FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Hlutföll straumflugu

    3. apríl 2018
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Straumflugur, eru það ekki bara ofvaxnar votflugur? Nei, ekki alveg, því hlutföllin í straumflugu eru í raun allt önnur en votflugu og þar af leiðandi hagar straumflugan sé öðruvísi þegar í vatn er komið.

    Fyrir það fyrsta, þá er skegg straumflugunnar nokkru styttra heldur en votflugunnar, ekki lengra heldur en nemur öngulbili króksins. Skott straumflugu er ekki nema helmingur búksins en þar kemur á móti að lengd vængs er jöfn búki flugunnar að viðbættu skottinu. Vænglengd straumflugu getur því verið nokkuð mikil sé hún hnýtt á legglangan krók.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlutföll votflugu

    30. mars 2018
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Vængjaðar votflugur hafa fylgt ákveðnum hlutföllum svo lengi sem þær hafa fundist í fluguboxum veiðimanna. Með tíð og tíma hefur ýmislegt breyst í efnisvali, ný hnýtingarefni skotið upp kollinum og auðvitað hafa hnýtarar prófað sig áfram með notkun þess í votflugur, en eftir stendur að hlutföll flugunnar hafa nánast haldist óbreytt.

    Skott klassískrar votflugu er nánast jafn langt og búkur hennar sem nær frá haus og aftur að öngulbug. Skegg votflugunnar nær yfirleitt frá haus og að önguloddi. Vængur flugunnar er jafn langur legg öngulsins, staðall sem markar sérkenni votflugna og aðskilur þær frá frænku þeirra, straumflugunni sem yfirleitt er með öllu lengri væng.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Lengdin skiptir máli

    21. mars 2018
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Eitt lærðist mér fljótlega í fluguhnýtingunum og það var að hafa eins stuttan þráð fram úr keflishaldaranum eins og mér var unnt. Langur spotti lengir ekki aðeins þann tíma sem það tekur að hnýta hvern vafning heldur slaknar líka á vafningunum ef þráðurinn er of langur. Heppilegt fjarlægð keflishaldara frá flugu er á bilinu 2 – 6 sm. Allt umfram þetta mætti með einhverri kokhreysti segja að sé óþarfi.

    Það er líka auðveldara að ná markvissri staðsetningu á þræðinum ef manni lærist að nota keflishaldarann til að stýra staðsetningunni. Ég hef séð hnýtara sem hafa náð ótrúlegri lagni við að halda væng með tveimur fingrum og beita síðan tveimur til viðbótar til að stýra staðsetningu á þráðarins á flugunni. Þetta var mikil fingrafimi en algjörlega ónauðsynleg hefðu þeir stytt aðeins í þræðinum og notað keflishaldarann til þess sem hann er ætlaður; halda við og beina þræðinum á réttan stað.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Konunglegar flugur

    19. mars 2018
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Það verður nú ekki annað sagt en veiðimenn hafa sinn háttinn á flugum og flugnavali, svona yfirleitt. Raunar er það þannig að margir veiðimenn, ég þeirra á meðal, festa sig oft í að veiða fiskana sem veiddir voru í fyrra, í síðasta mánuði eða einfaldlega í gær. Við leitum ráða um veiðistaði, aðferðir og flugur hjá þeim sem hefur gengið best á tilteknum stað og svo öpum við þetta allt eftir og verðum bara sárir þegar ekkert gengur hjá okkur. Því miður gleymum við að uppfæra leiðbeiningarnar miðað við breyttar aðstæður, annan árstíma eða þá einfaldlega að okkar eigin stíl.

    Um daginn las ég grein um þá mætu flugu Royal Coachman. Þar sagði mætur veiðimaður að Royal Coachman hefði verið hönnuð til veiða í straumvatni og þar virkaði hún, aðeins. Það þarf að vísu ekkert að koma mér á óvart að viðkomandi veiðimaður hefur aldrei séð til veiðifélaga míns, en mér er til efs að hún hafði haft hugmynd um þessa takmörkun á notagildi flugunnar þegar hún hefur verið að kippa hverjum fiskinum á fætur öðrum upp úr spegilsléttum stöðuvötnunum hér á Íslandi.

