FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Lauslát fluga í fiski

    15. október 2018
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Eins og nærri má geta, þá er ég ekki neinn sérfræðingur í að halda stórum fiski á flugu, einfaldlega vegna þess að ég veiði svo sjaldan stóra fiska. En í sumar sem leið þá varð ég vitni að því að annars mjög góður veiðimaður sem oft er að veiða á sömu slóðum og ég, átti í smá vandræðum með að halda stórum fiski eftir að hann hafði tekið fluguna. Ég miðlaði af fábrotinni þekkingu minni af því að tryggja fluguna í stórvöxnum fiski og halda vel við. Eftirá fór ég auðvitað að grúska og fann nokkrar greinar á netinu sem fjölluðu um þetta vandamál, þ.e. að flugan vildi losna úr fiskinum eftir töku.

    Þannig er það víst með fisk eins og urriðann að hann heldur áfram að vaxa og þroskast eftir því sem árin líða, sérstaklega ef hann er einn af þeim sem ver fullorðinsárum sínum í að éta aðra fiska. Hann stælist og herðist og þá ekki síst skolturinn á honum. Húðin í kjaftinum sem áður var mjúk og auðsæranleg, verður þykk og seig og tennur sem áður fyrr voru aðeins saklausar eins og á járnsagarblaði stækka og geta orðið á stærð við tennur í stórviðarsög. Kannski örlítið ýkt, en skemmtileg samlíking.

    Þegar svo þessi stórvaxni fiskur tekur t.d. straumflugu af miklu offorsi eins og um smáfisk eða síli væri að ræða, þá er hann ekkert að anda að sér flugunni eins bleikja tekur þurrflugu. Hann beinlínis læsir skoltunum utan um fluguna sem situr þá gjarnan framarlega í kjafti fisksins, einmitt þar sem stóru tennurnar og slitsterka holdið hafa myndast með tíð og tíma.

    Til að tryggja fluguna þarf því að taka þéttingsfast á línunni og um leið og tækifæri gefst þá ætti að taka aftur á henni og halda strengdu. Það er nefnilega ekkert víst að aðeins eitt viðbragð dugi til að setja fluguna fasta og þá er eins gott að nýta tækifærið þegar fiskurinn gefur örlítið eftir að tryggja fluguna aftur. Hér er auðvitað ekki verið að tala um að rykkja í línuna, heldur taka þéttingsfast í hana þannig að flugan nái enn betri festu í seigri húð skoltsins. Allt er þetta skrifað með því fororði að taka ekki of fast á línunni, veikasti hlekkurinn í tengingu veiðimanns og fisks er taumurinn og hnútarnir og því verður að hafa hugann við slitstyrk taums og hvort hnúturinn hafi nú örugglega verið rétt hnýttur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Brjóttu regluna, ekki stöngina

    10. október 2018
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Í nærri öllum þeim bókum og greinum sem ég hef lesið um flugukast er hamrað á því að halda þröngum línubug í kastinu, þá ferðast línan hraðar og kastið verður markvissara. Yfirleitt er þetta regla #2 á eftir reglunni um ákveðið stopp í fram- og bakkastinu.

    En það er ekki til sú regla sem er algild og það á við þessa reglu þegar kemur að flugukasti þar sem stór eða þyngd fluga er á ferðinni. Þegar maður horfir á þessar stóru, þungu straumflugur, svo ekki sé talað um skreytt koparrör af óræðri þyngd og umfangi, þá dettur manni byssukúla í hug. Það hefur verið reiknað út að þokkalegur kastari nær hraða flugunnar upp í 100 m/sek. þegar hún fer framhjá stönginni í framkastinu, eitthvað minna þegar hún er tekin upp í bakkastið. Hraði flugu í viðsnúningi í bakkasti hjá Lee Wulff var eitt sinn mældur 600 fet/sek. sem jafngildir 180 m/sek. en ég efast um að ég nái slíkum hraða í kastið mitt, nóg samt til að skjóta stöngina mína í kaf.

    Þegar þyngd fluga ferðast með þessum hraða er hún á við skaðræðisvopn og fer létt með að særa flugustöng til ólífis ef þá ekki brjóta hana í einni snertingu. Til að forðast þetta getur maður gert tvennt, nota léttari flugu eða breytt kaststílnum og brjóta regluna um þröngan línubug. Með því að færa feril flugunnar í víðari kastferil, t.d. Belgískt kast, tökum við fluguna úr þessum þrönga kastferil og þar með er minni hætta á að flugan stefni beint á stöngina á ferð sinni.

    Ef þú ert ekki alveg viss um hvað Belgíska kastið snýst um, þá er um að gera að kíkja á Peter Kutzer skýra það út.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að landa bolta

    8. október 2018
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Í sumar sem leið voru óvenju margir stórir fiskar sem létu glepjast af flugunum mínum í Veiðivötnum. Þessi fjölgun stærri fiska hafði víst ekkert sérstakt með mig að gera, mér skilst að heilt yfir hafi fleiri vænir fiskar komið þar á land í sumar miðað við síðustu ár. Eitt skiptið lentum við í skemmtilegu skoti í Litlasjó þar sem vænir urriðar voru móttækilegir fyrir agni okkar og þá kom að því að róta í reynslubankanum og rifja upp bestu leiðina til að þreyta urriða og ná honum á land.

    Fyrst viðbragð urriðans við því að festast á hinum enda línunnar er að leita út í dýpið. Þetta á kannski ekki við um alla þá, en heilt yfir er þetta algengasta viðbragðið sem hann tekur. Fiskurinn veit að hann er öruggari á dýpi heldur en grunnu vatni og þangað stefnir hann. Dýpið þarf ekkert endilega að vera beint út, það getur verið inn með ströndinni til annarrar hvorrar áttar eða jafnvel á milli veiðimanns og fisks.

    Það sem margir veiðimenn gleyma í baráttu við stóran fisk er að stór fiskur hefur meiri skriðþunga heldur en lítill tittur. Þennan skriðþunga má nýta sér t.d. þegar fiskur tekur á rás meðfram bakkanum. Með því að taka þétt á línunni um leið og fiskurinn syndir áfram, þá sveigir hann ósjálfrátt að landi og það sem meira er, það þarf aðeins brot af því afli sem annars þyrfti til að draga fiskinn um sömu vegalengd ef hann væri að streitast á móti beinu átaki eða væri kyrr.

    Þetta hefur eitthvað með eðlisfræðilögmál að gera sem maður lærði fyrir tugum ára í framhaldsskóla og mig minnir að það heiti lögmál númer eitthvað og svo nafnið á karlinum sem diktaði það upp, Newton. Sem sagt, til að geta beitt þessari aðferð við að færa fiskinn nær landi, þá þarf hann að vera á hreyfingu, sé þetta reynt við fisk sem ekki er á hreyfingu, þá fer allt átakið í að koma massa fisksins af stað og miklu meira reynir á veikustu hlekkina okkar; tauminn, hnútana og fluguna. Nýtum okkur Newton og reynum að draga fiskinn að landi þegar hann er á hreyfingu, þ.e. svo fremi að hún er ekki frá okkur. Labbaðu með bakkanum ef hann stefnir í þá átt og taktu á honum, ef hann snýr við, snúðu þá líka við og haltu áfram að taka á honum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Nefið upp og hann fylgir

    3. október 2018
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Enn eru stóru fiskarnir frá síðasta sumri að synda fyrir hugskotssjónum mínum og ég að velta mér upp úr mismunandi aðferðum til að ná þeim að landi, í netið og á pönnuna. Ég hef svo sem vitað það í mörg ár að auðveldasta leiðin til að fá fisk til að hætta sporðaköstum, já eða bara yfir höfuð til að hreyfa sig er að lyfta hausnum á honum í vatninu.

    Ég man enn eftir þeirri samlíkingu sem stimplaði þetta inn í hausinn á mér. Tundurskeyti er rör með rassmótor. Ef maður lyftir rörinu að framan, þá heldur rassmótorinn áfram að ýta því áfram og upp úr vatninu. Nákvæmlega það sama á við um fiskinn, alveg þangað til hann fattar að honum er ekki ætlað að fljúga og þá hættir hann að hreyfa sporðinn. Með því að ná að lyfta hausi fiskins upp fyrir miðju hans, þá lyftist hann í vatnsbolnum, kemur upp að yfirborðinu og á endanum hættir hann að hreyfa sporðinn þannig að það er mun auðveldara að draga hann að landi.

    Þetta er svona byrjenda tips, en ég stóðs ekki mátið að koma þessari tundurskeytasamlíkingu á framfæri eins og hún var útskýrð fyrir mér á sínum tíma.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Sérhæfing

    1. október 2018
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Í hvert skipti sem ég hef verið spurður hvort þetta sé ekki afskaplega dýrt sport, þá hef ég snúist eins og skopparakringla og reynt af fremsta megni að gera viðkomandi grein fyrir því að það þarf ekki að éta fílinn í heilu lagi, smá biti dugar oft mjög vel til að seðja veiðihungrið. Um leið og undist hefur ofan af mér, læt ég þess samt getið að með tíð og tíma finnur maður ýmsar ástæður til þess að kaupa nýja stöng, nýtt hjól, léttara vesti o.s.frv. Að því leitinu til er stangveiðin ekkert frábrugðin öðru sporti eða áhugamáli, með aukinni ástundun vaknar forvitni fyrir nýjungum og hvort sem hún er tilbúin eða ekki, ástæða til að endurnýja búnaðinn.

    Þrátt fyrir heldur lélega ástundun í sumar sem leið, þá lenti ég samt í ákveðnum hremmingum með búnaðinn minn. Gamla góða (níðþunga) fluguveiðihjólið fyrir fimmuna mína, tók upp á því að svíkja mig, stóð á sér þegar minnst varði, svona til víðbótar því að bremsan var eiginlega ekkert að virka lengur. Raunar er það svo að ég veiði mest af frekar smágerðum fiski á fimmuna og því ekkert endilega þörf á öflugri bremsu, verra var að stundum vatts ofan af hjólinu þegar minnsta varði á meðan ekkert gerðist þegar ég reyndi að draga línuna út af hjólinu. Eflaust hefði ég getað lagfært hjólið, en fyrst það var hvort hið er svo þungt og óþjált, þá keypti ég mér nýtt (létt) hjól með bremsu í lagi.

    Verra var að uppáhalds sjöan mín tók upp á þeim skolla að brotna. Ég kannast auðvitað ekkert við það að hún hafi orðið fyrir hnjaski eða illri meðferð, hún bara brotnaði þegar minnst varði í upphafi kasts. Nú vandaðist málið; láta gera við, fá nýjan part eða leita mér að nýrri stöng? Úr varð að ég snéri mér til umboðsaðilans og bað hann að athuga með nýjan part í stöngina, en ég fór nú samt á stúfana og gúgglaði allt mögulegt og ómögulegt sem var í boði.

    Það sem mér fannst vera ómögulegt við framboðið á flugustöngum var einfaldlega öll þessi sérhæfing sem var á boðstólum. Stöng fyrir lítinn silung, stöng fyrir miðlungs silung, stöng fyrir sjógenginn regnbogasilung, stöng fyrir smálax, stöng fyrir stórlax o.s.frv. Ég hef greinilega vanmetið gáfur laxfiska eða þeir hafa tekið einhverjum stökkbreytingum á síðustu árum, bíta þeir orðið aðeins ef stangirnar eru merktar þeim sérstaklega? Þegar ég var búinn að hneykslast nægju mína á þessu og hélt áfram að gúggla þyrmdi alveg yfir mig. Stangirnar sem voru eyrnamerktar þeim fiski sem ég helst hef veitt eru til í tveimur mismunandi útfærslum; fyrir púpur og fyrir þurrflugur. Getur mögulega verið að sérhæfing stangaframleiðenda sé gengin út í öfga? Ég skipti um gúggl aðferð og bætti enska orðinu versatile (ísl: fjölhæf) við í leitina mína og þá kom nú ýmislegt annað upp, eitthvað sem passaði betur hugmyndum mínum að flugustöng.

    Það jákvæða sem allt þetta gúggl mitt hafði í för með sér var nú það sem ég í raun vissi, uppáhalds sjöan mín er heldur þung miðað við allar þessar nýju fallegu fjölhæfu stangir. Ég bíð í ofvæni eftir því að geta prófað sjöu úr ákveðinni fjölskyldu flugustanga sem væntanleg er á nýju ári. Hvort ég kaupi hana síðan, er allt annað mál, ég á eftir að upphugsa ástæður fyrir kaupunum. En eitt er víst, ég er ekki að fara kaupa sérhæfða stöng fyrir þennan fisk og aðra fyrir hin fiskinn.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Skapa eftirspurn

    26. september 2018
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Það er oft nokkuð rólegt á haustin, mesti æsingurinn er farinn úr fiskinum og sjálfur er maður frekar slakur og kippir sér ekkert upp við að lítið gerist í tökum, jafnvel tímunum saman. Þá gefst oft ágætur tími til að íhuga hitt og þetta, svona á milli þess að maður gónir á haustlitina og lætur sig dreyma.

    Þannig var það að ég hafði rótast í gegnum vinsælustu flugurnar í boxinu og reynt allt sem mér datt í hug en ekkert gerðist. Ástæðan var í raun ósköp einföld og það sem meira er, ég vissi nákvæmlega hver hún var. Fæturnir á mér höfðu þegar sent mér skilaboð um að hitastig vatnsins væri komið niður fyrir ferlihita silungsins og hann hafði lagst fyrir. Hann hafði kannski ekki alveg tekið á sig náðir fyrir veturinn, en hann var í það minnsta ekkert að flækjast um í þessum kulda sem streymdi inn í vatnið.

    Í þessum rólegheitum fór ég að hugsa um þau tilfelli þar sem ég hef þverskallast við og þóst vita betur en fiskurinn hvaða fluga ætti að gefa og haldið áfram, langt umfram mín 5 köst sem reyndar eru alltaf 10 áður en ég skipti um flugu. Ég er ekki að segja að það hafi komið oft fyrir, en í einhver skipti hefur mér tekist að fá fisk til að taka ákveðna flugu þegar ég er búinn að henda henni fyrir hann í hundraðasta skiptið (lesist ekki bókstaflega). Það sem mér datt í hug var hvort fiskurinn væri í raun ekkert skárri en manneskjan þegar kemur að sífelldu áreiti? Við þekkjum það að áreiti auglýsinga og nú á síðari tímum, samfélagsmiðla getur skapað ákveðna eftirspurn eftir vöru eða þjónustu. Á endanum lætur ákveðin hópur undan þessu áreiti og kaupir vöruna og svo grípur um sig ákveðin hjarðhegðun og allir verða að eignast þetta. Þannig varð til dæmis fótanuddtækisþörf Íslendinga til hér um árið og allar kjallarakompur fylltust af þessum græjum.

    Orange Nobbler

    Ég setti þetta alveg óvart í samhengi við flugu sem ég veiddi mjög mikið á fyrir örfáum árum, Orange Nobbler. Eftir að hún hafði gefið mér nokkra fiska í byrjun sumars, þá fór hún lengi vel alltaf fyrst undir og var þar þangað til fiskur tók og þegar einn hafði tekið, þá kom annar og svo koll af kolli. Ég gekk meira að segja svo langt að segja að það sumar hafi verið sumar hins appelsínugula Nobblers. Næsta sumar á eftir þá var ég ekki alveg eins þolinmóður, ef Orange Nobbler gaf ekki strax, þá skipti ég um og á endanum allt önnur fluga fékk heiðurssætið það sumar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 55 56 57 58 59 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar