Flýtileiðir

Skapa eftirspurn

Það er oft nokkuð rólegt á haustin, mesti æsingurinn er farinn úr fiskinum og sjálfur er maður frekar slakur og kippir sér ekkert upp við að lítið gerist í tökum, jafnvel tímunum saman. Þá gefst oft ágætur tími til að íhuga hitt og þetta, svona á milli þess að maður gónir á haustlitina og lætur sig dreyma.

Þannig var það að ég hafði rótast í gegnum vinsælustu flugurnar í boxinu og reynt allt sem mér datt í hug en ekkert gerðist. Ástæðan var í raun ósköp einföld og það sem meira er, ég vissi nákvæmlega hver hún var. Fæturnir á mér höfðu þegar sent mér skilaboð um að hitastig vatnsins væri komið niður fyrir ferlihita silungsins og hann hafði lagst fyrir. Hann hafði kannski ekki alveg tekið á sig náðir fyrir veturinn, en hann var í það minnsta ekkert að flækjast um í þessum kulda sem streymdi inn í vatnið.

Í þessum rólegheitum fór ég að hugsa um þau tilfelli þar sem ég hef þverskallast við og þóst vita betur en fiskurinn hvaða fluga ætti að gefa og haldið áfram, langt umfram mín 5 köst sem reyndar eru alltaf 10 áður en ég skipti um flugu. Ég er ekki að segja að það hafi komið oft fyrir, en í einhver skipti hefur mér tekist að fá fisk til að taka ákveðna flugu þegar ég er búinn að henda henni fyrir hann í hundraðasta skiptið (lesist ekki bókstaflega). Það sem mér datt í hug var hvort fiskurinn væri í raun ekkert skárri en manneskjan þegar kemur að sífelldu áreiti? Við þekkjum það að áreiti auglýsinga og nú á síðari tímum, samfélagsmiðla getur skapað ákveðna eftirspurn eftir vöru eða þjónustu. Á endanum lætur ákveðin hópur undan þessu áreiti og kaupir vöruna og svo grípur um sig ákveðin hjarðhegðun og allir verða að eignast þetta. Þannig varð til dæmis fótanuddtækisþörf Íslendinga til hér um árið og allar kjallarakompur fylltust af þessum græjum.

Orange Nobbler

Ég setti þetta alveg óvart í samhengi við flugu sem ég veiddi mjög mikið á fyrir örfáum árum, Orange Nobbler. Eftir að hún hafði gefið mér nokkra fiska í byrjun sumars, þá fór hún lengi vel alltaf fyrst undir og var þar þangað til fiskur tók og þegar einn hafði tekið, þá kom annar og svo koll af kolli. Ég gekk meira að segja svo langt að segja að það sumar hafi verið sumar hins appelsínugula Nobblers. Næsta sumar á eftir þá var ég ekki alveg eins þolinmóður, ef Orange Nobbler gaf ekki strax, þá skipti ég um og á endanum allt önnur fluga fékk heiðurssætið það sumar.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com