kistunni komi frosinn gosbrunnur, tappinn af og plastið sprungið.