    Royal Coachman

    En satt er það að Royal Coachman hentar vel til veiði í straumvatni vegna þess hve hástæð flugan er. Hún er sérstaklega bústinn af þurrflugu að vera, búkurinn vel klæddur (e: dressed) peacock fjöðrum og vængurinn mikill. Rauður liturinn á búknum dregur síðan til sín athygli fisksins, flugan er það sem kallað hefur verið glepja.

    Upphaflega var þessi fluga votfluga sem Tom Bosworth setti fram um árið 1820. Það er með þá flugu, rétt eins og aðrar þekktar og gjöfular flugur að hún hefur eignast afkomendur, en sjaldan hafa afkomendurnir orðið jafn lítið frábrugðnir forföðurnum. Fyrsta afbrigði hennar var væntanlega stærsta stökkið. Það átti bandaríkjamaðurinn John Haily sem útfærði hana sem þurrflugu árið 1878, þá með skotti úr Brúðönd (e: wood duck) og uppmjóum hvítum vængbroddi. Þetta upphaflega skott vék ekki fyrir Pheasant Tippets fyrr en í upphafi 20. aldar þegar Brúðönd fækkaði snarlega í Bandaríkjunum.

    Það var aftur á móti Edward R. Hewitt sem bar ábyrgð á því að sleppa hvíta vængnum algjörlega og setja hvítt hringvaf fyrir framan það brúna í staðinn. Sú útgáfa fékk nafnið Royal Coachman Bivisible.

    Næstu tilraun til úrbóta, svo vitað sé, átti Theodore Gordon á tíunda áratug 19. aldar þegar hann skipti upphaflega hvíta vængbroddinum út fyrir hvítan væng úr andafjöður sem hann lét vísa örlítið út til hliðanna. Sú útfærsla fékk ekkert sérstakt heiti að því er best er vitað og fljótlega fóru hnýtarar að leggja þessa útfærslu Gordon‘s að jöfnu við útfærslu John Haily. Samkvæmd beiðni Leslie Petrie útbjó Gordon aftur á móti annað afbrigði flugunnar þegar hann skipti rauða silkinu út fyrir gult og gekk sú fluga lengi undir nafninu Royal Petrie

    Eitt þekktasta afbrigði þessarar flugu setti Lee Wulff fram upp úr 1930 þegar hann bætt enn á hana og skipti hvítu toppfjöðrinni út fyrir kálfhala og notaði brúnan kálfhala í skottið, ekki mikil breyting að vísu en dugði til þess að hún fékk nafnið Royal Wulff.

    Royal Wulff

    Það vita væntanlega færri að rétt um það bil sem sem Lee Wulff gerði þessa breytingu á Royal Coachman, þá var annar veiðimaður vestur í Bandaríkjunum að fikra sig áfram með næstum nákvæmlega sömu útfærslu. Eini munurinn var sá að hann lét kálfhalann ekki standa beint upp, heldur skipti honum í tvennt og lét hann vísa örlítið til sitt hvorrar hliðar flugunnar. Þessi maður hét Q.L. Quackenbush og hann fékk Reuben Cross til að hnýta þessa útfærslu. Cross vildi endilega skíra hana Quack Royal, en frásagnir herma að Quackenbush hafi lagst gegn þessari nafnagift þegar Lee Wulff kom fram með sína útfærslu. Af þessu má ráða að Quackenbush hafi verið örlítið á undan Lee með þessa hugmynd.

    Royal Trude

    Það var síðan árið 1960 að Carter Harrisson grínaðist eitthvað með Royal Wulff og hnýtti hvítan kálfhalavæng og lét hann vísa beint aftur í stað út eða upp. Þessi útgáfa hefur gengið undir nafninu Royal Trude og þykir ákveðið afturhvarf til votflugunnar vegna þess að hana veiða menn jöfnum höndum sem votflugu og þurrflugu.

    Ég er ekki neinn ættfræðingur, en þetta eru þau skilgetnu og óskilgetnu afkvæmi Royal Coachman sem ég fann í bókum og á netinu þegar ég fór að grúska svolítið. Eflaust eru afbrigðin fleiri og margir spreytt sig á að útfæra þessa flugu í gegnum árin.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hættu að naga

    14. mars 2018
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Ég ólst upp við tvær setningar í æsku, önnur þeirra hljómaði einfaldlega; Hættu að naga. Því miður hefur þessi setning fylgt mér alla ævi og gerir enn. Ég er sem sagt haldin þessum leiða ávana að naga á mér neglurnar og þess vegna er ég með ýmsar tangir og tól á hnýtingarborðinu mínu til að ná upp smágerðu hnýtingardóti; kúlum, krókum o.s.frv. En það er fleira sem tengist höndunum mínum sem getur verið til vandræða þegar kemur að fluguhnýtingum. Ýmsar rispur, hrufóttir fingur og slitin naglbönd eru eiginlega verkfæri djöfulsins þegar maður er með fíngerðan hnýtingarþráð eða floss í haldaranum.

    Eflaust dettur einhverjum pjatt í hug, en ég hef heyrt ákveðinn handáburð dásamaðan í hástert hjá hnýturum, Neutrogena Norwegian Formula er víst galdrameðal fyrir þurra og sprungna fingur hnýtarans. Kosturinn við þetta handkrem er helstur sá að það er án fitu, skilur ekki eftir sig fingraför og er einstaklega græðandi. Smá sletta á stærð við baun áður en þú byrjar að hnýta gerir víst kraftaverk.

    Fyrir þá sem eru með neglur, mér skilst að yfir hnýtingarmánuðina sé mjög gott ráð að halda nöglunum örlítið lengri heldur en að öllu jöfnu. Þá er til muna auðveldara að ná smágerða efninu upp úr koppum og kirnum, já eða bara beint af borðinu. Til ykkar sem eruð haldnir sömu áráttu og ég; Hættið að naga þannig að þið þurfið loksins að nota naglaklippurnar til einhvers annars heldur en klippa taumaefni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Banani á bakkanum

    12. mars 2018
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Það má nú ýmislegt ganga á áður en bananar fara að vaxa á trjánum hér á landi og vonandi á ég ekki eftir að upplifa það að þeir flækist fyrir mér úti í náttúrunni. Ég, ólíkt sumum erlendum stórlöxum í pólitík, geri mér að vísu grein fyrir því að hnattræn hlýnun er raunveruleg, en að sama skapi hallast ég að þeirri skoðun að hér á landi verður ekkert endilega mikið hlýrra þegar það er heitt, en frostakaflarnir verða smátt og smátt mildari og vara skemur og öfgarnar í veðrinu verða meiri. En, það er ekki það sem ég hafði í huga þegar ég hugleiddi þessa grein.

    Bananar á bakkanum er sá hópur veiðimanna sem mætir fram á bakkann í öfgagulum veiðijökkum, smella upp poloroid gleraugunum og skimar niður í vatnið. Humm, enginn fiskur hér segja þeir og úthúða þeim sem benti þeim á að þarna væri fisk að fá. Ég er alls ekki viss hve oft ég hef séð og sagt frá þessum veiðimönnum og þeir halda endalaust áfram að vera mér undrunarefni. Það eru nokkrir litir á veiðifatnaði sem ég bara skil ekki að séu notaðir, gulur er þeirra á meðal. Að ganga fram á bakkann í gulum jakka er ígildi þess þegar löggan setur bláu ljósin á mann í umferðinni, fiskurinn sér bananann langar leiðir. Það er ekki tilviljun að veiðifatnaður er oftast í jarðlitum; gráum, grænum og brúnum tónum. Það er gert til þess að veiðimaðurinn falli sem best inn í umhverfið, sé ekki eins og hvítur löggubíll með bláum ljósum, já eða banani á bakkanum.

    Annað er það sem veiðimenn, þar á meðal ég, gera sjálfa sig ítrekað seka um og það er að þramma þungstígir fram á bakkann, kallandi fram titring sem fiskurinn skynjar auðveldlega ofan í vatninu. Ég veit ekki hvort lesendur þekkja til teiknimyndafígúra úr sjónvarpinu sem voru kallaðir Bananabræður, en þeir voru frekar miklir göslarar og ekki alltaf léttstígir. Mér hefur stundum verið hugsað til þessara bræðra þegar ég sé í sporðinn á fiskinum þegar hann forðar sér út í öryggi dýpisins þegar ég kem fram á bakkann.

    Næsta sumar, þá ætla ég að hemja mig að storma fram á bakkann og temja mér að vera heldur léttstígari á ferðum mínum á þeim slóðum. Ég held að ég þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af litbrigðum mínum, ég er yfirleitt grár til fara, bæði til klæða og hárs.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 57 58 59 60 61 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar