FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Meira fyrir okkur

    8. janúar 2018
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Það hefur verið sagt að flugur séu meira fyrir okkar augu heldur en fiskanna og vísast er eitthvað til í þessu. Ég hef í það minnsta oft lent í því að tjásuleg fluga veiðir og veiðir en á sama tíma stenst hún alls ekki heimatilbúnar útlitskröfur sem ég hef sett mér. Í lok veiðidags set ég síðan þessa flugu til hliðar í boxinu mínu og nota hana aldrei aftur þrátt fyrir að hún hafi veitt vel fram í hættumál.

    Þetta breytir samt ekki því að sumar flugur segir maður vera fallegar en aðrar ekki. Hvað menn leggja til grundvallar að fegurðarmati sínu er æði misjafnt. Ég læt litasamsetningu flugunnar stjórna áliti mínu töluvert, þar á eftir sköpulag hennar, en úrslitaatkvæðið fellur með handbragði hnýtarans. Það er síðan allt annað sem ræður því hvort ég segi flugu vera veiðilega. Uppi á vegg í minni hnýtingaraðstöðu á ég mér spjald með nokkrum vel völdum bernskubrekum mínum í fluguhnýtingum. Þar safna ég ljótum og mislukkuðum flugum mér til áminningar um það sem betur má fara í mínum hnýtingum. Þegar ég lít yfir spjaldið eru fimm atriði sem standa uppúr sem betur hefðu mátt fara.

    Aðstaðan mín – á veggnum yfir lampanum gefur að líta gallaðar flugur

    Nota færri vafninga – greinileg mistök má sjá í gegnum óhóflegt magn af efni sem ég hef notað og það er að ég notaði allt of marga vafninga af hnýtingarþræði til að festa efnið niður. Færri og hnitmiðaðri vafningar eru oft á tíðum lykillinn að áferðarfallegri flugur.

    Brjóta upp á efnið – búkar fyrstu straumflugna minna voru vægast sagt ljótir og entust frekar illa, það sést meira að segja á ónotuðu flugunum mínum. Að tylla búkefni eins og tinsel niður með örfáum vafningum af þræði, brjóta síðan upp á efnið og tryggja það endanlega gefur oft áferðarfallegra útlit og kemur í veg fyrir að það losni með tímanum.

    Nota of lítið efnið – það hljómar svolítið í þversögn við fyrsta punktinn minn, en stundum hef ég notað of lítið efni í flugurnar. Þetta á kannski sérstaklega við um Nobbler þegar ég hef fest marabou skottið niður helst til aftarlega þannig að á milli skotts og augna verður til ójafn búkur, eiginlega holt og hæðir sem síðan koma í ljós í gegnum endanlegt búkefni og tinsel / vír vafninga. Betra er að fest skottið niður alveg fram að augum, þannig næst jafnari búkur.

    Flatur hnýtingarþráður – til að byrja með notaði ég aðeins eina tegund hnýtingarþráðs og hann var ekki flatur og það sem meira er, hann var af töluverðum sverleika. Þetta sést mjög vel á smæstu flugunum og þeim sem áttu að vera fíngerðar. Þessar flugur tóku stórstígum framförum þegar ég jók við tegundir hnýtingarþráðs og byrjaði að nota flatan þráð í þessar flugur. Færri vafningar til að festa og þekja efni heldur en með hefðbundnum rúnuðum þræði.

    Klippa rétt – eins og mér finnst nú gaman að beita góðum skærum þá uppgötvaði ég fljótlega að það er ekki sama hvernig hnýtingarefni er klippt þegar því hefur verið tyllt niður. Auðvitað er hægt að klippa efnið þvert á stefnu þess, en stundum getur það skipt máli að klippa efnið á ská, 45° – 67° á stefnuna. Þannig næst ávöl brún sem auðveldar er að hnýta endanlega niður og búlkar ekki upp undir öðru efni sem síðar er notað í fluguna.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Áberandi ellismellir

    3. janúar 2018
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Þrátt fyrir að gömlu góðu flugurnar hafi fyrir löngu sannað notagildi sitt í sinni upprunalegu mynd, þá freistast maður alltaf til að gera gott betra. Þegar ég tala um gömlu góðu flugurnar, þá hef ég meðal annarra í huga Pheasant Tail, Héraeyra og hinn rammíslenska Peacock. En hvernig má gera þessa öldnu höfðingja betri?

    Ein leið til að kveikja aðeins í þeim og fiskinum þar með, er að setja á þá eitthvað áberandi. Það geta síðan verið skiptar skoðanir á því hvort þetta eða hitt sé betur til þess fallið að auka við þekkta virkni þessara flugna. Það sem menn spreyta sig helst á er að setja appelsínugult eða grænt neon í thorax eða skott á þessar flugur, já eða smá brott. Svo eru þeir sem nota UV hnýtingarefni og gefa flugunum þannig aukið líf þar sem sólar nýtur ekki. Ég hef lítið notað UV efni hingað til og ekkert lakk sem ég þarf að lýsa með UV ljósi o.s.frv. en það stendur til bóta.

    En hvað með litavalið? Hér hef ég nefnt appelsínugult og grænt, en ekkert minnst á fjólublátt eða gult. Ef eini tilgangur litarins í flugunni er að vekja athygli á henni niður á eitthvert dýpi, þá er fjólublátt sá litur sem lifir einna lengst niður í vatnið og því ætti maður að nota slíkan lit á þungar flugur. Ef ætlunin er að gera hástæðari flugur meira áberandi, skera sig úr fjöldanum, þá dugar gult, appelsínugult, grænt eða jafnvel fölblátt alveg fyllilega.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ekta gervisilki

    27. desember 2017
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Þetta gamla góða var notað í einhverri auglýsingu hér um árið. En er þetta gamla alltaf gott eða er það kannski bara nógu gott eða mögulega orðið ónýtt? Ég fór að velta þessu fyrir mér um daginn þegar talið barst að því að standsetja hnýtingarborðið eftir sumarið, setja sig í startholurnar og yfirfara hnýtingarefnið og útbúa innkaupalista yfir það sem vantar.

    Þeim fer fækkandi hnýturunum sem nota silkiþráð við hnýtingar, helst eru það hreintrúarmenn sem hnýta þessar klassísku alveg eftir forskriftinni sem nota silki, held ég. Silki og silki er ekki það sama, ég komst að því þegar ég eignaðist nokkrar spólur af nokkuð þykku silki til skrauts um árið. Umbúðirnar voru vandlega merktar silk made from polyester sem er náttúrulega svipað og segja ekta gervileður. Polyester er gerviefni sem eldist mjög vel, það er næstum því eilíft, því miður liggur mér við að segja. Þetta er plastefni sem eyðist mjög hægt í náttúrunni. Alvöru silki er af allt öðrum toga og í allt öðrum verðflokki. Silki er náttúrulegt efni, slitsterkt en eyðist auðveldlega og á því passaði ég mig ekki. Ég átti nefnilega líka mjög fíngert silki sem ég passaði ekkert sérstaklega vel og það einfaldlega skemmdist á fáum árum. Ef þú átt alvöru silki, prófaðu slitstyrkinn áður en þú byrjar á einhverri fallegri flugu í vetur og lendir í endalausum vandræðum og slítur þráðinn í sífellu. Beint út af reynslubankanum; athugaðu vel hvort þráðarhaldarinn þinn sé örugglega ekki standi, ekki skörðóttur eða pakkaður af lakkleyfum áður en þú þræðir hann með silki. Silki trosnar og slitnar mjög auðveldlega ef einhver fyrirstaða eða skörð eru í rörinu í haldaranum, meira að segja þótt það sé nýtt og í fullkomnu lagi.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Meiri aftöppun

    25. desember 2017
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Stundum er það svo að maður viðheldur þessari dellu með því að hugsa hlutina alveg í tætlur á meðan maður bíður eftir næsta sumri. Þannig fór með mig um daginn þegar ég var búinn að einsetja mér að tappa af félaga mínum næsta vor um hægfara flugur í straumvatni. Ég fór sem sagt á stúfana, rifjaði upp nokkrar greinar sem ég hafði lesið fyrir margt löngu setti niður aðgerðalista fyrir næsta sumar.

    Brúará

    Númer eitt – Koma línunni út og helst á réttan stað á ánni. Enn varð mér hugsað til Brúarár og þeirra vandræða sem ég lenti í með allan gróðurinn. Ekki í vatninu, heldur fyrir aftan mig. Grín laust, ég þarf að temja mér færri falsköst og annan stíl þegar kjarrið er svona krefjandi fyrir aftan mig. Ef mér tekst það, þá þarf ég að læra hvert í strauminn línan á að fara. Öll þessi horn og gráður sem veiðimenn hafa í huga þegar þeir kasta í straum. 30° eða 45°? Ég veit hvað gráður eru, en ég hef aftur á móti mjög takmarkaðan skilning á því sem þessi horn gera fyrir línuna mína, hvað þá fluguna.

    Númer tvö – Velja rétta flugu fyrir straumvatn. Maður heyrir af mönnum í straumvatni sem veiða með nákvæma sömu flugum og ég nota í vatnaveiðinni. Mér finnst það skiljanlegt því þetta er jú sami fiskurinn, hvort sem hann er í straumi eða kyrru vatni, að því gefnu að við erum að tala um silung. En hvenær setja menn púpur undir í straum og hvenær Nobbler? Virkar Nobbler annars ekki í straum, hann er jú eftirlíking af seiði eða hornsíli. Ég þekki mjög fáa urriða sem fúlsa við fallegum Nobbler í vatni, þeir hljóta að vilja hann líka í straum.

    Númer þrjú – Er ég með réttu græjurnar? Nei, ég er ekki að ýja að því að ég þurfi að kaupa nýja stöng, línu og tauma bara til þess að prófa straumvatn, en kannski þarf ég þess, hver veit og þá tek ég því bara eins og hverju öðru hundsbiti. Kannski þarf mér ekkert að leiðast það rosalega að skoða nýjar græjur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Á meðan beðið er

    21. desember 2017
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Á meðan maður bíður eftir vorinu ljúfa, þegar fiskar fara á stjá, maður smeygir sér í föðurlandið og lætur sjá sig á bökkunum, þá er ágætt að fara aðeins yfir síðasta sumar og rýna til gagns.

    Eitt af því sem kemur alltaf upp í huga minn þegar ég hugsa til baka, eru köstin og stundum vildi ég óska þess að ég hefði einhverja smá aðstöðu þar sem ég gæti veifað stönginni og fylgst með sjálfum mér og villunum mínum. Mér hefur nefnilega verið sagt að því betur sem maður kasti, því fleiri fiska veiði maður og þar sem ég fer ekkert dult með ástríðu mína á veiði, þá höfðar þetta mjög vel til mín.

    Svo lengi sem ég hef ekki aðstöðu til að rýna eigin köst yfir hörðustu vetrarmánuðina, þá verð ég víst að láta mér nægja að lesa, lesa aftur og reyna að prenta inn í langtímaminnið þær grundvallarreglur sem flugukastið gengur út á. Góður kastari er sagður sá sem ræður yfir mismunandi kaststíl, því einn góður stíll dugar jú vel, en að ráða yfir fleiri kaststílum og aukinni tækni er alltaf til bóta. Fyrir fimm árum síðan setti ég hér inn nokkrar greinar og klippur sem hnykkja á jafnt mörgum grundvallaratriðum flugukastsins sem þeir feðgar Jay og Bill Gammel settu fram í bókinni The Essentials of Fly Casting. Þessar reglur eru enn í gildi og ég kíki reglulega á þessar greinar og myndbönd á vetrum. Ef þessar greinar hafa farið framhjá þér, þá eru þær hérna.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Aftöppun

    19. desember 2017
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Um daginn átti ég ágætt spjall við félaga minn og við ræddum allt milli himins og jarðar, svona eins og gengur. Meðal þess sem við fórum yfir var háttalag laxfiska gagnvart flugum. Ég þóttist hafa lesið það einhvers staðar að lax og urriði væru í raun ekkert sérstaklega snaggaralegir fiskar, þeir væru í raun svifaseinir og gætu því einfaldlega misst af flugunni ef hún færi of hratt framhjá þeim.

    Eitthvað spunnust umræður okkar út í veiði í straumvatni, þar sem ég er alls ekki sterkur á svellinu og gæti bætt heilmiklu við í reynslubanka minn. Eitt af því sem ég nefndi og hafði í huga reynslu mína úr Brúará í Biskupstungum í sumar, var að mér fannst tíminn sem flugan var í raun að veiða svo stuttan tíma í straumvatni. Trúlega er Brúará ekki besta áin fyrir byrjanda í straumvatni, í það minnsta ekki þar sem ég var að kljást við hana við ármót Fullsæls. Þarna er stríður straumur og mikið vatn í ánni og hún er alls ekki neitt lík þeirri á sem ég ólst upp við, ós Ölfusár. Þegar ég var að renna fyrir fisk í ósnum í gamla daga, löngu fyrir tíð mína sem fluguveiðimanns, þá var mottóið að setja bara nógu þunga sökku undir og maðk á öngul. Þá fyrst náði maður að halda agninu einhvern tíma í strengnum þar sem hann rann við bakkann austanverðan. Fiskurinn hafði með þessu móti nægan tíma til að sjá agnið fljóta rólega framhjá og áttaði sig á góðgætinu.

    Fullsæll

    Félagi minn nefndi þá að til þess að halda flugunni lengur í straumi, þyrfti veiðimaðurinn að venda eins og óður maður til að hægja á henni. Þegar öllu var á botninn hvolft, þá snérust samræður okkar í raun um að hægja á flugunni þannig að fiskinum gæfist tóm til að sjá hvað væri eiginlega á ferðinni. Ég get nú alveg sett mig í spor fisksins, ef maður sér eitthvað æða framhjá, hvort sem það er fluga eða mótorhjól, þá verða fyrstu viðbrögðin ekki endilega þau að æða á eftir þessu til að ná tegundinni. Sumt fer einfaldlega of hratt til að maður leggi í eltingaleik.

    Það er ljóst að félagi minn má eiga von á símtali þegar vora tekur, ég ætla að plata hann með mér í straumvatn og tappa af hans reynslubanka, sérstaklega því sem dugar til að hægja á flugunni. Kannski verður mér þá betur ágengt í straumvatni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 60 61 62 63 64 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar